Krísan, dómur daglega lífsins

Krísan, dómur daglega lífsins

Minn daglegi dómur er ekki síst athafnaleysið, að hafast ekki að, vitandi um neyð kvenna og barna út um allan heim og líka hér á litla friðsæla Íslandi. Ég fæ ekki afstýrt ofbeldinu ein. Ég fæ ekki gefið þeim líf sem hafa verið rænd því. En mér ber að nýta reynslu mína og menntun til að vinna með öðrum að upprætingu hins illa.

Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim sem sendi mig hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms  heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir sem heyra munu lifa. Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér. Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm því að hann er Mannssonur.              Jóh 5.24-27
Afnám ofbeldis gegn konum Í dag, 25. nóvember, er alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Frá 1991 hefur sá dagur markað upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Átakinu lýkur á alþjóðlega mannréttindadeginum, 10. desember. Markmið átaksins er “að stuðla að því að alþjóðlegum mannréttindareglum sé beitt til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi sem mannréttindabroti, heilbrigðisvandamáli og ógn við mannfrelsi og frið um allan heim”, eins og segir í grein eftir Guðrúnu D. Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands, í Morgunblaðinu í dag. Í greininni koma fram margar umhugsunarverðar staðreyndir bæði um ofbeldi gegn konum almennt og ekki síst um mansal, en gegn þeim hryllilega veruleika beinist athyglin ekki síst að þessu sinni.

Þjóðkirkjan er meðal þeirra fjölmörgu aðila sem standa að þessu 16 daga átaki og mun ýmislegt verða gert á næstu tveimur vikum til að vekja athygli á þessu málefni, orsökum þess og afleiðingum. Hægt er að fara inn á heimasíðu Mannréttindaskrifstofu Íslands til að afla sér nánari upplýsinga og eins til að skrifa undir áskorun til stjórnvalda um að beita sér af alhug gegn mansali og samþykkja heildstæða aðgerðaáætlun sem byggist á mannréttindum fórnarlambanna. Ég tek undir hvatningu Guðrúnar D. Guðmundsdóttur um að skrifa undir á www.mannrettindi.is. Mansal er mál sem snertir líf og dauða, heill og hamingju að minnsta kosti hálfrar milljónar kvenna árlega, að ekki sé minnst á angist fjölskyldna þeirra eða ábyrgð mannræningjanna. Og talan er að sjálfssögðu miklu, miklu hærri ef horft er til allra þeirra sem sæta nauðung og þrælkun ár eftir ár, jafnvel áratugum saman.

Alvara lífsins Í ritningarorðum dagsins er alvara lífsins sannarlega til umfjöllunar, hverfulleiki mannsins, dauði og dómur. Gríska orðið yfir dóm er krisis, sem við höfum fengið inn í íslensku í gegn um ensku í tökuorðinu krísa, sem allir ættu að kannast við. Elsta dæmið í orðabók Háskólans um þetta nýja orð í íslensku máli er frá 1961 (úr söngleiknum Deleríum búbónis eftir þá bræður Jónas og Jón Múla Árnasyni).

Enska orðið crisis er í orðabók þýtt á ýmsa vegu. Fyrsta þýðingin er kreppa eða bara krísa. Svo fylgja þýðingarnar hættuástand, sótthvörf, straumhvörf, tímamót. Öll geta þessi hugtök hjálpað okkur að skilja hvað textar dagsins eiga við með því að tala um dóm.

Við lendum flest í kreppum oft á ævinni. Kreppurnar í lífinu geta verið smáar eða stórar í sniðum, haft væg áhrif á líf okkar eða breytt því algjörlega, valdið straumhvörfum. Áföll eins og ástvinamissir, skilnaður, atvinnumissir, alvarleg slys eða eignatap eru dæmi um meiri háttar krísur, sem valda tímamótum á einn og annan hátt. Minni kreppur geta t.d. orsakast af rifrildi á vinnustað eða í félagahópi, smávægilegri aftanákeyrslu, vonbrigðum með eigin frammistöðu eða annarra eða tímabundinni fjárþröng. Allt eru þetta dæmi um aðstæður sem knýja okkur til að meira eða minna leyti til að horfast í augu við okkur sjálf og e.t.v. taka ákvörðun um nýja stefnu.

Krísa: Vandi eða tækifæri? Mér er sagt að kínverska táknið fyrir kreppu geti merkt tvennt: Annars vegar vanda en hins vegar tækifæri. Í sérhverjum krísuaðstæðum liggur hvort tveggja; vandi sem glíma þarf við en oft líka tækifæri til að breyta, möguleiki á uppbyggingu. Málið er að krísan kallar á viðhorfsbreytingu hjá okkur, hún neyðir okkur til að horfast í augu við okkur sjálf, sjá lífið í víðara samhengi. Ef við gerum það ekki verða aðstæður sem hefðu getað orðið tækifæri til þroska niðurbrjótandi og bælandi.

Þannig eru hinar daglegu krísur, sem við öll þekkjum, dæmi um þann dóm, sem við sífellt stöndum frammi fyrir. Dómurinn knýr okkur til að spyrja okkur sjálf: Hvernig hef ég varið lífi mínu? Hvert stefni ég? Hver er ég? Og hvað hef ég með mér á dómsins stund, í hverju sem hún birtist? Við eigum öll að deyja. Hvað höfum við gert við líf okkar?

Að stíga yfir frá dauðanum til lífsins Orð Jesú færa okkur einfaldan en sterkan boðskap inn í þessar vangaveltur: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins. Trúin á eilíft líf, hið sanna líf, er það sem skiptir sköpum bæði í daglega lífinu og þegar við hugum að hinum hinsta veruleika. Gjöf eilífa lífsins gerir það að verkum að allt verður smátt og viðráðanlegt. Þegar við vitum um það sem við eigum á himnum, eigum bakhjarl eilífa lífsins, verður mögulegt að yfirstíga jafnvel hinar mestu krísur mannlífsins.

Hvernig eignumst við þá þetta eilífa líf? Jú, það er með því að heyra orð Jesú og trúa á hann. Þannig stígum við yfir frá dauðanum til lífsins. Það er með því að nefna nafnið Jesús í öllum okkar vanda, stórum og smáum, að hann breytist í tækifæri. Það sem var lífvana glæðist lífi. Dóminum, krísunni, er afstýrt, með þeirri hugarfarsbreytingu sem trúin á frelsarann veldur.

Öll stöndum við frammi fyrir dauða og dómi, dauðadómi á einn eða annan hátt, og höfum val um hvort við raunverulega heyrum hið lifandi orð Jesú og tökum við því eða ekki. Skaparinn er hin eina vera sem “hefur líf í sjálfum sér”. Þetta líf er sonarins og þar með þeirra sem þiggja vilja í trú á soninn.

Krísa hins kynbundna ofbeldis Kynbundið ofbeldi er engin einkakrísa. Ofbeldið, hverju nafni sem það nefnist, varðar okkur öll, konur og karla, ung og gömul. Það erum við manneskjurnar sem völdum hver annarri þeim hörmungum sem raun ber vitni. Minn daglegi dómur er ekki síst athafnaleysið, að hafast ekki að, vitandi um neyð kvenna og barna út um allan heim og líka hér á litla friðsæla Íslandi. Ég fæ ekki afstýrt ofbeldinu ein. Ég fæ ekki gefið þeim líf sem hafa verið rænd því. En mér ber að nýta reynslu mína og menntun til að vinna með öðrum að upprætingu hins illa.

Jesús Kristur er einn þess megnugur að gefa líf. Hann er morgunstjarna og meinabót, eins og segir í sálminum númer 64 í sálmabókinni okkar. Í hans anda hefur verið unnið að félagslegu réttlæti og upprætingu meina þjóðfélagsins um aldir. Hjálpræðisherinn er gott dæmi um hvernig lærisveinar Krists fylgja kærleiksboðskapnum eftir í verki með úrræðum fyrir þau sem minnst mega sín (samanber átak þeirra International Anti-Human Trafficking, sjá http://www.sawso.org/programs/). Og þjóðkirkjan er sem fyrr segir einn þeirra aðila sem standa að 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Verum með í því, virkjum kraft Guðs bæði í einkalífinu og út til hinna, sem eiga sér ekkert líf.

Veröld sem verður Í pistli dagsins (2Pét 2.8-13) er lýst veröld sem verður. Hún er ljós í myrkri þeirra daga sem við lifum nú, daga mannfyrirlitningar og ofbeldis, mansals og týndra barna. En þetta eitt má ykkur ekki gleymast, þið elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.

En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr. Þangað stefnum við – og getum flýtt fyrir því að það gerist með því að lifa heilögu og guðrækilegu lífi. Mætum okkar dómi daglega, horfumst í augu við það sem veldur okkur krísu og nýtum tækifærið til að bera lífinu vitni, því lífi sem við höfum þegið.