Verum varkár

Verum varkár

Að fenginni reynslu þá höfum við fengið fólk inn í líf okkar sem hefur dvalið hjá okkur um stund og skilið eftir fótspor í hjörtum okkar, okkur til gagns og gæfu.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við lifum í upplýstu þjóðfélagi. Við njótum ekki einungis rafmagns og hita, ljósa og yls  heldur hefur þekking okkar á tilverunni fleygt fram, fram á þennan dag. Heimilin eru griðastaðir okkar. Þau hafa að geyma hluti sem eru okkur þarfir og kærir, allt frá frystikistum og ísskápum til tölva og snjallsíma sem færa okkur nýjustu fréttir um leið og þær gerast í heiminum. Nú síðast fengum við fregnir af því að eðlisfræðingar í Bandaríkjunum telja sig hafa rennt stoðum undir kenninguna um Mikla hvell, hvernig reikistjörnurnar á himinhvolfinu mynduðust og hvernig lífið kviknaði og tók að þróast. Sennilega fá þessir einstaklingar Nóbelsverðlaunin fyrir þessa uppgötvun. Allt er þetta gott og blessað. Biblían kennir okkur ekki hvernig heimurinn varð skapaður. Sköpunarsagan í fyrstu Mósebók er ekki tilgáta um það að sköpunarverkið hafi orðið til á sex dögum. Bilbian bendir okkur á það að á bak við sköpunarverkið sé skapari sem ýtt hafi þessu sköpunarverki úr vör og viðhaldi því með sköpunarkrafti sínu. Biblían bendir okkur á það hver sé tilgangurinn með sköpunarverkinu og að það sé hlutverk okkar barna Guðs að vernda og varðveita lífríkið svo að það megi áfram þróast og dafna. Lífríkið er fullt af dýrð Guðs. Við sjáum það á öllum árstíðum, ekki síst á vorin þegar grösin taka á sig grænan lit og laukarnir koma upp úr sverðinum og blómgast fagurlega. Það gleður sérhverja sál að sjá þessa dýrð berum augum og fyllir hana þrótti og lífi.

Við lifum í þessu umhverfi sem manneskjur. Við höfum líkama sem hefur sínar þarfir. Þar koma ísskáparnir og frystikisturnar í góðar þarfir því að við getum ekki lifað nema borða reglulega, frá morgni til kvölds. Við höfum líka sál sem hefur líka sínar þarfir. Sálin gefur til kynna hver við erum í samfélaginu hvert við annað. Sálin hefur að geyma persónu okkar. Við erum t.d. tilfinningaverur og höfum þörf fyrir að tjá okkur hvert við annað um líðan okkar. Við höfum líka greind og skynsemi sem gerir okkur kleift að læra eitthvað svo að við getum séð okkur farborða. Nú er verið að ræða um það hvað það sé sem geri okkur hamingjusöm en alþjóðlegur dagur hamingjunnar var síðast liðinn fimmtudag.  Í ljós hefur komið að það eru tengsl milli fátækar og hamingju. Þeir sem séu fátækir eru síður hamingjusamir ef ég skil þetta rétt. Nú er það svo hins vegar að hamingjan fæst ekki ekki keypt fyrir peninga. Dauðir hlutir færa okkur ekki hamingju heldur eitthvað annað sem ekki er hægt að meta og mæla á vogarskálum. Það eru andlegu verðmætin sem færa okkur hamingju. Sagði ekki Jesús: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.“

Við erum líkami, sál og andi. Andinn gerir okkur kleift að tilbiðja Guð eins og við skiljum hann. Manneskjan hefur það fram yfir dýr jarðarinnar að geta tilbeðið Guð í anda og sannleika. Og við höfum líka frelsi til að ákveða hvort við kærum okkur um að tilbiðja Guð eða ekki. Þau eru líka mörg hindurvitnin  sem fólk hefur lagt sig eftir í aldanna rás eins og guðspjall dagsins gefur til kynna. Þar er sagt frá því þegar Jesús rekur illan anda út úr manni sem allir töldu málleysingja fyrir en tók nú að tala sem aldrei fyrr. Við skyldum ætla að illi andinn hafi tekið sér bólfestu í einstaklingnum vegna þess að hann bauð honum inn, e.t.v. með líferni sínu þar sem hann tefldi á tæpasta vað. Hann hefur kannski lagt sér til munns myglaða fæðu eða annað sem olli því að hann sturlaðist?  Þegar hlekkir sturlunarinnar hrundu af honum með hjálp Jesú Krists þá var mikið tómarúm innra með honum. Og hann gætti ekki að því að fylla þetta tómarúm með því sem gæfi lífi hans tilgang, hamingju og gleði sem olli því að andinn sneri aftur inn í sál hans og hann tók sjö aðra anda sér verri með sér þangað inn.

Við skulum kæru vinir vera varkár. Nú hafa yfirvöld heilbrigðismála í landinu allt að því játað ósigur sinn í baráttunni við eiturlyfjafíknina og hafa ljáð máls á því að berjast gegn þessari vá með öðrum hætti en gert hefur verið, þ.e. að lögleiða vissa tegund af eiturlyfjum. Munum við ganga til góðs með því eða verður vandinn sjöfalt verri en áður ef þessi hugmynd nær fram að ganga í fámennu íslensku þjóðfélagi? Mér finnst einmitt að fámennið ætti að gera okkur kleift að ná tökum á þessum vanda og  halda honum í skefjum. En þetta er spurning um fjármagn og mannskap, segja sumir.  Þetta er frekar spurning um forgangsröðun að mínum dómi og samstilltan vilja til að taka á þessu þjóðarböli.  Nýlega birtar rannsóknir hafa sýnt að þeim ungmennum fækkar sem eiga við þessa fíkn að stríða. Það er sennilega að þakka þeim forvörnum sem fyrir eru í þjóðfélaginu. Þar skal  t.a.m.nefna störf íþróttafélaganna, skólanna og þáttur foreldra sem eru helstu fyrirmyndir unglinga á þessum víðsjáverðu tímum sem við lifum á.

Við getum stillt saman strengina á fleiri sviðum en þessu. Þegar Jesús heyrði að sumir héldu að hann ræki illa andann út með hjáp höfingja illra anda þá sagði hann: ,,Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn og hús fellur á hús.“ Mér datt í hug að breyta þessari setningu og segja: Hvert það samfélag sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn og hús fellur á hús. Við búum í sveitarfélaginu Norðurþingi og sveitarstjórnin fer með hagsmuni íbúa sveitarfélagsins á hverjum tíma. Nú höfum við færst nær því takmarki að iðnvæðing á Bakka verði að veruleika. Það er gert til þess að koma í veg fyrri að þetta samfélag leggist í auðn svo ég taki nú sterkt til orða. Samfélagið þarf á þessu að atvinnutækifæri að halda til þess að skapa hér velmegun og farsæld á sem flestum sviðum. En margfeldisáhrif þessara framkvæmda verða vonandi mikil og jákvæð fyrir mannlífið allt á  þessu stóra svæði.

Ég hef haft áhyggjur af lýðheilsu fólks á þessu svæði um langt skeið. Kaupfélag Þingeyinga er nú aðeins til að nafninu til í skúffu og útgerðin á Húsavík má muna sinn fífil fegurri. Ég tel að brotthvarf þessara mikilvægu grunnstoða úr samfélaginu hafi valdið því að doði og deyfð hafi lagst yfir samfélagið sem gætir lungað úr árinu yfir vetrarmánuðina. En hvað er lýðheilsa?  Ég sló inn þessu leitarorði og upp kom eftirfarandi:

,,Lýðheilsa er hugtak yfir almennt heilsufar þjóðfélagshóps eða þjóðar og er þá átt við líkamlega, andlega og félagslega heilsu fólks.  Segja má að hún grundvallist á samfélagslegri og sameiginlegri ábyrgð á því að bæta heilbrigði, lengja líf og auka lífsgæði fólks í víðum skilningi. Lýðheilsa byggir á samstarfi margra fræðigreina og snertir flestöll svið samfélagsins hvort sem litið er til efnahagslegra, félagslegra eða umhverfislegra þátta. Hún byggir á vísindalegum grunni og notkun fjölþættra aðferða við rannsóknir sem eru grunnurinn að hnitmiðuðu og vel heppnuðu forvarnar- og heilsueflingarstarfi í þágu þjóðarinnar. Á undanförnum áratugum hefur þjóðfélagið verið að þróast og hafa ýmsar menningar- og félagslegar breytingar haft gríðarleg áhrif á líf fólksins í landinu. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að örar þjóðfélagsbreytingar koma oft niður á félagslegri einingu samfélagsins sem endurspeglast í almennri líðan og hegðun fólks og því er mikilvægt, sem aldrei fyrr, að huga að þessum þáttum.Lýðheilsa þarf því að vera hluti af almennri umræðu um þjóðfélagsmál og sem flestar hliðar hennar ræddar á þeim vettvangi. Stuðla þarf að þróun og rannsóknum á sviði lýðheilsu, beitingu viðurkenndra aðferða við mat á árangri verkefna og síðast en ekki síst að vekja athygli almennings á möguleikum til að hafa áhrif á eigið heilbrigði og leiðir til heilsueflingar.“

Þessi rannsókn á hamingjunni er liður í lýðheilsurannsókninni. Rannsóknin var unnin út frá úrtaki. En hvað skyldi koma í ljós ef slík rannsókn myndi einvörðungu beinast að íbúum Norðurþings? Sjálfsagt yrðu niðurstöðurnar á svipuðum nótum. Ég tel að brotthvarf Kaupfélags Þingeyinga og útgerðarinnar hafi komið niður á almennri líðan og hegðun fólks í Norðurþingi. Unga fólkið með börnin hefur flust á brott í atvinnuleit sem er skiljanlegt. Fyrir vikið er samfélagið hér að eldast. Færri börn sækja leik og grunnskóla og framhaldsskóla sem kemur niður á tekjum sveitarfélagins. Og svo er verið að draga saman allan opinberan rekstur frá löggæslu til heilbrigðisstofnana og færa fjármagnið þangað sem flestir íbúar landsins kjósa að búa á , á suðvesturhornið og til Akureyrar.  Þjóðkirkjan hefur liðið fyrir niðurskurð í sinn garð með sameiiningu prestakalla og fækkun presta á landsbyggðinni á undanförnum árum. Allt hefur þetta áhrif á lýðheilsu fóks, ekki síst á landsbyggðinni. Við landsbyggðarfólk þurfum að standa vörð um grunnstoðir samfélagsins á hverju byggðu bóli og láta í okkur heyra þegar kjörnir fulltrúar okkar sækja okkur heim til skrafs og ráðagerða.

Við þurfum að standa saman og tjá okkur um líðan okkar til líkama og sálar, ekki síst þegar áföllin dynja yfir. Þöggunartilburðir eru ekki til góðs því að þeir hafa hamlandi áhrif á forvarnir, sérstaklega þegar geðheilsa okkar er í húfi. Við þurfum að krefjast þess að sérhver einstaklingur geti átt greiðan aðgang að geðlæknisþjónustu en borið hefur á því að fólk hafi þurft að bíða lengi eftir viðtali við geðlækni eða sálfræðing.  Ég hef stundum furðað mig á því að þegar fólk fær hjartaáfall eða krabbamein þá standi því allar dyr opnar með tilheyrandi kostnaði að vísu sem er alltof mikill, en þegar fólk á við alvarlega geðröskun að stríða og óskar eftir hjálp þá þarf það alltof oft að bíða eftir því að fá viðtal.

Við getum haft áhrif á eigið heilbrigði með því að nýta okkur hinar ýmsu leiðir til heilsueflingar sem í boði eru. Það hef ég sjálfur ákveðið að gera enda verð ég ekki yngri eins og vinur minn sagði við mig. Það er svo margt sem hefur áhrif á heilsufar okkar til líkama og sálar en við erum öll sérfræðingar í þessum efnum því að við þekkjum okkur sjálf best hvert og eitt.

Að lokum langar mig til að víkja að andlega þættinum. Trúin skiptir okkur flest máli. Hún hefur augljóst forvarnargildi. Í stöðugu áreiti nútímaþjóðfélagsins þurfum við að geta átt kyrrðarstundir og íhugað hvaðan við komum, hver við séum og hvert við séum að fara. Sjá, ég stend við dyrnar og kný á hjartadyr þínar, segir Jesús. Við viljum ekki hleypa hverjum sem er inn í sál okkar á skítugum skóm. Við skulum líka vera varkár í þessu efni. Að fenginni reynslu þá höfum við fengið fólk inn í líf okkar sem hefur dvalið hjá okkur um stund og skilið eftir fótspor í hjörtum okkar, okkur til gagns og gæfu.

Við sungum hér í upphafi sálminn ,,Við freistingum gæt þín"  Þar segir í öðru erindi: ,,Hinn vonda soll varast, en vanda þitt mál, og geymdu nafn Guðs þin í grandvarri sál, ver dyggur, ver sannur, því Drottinn þig sér, haf daglega Jesú í verki með þér."  Nafn Jesú frelsar og leysir hlekki syndar og þjáningar.  Berum virðingu fyrir nafni Guðs í Jesú Kristi.  Trúin á  Jesú Krist á að leiða af sér breytni sem kemur í veg fyrir að eitthvað illt taki sér bólfestu innra með okkur. Við skulum t.a.m. gefa aukinn gaum að guðs orði. Við skulum varðveita þau orð Guðs sem hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif á okkur en sleppa hinum. Guðs orð hefur nefnilega forvarnargildi fyrir okkur, bætir andlega líðan okkar, stuðlar að jafnvægi líkamans, sálarinnar og andans. Þá getum við af öllu hjarta tekið undir orð Jesú í lok guðspjallsins:   ,,Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Lexía: Sak 12.10 En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.

Pistill: Ef 5.1-9 Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms. En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þakkið miklu fremur Guði. Því að það skuluð þið vita og festa ykkur í minni að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn – sem er sama og að dýrka hjáguði – á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs. Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. -

Guðspjall: Lúk 11.14-28 Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“ Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“ Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“