Ég kalla ykkur vini

Ég kalla ykkur vini

Jesús kallar okkur vini. Hann kallar okkur til ábyrgðar, til ákveðins hlutverks. Hann sér hvað í okkur býr og kallar það fram, hvetur okkur til að nýta það og þroska. Okkur til heilla og Guði til dýrðar.

Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.

Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

Jóh 15:12-17

Drottinn opna hug okkar og hjarta fyrir orði þínu. Gef okkur staðfestu til að hlýða kalli þínu og þjóna þér og náunganum í kærleika. Amen

Þau sitja saman í hóp, fólk á ýmsum aldri og úr ýmsum áttum. Samræðurnar eru líflegar og allir taka þátt í þeim.

Einn er þó greinilega miðdepill samkvæmisins, þau hin líta til hans, hlusta eftir hverju orði hans og drekka í sig. Hann býr yfir eldmóð og persónutöfrum sem hrífa þau með sér. Hann stefnir að ákveðnu marki, boðar breytingar og þau fylgja full eftirvæntingar. Hann er leiðtoginn, þau fylgjendurnir.

En nú þagnar kliðurinn, þau sperra eyrun, rödd hans berst út í hvert horn salarins, hlý en ákveðin: Ég kalla ykkur ekki framar þjóna, ég kalla ykkur vini. Þið hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið ykkur. Ég hef ákvarðað ykkur til að fara og bera ávöxt.

Hann staðfestir að samband þeirra er eitthvað annað og meira en hefðbundið samband leiðtoga og fylgjenda, húsbónda og þjóns. Hann kallar þau vini.

Hvað kemur ykkur í hug þegar þið hugsið um vini, um vináttu?

Mér koma í hug langar samræður um sameiginleg áhugamál, þægileg nærvera þó í þögn sé. Mér koma í hug hvatningarorð og hrós. Ég minnist þeirra sem höfðu meiri trú á mér en ég sjálf og hvöttu mig til dáða. Mér kemur í hug hvernig nærveru minni, stuðningi og aðstoð var tekið með þökk þegar slíks er þörf.

Vináttan er eitt birtingarform kærleikans, það óeigingjarnasta myndi ég segja. Í návist vinar blómstrum við vegna þess að hann eða hún laðar fram allt það besta í okkur. Í návist vinar getum við komið til dyranna eins og við erum klædd, þar gefst okkur frjálsræði og olnbogarými til að vera eins og við erum. Sannur vinur gefur okkur kjark til að vera við sjálf.

Mikilvægastur er þó vinurinn sem hvetur okkur til að þroskast og dafna þannig að við vöxum upp í að verða þau sem Guð skapaði okkur til að vera. Vekur og glæðir það sem fólgið er í sálum okkar, kallar okkur til ábyrgðar á okkur sjálfum.

Hér, í kveðjuræðu sinni, lokaorðum sínum, kallar Jesús lærisveinana vini, deilir með þeim öllu því sem hann veit, rifjar upp það sem hann hefur verið að kenna þeim. Jafnframt kallar hann þau til ábyrgðar og felur þeim starfið sem hann hefur hafið.

Allt er það nú gott og gilt og auðvelt fyrir okkur á að horfa úr 2000 ára fjarlægð.

Þau eru kölluð vinir. Þeim er falið ákveðið hlutverk. Þeirra er að svara kallinu, bera ábyrgðina, feta í fótspor hans.

Eða hvað?

Víst er það svo, en ekki einungis. Texti guðspjallanna er lifandi texti sem talar alltaf til lesandans, þess vegna vitum við að Jesús er líka að tala til okkar.

Hann kallar okkur vini.

Hann kallar okkur til ábyrgðar, til ákveðins hlutverks. Hann sér hvað í okkur býr og kallar það fram, hvetur okkur til að nýta það og þroska. Okkur til heilla og Guði til dýrðar.

Það getur verið yfirþyrmandi og óttalegt. Við þekkjum af frásögnum, bæði í Biblíunni og kirkjusögunni, þekkjum það jafnvel úr eigin lífi, að sá eða sú sem kallaður er, eða kölluð, telur að nú sé Guð að gera mistök, eða viðkomandi að misskilja kallið, eflaust sé verið að ávarpa einhvern annan. Þegar ég var í landsprófi, fyrir margt löngu, vorum við fjórar nöfnur í bekknum. Það gerist gjarnan þegar maður ber algengasta kvenmannsnafn landsins. Oft gerðist það þegar kennarinn var að taka upp eða spyrja útúr í tímum að hann kallaði “Guðrún”.

Getið þið ímyndað ykkur hver viðbrögðin voru?

Þið sjáið kannski fyrir ykkur hvernig við gerðum okkur allar klárar til að svara, hvernig við töluðum kannski hver upp í aðra í ákafa okkar?

En, nei, þannig var það nú aldeilis ekki. Við vorum aldrei niðursokknari í bókina eða verkefnið fyrir framan okkur en einmitt þá, kennarinn varð að kalla aftur á okkur og nú með föðurnafni til nánari skilgreiningar. Þá svöruðum við gjarnan: “Áttirðu við mig, fyrirgefðu, ég hélt þú ættir örugglega við einhverja aðra.” Þannig var það líka þegar Guð kallaði mig upp, kallaði mig til ákveðins verks. Það get ég viðurkennt nú, vegna þess að ég veit að ég er ekki ein um það. Eins og ýmsir aðrir leit ég í kringum mig til að sjá hvern verið var að kalla á eða hristi hausinn yfir þessum ofheyrnum mínum.

En eins og kennarinn gafst ekki upp þó engin okkar nafnanna svaraði, gafst Guð ekki upp fyrr en hann hafði náð athygli minni og komið því til skila sem hann ætlar sér.

“ég hef útvalið ykkur. Ég hef ákvarðað ykkur til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir.” Það getur verið ógnvænlegt að heyra og óttinn við að mistakast, standa ekki undir væntingum, kunna ekki svarið, standa á gati, blossar upp og við reynum að sannfæra Guð um að betra sé nú að taka einhvern annan upp, velja einhvern annan til verksins.

Þá þarf Guð, enn og aftur, að minna okkur á það sem hann hefur sagt. „Víst getur þú þetta, vegna þess að ég er með þér og sé til þess að þú finnir færa leið, ég á svar og ráð við hverjum vanda. Styð og hjálpa hvern dag, hverja stund, já sérhvert andartak.“

Við erum vinir og samstarfsfólk Jesú og hvers annars. Útvaldir meðlimir í fjölskyldu Guðs, útvalin til ákveðins hlutverks. Hann kallar okkur ekki til bara „einhvers“ verks heldur felur hann okkur verk þar sem náðargáfur okkar, þeir hæfileikar sem hann hefur gefið okkur, nýtast. Hvort sem við erum kölluð til að gegna hlutverki djákna, prests, prófasts, sóknarnefndarfólks eða annars starfsfólks safnaða eða prófastsdæmis.

Við sem hér erum höfum öll litið upp og svarað kalli Guðs: “Já, Drottinn, hér er ég, hvað viltu að ég geri?”

Það hefur e.t.v. tekið hann mis langan tíma að ná athygli okkar og lægja ótta okkar við að standa ekki undir þeim væntingum og kröfum sem við teljum að hann geri til okkar.

En hverjar eru þá kröfurnar: “Elskið hvert annað, eins og ég hef elskað ykkur.”

“Elskið hvert annað, eins og ég hef elskað ykkur.”

Ást hans er ást vinar sem þekkir okkur og virðir. Hann reynir ekki að breyta okkur heldur vill hjálpa okkur að þroskast, eflast og vaxa. Og þannig vill hann að við komum fram hvert við annað. Í þeim anda ber okkur að halda starfi hans áfram. Hverju og einu okkar og okkur í sameiningu.

Við höfum ekki endilega kosið hvert annað til samstarfs, heldur hefur Drottinn útvalið okkur, kallað hvert og eitt okkar í þennan hóp til þess að styrkja hópinn. Til þess að halda áfram því starfi sem hann hóf og aðrir hafa viðhaldið síðan.

Minnumst þess nú þegar við göngum til fundar, þegar við horfum til baka yfir liðið starfsár og lítum til framtíðarverkefna. Hlustum eftir handleiðslu hans sem kallar okkur vini, hans sem treystir okkur fyrir þeim ábyrgðarstörfum sem okkur eru falin.

Biðjum um náð til þess að ganga á hans vegum, reka hans erindi, elska hvert annað eins og hann elskar okkur.