Við skulum biðja:
Drottinn Guð, minnstu miskunnar þinnar sem þú hefur auðsýnt börnum þínum frá upphafi. Lát okkur eigi gjalda þess er við treystum á eigin mátt og gleymum þér. Opna eyru okkar svo að við heyrum þegar þú talar og kunngjörum verk þín til björgunar sem þú sýnir okkur í syni þínum Jesú Kristi sem tekur að sér málefni okkar nú og að eilífu. Amen.Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. Aðstæður eru ólíkar í sóknum þjóðkirkjunnar. Í söfnuðinum sem ég þjóna vestur í Bolungarvík stendur 102 ára gömul kirkja á Hóli, en þar hafa kirkjur staðið frá því um 1200 að því er talið er. Og nú erum við stödd í einni yngstu sókn landsins, Grafarholtssókn, í einni af nýjustu kirkjum landsins, Guðríðarkirkju. Það vill svo skemmtilega til að þessi kirkja og kirkjan á Hóli eru báðar vígðar 2. sunnudag í aðventu, með 100 ára millibili. En þó kirkjurnar séu ólíkar að gerð og lögun og landslagið ólíkt í Víkinni og í Grafarholti þá er grunnurinn sá sami. Á báðum stöðum er Guðs orð lesið og söfnuðirnir biðja til þess sama Guðs og Jesús birti okkur og boðaði. Í dag er 2. sunnudagur í föstu, en fastan er tími endurmats og irðunar. Fastan er því kjörin tími til að hugsa um lífið og horfa til framtíðar. Á föstunni göngum við í átt til þeirra atburða er bænadagar og páskar fjalla um. Guðspjallstextar föstunnar eru baráttutextar. Annaðhvert ár er freistingarsagan guðspjall 1. sunnudags í föstu þegar Jesús hefur betur í viðureign sinni við hið illa í eyðimörkinni, en þar var hann í fjörtíu daga og 40 nætur. Dagar sjö vikna föstunnar eru líka 40 ef frá eru taldir sunnudagarnir en sjö vikna fastan hefst á öskudag og henni lýkur laugardagskvöldið fyrir páska. Á föstunni lesum við guðspjallstexta sem segja frá viðureign Jesú við hið illa í lífinu. Þar sem Jesús rekur út illa anda, mettar hungraða og læknar sjúka. Þessar sögur eru tákn þess að Guðsríkið er komið, að Guð er að verki í heiminum. Guðspjallstextar föstunnar fjallar því um lífið og trúnna. Í dag fjallar guðspjallið um Bartimeus blinda, en frásagan er mörgum kunn. Þar segir frá blindum beiningamanni sem sat við veginn þegar Jesús, lærisveinarnir og mikill mannfjöldi gengu út úr borginni Jeríkó. Maðurinn er nafngreindur Bartimeus, sem þýðir sonur Tímeusar. Þessi saga er mjög myndræn og við getum vel séð fyrir okkur Jesús og mannfjöldann allan og manninn sem sat við veginn. Hann var þar einn því hann fylgdi ekki mannfjöldanum. Við getum sett okkur í hans spor og við getum líka sett okkur í spor lærisveianna eða horfið inn í mannfjöldann. Og þar sem Bartimeus sá ekki, þá hlustaði hann enn betur. Hann heyrði að Jesús frá Nasaret væri þar á ferð og hrópaði „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Hann bað um miskunn. Hann hafði sennilega heyrt að Jesús færi borga á milli og læknaði sjúka og gæfi blindum sýn. Hann bað ekki um lækningu, hann bað um miskunn. Miskunnarbænin er elsta bæn kirkjunnar. Í hverri messu biðjum við um miskunn. Drottinn, miskunna þú oss. Kristur, miskunna þú oss. Við setjum okkur í spor Bartímeusar. Reyndar hrópum við ekki, heldur syngjum. Og það eru til mörg lög við miskunnarbænina og tónskáld hafa samið verk út frá henni. Og ein besta leið til að öðlast frið í hjarta sínu er að fara með þessa elstu bæn kristninnar. Loka augum sínum, anda inn um leið og hugsuð eru orðin Drottinn, Jesús Kristur, og anda frá sér á orðunum miskunna þú mér. Að endurtaka þetta nokkrum sinnum færir frið í hjarta og gefur um leið kraft til að halda áfram. Í messunni eru orðin endurtekin þrisvar sinnum. Fermingarbörnin mín ræddu einu sinni um messuna og fannst hún frekar óspennandi. Alltaf það sama sunnudag eftir sunnudag. Reyndar gat ég bent þeim á að lestrarnir væru ekki þeir sömu. Ef þau færu í kirkju alla helga daga í tvö ár væri aldrei lesinn sami textinn nema kannski á jólum og öðrum stórhátíðum. En vissulega væri rétt að messuliðirnir væru þeir sömu alla sunnudaga. En þegar ég spurði þau að því hvort það væri eitthvað annað í lífinu sem væri eins eða líkt þá sáu þau að hversdagarnir eru líkir hverjir öðrum. Og eitt ber líka að hafa í huga að ef við viljum ná árangri þá verðum við að æfa. Það á við í íþróttum, í tónlist og víðar. Árangurinn næst með endurtekningunni. Og þegar við höfum þetta í huga þá fer okkur að þykja gott að messan sé með sama formi frá einum sunnudegi til annars þó sálmar, önnur tónlist og lestrar séu mismunandi. Miskunn Guðs er þakkarverð og það vissi Bartimeus, sem bar sig eftir björginni og hrópaði á hjálpina. Hann bað ekki um að fá sjónina. Hann bað um miskunn. Þetta er eftirtektarvert. Fannst honum of mikið að biðja um sjónina? Vildi hann frekar miskunn Guðs en sjónina? Eða lét hann þetta í hendur Jesú af því hann var viss um að hann gæti veitt þá hjálp sem best var fyrir hann? Örlög mannanna geta verið grimm. Og ekki er ólíklegt að margir Japanir eða Líbíumenn svo dæmi sé tekið hrópi nú á miskunn Guðs í öllum hörmungunum sem þar dynja yfir. Japanir gátu engu um ráðið þegar jarðskjálftinn reið yfir enda stjórna þeir ekki náttúruöflunum frekar en aðrir þó tæknivæddir séu. Líbíumenn glíma við annars konar vanda. Vanda sem er til kominn vegna mannanna. Það hefur verið kannað að áföll af völdum annars fólks eru erfiðari lífi fólks en áföll vegna náttúruhamfara þó hræðileg séu. Það eru margir jarðarbúar sem hrópa á miskunn og margir aðrir sem biðja um miskunn þeim til handa. Miskunnarbænin er því jafn gild okkur nútímafólki og á tímum Jesú. En lítum nú til mannfjöldans sem fylgdi Jesú. Þar voru margir sem höstuðu á Bartímesus þegar hann hrópaði til Jesú og bað hann miskunna sér. Kannski pirraði það einhverja að einhver aumur maður við vegkantinn skyldi trufla svona samkunduna. Hvað gerum við nútímafólk í þeim aðstæðum? Viljum við ekki vera trufluð af hjáróma röddum, og eða röddum sem vilja sækja fram? Það er svolítið gaman að velta þessu fyrir sér. Af hverju skyldi hróp blinda mannsins hafa truflað svo mjög að hann var beðinn um að þegja? Það er vissulega óþægilegt þegar einhver lætur heyra meira í sér en góðu hófi gegnir. Hér á landi hefur t.d. fólk á ákveðnum svæðum viljað láta í sér heyra þegar þeim finnst stjórnvöld ekki hafa staðið við sitt eða sett lög sem koma illa við svæðin. Vestfirðingar hafa t.d. studnum hrópað á miskunn landshluta sínum til handa en ekki alltaf orðið ágengt. Það var hastað á blinda manninn og hann var beðinn um að þegja. En Bartímeus sá þarna tækifæri til að eignast betra líf. Líf, þar sem hann var ekki upp á aðra kominn heldur fær um að bjarga sér og taka þátt eins og aðrir. Við fáum oft tækifæri til að gera það sem okkur langar til. En stundum brestur okkur kjark til að grípa tækifærið. Stundum er sem við séum í snú snú eins og þegar við vorum lítil börn. En við hikum og þorum ekki að fara á bandið þegar tækifærið gefst. Það er þetta með tækifærið. Hvenær er rétti tíminn til að nota það og hvenær ekki? Það er líka slæmt þegar við förum að sjá eftir því að hafa ekki notað það, því tækifærið bíður sjaldnast eftir okkur. En þó hastað væri á Bartímeus þá var einn sem vildi heyra í honum og mæta honum í aðstæðum hans. Jesús nam staðar og bað um að kallað væri á manninn. Og honum var hlýtt. Þeir, segir í textanum, kölluðu á blinda manninn og sögðu við hann „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Og líklegt er að þessi orð hafi vakið von í brjósti hins blinda manns. Og hann lét ekki segja sér það tvisvar að standa á fætur. Hann sem hafði setið við veginn og verið upp á aðra kominn með lífsviðurværi sitt, spratt á fætur og kom til Jesú. Og þeir tveir taka tal saman. Og það var Jesús sem hóf umræðuna. Hann spurði hinn blinda mann. „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Hann vildi fá að vita hug Bartímeusar. Hann vildi fá að heyra það frá honum sjálfum hvað hann vildi. Samt er líklegt að Jesús hafi vitað svarið við spurningunni. Auðvitað vildi hinn blindi maður fá sjónina aftur. Hann treysti því að Jesús gæti læknað sig og gefið sér sjón. Og Jesús brást ekki trausti hans. Hann sagði honum að fara, trúin hefði bjargað honum. Og jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hvað er það að fá sjónina? Það er hægt að vera blindur á aðstæður sínar en svo lýkst upp fyrir okkur hvernig staðan er og þá er hægt að bregðast við og bæta líf sitt. Afneitun er e.t.v. ein tegund blindu. Þegar við erum ekki fús til að viðurkenna aðstæður eins og þær eru þó við vitum innst inni hvernig þær eru. Afneitun er líka hluti af sorgarferlinu og er eðlilegur hluti af því að syrja bæði þau sem farin eru og það sem farið er. Trúin bjargaði Bartímeusi. En nú er það ekki svo að þau sem misst hafa sjónina fái hana aftur þó þau trúi og biðji. En þau sem biðja fá að finna að bænum þeirra er svarað á annan veg. Með því að halda jákvæðni og hvíla í öryggri vissu um það að Guð skilur, hjálpar og blessar. Það er merkilegt að umgangast fólk sem misst hefur t.d. sjónina og finna að það hvílir í öryggri vissu um að Guð leiði þau áfram og blessi. Líf Bartímeusar breyttist við að hitta Jesú. Hann fékk ekki aðeins sjónina heldur varð hann þátttakandi í lífinu. Hann var ekki lengur beiningamaður við veginn, sem þáði allt af öðrum, heldur fylgdi hann Jesú á ferðum hans og hefur kannski leitt einhvern annan blindan eða veikan mann til Jesú þar sem hjálpina var að fá. Og enn í dag er hjálpina að fá í trúinni á Jesú. Sálmurinn sem við syngjum hér í lokin, Dag í senn, nr. 712 í sálmabókinni lýsir því svo vel hvernig líf þess er sem hvílir í öryggri trú til Guðs. „Mun ég þurfa þá að kvíða neinu“, þegar Guð minn fyrir öllu sér? spyr Sigurbjörn Einarssonar höfundur sálmsins. Þessi orð og sálmurinn allur eru andsar hins trúaða manns, sem fer út í daginn í trausti til þess Guðs er fyrir öllu sér. Biðjum um miskunn okkur og heiminum til handa, í Jesú nafni.