Þurfa karlmenn baráttudag?

Þurfa karlmenn baráttudag?

Nú á dögunum var kvennafrídagurinn haldinn þar sem konur og kvár um allt land, þar á meðal hér í Vík, lögðu niður störf sín, mótmæltu feðraveldinu og kröfðust jafnréttis fyrir kynin. Háværar raddir karlmanna heyrðust um allt land, ýmist í fréttamiðlum eða á samfélagsmiðlum, um baráttuna. Vissulega voru margir karlmenn stuðningsríkir við hana og er það mjög gott mál. Aðrir voru það hins vegar ekki og nefndu jafnvel sumir að þetta væri vitleysa
fullname - andlitsmynd Árni Þór Þórsson
02. nóvember 2023
Flokkar

Í dag er Siðbótardagurinn og minnumst við þess vegna þeirra atburða sem áttu sér stað snemma á 16. öld. Marteinn Lúter var vígður til prests árið 1507 og frá og með árinu 1512 starfaði hann einnig sem prófessor við háskólann í Wittenberg. 31. október árið 1517 festi Lúter 95 greinar gegn aflátsbréfasölu Kaþólsku kirkjunnar á dyr hallarkirkjunnar í Wittenberg. Samkvæmt vitnisburði Lúters hafði hann nokkru áður enduruppgötvað kenningu Páls postula um réttlætingu af trú; að manneskjan réttlætist fyrir náð sem hún tekur í trú á Krist, en ekki fyrir verk og eigin helgi. Í ljósi kenningarinnar um réttlætingu af trú ber, að áliti Lúters, að taka ritninguna og vitnisburð hennar um Jesú fram yfir hefðina og kennivald kirkjunnar. Að mati Lúters hafði Kaþólska kirkjan gengið af vegi Drottins og því boðaði hann til breytinga. Það var aldrei ætlunarverk Lúters að stofna nýja kirkju eða nýjan sið heldur vildi hann laga það sem hafði farið úrskeiðis í kirkjunni hans. Hann fékk ekki ósk sína uppfyllta og varð barátta Lúters og fylgjenda hans til þess að kirkjan klofnaði og átti sér stað siðbreyting eða siðbót.

Hefðir eru mikilvægar í hverri menningu fyrir sig. Við, sem sitjum hér inni, eigum hefðir sem eru okkur mikilvægar, sama hvort þær tengjast íslenskri menningu eða okkar eigin fjölskyldulífi. Að mínu mati er hefð aðeins góð og gild ef hún verður ekki til þess að mismunun eigi sér stað. Ef það gerist er þörf á siðbót. Lúter kennir okkur það að kirkjan geti breyst til hins betra og þekkjum við annan mann sem gerði slíkt hið sama. Hann var fullur auðmýktar og umburðarlyndis, og framkvæmdi mörg kraftaverk ásamt því að segja dæmisögur sem huldu heilagan sannleik. Hann kom ekki til vel valdra einstaklinga heldur var hann aðgengilegur öllu fólki, sama af hvaða kyni, þjóðerni og jafnvel trúarhópi sem það tilheyrði. Og með hverjum deginum fjölgaði fylgjendum hans en trúarhreyfingin hans saman stóð að mestu leyti af fátæku og kúguðu fólki. Þetta fólk var oft á tíðum konur, sem voru almennt ekki mikils metnar á þessum tíma, hreyfi-hamlaðir einstaklingar, sjúkt fólk og þrælar. En þökk sé Guði og fólkinu breiddist boðskapur trúarhreyfingarinnar út eins og eldur um alla Galíleu, Ísrael og alla leið til Rómaveldis. Þessi maður var Jesús frá Nasaret.

Ýmsar konur gegndu mikilvægu hlutverki í Jesúhreyfingunni og má þar nefna djáknann Föbe sem fékk það verkefni að fara með Rómverjabréf Páls til safnaðarins í Róm. Páll segir: „Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt það sem hún þarf hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal míns sjálfs.“ Aðra konu nefnir Páll í Rómverjabréfinu þegar hann biður söfnuðinn að heilsa Andróníkusi og Júníu og segir að þau skari fram úr á meðal postulanna. Þarna höfum við staðfestingu á því að konur gegndu hlutverki postula í Jesúhreyfingunni. Því stærri sem Jesúhreyfinginn varð, því meiri völd fékk hún og því valdameiri sem hreyfingin varð, því miklu fremur fór það að skipta máli hver gegndi hvaða hlutverki. Því að á tímum Jesú, lærisveinanna og Páls, var hreyfingin mjög frjálsleg. Þú gast í raun tekið að þér hvaða hlutverk sem er ef þú varst fær um það. Ef þú trúðir á Jesú Krist þá fékkstu hlutverk í hreyfingunni hans.

En eftir að Kirkjan varð mjög valdamikil og sérstaklega þegar kristin trú var gerð að ríkistrú Rómar þá fóru að myndast ýmiss mikilvæg hlutverk sem aðeins fáir útvaldir fengu að gegna. Hér má nefna hlutverk presta, biskupa og páfa og þessum hlutverkum gegndu einungis karlmenn og er það svo enn þann dag í dag að Kaþólska kirkjan leyfir einungis karlmönnum að vígjast til þeirra. Konum var ýtt til hliðar og fengu ekki lengur að taka þátt á þann hátt sem þær voru vanar í Jesúhreyfingunni. Þið heyrðuð að ég nefndi áðan postulann Júníu. Í hinum elstu þýðingum af Biblíunni er nafnið augljóslega kvenkyns en þegar leið á aldirnar og nýjar yngri þýðingar litu dagsins ljós var nafninu hennar breytt í karlkyns nafnið Júnías. Þetta var gert svo að konur hefðu engan grunn til að sækja í til að færa rök fyrir köllun sinni sem postular, til að starfa innan kirkjunnar.

Nú á dögunum var kvennafrídagurinn haldinn þar sem konur og kvár um allt land, þar á meðal hér í Vík, lögðu niður störf sín, mótmæltu feðraveldinu og kröfðust jafnréttis fyrir kynin. Fyrir ykkur sem vita ekki hvað kvár er að þá er það manneskja skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins. Kvár er í raun nýyrði sem samsvarar orðunum karl og kona.

Háværar raddir karlmanna heyrðust um allt land, ýmist í fréttamiðlum eða á samfélagsmiðlum, um baráttuna. Vissulega voru margir karlmenn stuðningsríkir við hana og er það mjög gott mál. Aðrir voru það hins vegar ekki og nefndu jafnvel sumir að þetta væri vitleysa, og hvort að það ætti ekki að halda einnig upp á karlafrídag. Ég heyrði orðróm um að sumir karlmenn væru á fullu að skipuleggja karlafrídaginn og eftir mínu viti á að halda upp á hann í næsta mánuði. Fyrst að konur og kvár eiga sinn frídag, af hverju ekki karlmenn líka? Þetta er afar barnalegur hugsunarháttur að mínu mati en ég er alveg tilbúinn að ræða á málefnalegan hátt hvort að sérstakur karlafrídagur eigi rétt á sér.

Til að komast að raunverulegu svari þurfum við að skoða af hverju við höldum upp á kvennafrídaginn? Hver er tilgangur hans? Eins og ég sagði áðan, til að mótmæla feðraveldinu og krefjast jafnréttis með því að leggja niður störf sín. Hverju þurfa karlmenn að mótmæla? Konum? Kvárum? Hvaða réttindum þurfa karlmenn að berjast fyrir? Hafa karlmenn þurft að berjast sérstaklega fyrir réttindum sínum þegar kemur að störfum og starfsumhverfi eins og konur og kvár hafa gert? Ef við lítum 100 ár til baka í fortíðina, hvort kynið hafði fleiri tækifæri þegar kom að menntun og starfsmöguleikum? Hversu oft hefur kona eða kvár verið forseti á Íslandi?, Hve oft hefur kona eða kvár gegnt embætti biskups Íslands? Hafa karlar orðið fyrir sömu mismunun og konur og kvár á vinnustaðnum?, Eru allar konur og kvár hætt að finna fyrir kynferðislegri áreitni á sínum vinnustað?, Er alltaf tekið alvarlega á málum sem varða kynferðislega áreitni eða kynferðisbrot á vinnustaðnum?, Hversu oft hefur karlkyns gerandi ekki þurft að taka ábyrgð í kynferðisbrotamálum tengd vinnustað? Ég ætla ekki að gera lítið úr vandamálum karlmanna og því misrétti sem sumir karlmenn upplifa í sinn garð en í samanburði við misrétti gegn konum og kvárum sjáum við að þau síðarnefndu hafa þurft að þola meira ofbeldi, meiri fordóma og þurft að berjast mun meira fyrir rétti sínum. Í raun og veru þurfa karlmenn ekki sérstakan baráttudag því að við þurfum ekki að berjast fyrir neinum réttindum sem varða kyn okkar. Konur og kvár þurfa sinn baráttudag því að nánast allir aðrir dagar ársins frá upphafi alda hafa verið dagar karlmannsins. Við þurfum ekki dag kæru herramenn, við tökum nóg pláss eins og er.

Ég get sagt ykkur það að kollegi minn, sem er kona, varð einmitt fyrir misrétti þegar hún var vígð sem prestur fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Hún deildi sögu sinni og sagði að þegar hún vígðist að þá var henni boðin 25% staða á móti karlmanni sem hafði fengið 100% starfshlutfall. Það þótti ekkert athugavert við það að hún tæki aðra hverja helgi á móti manninum. Svo var henni lofað öllu fögru um aukið starfshlutfall en það breyttist aldrei, ekki fyrr enn hún fór að berjast fyrir sínum rétti. Það er svo stutt síðan að þetta átti sér stað að ég var meira að segja fæddur, yngsti prestur Þjóðkirkjunnar. Ég hefði allavega ekki orðið mjög sáttur ef ég hefði einungis fengið að vinna aðra hverja helgi hér í Vík eftir fimm ára háskólanám.

Breytingar eru erfiðar en það þýðir ekki að þær séu ekki nauðsynlegar og góðar. Þær voru nauðsynlegar þegar Guðs sonurinn steig á þessa jörð og boðaði fagnaðarerindið öllu fólki. Fagnaðarerindið breytti miklu en varð til þess að Jesús var krossfestur og drepinn ásamt fleiri fylgjendum hans. Marteinn Lúter boðaði nauðsynlegar breytingar innan kirkjunnar þegar hann mótmælti sölu aflátsbréfa. Kaþólska kirkjan reyndi sífellt að þagga niður í Lúter með ofsóknum sem ógnuðu lífi hans. Það er okkar skylda sem kirkja að hætta aldrei að berjast fyrir því að öllu fólki líði vel í kringum okkur. Eins og þið vitið þá kom í ljós hræðilegur harmleikur þegar fórnarlamb sr. Friðriks Friðrikssonar steig fram og greindi frá kynferðisbrotum hans. Einn dáðasti prestur Íslands, fyrr og síðar, braut á barni, og komst hann upp með þetta vegna þagnar. Misréttið, mismunun og illska þrífast í þögninni og þess vegna eigum við aldrei að vera þögul þegar misrétti er beitt eða þegar mismunun á sér stað. Misrétti og mismunum eru syndir sem Kristur sjálfur fordæmdi harkalega og ef við fylgjum ekki fordæmi hans, að þá erum við á slæmum stað. Ritningin og vitnisburður hennar um Jesú og fagnaðarerindið er mikilvægari en hvaða hefð sem er og því fyrr sem við áttum okkur á því, því fyrr munum við losna undan fjötrum syndarinnar, undan fjötrum hefða sem bæla niður heilu kynslóðirnar, og verða sannarlega frjáls í Kristi Jesú. Amen.