"Kristin gildi"?

"Kristin gildi"?

Þess vegna er líka nauðsynlegt að allar kirkjudeildir sem byggja trú sína og boðun á skynsamlegum og hófsömum ritningarskilningi – og það á við um flestallar mótmælendakirkjur í Norður-Evrópu – láti nú í sér heyra og mótmæli harðlega þeirri aðför gegn mannréttindum sem nú á sér stað í Bandaríkjunum undir yfirskini „kristinna gilda“, sem eru þó í raun aðeins gildi lítils hluta bandarísks samfélags, gildi sem byggja á þröngri bókstafstúlkun Biblíunnar en hafa fyrst og fremst þann tilgang að þröngva siðferðisviðmiðum viðkomandi þjóðfélagshóps upp á samfélagið allt með tilheyrandi kúgun og ofbeldi eins og einkennir allt alræði, ekki síst það sem skilgreina má sem guðræði. Og það sama má segja um skammarlegan stuðning patríarkans í Moskvu við stríðsrekstur Rússa í Úkraínu, sem er að hans viti sönnum kristindómi til varnar, að það er nauðsynlegt að aðrar kirkjudeildir haldi áfram á lofti gagnrýni á stefnu hans og þjónkun við stríðsherrann í Kreml.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 3. 7. 2022.

Lexía: Mík 7.18-19; Pistill: Ef 2.4-10; Guðspjall: Lúk 15.1-10

Í ritningartextum dagsins er óviðjafnanleg miskunnsemi Guðs hinn rauði þráður: Hann fyrirgefur misgjörðir og sýknar af syndum líkt og enginn annar guð og náð hans og gæska er ómælanleg eins og Páll orðar það.

Orðalag Míka er athyglisvert fyrir þá sök að það er líkt og Drottinn, þ.e.a.s. Jahve, sé einn guð á meðal margra og eigi í samkeppni við þá. Þetta virðist auðvitað stangast á við þá ströngu eingyðistrú sem við viljum gjarnan lesa úr textum ritningarinnar en málið er ekki svo einfalt. Margir textar Gamla testamentisins birta heimsmynd sem gengur út frá fjölgyðistrú sem vísri og jafnvel í tiltölulega ungum textum eins og lexíunni, sem er líklega frá lokum persneska tímans eða jafnvel frá hellenískum tíma, þ.e.a.s. 4. eða 3. öld fyrir Krist, þá er í það minnsta reiknað með veruleika annarra trúarbragða og talað inn í þær aðstæður jafnvel þótt fullkomnum yfirburðum eða jafnvel almætti Jahves sé haldið fram.

Höfundar gamlatestamentisritanna boðuðu mátt Drottins og sigur hans yfir öðrum guðum, já, svo ekki sé talað um gæsku hans, náð og miskunn, og vísuðu í því sambandi til frelsunarinnar af Egyptalandi undir forystu Móse og ekki síður endurreisnar gyðinglegs samfélags eftir útlegðina í Babýlon. Með því voru þeir að túlka söguna af sínum eigin sjónarhóli en sú túlkun fór örugglega ekki saman við túlkun nágrannaþjóða þeirra – hvað þá hinna persnesku eða grísku herra sem sáu allt annað en sigurvegara í guði gyðinganna.

En hverju svo sem maður trúir um eðli guðdómsins, hvort hann sé einn, þríeinn eða margur, þá er ekki hægt að neita því að guðsmyndirnar, hugmyndirnar um Guð,  eru fjölmargar og hafa alltaf verið. Og það á einnig við um Gamla og Nýja testamentið sem við köllum saman Biblíu eða Heilaga ritningu og ljáum þannig innihaldi þess rits sérstakt vægi umfram önnur rit.

Heilög segjum við en hvað er átt við með því? Líklega þurfum við hvert og eitt að svara því hvaða merkingu það hefur fyrir okkur sjálf en í samhengi gyðinglegrar sögu og síðar kirkjunnar er ljóst að það var – líkt og allt annað – að einhverju leyti háð sögulegum tilviljunum nákvæmlega hvaða rit og textar fengu inni í hinu endanlega helgiritasafni eða réttara sagt helgiritasöfnum sem á endanum urðu til en innihéldu texta sem orðið höfðu til á hartnær þúsund árum.

En notkun textanna sem trúartexta átti sér vitanlega einnig langa sögu og lá til grundvallar því gildi sem þeir síðar öðluðust sem Heilög ritning. Þannig var það almenn samsömun við trúarhugmyndirnar sem textarnir tjáðu og notkun þeirra til tjáningar á þeirri trú í bæði persónulegu og opinberu trúarlífi sem ákvarðaði hvort vissir textar fengu inni í helgiritasafninu. En það var einnig pólitísk ákvörðun í þeim skilningi að um það var t.d. deilt á kirkjuþingum hvað helgiritasafn kristins fólks ætti að innihalda. Og í því sem við köllum kristindóm er ekki einu sinni einhugur um það atriði. T.d. er Gamla testamenti okkar mótmælenda talsvert minna í sniðum en G.t. grísku rétttrúnaðarkirkjunnar og byggir á öðrum handritagrunni – hebreskum en ekki grískum ‒ og til þess að gera málið enn flóknara eru til ýmsar ólíkar hefðir í grísku kirkjunni varðandi umfang G.t..

Almennt séð og einfaldað má þó segja að í kirkjunni hafi rit fengið stöðu Heilagrar ritningar vegna þess að litið var svo á að þau bæru sannlega vitnisburð um annars vegar góðan tilgang Guðs með sköpunarverki sínu og hins vegar um endurlausnarverk Krists í krossfestingu hans og upprisu og var þá litið svo á að textar G.t. hefðu haft sérstakt forspárgildi fyrir komu Jesú Krists. Kom í því sambandi snemma upp hugmyndin um að textarnir væru innblásnir af heilögum anda sem þannig hefði nánast stýrt fjaðurpenna þeirra. Það er einnig hugmyndin sem bókstafstrúarfólk eða fúndamentalistar hafa: að hvert einasta orð Biblíunnar sem innblásið af heilögum anda og þannig bókstaflega orð Guðs í eigin persónu en andstætt túlkun sumra kirkjufeðra, sem tengdu innblástur andans fyrst og fremst við þá texta sem þóttu spá fyrir um komu Krists, lítur bókstafstrúartúlkunin svo á að nánast hvert orð hinna fornu texta sé guðlega innblásið og skuli því um ævi og aldur gilda sem undirstaða og leiðarljós fyrir alla þætti mannlegs lífs, einnig í dag, 20-30 öldum eftir að textarnir voru ritaðir inn í tilteknar sögulegar aðstæður í bændasamfélagi fornaldar.

Fræðilega gagnrýninn lestur Biblíunnar og söguleg skýring hennar, sem nú hefur verið stunduð af miklum móð í 200 ár við guðfræðideildir Norður-Evrópu sér í lagi ‒ svo ekki sé talað um almenn skynsemi ‒ sýnir svart á hvítu að sérstaklega Gamla testamentið er samtíningur ótal sagnahefða og textabrota frá ýmsum tímum og úr ólíku samhengi hinna ýmsu þjóðfélagshópa, guðfræðilegra bollalegginga og textaviðbóta og breytinga eftir því sem tímanum vatt fram og aðstæður kröfðust – að mati þess sem hélt á pennanum hverju sinni. Því að fólk talar og skrifar ávallt í ákveðnum kringumstæðum og við ákveðnar aðstæður og hver og einn texti í Gamla testamentinu ber einfaldlega vitni um þá trú sem samfélag höfundarins hafði og lifði eftir á ritunartímanum, svo ég vitni í Erhard Gerstenberger, prófessor emeritus í gamlatestamentisfræðum við háskólann í Marburg í Þýskalandi og víðar um lönd, fræðimann sem hefur haft mikil áhrif á guðfræði minnihlutahópa, sér í lagi frelsunarguðfræði fátækra í Suður-Ameríku. Hann bætir við að þannig vegi enginn hluti og ekkert viðhorf í Gamla testamentinu meira en annar og í raun ekki meira en skýring eða túlkun trúaðra á seinni tímum. Þessi ályktun Gerstenbergers er afar mikilvæg og undirstrikar túlkunarfrelsi hvers einstaklings, hvernig guðsmynd viðkomandi er og hvernig viðkomandi upplifir áhrif Guðs í eigin lífi.

 

Texti pistilsins úr bréfi Páls til Efesusmanna hefur  beina tengingu við það hvernig túlkun ritningartexta er ávallt sögulega skilyrt líkt og tilurð þeirra er það. Þar talar hann um að fólk verði hólpið fyrir trú og það sé gjöf Guðs en byggi ekki á verkum, þannig að enginn geti stært sig af því sem eigin tilverknað. Það voru ekki síst þessi orð Páls sem urðu Lúther tilefni til gagnrýni hans á aflátssölu og yfirbótarverk rómversku kirkjunnar á hans tíð. Með tilboðum sínum um fyrirgefningu syndanna að keyptu aflátsbréfi ellegar kröfu um sérstök yfirbótarverk tók kirkjan sér vald sem var ekki hennar að taka að mati Lúthers og um leið má kannski halda því fram að fólkið hafi verið svipt trúnni á þann gæskuríka og miskunnsama Guð sem Páll boðar m.a. í þessum texta. Skv. honum er það fyrir trúna á upprisu Krists og þar með trúna á mátt Guðs að við verðum hólpin – þar til viðbótar sé engra sérstakra skilgreindra verka þörf. Túlkun Lúthers á þessum orðum Páls hefur  leitt til þeirrar gagnrýni að með kenningu sinni um réttlætingu fyrir trú gefi Lúther ekkert fyrir gildi góðra verka en það er mistúlkun því að bæði hjá Páli og Lúther eru góð verk eðlilegur og órjúfanlegur fylgifiskur sannrar trúar. Að túlka Pál og Lúther sem svo að framkoma okkar almennt séð gagnvart náunganum skipti ekki máli til sáluhjálpar er því ekki rétt. Þvert á móti skiptir framkoma okkar höfuðmáli því að í gjörðum okkar endurspeglast trú okkar ellegar skortur á henni, líkt og bent er á í 1. bréfi Jóhannesar sem var pistill síðasta sunnudags en þar segir: „Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“

Þetta sýnir okkur að með áherslu sinni á réttlætingu af trú var Lúther ekki að mæla gegn góðum verkum heldur að bregðast við tilteknum aðstæðum í samtíma sínum sem var svívirðileg misnotkun rómversku kirkjunnar á valdi sínu og stöðu er hún nýtti sér fáfræði og trúgirni almúgans til þess að selja honum aflátsbréf.

Þetta sýnir okkur jafnframt að við verðum alltaf að taka sögulegar aðstæður ritunartíma með í reikninginn þegar við túlkum og hyggjumst nota einhverja texta til þess að varpa ljósi á okkar eigin tíma – svo ekki sé talað um ef við viljum nota þá texta sem leiðarljós í okkar aðstæðum sem eru svo gjörólíkar aðstæðum fornra texta. Þetta á jafnt við um texta sem við köllum heilaga sem og aðra texta.

Þess vegna er líka nauðsynlegt að allar kirkjudeildir sem byggja trú sína og boðun á skynsamlegum og hófsömum ritningarskilningi – og það á við um flestallar mótmælendakirkjur í Norður-Evrópu – láti nú í sér heyra og mótmæli harðlega þeirri aðför gegn mannréttindum sem nú á sér stað í Bandaríkjunum undir yfirskini „kristinna gilda“, sem eru þó í raun aðeins gildi lítils hluta bandarísks samfélags, gildi sem byggja á þröngri bókstafstúlkun Biblíunnar en hafa fyrst og fremst þann tilgang að þröngva siðferðisviðmiðum viðkomandi þjóðfélagshóps upp á samfélagið allt með tilheyrandi kúgun og ofbeldi eins og einkennir allt alræði, ekki síst það sem skilgreina má sem guðræði. Og það sama má segja um skammarlegan stuðning patríarkans í Moskvu við stríðsrekstur Rússa í Úkraínu, sem er að hans viti sönnum kristindómi til varnar, að það er nauðsynlegt að aðrar kirkjudeildir haldi áfram á lofti gagnrýni á stefnu hans og þjónkun við stríðsherrann í Kreml.

Vitnisburður Biblíunnar um Guð og vilja hans er svo sannarlega ekki  einsleitur eða fullkomlega skýr, eins og bókstafstrúarfólk vill vera að láta. Og að mestu leyti er hún vitnisburður um trú og skoðanir ákveðinna einstaklinga og samfélaga á vissum tímum, það á ekki síst við um orð Páls, Péturs eða Jóhannesar í bréfum Nýja testamentisins sem eru viðbrögð þeirra við ákveðnum aðstæðum í rómversku samfélagi samtíma þeirra. Það er fráleitt að ætla sér að nota viðhorfin sem birtast í textum þeirra sem lagabókstaf í nútímasamfélagi. Þá myndum við t.a.m. aldrei leyfa nokkurri einustu konu að taka til máls í kirkjunni og fordæma hverja þá konu sem skæri hár sitt.

En þrátt fyrir alla óvissu og margbreytni í vitnisburði Biblíunnar þá má vel tala um ríkjandi einkenni í hugmyndunum um samband Guðs við bæði manneskjuna og sköpun hans í heild og það er umhyggja og miskunnsemi.

Megi umhyggjusamur og miskunnsamur Guð hjálpa öllum sem berjast gegn þeim öflum sem misnota nafn hans í þágu haturs og mannfyrirlitningar.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.