Því verður ekki haldið fram fyrirvaralaust að auðmýkt sé lofsverð þegar ein helsta kvenpersóna trúarbókmenntanna á í hlut. Viðbrögð Maríu við orðum engilsins Gabríels eins og þeim er lýst í ritningunni voru þessi: „Sjá, ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum.“ Hér svarar manneskja í auðmýkt og af frásögninni að dæma er vissulega tilefni til. Hitt er þó á einhvern hátt þrúgandi hvernig þetta tilsvar hennar tengist því hvers kyns hún er. Auðmýkt undirokaðra hópa getur ekki verið lofsverð, öðru nær. Til að geta hrist af sér klafann sem á hvílir hlýtur annað að þurfa að koma til.
Kvenleg undirgefni María hefur verið höfð sem fyrirmynd kvenlegrar undirgefni í gegnum tíðina og með því hafa kynsystur hennar verið hvattar til að taka hlutskipti sínu með jafnaðargeði. Það að þola misrétti hefur því verið álitin, einhvers konar fórn sem vert er að færa og þá hefur tilsvari Maríu verið hampað. Auðmýkt í þessu sambandi verður að tæki sem viðheldur því óréttlæti sem kynjamisrétti er. Í skjóli þess hafa ofbeldisverk þrifist allt fram á okkar daga um leið. Yfirvöld hafa til skamms tíma hikað við að stíga inn fyrir ramma heimilisins þar sem kynbundið ofbeldi hefur átt sér stað. Þá hníga sterk rök að því að stóran hluta af vanda mannkyns megi rekja til bágrar stöðu kvenna. Um leið og konur fá tækifæri að mennta sig og þær njóta jafnra réttinda á við karla batnar, ekki aðeins þeirra hagur, heldur vegna samfélaginu öllu betur. Er þá ekki hin marglofaða auðmýkt hindrun á þeirri leið?
Hlutskipti mærinnar í frásögninni þar sem hún lýsir sér sem ambátt verður óhjákvæmlega skoðað í þessu ljósi. Það er um leið merkilegt því hún átti eftir að verða áhrifarík í gegnum aldirnar. Guðsmóðirin María varð skjótt tekin í dýrlingatölu og í kristnum samfélögum þar sem áður hafði verið stunduð fjölgyðistrú rann tilbeiðsla hennar saman við gyðjur sem helgaðar voru frjósemi og ávexti jarðar. Tengslin blasa við okkur þegar við lesum frásögnina af boðun Maríu. Hún verður hið jarðneska sem fær þessa heimsókn frá fulltrúa himnanna, sjálfs engilsins.
María og hið jarðneska En það er meira við Maríu en blasir við okkur í þessum texta. Þegar betur er að gáð og orð hennar eru lesin í samhengi reynist auðmýktin sem hún sýnir ekki vera undirlægjuháttur, ekki viðurkenning á því að manneskjan eigi að láta órétt yfir sig ganga. Boðskapur Maríu er fjarri því skilaboð til þjáðra og undirokaðra um að sætta sig við orðinn hlut. María, þessi fulltrúi hins jarðneska, býr yfir fleiri hliðum og erindi hennar reynist margslungnara þegar guðspjallið er lesið áfram. Lofsöngur Maríu, sem fylgir í kjölfarið er allt annað en viðurkenning á því órétti sem viðgengst.
Þar segir:,,Andi Drottins er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.” Hér er talað um fagnaðarerindi fátækra þar sem sjónir beinast að hinum undirokuðu og mærin tekur sér stöðu með þeim sem eiga undir högg að sækja.
María er fulltrúi jarðarinnar, hins jarðneska þar sem líf okkar og barátta á sér stað. Og orðið auðmýkt í flestum tungumálum vísar með sama hætti til moldarinnar. Humilitas á latínu er af sama stofni og orðið humus - og merkir í grunninn, ,,frá jörðinni". Latínan á annað orð sem er af sama stofni og það er orðið homo - maður, eða manneskja. Auðmýkt er því í þeim skilningi bæði sú vitund að vera hluti af lífríki jarðar og svo hitt að horfast í augu við mennsku sína. Þetta orðum við hér í helgidómnum í hvert sinn er við fylgjum systkinum okkar til hinstu hvílu. ,,Af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða”. Já, vitundin um að við stöndum hvert og eitt í stærra samhengi er í raun kjarni auðmýktarinnar. Auðmýkt snýst þess vegna ekki um það að þegja og láta allt yfir sig ganga, heldur það hvernig við látum að okkur kveða.
Opinberun, upplyfting og ummyndun Og nú að allt öðru. Hér á eftir opnum við formlega sýningu Hrafnkels Sigurðssonar á Kirkjutorgi. Okkur er mikill heiður að þessi listamaður skuli hafa verk sín hér uppi og mig langar að deila með ykkur þeim hughrifum sem þau vekja hjá mér. Það sem myndir hans eiga sameiginlegt er sjálft myndefnið. Þær birta okkur rusl, úrgang og hann kemur okkur fyrir sjónir á margbreytilegan hátt. Þrjár myndir eru af bóluplasti, því sem fylgir gjarnan með í kaupunum þegar við festum kaup á einhverju sem er brothætt. Þetta eru umbúðir sem við setjum strax til hliðar og förgum við fyrsta tækifæri. Sjálfur varningurinn hlýtur á hinn bóginn sess í híbýlum okkar. Hvað verður um bóluplastið? Hrafnkell fór með sitt plast ofan í Kleifarvatn. Hann kafaði með það niður á tíu metra dýpi og tók af því myndir þar sem það barst með kröftum vatnsþrýstingsins upp að yfirborðinu. Birtan er náttúruleg, lýsir að ofan en neðst er myrkur djúpsins. Verk þetta heitir því guðfræðilega nafni ,,Opinberun", á ensku Revelation.
Á öðru verki fangar hann á mynd ógurlegan bagga sem mótaður er úr sorpi. Þetta munu vera nokkur tonn og það er ekki annað að sjá en að ferlíkið svífi í lausu lofti. Hlutskipti þess er þó allt annað en að hefja sig upp yfir hið jarðneska. Það mun þvert á móti hverfa undir yfirborðið og mynda þar landfyllingar. Þetta verk heitir ,,Upplyfting", eða Uplift.
Loks er það sjálf altaristaflan sem við leyfum okkur að nefna svo. Hún kallar fram andstæður íslenskrar vetrarnáttúru þar sem hið hreina og tæra mætir okkur svo langt sem augað eigir. Þar mætist himinn og jörð eins og í lýsingu Laxness á jöklinum og verkið verður eins og nútímaútgáfa af myndskreytingum á fornum altarisverkum, af sjálfri paradís. Vængirnir birta á hinn bóginn mynd sem tekin er ofan í ruslagámi. Þegar þeim er lokað, hylja þeir náttúruna og við blasir symmetrísk mynd af því drasli sem þar er að finna. Samfellan kallar fram tengingu við mannslíkamann þar sem hvor hlið er nokkurn vegin spegilmynd hinnar og sú hugsun verður sterkari þegar betur er rýnt í ruslið. Í jós kemur að flekarnir eru ekki nákvæmlega eins, á þeim andartökum sem liðu milli þess sem myndir voru teknar hafði verið rótað í gámnum og eitt og annað er á öðrum stað. ,,Ummyndun", eða Conversion er heiti þessa verks.
Opinberun, upplyfting og ummyndun. Ég leyfi mér að njóta frelsis þess sem rýnir í verkið og deili með ykkur því sem um huga minn fer, hversu fjarri það kann að vera hugsun listamannsins.
Himinn og jörð Einhvern veginn verður óður þessi til nútímans eins og skopskæling á því sem snertir okkur svo sterkt í tilefni þessa dags. Auðmýktin sem María bjó yfir reyndist búa yfir meiru en blasti við í fyrstu. Það var auðmýkt hins sterka, þess sem veit að hann eða hún er hluti af einhverju sem er dýpra og breiðara en einstaklingurinn sjálfur. Það er auðmýktin sem leiðir okkur að æðra markmiði og fær okkur til að setja til hliðar það sem kann að letja okkur á þeirri vegferð. Sú auðmýkt hvílir á sterkri undirstöðu þess sem þekkir sína köllun og byggir á sterkri jarðtengingu og vitund um að hvert og eitt okkar er hluti af mannlegu samfélagi. Humilitas - moldarkenndin eins og við gætum þýtt orðið bókstaflega má líka kalla mannkennd.
En verkin hans Hrafnkels sýna okkur hið gagnstæða. Þau sýna vörumerkin sem hampað er hvert sem litið er svo að fyrirferðin í þeim hefur aldrei verið meiri. Þau eru hafin upp til skýjanna, við erum aldrei í friði fyrir þeim hvert sem litið er. En þarna birtast þau í umkomuleysi sínu, einnota varningur, umbúðir og ferlíki sem hefur sig upp af jörðinni en mun að endingu hverfa ofan í sortann. Af jörðu ertu kominn að jörðu skaltu aftur verða. Og í samhverfunni birtist okkur mynd af manneskjunni - sjáið manninn, getum við sagt eins þeir gerðu í Jerúsalem hið horna. Sjáið umkomuleysi hans og allan hverfulleikann. Litadýrðin er að fölna og að endingu skal það sem átti að tróna svo hátt enda í dýpstu myrkrum.
Og svo þegar við opnum altarisverkið eins og tíðkaðist að gera í kristnum kirkjum þegar páskar gengu í garð sjáum við hina hrópandi andstæðu, náttúruna og hreinleikann sem þarf engar fyrirsagnir og engar markaðsdeildir. Hún stendur algerlega fyrir sínu. Jörðin sjálf eins og María í huga kristinna manna.
Dymbilvikan á næsta leyti og fastan stendur sem hæst. Þessi tími hefur einmitt verið nýttur í kirkjunni til að undirstrika hverfulleikann og þær afleiðingar sem gjörðir okkar hafa. Auðmýktin, moldarhyggjan eða mannhyggjan, er leiðin okkar að hinu æðsta marki. Þar stendur manneskjan með báða fætur á jörðinni en hugur hennar og andi beinist upp á við. Óður Hrafnkels til varningsins, litríkra slagorða og vörumerkja verður á hinn bóginn að áminningu um fallvaltleikann sem því fylgir að hreykja sér upp en að endingu síga niður í djúpið það sem það mun hvíla um aldur og ævi.