Huggarinn

Huggarinn

„Þess vegna mæli ég hiklaust með því að fólk nýti sér sálgæsluþjónustu kirkjunnar því þó þú hafir þá skoðun að reynsla þín af lífinu sé eitthvað sem þú getir bara haft fyrir þig og komi ekki öðrum við þá er ekkert víst að þú sért að gera sjálfum þér gagn með því."
Mynd
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
12. janúar 2020

Dúfa settist á Jesú við skírn hans í Jórdan. Segja má að  dúfan hafi strax orðið helgitákn í frumkristni og lék auk þess mikilvægt hlutverk í sögunni um Nóa karlinn í örkinni sem lesin er í Gamla testamentinu.

 

Í dag er dúfan friðartákn, þessi fugl sem í gegnum tíðina hefur mátt temja og senda með bréf og skilaboð út og suður.  Magnaður fugl. En síðan er hún einnig tákn fyrir anda Guðs sem við köllum gjarnan heilagan anda og það rímar við friðinn því andi Guðs er andi friðar, réttlætis, sannleika, kærleika, o.s.frv.

 

Í þessu ljósi er því ekkert undarlegt að margar skírnarskálar birti mynd af dúfu bæði vegna þessarar frásagnar um skírn Jesú í ánni Jórdan og í því ljósi að þegar einstaklingur er skírður endurfæðist hann til nýs lífs með Jesú Kristi fyrir vatn og heilagan anda.

 

Svo ég haldi nú aðeins áfram með andann sem blessuð dúfan stendur sem tákn fyrir þá hefur hann jafnframt verið tengdur hugguninni.

 

Í upphafsbæn messunnar eða meðhjálparabæn, eins og hún er jafnan kölluð, þá er m.a. sagt „..þú heilagi andi huggari minn, vilt við mig tala í þínu orði.”

 

Þegar Jesús kvaddi lærisveina sína áður en hann steig niður til heljar þá hét hann þeim því að hann myndi senda þeim hjálpara, sem var heilagur andi, og það ætlaði hann að gera því hann vildi ekki skilja lærisveina sína eftir munaðarlausa, þeir áttu ekki að verða eftir einir. 

 

Og síðan segir atburður hvítasunnunar, sem er ein af stórhátíðum kirkjunnar, frá því þegar andinn kom yfir lærisveinanna í Jerúsalem og þeir voru drifnir áfram til að halda áfram góðu verki Jesú í veröldinni og kirkjusamfélagið varð til, það varð til samfélag þannig að þeir urðu ekki munaðarlausir, ekki einir og einmana. Samfélag sem hjálpast að, huggar og reynist stoð í ólgusjó lífsins.

 

Og það er eitt af meginhlutverkum kirkjunnar, þá og nú, að vera náunganum styrkur í meðvindum sem mótvindum. Þess vegna er sálgæsla „praktíseruð” í kirkjunni og er í grunninn þjónusta sem stendur öllum til boða sem hana vilja þiggja, þjónusta sem huggar og hjálpar fólki að horfast í augu við verkefni þau sem lífið leggur á herðar og horfast í augu við sjálft sig, þekkja sig og viðbrögð sín við margvíslegum skilaboðum og áreitum tilverunnar.


Stundum stöndum við í þeirri trú að það þurfi ekkert að ræða upplifanir, lengi vel var það lenskan að við áttum bara að þegja og halda áfram eftir að hafa farið í gegnum sára reynslu, sár reynsla getur t.d. verið ástvinamissir, heilsumissir, atvinnumissir, ærumissir, húsnæðismissir, og margvíslegur annar missir.

 

Það er reyndar ótrúlega margt í dag sem flokkast undir missi og sem betur fer hefur andrúmsloftið breyst á þá vegu að fólki er gert kleift og hvatt til að tjá tilfinningar sínar og vinna úr þeim. Áfallahjálp felur það t.a.m. í sér að fólki sé gert kleift að tjá reynslu sína. Áfallahjálp er ekki gamalt hugtak og það er ekkert langt síðan að farið var að veita slíka hjálp. Áfallahjálp var má segja fyrst veitt með skipulegum á níunda áratug síðustu aldar í tengslum við slys er varð á olíuborpalli á Norðursjó, samstarfsmenn veittu þar vinnufélögum hjálp í nánu félagslegu umhverfi.

 

Áfallahjálpin er í eðli sínu einkum stuðningur handa þolanda við að tjá reynslu sína, því ef þú situr uppi með áfall einn eða ein og talar ekkert um það við aðila sem býr yfir virkri og þjálfaðri hlustun og sem kann að bregðast við tjáningu þinni þá sækir áfallið stöðugt á þig og hættara við að það fari að hindra þig í  daglegri rútínu.  Það er segin saga. Og það hvernig þú vinnur úr áfalli hefur forspárgildi þegar litið er til úrvinnslu næsta áfalls sem þú gætir orðið fyrir í lífinu.

 

Það að ná ekki að vinna úr sárri reynslu veldur einsemd, getur valdið félagslegri einangrun, hindrunum í samskiptum, líkamlegum einkennum, og þar fram eftir götum. Þarna geta aðilar eins og sálfræðingar og sálgætar stutt við og leitt fólk áfram.

 

Þess vegna mæli ég hiklaust með því að fólk nýti sér sálgæsluþjónustu kirkjunnar því þó þú hafir þá skoðun að reynsla þín í lífinu sé eitthvað sem þú getir bara haft fyrir þig og komi ekki öðrum við þá er ekkert víst að þú sért að gera sjálfum þér gagn með því.

 

Og sérhver reynsla, meira að segja sú sem er í fjarlægri fortíð, getur verið að bíta þig í hælanna enn í dag og skýrir jafnvel út hvers vegna þú bregst við hinu og þessu í umhverfi þínu eins og raun ber vitni um. Sálgæsluviðtöl ganga m.a. út á það að þú fáir viðbrögð við reynslu þinni og lærir þannig að þekkja betur inn á þig. 

 

Tökum dæmi.

 

Ungur maður skrifaði fyrir nokkru fáeinar greinar í fréttablað um móðurmissi sem vöktu mikla athygli.  Hann var barn að aldri þegar hann missir móður sína úr þungum veikindum.  Hann var mjög tengdur henni.  Hann gerði allt til að reyna að lifa af og notaði aðferðir eins og að vera sterkur, góður, síglaður, jákvæður og vildi vera bestur í því að allt væri í lagi, alltaf.  Hverjar voru afleiðingarnar?  Jú, vondar tilfinningar voru ekki til eins og ótti, reiði, depurð og fleira.

 

Allt var það hunsað og þannig var hugurinn blekktur með því að ýta í burtu venjulegum tilfinningum.  Höfum þarna í huga að sorg er safn tilfinninga sem eru eðlilegar, sorg er ekki óeðlilegt ástand. Og þannig hurfu minningarnar um móðurina smátt og smátt. 

 

Þetta varð til þess að hann fór að fá samviskubit yfir því hvernig hann syrgði móður sína, honum fannst með auknum þroska orðið eitthvað rangt við það hvernig hann syrgði hana og hvort hann hafi gert það rétt og hvort til væri eitthvað sem væri rétt í þeim efnum. Honum fannst orðið eitthvað falskt við gleðina og jákvæðnina sem hann hafði tileinkað sér.

 

Og þetta var farið að hamla honum á ýmsum sviðum tilvistar á fullorðinsárum.  Það var ákveðið mynstur í samböndum hans við konur sem spegluðu það og það var einmitt þegar sambandið fór að færa sig meira inn á svið tilfinningalífsins að þá bakkaði hann gjarnan út. Hann vildi ekki komast í þær aðstæður að elska manneskju það mikið að hann gæti ekki misst hana.

 

Það var þá sem hann fór að leita sér hjálpar og fór að tala um líðan sína vegna móðurmissisins. Þar áttaði hann sig á því að minningar um móður hans áttu bara að vera eins og þær voru og að hann ætti að vera óhræddur við að hlæja, gráta og hugsa um móður sína.  Samhliða því fór hann að muna betur, muna hvað hann elskaði hana og saknaði hennar mikið. 

 

Þessi reynsla þessa unga manns sem hann deildi með þjóðinni kenndi lesendum margt svo sem eins og gleyma ekki að halda minningu hins látna á lofti, ekki afneita dauðanum, ekki ýta venjulegum tilfinningum til hliðar, það er árangurslaust að krefjast óendanlegrar jákvæðni, mikilvægi þess að tala um dauðann og að vera óhræddur við að vera á lífi.

 

Við förum öll í gegnum ferli hvað snertir sorg og áföll og lífsreynslu, það er mikilvægt að fara í gegnum það ferli, sem er mismunandi eftir því hver við erum og hvernig við bregðumst við umhverfi okkar og hver fyrri reynsla okkar er.

 

En það sem er mikilvægast er að fara í gegnum ferlið, leyfa sér það, reyna ekki að flýja það, horfast í augu við það og að fara ekki í gegnum það einn eða ein því það er fjöldinn allur af fólki sem er reiðubúið að styðja við bakið á þér og ef þú finnur þig einan eða eina í tilverunni þá máttu muna eftir kirkjunni þinni sem með hjálp andans heilaga tryggir það að við stöndum ekki eftir munaðarlaus, við höfum skjól, við höfum skjól í trúnni, sálgæslunni, samfélagi kirkjunnar.

 

Þetta var einmitt það sem Jesús vildi koma til leiðar með jarðvistargöngu sinni, með bæn sinni við skírn úti í  Jórdan, og eftir jarðlífið hélt hann því áfram með því að gefa okkur jarðarbörnum það hlutverk að viðhalda góðu starfi hans í heiminum.  Sinnum því, ræktum það og höldum á lofti eins og dúfu sem við erum að hjálpa til flugs.