Játning, freisting og þjónusta Péturs

Játning, freisting og þjónusta Péturs

En til þess þurfum við að stíga ofan af klettinum sem sumir halda að kirkjan sé reist á - kletti freistingar Péturs – og mæta fólkinu. Þar sem það er, eins og það er, með opinn faðm og uppbrettar ermar og hendur sem eru tilbúnar í þjónustu við Guð.

Matt 16.13-26

Kæri söfnuður. Frans páfi hitti erkibiskupa í vikunni og eins og gengur þegar þeir hittast þá var sungin messa. Hann prédikaði. Það var eftir því tekið að í prédikuninni vísaði hann þrisvar til sín sem biskupsins af Róm en aldrei sem páfa. Í samtali við erkibiskupana vísaði hann til sín sem biskups.

Rowan Williams, sem var erkibiskup af Kantaraborg þangað til snemma á þessu ári, ávarpaði heimsþing Lútherska heimssambandsins í Stuttgart fyrir nokkrum árum. Þegar hann steig í púltið var hann klæddur svartri prestaskyrtu en ekki vínrauðri biskupsskyrtu. Í samtali við kirkjuleiðtogana sem komu frá öllum heimshornum hóf hann upp raust sína sem prestur.

Agnes M. Sigurðardóttir, sem er biskup Íslands, sat fyrir svörum í Fréttablaðinu fyrr á árinu. Þegar hún lýsti sjálfri sér í viðtalinu notaði hún meðal annars þessi orð: „Ég er bara lítil stelpa að vestan.“ Í samtali við þjóðina lýsir hún sjálfri sér sem stelpu utan af landi.

* * *

Jesús spurði lærisveinana: Hver segir fólkið á þessu svæði um mig? Það var jú engin Facebook og engir fjölmiðlar og engar markaðsrannsóknir sem hægt var að horfa til. Svo það þurfti að spyrja fregna. Þeir gáfu fjögur svör og svo sitt eigið svar. Þú ert: Jóhannes skírari Elía Jeremía Annar spámaður Þessir fjórir voru tilheyrðu gömlu hefðinni, þeir prédikuðu iðrun og afturhvarf - voru almennt talað frekar neikvæðir gaurar. Svo kom svar Péturs sem sumir sögðu væri jafnvel fremstur meðal jafningja í lærisveinahópnum. Hann sagði: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“

Það var rétta svarið og viðbrögðin létu ekki á sér standa:

„Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“

Hvað gerist þegar einhver fær svona viðbrögð? Nú eða les þau eftir á? Eru þetta viðbrögð sem vekja með manni hógværð eða hroka? Hvað haldið þið?

* * *

Kæri söfnuður. Það er stundum talað um þetta samtal í sextánda kafla Matteusarguðspjalls sem játningu Péturs. Það stendur meira að segja sem millifyrirsögn í íslensku Biblíuþýðingunni. Játningin er góð og hún felst í því að þekkja og játa Jesú sem Krist. Hvernig það gengur fyrir sig í samtímanum er svo annað mál sem við skulum láta liggja milli hluta, en mig langar að ræða um tvennt í viðbót sem má tengja við Pétur.

Það fyrra er freisting Péturs. Hún er sú að hefja sig upp eða leyfa öðrum að upphefja sig, setja sig á stall. Það gerist til dæmis þegar einhver horfir á þennan texta um játninguna og dregur þá ályktun að það sé manneskjan Pétur sem sé grundvöllur kirkjunnar en ekki sú játning að Jesús sé Kristur sem er kominn til að frelsa manneskjurnar og umbreyta lífinu til góðs.

Það gerist líka þegar einhver gengst upp í embætti sínu sem kirkjuleiðtogi og lætur allt snúast um sig en ekki verkin sem þarf að vinna. Að vera kirkjuleiðtogi, hvort sem um er að ræða páfa eða kardinála, erkibiskupa, biskupa, prófasta, sóknarpresta, presta eða djákna, er fyrst og fremst handavinna og þjónusta.

Það síðara er þjónusta Péturs. Þið munið kannski eftir því fótaþvottarfrásögunum í Biblíunni. Þegar Jesús vill þvo fætur lærisveinanna og Pétur neitar af því að hann skilur ekki, en vill svo fá þvott. Hann skildi nefnilega ekki alltaf þótt hann gæti játað svona flott! En að vera kirkjuleiðtogi er að þvo fætur og fara ekki í manngreinarálit þegar kemur að því. Ekki þvo bara hreina fætur þeirra sem eru þóknanlegir heldur allra.

Að mæta öllum þannig að þeir upplifi sig uppreista og fullgilda og vel metna, en ekki minni eða lægri af því að þeir eru ekki nógu vel menntaðir, hafa ekki réttar skoðanir, eru ekki af réttum lit eða kynhneigð eða í réttu trúfélagi.

* * *

Þess vegna er svo gott að lesa um og sjá kirkjuleiðtogana okkar sem gangast ekki upp í embættunum sínum og koma fram sem biskupar meðal erkibiskupa, eins og Frans páfi, sem prestar meðal biskupa eins og Rowan erkibiskup, sem landsbyggðarstelpur meðal almennings í borginni eins og Agnes biskup.

Þau taka sig alvarlega, en ekki hátíðlega.

Það er nefnilega vísbending um rétta forgangsröðun, um forgangsröðun í þágu þjónustu. Játningin hans Péturs er nefnilega ekki markmið í sjálfri sér heldur fyrsta skrefið á langri vegferð sem Jesús ýjaði að þegar hann birtist Pétri eftir upprisuna og spurði þrisvar:

Elskarðu mig?

Og fékk þrjú svör, þar af a.m.k. eitt með tár á hvarmi:

Já, þú veist að ég elska þig.

Og sagði þá:

Gættu sauða minna. Passaðu upp á fólkið mitt.

Það er verkefnið. Dagsskipanin um aldir alda. Fyrir kirkjuleiðtoga og okkur öll.

En til þess þurfum við að stíga ofan af klettinum sem sumir halda að kirkjan sé reist á - kletti freistingar Péturs – og mæta fólkinu. Þar sem það er, eins og það er, með opinn faðm og uppbrettar ermar og hendur sem eru tilbúnar í þjónustu við Guð.

Þingvallakirkju, 30. júní 2013.