Hinn hæsti í hlutverki hins lægsta

Hinn hæsti í hlutverki hins lægsta

Jesús þvær allt burtu. Hann þvær fætur þeirra. Ekkert orð og engin skýring fer á undan. Hann gengur til verks. Á eftir segir hann: Skiljið þið hvað ég hefi gert. Ég hef gefið ykkur eftirdæmi.

Guðspjallið Jóhs. 13. 1-19. Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen. Heilagi faðir, helga þú oss í sannleikanum. Þitt orð er líf, andi og sannleikur. Amen. Eins og hindin þráir vatnslindir þráir sál mín þig, ó Guð. Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði, hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs? (Sálm. 42.2-3) Kæri söfnuður. Kærar þakkir fyrir að taka á móti mér og prófastinum og leyfa okkur að skyggnast um í lífi og starfi safnaðarins og sjá og heyra hvernig hér má bergja á lindum hjálpræðisins.

Það er fallegt nafn sem þessi kirkja ber og þessi sókn. Það er nafn sem geymir í sér fyrirheit. Það er tilhlökkunarefni að vita að dag nokkurn verður búið að ganga frá innganginum í helgidóminn þar sem lindarvatnið mun taka á móti söfnuðinum. Augun munu sjá það og eyrun nema klið þess. Og fólkið mun skynja hversu margt það á sameinginlegt með hindinni sem þrárir lindarvatnið því að Móse hefur slegið vatn úr kletti hjálpræðisins og lögmálið og fagnaðarerindið haldast í hendur því að hér er hlið himinsins.

Þegar söfnuðurinn kemur saman á jörðu er hann alltaf aðeins einu andartaki frá því að stíga inn í himininn. Við höfum heyrt guðspjallsfrásögn Jóhannesar um fótaþvottinn.

Jóhannes guðspjallamaður tók þá ákvörðun að segja söguna um það þegar Jesús gekk hér um á jörðu með dálítið öðrum hætti en félagar hans Mattheus, Markús og Lúkas. Bæði var að hann sem þekkti það sem þeir höfðu skráð, vildi sérstaklega bæta við því sem honum fannst vanta hjá þeim, sögulega skoðað, rétt eins og að Lúkas bætir við í sína frásögu efni sem hvorki Mattheus né Markús hafa.

En Jóhannesarguðspjall hefur auk hins sögulega líka að geyma persónulegar og trúarlegar áherslur sem hin guðspjöllin hafa ekki. Þannig telur Jóhannes mikilvægt að gleyma ekki því sem gerðist í aðdraganda þess að Jesús stofnaði heilaga kvöldmáltíð á skírdagskvöld. Um það fjallar guðspjallið sem við höfum til umfjöllunar á þessu kvöldi. Það er sagan um fótaþvottinn. Það er sérstakt umhugsunarefni að eiginlega kemur hún í staðinn fyrir frásögnina um stofnun heilagrar kvöldmáltíðar hjá hinum guðspjallamönnunum. Allir guðspjallamennirnir eiga það sameiginlegt að þeir segja söguna um Jesú með þeim hætti að hún er í senn einföld og auðlesin við fyrsta lestur en djúp og margræð þegar lengur er lesið. Jesús vissi að hann færi burt úr þessum heimi, skrifar Jóhannes. Það væri nóg í heila predikun að fjalla bara um tímasetningar Jóhannesar í guðspjallinu af því að þær eru alltaf tvennskonar, klukkutíminn og náðartíminn. Kronos og kairos.

Þetta sem hann lýsir er atburður sem gerist á mótum hins jarðneska og himneska. Það er engin tilviljun hvernig hann segir frá: Orð Jóhannesar sem innleiða fótaþvottin eru þessi: Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Þetta er atburður sem felur í sér hina fullkomnnu elsku. Hér stígur sá inn í óvirðulegustu þjónustu manna sem sjálfur steig niður af himni og afklæddist þeirri dýrð sem þar er. Hann sem síðan gengur inn til hennar á ný. Hann sem tekur okkur þangað til sín um síðir og gefur okkur hlutdeild í þeirri dýrð.

Hið ókomna er þegar komið. Jesús er: Hann sem er, og hann sem var og hann sem kemur. Hann þvær fætur lærisveinanna. Á fótum þeirra eru ekki aðeins óhreinindi götunnar, heldur eru skór þeirra einnig óhreinir af því að þeir eru gerðir af skinni af dauðu dýri og því óhreinir í eðli sínu.

Þess vegna segir Guð við Móse fyrir framan logandi runnann sem brann þó ekki: Drag skó þína af fótum þér því staðurinn sem þú stendur á er heilög jörð.

Þar sem Jesús neytir síðustu kvöldmáltíðarinnar er heilög jörð. Rétt eins og altari hverrar kirkju. Kæri söfnuður. Við gætum staðnæmst við hvert einasta vers þessarar frásagnar og undrast það sem við lesum, heyrum og sjáum fyrir okkur. Eins og þetta: Jesús þvoði fætur Júdasar. Hjá honum voru þó annarskonar óhreinindi en einungis á fótunum.

Það merkir eftirdæmi. Að skirrast aldrei við því að horfast í augu við öll þau óhreinindi og hverja þá synd og hvert það brot sem við mætum í þjónustunni við Krist á meðal manna. Hann sem læknar allt og hreinsar allt.

Og hreinsunin er fyrirgefning. En fyrirgefningu finnur maður ekki nema leita að henni. En hvernig get ég fundið það sem ég þekki ekki? Ég get það ekki. Og hvernig get ég fyrirgefið þeim sem ekki biður um fyrirgefningu? Og hver getur beðið um fyrirgefningu nema sá sem iðrast gjörða sinna? Jesús þvær allt burtu. Hann þvær fætur þeirra. Ekkert orð og engin skýring fer á undan. Hann gengur til verks. Á eftir segir hann: Skiljið þið hvað ég hefi gert. Ég hef gefið ykkur eftirdæmi. Iðrun og fyrirgefning. En ég þarf að hafa smakkað fyrirgefninguna til þess að geta iðrast. Því að í iðruninni sjálfri felst gleði fyrirgefningarinnar. Og það sem staðfestir hvort tveggja er Orð Guðs. Og orð Guðs er Jesús Kristur. Kæri söfnuður í Lindakirkju.

Við heyrum um fótaþvottinn.

Í þessum atburði endurspeglast öll þjónusta hins lifandi trúarlífs kirkjustarfsins, þjónustan við Guðs orð, eins og hún er á samkomum safnaðarins, í guðsþjónustunni og hinum helgu athöfnum, og í þjónustunni á strætunum og heimilunum, þjónustu kærleikans sem spyr ekki hver ertu heldur hvers þarftu með, hvort sem það er í líknandi þjónustu handanna eða græðandi þjónustu orðs og anda og sakramenta. Í þessu guðspjalli lýkst upp hið innsta eðli safnaðarins. Því að söfnuðurinn er líkami Jesú Krists á jörðu, ávallt staddur á mærum himins og jarðar, og ávalt rétt ógenginn inn til fagnaðar Drottins á himnum.

Sannarlega erum við alltaf send út til þjónustu við náungann, hvert sinn og guðsþjónustu lýkur. En í kvöld er við minnumst atburðar sem átti sér stað forðum á skírdagskvöld, erum við fyrst og fremst minnt á að þiggja sjálf þjónustu Jesú Krist við okkur. Hans sem þvær fætur lærisveinanna í fullkominni orðlausri elsku áður en hann gengur einn á móti böðlunum sem bíða með krossinn, þar sem hann deyr. Einn fyrir alla.

Og það bjarmar fyrir nýjum degi í eilífu ljósi upprisunnar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.