Bartíumeus og blinda stúlkan

Bartíumeus og blinda stúlkan

Ástarsagan um blindu stúlkuna er viðeigandi á föstunni vegna þess að fastan snýst um svona ást, ást sem lætur eigin þarfir og eigin hagsmuni víkja fyrir velferð annarra.

Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“ Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“ Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“ Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú. Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“ Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“ Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“ Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni. Mark 10.46-52

Blindi maðurinn við veginn

Við höfum heyrt um blinda manninn við veginn til Jeríkó oft áður. Við vitum samt ekki mikið um hann - nema að hann heitir Bartímeus og var sonur Tímeusar. Reynar er merking nafnsins Bartímeus einmitt þessi: sonur Tímeusar. En það er bara þessi eina svipmynd úr lífinu hans sem hefur lifað áfram vegna þess að hún er skrifuð í guðspjallinu. Og hún var sett í guðspjallið til að segja okkur eitthvað mjög mikilvægt.

Hvað ætli það sé sem við eigum að taka með okkur eftir þessa sögu? Það sem er augljósast er vitaskuld það sem við upplifum sem kraftaverkið að blindur fær sýn. Það er stóra breytingin sem á sér stað. Algjör viðsnúningur verður á lífi Bartímeusar þegar hann yfirgefur veröld hins blinda og sér heiminn sem hann lifir í.

Fjögur skref

Í sögunni um Bartímeus kemur ekkert fram hvernig hann fékk sjónina - eða hvernig hann brást við - við getum bara ímyndað okkur allan þann reynslufoss sem helltist yfir hann þegar hann fékk sjónina. En það eru ákveðin skref í sögunni sem vert er að líta til, skref sem leiða til þess að Bartímeus fékk sjónina að nýju. Við skulum líta á þau. Í fyrsta lagi er það sem er sagt um hvernig Bartímeus brást við þar sem hann sat blindur við veginn sem Jesús gekk á. Hann fór að hrópa og kalla. Og þegar honum var sagt að þegja hrópaði hann ennþá hærra. Hann hrópaði á Jesú og bað um hjálp. Hann hrópaði aftur og aftur: Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!

Í öðru lagi skiptir máli í sögunni að Bartímeus sýnir hugrekki. Hann er nógu hugrakkur til að hrópa ekki bara á hjálp heldur bera sig eftir henni með því að standa á fætur og hlaupa til Jesú. Þetta tvennt, hrópin og hlaupið, segja okkur að Bartímeus hafði hugrekki til að yfirstíga hindranir í umhverfinu sínu, hindranir sem aðrir settu honum.

Annað dæmi um þetta er að finna í kvikmyndinni Fjórar mínútur sem er sýnd á þýskum bíódögum í Bíó Paradís. Þar segir frá tveimur konum, fanganum Jenny og tónlistarkennaranum Traude. Báðar eru þær fjötraðar af erfiðri reynslu í fortíðinni, af fordómum og ofbeldi. Saman tekst þeim að yfirvinna þetta. Það gerist þegar þær mætast sem manneskjur, þora að segja frá sjálfum sér og hlusta á aðra.

Við ættum sannarlega að kannast við svona hindranir. Getum við nefnt einhverjar hindranir sérstaklega sem umhverfið setur okkur þannig að frelsi og þarfir okkar lúti í lægra haldi?

Þessar hindranir náði Bartímeus að yfirstíga - þrátt fyrir að umhverfið, samferðafólk hans vildi kannski bara halda honum á sínum stað og þurfa ekki að heyra svona mikið í honum. Hann vissi að hann var ekki á góðum stað og vildi komast af honum. Þess vegna bað hann um hjálp og hafði hugrekki til að brjótast úr aðstæðum sínum sem krepptu hann.

Það þriðja mikilvæga sem Bartímeus sýnir okkur í sögunni er að hann nefnir það sem hann skortir þegar hann er spurður. Ég vil fá sjónina aftur, segir hann, þegar Jesús spyr hvað hann vilji fá gert fyrir sig. Þetta er lykilatriði. Að þekkja sjálfan sig og vita hvað maður vill - og hvað mann vantar. Þetta hljómar kannski einfalt en getur verið ótrúlega erfitt.

Veist þú hvað þig vantar? Ef við ætlum að komast að því hvað okkur vantar í raun og veru, getur það gengið nærri okkur, því það krefst þess að við rýnum í veru okkar og framkomu. Hvað er það sem fjötrar? Hvað er það sem hindrar okkur í því að blómstra, vera hamingjusöm - að vera góðar og glaðar manneskjur?

Bartímeus gengur hreint til verks og segist vilja sjónina aftur. Og þá er það fjórða skrefið sem við íhugum í guðspjallinu. Það er trúin sem Jesús talar um að hafi bjargað honum. Þetta er eitt af því magnaðasta í sögunni. Það er ekkert hókus pókus sem að gefur Bartímeusi sjónina aftur, ekkert sem Jesús gerir. Bartímeus mælir fram ósk sína og hún verður. Vegna þess að hann hafði trú.

Ást

Til að skilja það sem Biblían segir um trú, er eitt lykilhugtak nauðsynlegt. Það er ást. Ekki hvernig ást sem er heldur ákveðin tegund af ást. Hún er stundum kölluð kærleikur og um hana segir í Nýja testamentinu:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Blinda stúlkan

Nú ætlum við að horfa á stutta mynd sem er nokkurs konar nútíma útfærsla á sögunni um blinda manninn. Það eru aðrar persónur en guðspjallinu - aðalpersónurnar eru tveir unglingar, strákur og stelpa, sem eru kærustupar. Stelpan er blind. Og hún er líka rosalega reið - það er hennar leið til að fást við sjónleysið. Sá eini sem nær til hennar er yndislegi kærastinn hennar. Hann er kletturinn sem hjálpar og styður. Ást hans til hennar er vendipunktur í myndinni - og nú skulum við horfa á hana.

Svolítið sláandi og óvænt í lokin, er það ekki?

Það sem við viljum velta fyrir okkur með þessari stuttu mynd er hvernig hún sýnir ástina sem getur mótað og stjórnað manneskjunni til góðra hluta. Ástin sem kærastinn sýnir er í raun ótrúleg - hann fórnar sínum eigin augum til að sú sem hann elskar fái sjónina - og hann heldur áfram að elska hana þrátt fyrir að hún snúi við honum bakinu.

Þessi ástarsaga er mjög viðeigandi á tímanum sem er núna - föstunni - vegna þess að fastan snýst um svona ást. Þ.e.a.s. ást sem lætur eigin þarfir og eigin hagsmuni víkja fyrir velferð annarra. Fastan leiðir til páskanna og atburðanna á skírdegi og föstudeginum langa, þegar Jesús sem kenndi um trúna og ástina, var tekinn af lífi, drepinn, fyrir einmitt það. Vegna þess að ástin er það sterkasta í heiminum og kallar á sterk viðbrögð.

Bartímeus bað um hjálp, sýndi hugrekki og hafði trú. Trúin sem bjargaði Bartímeusi er trúin á kærleikann - á ástina - sem Jesús sýndi okkur með lífi sínu og dauða. Það er ást sem leysir úr fjötrum og gefur sýn, dýpt, skilning og gleði.

Dýrð sé Guði föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.