Þrír sigurvegarar

Þrír sigurvegarar

Lífsglíman færir okkur verkefni til að fást við. Glíman tekur á og er erfið, hún mótar okkur og gerir okkur að því sem við erum. Það er þessi mannlega reynsla sem Jesús viðurkennir þegar hann segir við konuna: "Mikil er trú þín".

Ef það er eitthvað sem blæs fólki baráttuanda í brjóst, þá er það þegar börn þess eru í vanlíðan og á vondum stað. Í hugann koma myndir af fólki sem rís upp til varnar börnunum sínum og lætur sér ekki segjast þótt umhverfið sýni tómlæti gagnvart aðstæðum þeirra og enginn geti sett sig í þess spor. Foreldrar fatlaðra og langveikra barna eru oft í þessu hlutverki; að banka á dyr, hafa hátt, vekja athygli á úrræðaleysi og draga fram í dagsljósið.

Þetta er ekki alltaf þakklátt hlutverk. Í baráttunni fyrir úrræðum og mannréttindum þeirra sem eru öðruvísi eru margar lokaðar dyr og veggir að rekast á. Umhverfið hefur ekkert endilega rými eða skilning á þörfum þeirra sem eru öðruvísi. Stundum skortir hreinlega áhuga eða vilja til að greiða götu þeirra sem eru ekki eins og allir hinir.

Móðirin í guðspjalli dagsins er í þessu hlutverki. Hún hefur upp á Jesú þar sem hann er á ferð í héraðinu hennar og hefur nokkurs konar eftirför. Og ekkert hljóðlega, því hún eltir Jesú og reynir að ná athygli hans með hrópum og köllum. Það gengur ekkert vel og svo virðist sem hún nái ekki eyrum Jesú eða að hann hafi takmarkaðan áhuga á henni og vandamálunum hennar. Þeir sem eru með honum finnst líka nóg um athyglina sem konan dregur að sér. "Getur þú ekki látið hana fara, þetta er býsna vandræðalegt með þessi hróp, ha, Jesús?"

***

Mér finnst konan sem eltir Jesú svo áhugaverð. Þegar ég heyri um hana, fer ég að velta því fyrir mér hvernig hún er, hver saga hennar er, hvers vegna trúin hennar á að hún fái lausn sinna mála er svona sterk, og hvaðan hún fær hugrekkið til að vekja athygli á aðstæðum sínum, þrátt fyrir þöggun og andsnúin viðhorf.

Lífssögur fólks eru svo áhugaverðar og mannleg reynsla snertir okkur. Í bókinni Hljóðin í nóttinni sem kom út aldeilis nýlega segir Björg Guðrún Gísladóttir frá minningum sínum af uppvexti við oft hræðilegar aðstæður. Minningarnar hennar innihalda reynslu af miklu og hörðu heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, fátækt, einelti og því að fullorðnir bregðast trausti barns á allan mögulegan máta.

Hvernig nær manneskja að vinna úr slíkri reynslu án þess að brotna saman og þagna? Hvernig getur hún lært að elska og treysta, staðið með sjálfri sér og fengið hugrekki til að segja söguna sína?

Björg Guðrún hefur sagt að eitt af því sem lék stórt hlutverk í því að hún bugaðist ekki heldur óx upp eins teinrétt og hún er, var að hún bar mikla og ríka ábyrgð á yngri systrum sínum. Það að þurfa að hugsa um og bera ábyrgð á velferð þeirra sem eru veikari en maður sjálfur, gefur styrk og merkingu í lífið, meira að segja þegar það birtist í grimmum og niðurbrjótandi myndum.

Minningarnar hennar Bjargar lýsa líka harðri glímu sem hefur einkennt veginn til sátta og sjálfsvirðingar, glímu við sig sjálfa - og Guð. Sú glíma er viðfangsefni okkar allra, þegar við vinnum með minningar og reynslu sem hafa mótandi áhrif á líf okkar. Þetta er glíman sem skiptir mestu máli að standa upp frá sem sigurveigari í lífinu. Og þessi glíma tekur meira en 2 mínútur, ólíkt vellukkaðri bardagalotu Gunnars Nelsonar um síðustu helgi. Hún getur tekið allt lífið en þegar við náum sáttum við okkur sjálf og tilfinningar okkar, fyrirgefið okkur sjálfum fyrir mistök og misgjörðir, erum við sigurveigarar.

***

Við fylgjumst með þriðju konunni standa uppi sem sigurveigari í lífsglímunni. Í kvikmyndinni Philomena segir frá írskri konu á efri árum, sem ákveður eftir hálfrar aldar þögn að segja fjölskyldunni sinni frá því að hún eignaðist dreng ung að árum og var neydd til að gefa hann frá sér til ættleiðingar. Hún ákveður líka að reyna að hafa upp á drengnum sínum, sem væri orðinn fimmtugur.

Eftir því sem sögunni framvindur, áttum við okkur á því hvað konan og aðrar stúlkur í hennar sporum voru beittar miklu ofbeldi og miklu ranglæti, oft í nafni trúar og siðgæðis. Við fylgjumst líka með því hvernig konunni tekst með hjálp blaðamanns sem vill skrifa um söguna hennar, að komast nær og nær því að uppgötva hvað varð um drenginn hennar.

Þegar öll kurl eru komin til grafar stendur Philomena andspænis manneskju sem varð þess valdandi að hún var skilin frá syni sínum og hindraði frekari samfundi þeirra. Sú stendur ennþá grjóthörð á sínu og þykist ekkert rangt hafa gert. Blaðamaðurinn er bálreiður og ætlar að láta viðeigandi heyra það en Philomena sjálf segir við hana: "Ég fyrirgef þér". Og við blaðamanninn vin sinn segir hún: "Ég vil ekki vera eins og þú, brjálaður út í alla. Það hlýtur að vera ofboðslega lýjandi."

*** Philomena, Björg Guðrún og Kanverska konan eru sigurveigarar í lífsglímunni. Þeim voru gefin erfið og íþyngjandi verkefni en buguðust ekki. Þær segja sögurnar sínar, sem eru þrungnar og erfiðar, þær þurfa að kljást við skömm, áföll, ranglæti og sorg. En þær koma til dyranna einmitt þannig að við sjáum að eftir glímuna við Guð og sig sjálfar standa þær uppréttar.

Hróp Kanversku konunnar báru árangur og Jesús lagði loksins við hlustir. Þá hefst þetta samtal sem virkar mjög sérstakt. Það er eins og Jesús reyni að finna ástæður til að takast ekki á við aðstæður hennar, því hann segist bara eiga erindi við "týnda sauði af Ísraelsætt" - sem er ekki hópurinn sem hún tilheyrir. Þetta minnir satt að segja svolítið á píslargöngu margra sem þurfa að leita réttar síns í kerfinu, en er í sífellu vísað frá á þeim forsendum að þeirra mál passi ekki í þessa stofnun. Málefni barna í erfiðleikum koma í hugann, en það virðist oft vera mjög erfitt að finna hvar vandamálið á heima.

En konan lætur sér ekki segjast heldur er ákveðin í því að finna lausn á vanda dóttur sinnar. Hún hefur þá trú að hér sé hjálpina að finna og hún er tilbúin að leggja mikið á sig til að fá hana. Þegar Jesús sér þessa sterku trú, verður kraftaverkið í lífi konunnar. Áhyggjum hennar er eytt og dóttir hennar verður heil.

Jesús hrósar konunni sérstaklega fyrir þessa miklu trú. Mér finnst það mjög áhugavert, því það segir okkur heilmikið um trúna og hvaða augum Jesús lítur hana. Vegna þess að við vitum að þessi kona tilheyrði öðrum trúarhópi en Jesús, er það merkilegt að sjá að hann hrósar henni fyrir trúna sem hún hefur. Kannski er það vísbending um að það sem skiptir máli í augum Jesú er ekki að geta játað að maður trúi þessu eða hinu um Guð og eilífðina heldur að hafa þá trú að mannleg reisn og mannleg reynsla séu ætíð þess virði að berjast fyrir. Það var trúin sem konan hafði í farteskinu, hún trúði því að heilsa og líf dóttur hennar væri þess virði að berjast fyrir. Hún trúði því að Jesú þyrfti að heyra söguna hennar og hún lét ekki þagga niður í sér eða reka sig í burtu.

Boðskapur sögunnar um Kanversku konuna er að lífsglíman færir okkur verkefni til að fást við. Glíman tekur á og er erfið, hún mótar okkur og gerir okkur að því sem við erum. Það er þessi mannlega reynsla sem Jesús viðurkennir þegar hann segir við konuna: "Mikil er trú þín".

Taktu þessa viðurkenningu með þér í dag. Mundu að reynslan þín, glíman þín, er mikilvæg í augum Jesú. Hún er þess virði að heyrast og sjást, líf og velferð hinna veiku og smáu er alltaf þess virði að berjast fyrir.