Saltað og lýst

Saltað og lýst

Já, ég skammaðist mín hálfpartinn þegar ég kom tómhentur heim úr búðinni. Hvaða asi var þetta á mér og í hverju fólst sérstaða þessa drykkjar umfram allt hitt úrvalið? Jú, að baki honum voru einhverjir jútúbarar sem höfðu slegið í gegn á þeim miðli. Auðvelt hefði verið að fórna hönum og hrópa: „heimur versnandi fer!“ En hér er ekkert nýtt undir sólinni. Kristin trú miðlar okkur á hinn bóginn þeim boðskap að þótt sumir fái meiri athygli og séu jafnvel sveipaðir helgum ljóma, býr saltið og ljósið í hverju okkar. Og það er okkar hlutverk að gefa heiminum bragð og láta ljós okkar lýsa í veröld sem þarf svo mikið á því að halda.

„Já, góðan daginn, eigið þið ennþá þennan þarna orkudrykk, hvað hann nú heitir. Prime eða eitthvað svoleiðis?“


Áhrifavöld

 

Ég fékk brýn skilaboð að heiman að leggja frá mér öll verkefni og fara í Krónuna úti á Granda. Fregnir höfðu borist af því að þangað hefði borist bretti af þessum ódáinsdrykk sem einhverjir áhrifavaldar höfðu nýverið markaðsett. Slíkur var ákafinn að ég þorði ekki annað en að mæta á staðinn eins fljótt og ég gat til þess eins að fá þær upplýsingar frá skilningsríkum starfsmanni að aðrir hefðu verið fyrri til og tæmt allar birgðirnar sem verslunninni höfðu borist.

 

Ég kom því tómhentur heim. Þótt ég vissi nákvæmlega ekkert um innihald þessa drykkjar og hvað gerði hann ólíkan þeim óteljandi gerðum af svaladrykkjum sem neytendum stendur til boða, þá sóttu að mér vonbrigði!

 

Drykkurinn er tímanna tákn. Að baki býr þetta nýja starfsheiti: „Áhrifavaldur“ og slík eru áhrifavöldin að fylgjendurnir, nú eða „áhrifaþegarnir“, bregðast við á þennan ofsafengna hátt. Hvað sem mér finnst um tíðarandann þá reyndist ég vera samdauna honum þar sem ég fór þessa erindisleysu í stórmarkaðinn.


Ekkert er nýtt undir sólu

 

Áhrifavaldar eru vissulega nýtilkomin stétt en samt held ég að þarna búi að baki lengri saga. Án þess að ég ætli að setja mig í dómarasæti í þessum efnum, þá er sú tilhneiging rík í fólki að hefja einstaklinga upp á einhvern háan stall. Ekkert er nýtt undir sólinni og það á sannarlega við í þessu tilviki.

 

Sennilega er þetta eðlislæg tilhneiging mannsins að hefja einstaka fólk upp til skýjanna. Hið forna þóttust þjóðhöfðingjar geta rakið ættir sínar til guða, og raunar er sennilegt að einhver goðin hafi eitt sinn verið kóngar og drottningar sem goðsagnir sveipuðu helgi og ljóma. Þessi afstaða fléttast saman við sögu kristninnar.

 

Gyðingar og síðar kristnir menn bökuðu sér fljótt óvinsældir þegar þeir neituðu að tilbiðja keisara og færa fórnir við styttur af slíkum fyrirmennum. Og það var enn síður til að auka veldvildina í þeirra garð þegar Rómverjar áttuðu sig á því að sú trú var ríkjandi í þeim hópi að veröldin myndin einhvern tíma líða undir lok. Þetta þótti ekki góð latína – ef svo má að orði komast. Róm var jú borgin eilífa og veldið átti engan endi að taka.

 

Fyrir vikið lesum við í Biblíunni sögur af þessum áhrifaríku einstaklingum þar sem miklu fremur er staldrað við breyskleika þeirra og takmörk heldur en glæsileika og tign. Það er eins og skilaboðin séu einmitt þau að enginn eðlismunur sé á konungum Ísraels, spámönnum og síðar lærisveinum Krists – og okkur öllum hinum. Enginn er hnökralaus og fullkominn.

 

Já, hugmyndin að hefja jafningja okkar upp í guðatölu mæltist afar illa fyrir í hinu biblíulega samhengi. Fyrsta boðorðið, eins og fermingarbörnin vita, gengur út á það að við eigum ekki að búa til guði úr því sem er forgengilegt. Í þeim hópi eru vitanlega systkini okkar af ýmsum stéttum.


Dýrlingar

 

Textar þessa sunnudags eru helgaðir merkilegum tímamótum á árinu. Þetta er allra heilagra messa. Rætur hennar liggja í því að kirkjan hampaði heilögu fólki. Já, þrátt fyrir fyrsta boðorðið og alla staðfestuna þegar fólk neitaði að hefja keisara upp á stall þá tók kirkjan að setja einstaka fólk í heilagra manna tölu. Íslendingar áttu sinn heilagan Þorlák og fáeinir aðrir komust nærri því að öðlast þann sess.

 

Dýrlingar áttu eftir að gegna mikilvægu hlutverki í lífi fólks hér forðum. Fólk sagði sögur af svo kölluðum jarteinum þar sem einhver hafði heitið á helga manneskju í vandræðum sínum og fengið lausn sinna mála. Hér á Íslandi hefur fjöldi slíkra frásagna frá miðöldum varðveist.

 

Að launum fyrir björgina átti fólk að leggja eitthvað af mörkum, gefa til fátækra, halda í pílagrímaferð eða styðja við einhverja þá kirkju sem helguð var dýrlingnum. Gamla Neskirkja sem reist var á miðöldum og stóð við Seltjörn yst á Seltjarnarnesi var til að mynda helguð engum öðrum en heilögum Nikulási. Já, það er sánkti Kláus, jólasveinninn. Hann þótti góður til áheita í sjávarháska og vitanlega var hann barngóður.

 

Það fjölgaði ört í stétt þessara dýrlinga. Hvert hérað, hver borg átti sinn og starfstéttir og ýmsir hópar eignaðist sinn helgan mann. Hverjum þeirra var úthlutaður einn messudagur en þeir fylltu fljótt upp í þann kvóta. Þá kom þá þessi ágæta lausn, að taka frá einn dag á árinu fyrir allt þetta heilaga fólki sem átti engan messudag.

 

Við getum sagt að þörfin fyrir að upphefja einstaka fólk hafi með þessu laumast aftan að kristnum mönnum, sem höfðu áður staðið svo vel í lappirnar þegar þeim var gert að tilbiðja kóngafólk. Þeim til varnar þá öðluðust dýrlingarnir ekki sinn sess í krafti auðsöfnunar eða sigra í orustum, heldur þvert á móti. Þeir höfðu mátt þola illa meðferð af hálfu valdhafa og dáið píslarvættisdauða fyrir trúarsannfæringu sína og staðfastar hugmyndir um gott líf og réttlátt.

 

Svo ég vísi nú aftur í samtímann, þá er orðið „halloween” myndað af orðunum all hallows eve sem er stytting á all hallows evening sem þýðir: ,,kvöld allra heilagra”.


Salt og ljós

 

Þetta var líka eitt af því sem siðbreytingarfólk taldi þurfa að breyta þegar sú bylting var gerð í kirkjunni á 16. öld. Það er eitt að eiga sér góða fyrirmynd, annað að tilbiðja fólk og reyna jafnvel að fá það til að sveigja lögmál eðlis og náttúru. Erum við ekki öll dýrlingar í einhverjum skilningi þess orðs? Býr ekki í okkur öllum getan til að láta gott af okkur leiða, skapa betri heim, verða þeim að liði sem mest þarf á að halda?

 

Um það fjallar guðspjallið sem við hlýddum hér á: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.

 

Þessi orð eru ekki flutt þeim sem fara með völdin og stýra fólki með harðri hendi. Þegar heimurinn lyftir þeim upp og magnar sem hafa náð tangarhaldi á öllum auði og allri athygli, þá beinir Biblían sjónum okkar að fulltrúum hinna, þeim sem að öðrum kosti hefðu fallið í skuggann og horfið í djúp gleymskunnar. Já, fyrir Guði er manneskjan dýrmæt óháð því hvert kastljósið beinist. Og þá um leið birtist okkur þessi lífsspeki og jafnvel leiðtogasýn sem boðar gerólíka afstöðu til þess að veita forystu og lifa verðugu lífi.

 

Hvert og eitt okkar hefur burði til að vera saltið sem gefur bragð og endingu og ljósið sem vinnur sigur á myrkrinu. Það getum við með því að rækta með okkur það góða sem býr í hverri manneskju.


Saltað og lýst

 

Jesús lagði okkur línurnar þegar kom að því að taka af skarið og miðla forystu í heimi sem þarf svo mjög á skapandi gæsku að halda. Þetta sagði hann við lærisveina sína, sem áttu síðar eftir að verða teknir í tölu helgra manna: „Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjarnir láta menn kenna á valdi sínu.  Eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.  Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar, eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til launargjalds fyrir marga.“

 

Hér er kynnt til sögunar sú hugsun að með því að þjóna öðrum, ekki láta þjóna okkur, þá veitum við alvöru forystu sem er líklega til að leiða af sér eitthvað gott og merkilegt. Allra heilagra messa helst í hendur við það sem kallast, allra sálna messa. Þá erum við einmitt að minnast þeirra sem við áttum samleið með í lífinu og hafa kvatt þennan heim.

 

Þessi nýtilkomna hátíð, halloween, ristir því dýpra en okkur kann að gruna. Draugar, beinagrindur og glottandi grasker með hvassar tennur kallast á við sömu hugmyndir. Þetta er á sinn hátt óður til hins forgengilega, áminning um það að líf okkar tekur enda um síðir og við þurfum að nýta vel tímann meðan dagur er.

 

Fólkið okkar sem er ekki lengur í þessum heimi flytur okkur þann boðskap þó á allt annan hátt. Um leið og við minnumst þess, þá lítum við í eigin barm og greinum þar möguleikana sem í okkur sjálfum býr, möguleika til að þjóna því sem er gott og því sem bætir og byggir upp.

 

Já, ég skammaðist mín hálfpartinn þegar ég kom tómhentur heim úr búðinni. Hvaða asi var þetta á mér og í hverju fólst sérstaða þessa drykkjar umfram allt hitt úrvalið? Jú, að baki honum voru einhverjir jútúbarar sem höfðu slegið í gegn á þeim miðli. Auðvelt hefði verið að fórna hönum og hrópa: „heimur versnandi fer!“ En hér er ekkert nýtt undir sólinni. Kristin trú miðlar okkur á hinn bóginn þeim boðskap að þótt sumir fái meiri athygli og séu jafnvel sveipaðir helgum ljóma, býr saltið og ljósið í hverju okkar. Og það er okkar hlutverk að gefa heiminum bragð og láta ljós okkar lýsa í veröld sem þarf svo mikið á því að halda.