Trúin er ávallt leitandi

Trúin er ávallt leitandi

Við finnum það á svona textum hve rangt það er þegar manneskjan setur sig á háan hest á grundvelli trúar sinnar. Einkenni trúarinnar hjá hinum nýja manni, ef við vísum í orðalag postulans, þá er hún ávallt leitandi, auðmjúk, mild, gæskurík og þjónandi.

Biðjum:

 

Ó, leið mig þá leið, svo legg ég af stað,

svo legg ég af stað með Guði.

Leið trúar, leið trausts, leið tryggðar hvern dag

sem treysti ég einum Guði

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Biblían

 

Biblían var rituð af yfir 40 höfundum, á 1500 ára tímabili í þremur heimsálfum. Hún miðlar visku kynslóðanna, hvatningu, textum sem efla okkur hugrekki til að takast á við verkefni lífsins, huggun er við erum sorgmædd, ljósi inn í myrkar stundir.

 

Textaraðir

 

Við tökum eftir því hér í hinu hefðbundna helgihaldi kirkjunnar, þá eru gjarnan lesnir þrír textar, einn úr Gamla testamentinu, einn úr bréfum Nýja testamentisins og síðan einn úr guðspjöllunum.

 

Hér eru ávallt nýir textar á dagskrá, allt eftir því hvar við erum stödd í kirkjuárinu. Er aðventa, eru jól, nýtt ár, fasta, páskar eða hvað annað? Kirkjuárið hefst á fyrsta sunnudegi í aðventu og svo marka stórhátíðirnar þrjár, jól, páskar og hvítasunna, ákveðna hápunkta. Uppstigningardagur er nýafstaðinn, og nú er síðasti sunnudagur fyrir hvítasunnu.

 

Allir eiga þessir dagar sitt samhengi, sínar frásögur, sinn boðskap. Mjög snemma í sögu kristinnar kirkju urðu til svokallaðar textaraðir, þ.e.a.s. textar sem lesnir eru á þessum ólíku sunnudögum og helgidögum og hátíðum kirkjuársins.

 

Textaraðir þjóðkirkjunnar eru þrjár, og reglan er sú að fyrsta röðin er lesin annað hvert ár en röð tvö og þrjú þar á móti. Sem sagt röð eitt, og næsta ár röð tvö, svo aftur röð eitt, og þá röð þrjú, svo aftur eitt, og þá röð tvö og þannig áfram samkvæmt þessari reglu. Í ár er þriðja lestrarröðin á dagskrá.

 

Nýja testamentið

 

Sagt hefur verið að hinir fyrstu kristnu hafi heimsótt staði atburðanna, á þeim dögum og tímum ársins sem þeir áttu að hafa gerst. Helgihald frumkirkjunnar fólst m.a. í því að söfnuðurinn fór til Betlehem á jólum, upp á Golgata á páskum og þannig mætti áfram telja.

 

En þegar kirkjan breiddist út um heiminn varð þetta erfiðara, þ.e.a.s. að fara á hina helgu staði á tilteknum tímum og dögum. Þá voru það frásögurnar, textarnir, sem færðu atburðina til okkar, hvar sem söfnuðurinn kom saman, í norðri, austri, vestri eða suðri.

 

Og gjarnan hefur kirkjan sett á svið, samhengið, til dæmis á jólum, þar sem jatan er gjarnan í kirkjum og litla Jesúbarnið ásamt Maríu og Jósef, eða fengið börn til að leika helgileiki, til dæmis er frásagan af miskunnsama Samverjanum ein mest leikna frásagan í Vatnaskógi, ef ég þekki rétt, og þannig mætti áfram telja.

 

Svo má segja að pílagrímaferðir hafi sett áfangastaðina aftur á dagskrá, þar sem fólk ferðast um langan veg til að koma í landið helga, signa sig upp úr ánni Jórdan, feta í fótspor lærisveinanna, feta í fótspor Jesú.

 

Pílagrímagöngur hafa síðan á undanförnum áratugum komist aftur í tísku, ef svo má segja, fólk gengur Jakobsveginn og pílagrímaleiðirnar eru margar. Fjölmargar þeirra liggja til Rómar.

 

Það er djúp reynsla tengsla, innlifunar og úrvinnslu tilfinninga, sem fylgir því að ferðast á slíkan máta og fara slíka leið í bæn. Áfangastaðirnir eru gjarnan vettvangur helgra atburða úr Biblíunni eða staðir sem eiga sér djúpa trúarlega skýrskotun eða sögu. Einnig sögu sem sagt er frá í textum Biblíunnar.

 

Pílagrímaleiðir eru til hér á landi, og hefur hópur fólks dregið þær leiðir fram, gengið þær leiðir við ákveðin tilefni, og er það til dæmis fastur liður í tengslum við Hólahátíð og Skálholtshátíð að ganga um langan veg, á hina helgu staði.

 

Að setja sig á þann máta í spor þeirra sem á undan gengu er mikill lærdómur.

 

Að setja sig í annarra spor

 

Lærdómar Biblíunnar, textanna og frásagnanna, eru margir og viskan djúp. Sumt þar er háfleygt og torskilið, annað jarðbundið og auðskilið.

 

Það er líkt og gengnar kynslóðir hafi ritað textana okkur til lærdóms, íhugunar og opinberunar.

 

Það er nefnilega eins og það séu gengnar kynslóðir sem rita textana, lærdómur margra er þar að baki, og jafnvel lærdómar frá Guði sjálfum, eins og við segjum.

 

Einn helsti lærdómurinn fjallar einmitt um mikilvægi þess leggja sig fram um að setja sig í annarra spor. Við þekkjum hvað slíkt er dýrmætt og mikilvægt, þ.e. til að freista þess að skilja aðra betur.

 

Guð sjálfur hefur gengið í fótspor mannsins hér í heimi, með fæðingu Jesú og lífshlaupi hér á jörð, það er eitt af meginstefjum kristninnar.

 

Það er einn af rauðum þráðum kristninnar að Guð hafi einmitt sett sig í mannsins spor. Hafi gengið leið mannlegrar þjáningar, og viti því og þekki raunir mannsins og heimsins.

 

Auðmýkt og hroki

 

Lærdómur Davíðssálmsins sem lesið var úr hér áðan er að hluta til jarðbundinn og auðskilinn. Eins og sálmaskáldið segir:

 

Áður en ég varð auðmjúkur villtist ég
en nú varðveiti ég orð þitt.

 

Áður en hann varð auðmjúkur.

 

Hvað er maður þegar maður er ekki auðmjúkur?

 

Hver er andstæða auðmýktar?

 

Hroki, er það ekki?

 

Auðmýktin er einn af grunnlærdómum Biblíunnar. Auðmýkt og mildi liggur eins og rauður þráður í gegnum bækur Biblíunnar.

 

Auðmýkt er ein af forsendunum fyrir því að okkur lánist að setja okkur í annarra spor, að við reynum að skilja aðra, viðurkenna að við séum ekki endilega með allt á hreinu.

 

Viska

 

Í því felst djúp viska.

 

Hún er í ætt við visku grísku heimspekinganna, eins og Sókratesar, en eftir honum er haft: Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.

 

Sálmaskáld Davíðssálma er á svipuðum nótum, eins og segir:

Áður en ég varð auðmjúkur, villtist ég af leið…

 

Auðmýktin er eins og lykill að skilningi, lykill að djúpri visku, lykill að því að við hleypum Guði og orði hans nálægt hjarta okkar.

 

Svo er stundum eins og auðmýktin kvikni þegar skóinn kreppir.

 

Þegar við höfum misst, orðið fyrir sorg, þegar heilsan brestur eða við höfum sett okkur markmið sem ekki ganga upp, hlaupið á vegg, sjáum að við náum ekki að gera það sem við ætluðum eða verða það sem okkur dreymdi um.

 

Þeir sem hafa gengið sporin, á vettvangi AA samtakanna eða Vina í bata, þekkja hvaða grunnur það getur verið að byggja á, þegar maðurinn eignast slíka reynslu. Það getur nefnilega verið sterkur grunnur að byggja á, þegar hlutirnir ganga ekki upp hjá okkur.

 

Það var haft eftir körfuboltamanninum, eða körfuboltagoðsögninni, Micheal Jordan, sem Nike Air Jordan skórnir heita eftir, að hann hefði tapað svo og svo mörgum leikjum, klikkað á svo og svo mörgum skotum, brennt af svo og svo mörgum vítaköstum, en einmitt vegna alls þess sem ekki gekk upp, náði hann að skerpa sig, æfa og verða betri og betri, og svo bestur í sinni grein í heiminum.

 

Pabbi heitinn sagði einmitt stundum við mig, þegar ég kom heim úr skólanum með slaka einkunn, það gerðist nú kannski ekki mjög oft, en s.s. stundum, þá sagði hann: “Ja, það er greinilega rými til bætingar.”

 

Mér þykir vænt um þau orð í dag. Mér fannst það auðvitað ekkert skemmtilegt þá að hafa ekki staðið mig vel.

 

Sálmaskáld Davíðssálma orðar þetta svona:

 

Það varð mér til góðs að ég var beygður
svo að ég gæti lært lög þín.

Sálmaskáldið fann það sem sagt út að án erfiðleikanna þá gat sálmaskáldið illa lært lærdómana sem Guð vildi kenna.

 

Í gegnum erfiðleikana opnast á auðmýktina og lærdómur og ný reynsla verða til.

 

Eins og einhver sagði:

 

Í gegnum sprungurnar í mannlífinu, kemst ljósið inn.

 

Og sálmaskáldið heldur áfram og segir:

Lögmálið úr munni þínum er mér mætara
en þúsundir skildinga úr silfri og gulli.

 

Já, það er einhvern veginn þannig að boðskapurinn sem berst okkur úr þessum helgu ritum er okkur ómetanlegur. Það er ekkert sem kemur í staðinn. Ekkert sem silfur og gull geta keypt.

 

Hinn nýi maður

 

Og postulinn útleggur þetta enn frekar og talar um að við eigum að íklæðast hinum nýja manni.

 

Þetta er skemmtileg myndlíking, sem felur í sér ansi mikla von, þar sem það er líkt og við getum hreinlega klætt okkur í ný föt og þá verður lífið betra.

 

Sem sagt við eigum að hætta því sem vont er, og innleiða allt hið góða. Segja skilið við reiði, bræði, vonsku, lastmæli og svívirðilegt orðbragð. Ekki ljúga hvert að öðru. Þannig afklæðumst við hinum gamla manni og íklæðumst hinum nýja.

 

Og svo undirstrikar postulinn að þetta getur hver sem er gert. Þetta er ekki spurning um uppruna okkar, þjóðerni, kyn eða stöðu, því Kristur er allt og í öllum. Það er bara okkar að taka á móti því, kveikja á perunni, fatta það, fókusera á það, finna leið til að glæða þá staðreynd ljósi og lífi í okkar eigin hjarta.

 

Þessi tónn postulans er í takt við boðskap sköpunarsögunnar þar sem segir að maðurinn sé skapaður í Guðs mynd. Það sé eitthvað guðlegt fræ í brjósti hvers manns, sem sé okkar að hlúa að og láta blómstra í okkar lífi.

 

Auðmýktin og mildin

 

Við finnum það á svona textum hve rangt það er þegar manneskjan setur sig á háan hest á grundvelli trúar sinnar. Einkenni trúarinnar hjá hinum nýja manni, ef við vísum í orðalag postulans, þá er hún ávallt leitandi, auðmjúk, mild, gæskurík og þjónandi.

 

Trúin er því ekki tæki til að dæma aðra heldur getur verið grundvöllur þjónustu, þar sem hinn kristni þjónar náunga sínum, ekki af því að náunginn sé kristinn, heldur er þjónustan veitt af því við erum kristin.

 

Guð veiti okkar náð sína til að sýna öðrum mildi og auðmýkt og þá gæfu að leitast við að setja okkur í annarra spor.

 

Í Jesú nafni. Amen.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé og veri með yður öllum. Amen. 


Textar: 

Sálmarnir: 119:65-72

Kól. 3:8-11

Jh. 15:18-25


Prédikun flutt í Grensáskirkju 6. sd. e. páska, 12. maí 2024 kl. 11.