Útlegð

Útlegð

Aldingarðurinn okkar getur verið réttlátt samfélag, sem hverfur af réttri braut. Hann getur verið ástarsamband sem spillist. Hann getur verið vinátta sem bregst. Traust, sem rofnar. Sönn og einlæg trú sem verður sjálfhverf, fordómafull og dæmandi og víkur af hinni réttu braut

Fyrir nokkrum árum heimsóttum við hjónin Gyðingasafnið í Berlín. Safnið er nýtt af nálinni, opnaði árið 2001 og hefur arkitektinn, Daniel Liebeskind hlotið mörg verðlaun fyrir frábæra en um leið áleitna hönnun. Byggingin er í raun langur gangur á mörgum hæðum, sem tekur á sig ýmsa króka. Hún er líkust eldingu séð að ofan, nú eða jafnvel í tilefni texta dagsins: höggormi sem hlykkjast eftir jörðinni. Slíkt er vel við hæfi því ekki verður sagt að ferðalag um þetta safn, þennan kræklótta langa gang, sé skemmtiför. Einnig má líta á formið sem eins konar ör á yfirborði þessarar höfuðborgar Þýskalands sem horfir til þeirrar hryllilegu fortíðar sem helförin er.

Útlegðarútskotið

Saga Gyðinga er jú saga mikilla þjáninga. Hönnunin tekur mið af því, Og ódæðisverkin sem unnin voru á Gyðingum í tíð Þriðja ríkisins eru ekki aðeins dregin upp í tölum eða súluritum. Gesturinn fær að hlýða á frásagnir um einstaklinga sem áttu sér vonir og drauma en voru svo myrtir af nazistum. Þar liggur t.d. leikfang eða læknataska í glerbúri og svo geta menn hlýtt á frásögn um eigandann og örlög hans. En böðlarnir héldu í sumum tilvikum nákvæma skráningu um fórnarlömb sín.

Meðal þess sem safn þetta hefur að geyma, eru útskot þar sem hvert er helgað ákveðnu stefi í sögu þjóðarinnar. Eitt þeirra, tengist textum dagsins, þótt sú tenging kunni kannske ekki að blasa við í fyrstu. Það hefur yfirskriftina útlegð. Já, hið forna var þjóð þessi umkringd voldugum og öflugum nágrönnum. Fyrir kom að óvinaher þrammaði yfir landið og lagði eign sína á allt það sem einhvers virði var. Meðal annars tóku þeir þorra fólksins herskildi, fluttu það í land sitt þar sem það mátti þræla, hver kynslóð af annarri.

Það voru ár útlegðar og þær voru einhver ömurlegasti tíminn í sögu þessarar þjóðar – en um leið, sá sem mest hefur skilið eftir í formi ódauðlegra bókmennta. Það segir mikið um þann mátt sem trú þeirra og menning hafði að jafnvel hið erfiðasta ok dugði ekki til þess að brjóta niður samstöðuna og vonina um að snúa aftur til landsins helga. Í útlegðinni var hugur fólksins haldinn sekt og skömm fyrir að hafa glatað landinu sínu og heimkynnum. Þau sáu það í baksýnisspeglinum góða hvernig rangar ákvarðanir höfðu verið teknar og rangar leiðir valdar. Freistingarnar sem sóttu að fólkinu á þeim tíma þegar allt lék í lyndi voru jú miklar. Það sá ekki að sér, fór út fyrir þau mörk sem það hefði átt að virða. Auðstéttin safnaði enn meiri auði en aðrir sultu. Enginn hirti um þá sem áttu undir högg að sækja, ekkjan og munaðarleysinginn máttu eiga sig, útlendingarnir voru utangarðs. Við þessu höfðu spámennirnir varað en fáir lögðu eyrun við slíkum úrtöluröddum. Ekki fyrr en það var allt um seinan.

Við könnumst kannske við þennan tíðaranda þessi misserin hér uppi á Íslandi. Jú sveiflurnar hafa verið oft óþægilega miklar. Þær birta okkur því miður mikinn sannleika um verðmætamat okkar og forgangsröðun. Vissulega beið okkar ekki útlegð eftir síðustu holskeflu en þó hefur hrunið hrakið marga frá heimkynnum sínum, eins og við öll þekkjum. Það hefur sýnt á okkur aðra mynd en við myndum e.t.v. sjálf kjósa. Já, neytt okkur til þess að horfa á okkur sjálf í spegli og horfa á okkur sjálf í baksýnisspeglinum þegar við vissum ekki betur en uppsveiflan tæki engan enda.

Aftur til Berlínar

Fastan er byrjuð, kæru kirkjugestir og þessi neikvæði tónn hæfir þeim tíma. Hún er tími íhugunar, endurskoðunur, já iðrunar – hvað sem það orð merkir í huga nútímamannsins. Það er örið á yfirborðinu, rétt eins og Gyðingasafnið í Berlín. Eitthvað sem passar ekki inn í myndina, en þarf þó að vera þar til þess að minna okkur á það að stundum bregðumst við. Ritningartextar fyrsta sunnudags í föstu eru reyndar ekki skornir við nögl. Hér höfum við nokkur af kunnustu persónum Biblíunnar: Adam og Eva, höggormurinn, Guð sjálfur gangandi um í kvöldsvalanum. Hér eru líka andstæður, eins og svo oft í lífinu: Aldingarður og eyðimörk, frelsari og freistari, já og texti postulans rammar þetta allt inn þar sem hann parar sama hina ólíkustu þætti: „Þótt talinn sé villumaður segi ég sannleikann, sagður óþekktur en er alþekktur, kominn í dauðann og samt lifi ég, tyftaður og þó ekki deyddur, hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt.“ Hér er líklega ekki allt sem sýnist og ólíkindin eru með ólíkindum.

Allt hefur þetta þann bakgrunn sem gyðingdómurinn er og kristin kirkja hefur alla tíð varðveitt og miðlað áfram. Já, einnig Passíusálmarnir eru dæmi um þá arfleifð þótt þeir sitji nú undir ómaklegri gagrýni um hlutdeild í böli og ofsókum.

Aftur til Berlínar. Í útlegðarskotinu gekk gesturinn inn í undarlegt rými þar sem gólfið hallaði á ýmsa kanta og háar svartar ferhyrndar súlur gengu upp úr gólfinu marga metra upp í loftið. Þær stóðu svo þétt að menn sáu var handa skil en fetuðu sig milli þessara hindrana eftir skökku gólfinu. Tilfinningin var jú sú að menn voru utanveltu, á röngum stað á röngum tíma – sáu ekki framundan sér og vildu svo gjarnan komast burt. En hvert? Jú ef horft var upp eftir súlunum, upp til himins þá blasti við augunum ólívutré sem plantað hafði verið þar efst. Einmitt. Þarna utan seilingar var þess sýn sem er okkur mönnunum svo sterk og tengir okkur við hið fullkomna jafnvægi – gróandinn, trén og vöxturinn sem þar er. Rétt eins og minning um aldingarð þar sem allt var með felldu, þar sem allt var eins og það átti að vera – upprunareitur okkar þar sem við hefðum svo sannarlega átt heima.

Gyðingarnir sem þræluðu í útlegð við Babýlónsfljót sögðu hver öðrum söguna af Adam og Evu sem voru hrakin úr hinum iðjagræna aldingarði. Þeir geymdu í minningu sinni frásögnina af hinu fullkomna ástandi sem syndin hafði spillt og hrakið þau frá. Breyskeiki mannsins eyðilagði það sem var svo gott og sagan – sem er jú eins og óður til veikleika mannsins – lýsir því svo vel hvernig við villumst af leið og glötum öllu því sem okkur er dýrmætt. Það sem ekki má verður svo miklu meira spennandi en það sem má.

Úr aldingarði í útlegð

Sagan um Adam og Evu – Karl og konu eins og orðið þýðir á hebresku er áminning. Hún er flutt fólki sem var í þrældómi. Það verkjaði í liðina, það var svangt, það var niðurlægt og vonsvikið. Það var fullt sjálfsásökunar yfir því sem það hafði glatað en hefði getað varðveitt svo miklu betur. Meira að segja svörin sem þau gefa Guði er hann gengur um í kvöldsvalanum svipta þau þeim afsökunum sem væri þó svo tamt að brúka. „Konan sem þú gafst mér lét mig eta af trénu“, „Höggormurinn sagði mér að brjóta regluna.“ Nei, sökinni verður ekki varpað yfir á aðra, slíkt ynni ekki gegn þeim dómi sem yfir þeim vofði. Þau voru brottræk gerð.

Hver er aldingarðurinn okkar? Hvar er það tré sem við megum ekki eta af, og verður þá eftirsóknarverðari en það sem við megum njóta af. Aldingarðurinn okkar getur verið réttlátt samfélag, sem hverfur af réttri braut. Hann getur verið ástarsamband sem spillist. Hann getur verið vinátta sem bregst. Traust, sem rofnar. Sönn og einlæg trú sem verður sjálfhverf, fordómafull og dæmandi og víkur af hinni réttu braut. Jafnvel eitthvað sem virðist saklaust en fer svo að stjórna lífi okkar. Dægradvöl sem sogar til sín stundirnar okkar og við vitum ekki fyrr en hún hefur hindrað okkur í því að láta drauma okkar rætast.

Já, hvar eru þau tré sem við megum ekki snæða af? Það eru þau tré sem svipta okkur mennskunni, ræna okkur tilganginum og gera okkur að þrælum þeirra afla sem ekki eiga að stjórna okkur. Gera okkur að útlögum frá því sem okkur er dýrmætt og kært.

Rétt eins og gesturinn í safninu fann ráðleysi sitt og villu innan um háar súlurnar, en skynjaði í fjarskanum hið eftirsóknarverða ástand.

Fastan og útlegðin

Fastan og útlegðin eru nátengd. Á föstunni hið forna minntust Gyðingar göngunnar í gegnum eyðimörkina frá þrælakistunni í Egyptalandi yfir til landsins fyrirheitna. Sú leið tók fjörutíu ár og fasta Krists í eyðimörkinni vísar til þeirrar eyðimerkurgöngu. Kristur svarar einmitt freistaranum með því að benda á mörkin sem okkur eru sett en þó fyrst og fremst tilganginn sem býr að baki gjörðum okkar. Þetta svar hans rammar það inn hvernig við stöndumst þær freistingar sem geta gert okkur að útlögum í eigin lífi. „Drottin Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ Það er þetta sem skilur á milli feigs og ófeigs. Hverjum þjónar þú? Hverjum helgar þú lífi þínu? Eru það forgengilegir hlutir, fallvaltar hugmyndir, er það innihaldslaus dægrastytting? Eða er það Guð kærleikans sem skapar þig og fyllir lífi þínu innihaldi og tilgangi?