Opin eyru og lausar tungur

Opin eyru og lausar tungur

Í síðustu viku fjallaði Morgunblaðið um könnun á því hvað við Íslendingar teljum vert fórnar og áhættu. Þar kom fram að þorri Íslendinga telur að málefni eins og mannréttindi, heimsfrið, baráttu við fátækt, gegn kynþáttafordómum, jafnrétti og umhverfismál verð fórnar og áhættu.

Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú.

Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Mk 7.31-37

Kæri söfnuður, við skulum byrja á því að nota ímyndunaraflið.

Sjáum fyrir okkur litla barnsfingur, sem leita öryggis og læða sér því í stærri lófa, pabbalófa eða mömmulófa, afa- eða ömmulófa og líður vel.

Hugsum okkur göngutúr, hér á Þingvöllum, kannski eftir svolítinn skúr, sem hefur dregið fram ilminn og angan nátturunnar.

Sjáum fyrir okkur mann sem liggur á mosabeði í miðju hraunflæmi. Skammt frá seitlar lækjarsytra. Hjalið frá henni er á við bestu vögguvísu.

Barnið snertir. Trén ilma. Lækurinn hjalar.

Við eigum örugglega öll minningar um upplifanir af þessu tagi. Augnablik þar sem eitthvað sérstakt gerðist, þar sem sjón eða heyrn eða bragð eða snerting eða lykt – ein sér eða í samspili við annað – leiddi til þess að augnablikið og eilífðin féllu saman og urðu eitt.

Hvers vegna nefni ég þetta? Vegna þess að guðspjall þessa sunnudags fjallar öðrum þræði um skilningarvit.

Einn maðurinn sem sem guðspjallstexti þessa sunnudags fjallar um - sá sem þáði lækninguna - var í þeirri stöðu að hann naut ekki allra sinna skilningarvita óskertra.

Og sagan af honum og Jesú fjallar í raun um opnun skilningarvita. Út á það gengur lækningin. Það má líka horfa á hana frá öðru sjónarhorni og heimfæra frásöguna á okkur og okkar tíma og segja að textinn fjalli um það sem kalla mætti trúarlega opnun á upplifuna af heiminum.

Slíka opnun má kannski tengja við fegurðina. Það gerir írska skáldið og guðfræðingurinn og presturinn John O'Donohue þegar hann skrifar:

Ef sýn okkar á heiminn er fögur þá kemur fegurðin í ljós og hún verður okkar ljós. Og, okkur að óvörum, uppgötvum við fegurðina þar sem við væntum hennar síst, þar sem augu sem ekki eru upplýst af náðinni myndu aldrei staldra við. Divine Beauty, 29

Hann lýsir mótum Guðs og manns með því að grípa til þessa hugtaks sem við þekkjum vel, náðar, og hann segir að augu þess sem hefur verið snertur séu náðar-augu. Hann skrifar:

Náðar-augun geta fundið fegurðina hvarvetna vegna þess að fegurðin er ekki frátekin eða bundin við sérstakar stundir eða atburði; hún bíður ekki fullkomnunarinnar heldur er hún hvarvetna til staðar (en í leynum). Þegar sýn okkar er fegruð [með þessum hætti] verður náð hinnar leyndu fegurðar að gleði okkar og athvarfi. Divine Beauty, 29

Þetta má umorða svona: Þegar við höfum verið snert af náðinni – þegar Guð hefur mætti okkur og við höfum mætt Guði – getum við upplifað heiminn eins og hann er: Fullan af fegurð, sem sköpun Guðs. Og sú upplifun er reyndar ekki bundin við augun heldur tengist hún öllum okkar skilningarvitum.

* * *

Í guðspjallinu er afleiðingum lækningarinnar - kraftaverksins - lýst svona:

„Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt."

Það er semsagt tvennt sem gerist þegar Guð og maður mætast. Annað höfum við þegar rætt, opnun skilningarvitanna. Hitt er einhvers konar möguleiki á nýrri tjáningu. Tunguhaftið losnar. Þegar Guð og maður mætast með þessum opnast semsagt fyrir nýja upplifun af heiminum og afleiðing þess er ný tjáning.

Ný upplifun — Ný tjáning.

Og í raun ný upplifun sem leiðir til eða kallar fram nýja tjáningu.

Þá erum við reyndar komin að svolítilli þverstæðu. Jesús bannar þeim sem urðu vitni að þessu að segja frá, en því er ekki hlýtt. Og það virðist reyndar vera sem svo að bannið hvetji menn frekar til frásagnarinnar en hitt. „En svo mjög sem hann bannaði þeim, því frekar sögðu þeir frá því."

Kannski endurspeglar þetta þá einföldu staðreynd að sumt sem við upplifum er bara svo magnað að það er ekki hægt að þegja yfir því.

Nýbakaðir foreldrar tala um barnið sitt, sú sem hefur verið úti í náttúrunni og upplifað dýrð sköpunarinnar þarf að segja frá því og við vitum hvernig góð skáldsaga, vel ort ljóð, magnað listaverk eða jafnvel góð kvikmynd kallar fram þörfina til að deila með öðrum. Segja frá. Miðla.

Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að geta sér til um að vitni að kraftaverkum Jesú hafi verið svo innblásin að þau hafi viljað segja frá.

* * *

Það má líka hugsa sér að stíga eitt skref til viðbótar og segja að textinn setji í raun fram fullyrðingu um okkur. Og hún gæti verið eitthvað á þessa leið: Snerting Guðs – náðin – getur losað um okkar trúarlega tunguhaft.

Og hvað þýðir það?

Það þýðir að við getum sagt við okkur sjálf og um okkur sjálf:

Ég er manneskja. Sköpuð af Guði. Og snert af heilögum anda Guðs. Kölluð til lífs með Guð mér við hlið. Kölluð til að bera Guði vitni í orði og í verki.

Hér langar mig reyndar að fá að gera smá útúrdúr – sem kannski er enginn útúrdúr. Í síðustu viku fjallaði Morgunblaðið um könnun á því hvað við Íslendingar teljum vert fórnar og áhættu. Þar kom fram að þorri Íslendinga telur að málefni eins og mannréttindi, heimsfrið, baráttu við fátækt, gegn kynþáttafordómum, jafnrétti og umhverfismál verð fórnar og áhættu (ýmist mikilla fórna eða nokkurra).

Í sömu könnun kom fram að mun færri telja eigin trúarbrögð verð mikilla fórna eða áhættu. Mér þótti þetta athyglisvert, ekki síst vegna þess að trúin – og trúarbrögðin – eru ekki sértækur og afmarkaður veruleiki á sviði lífsins heldur kannski sá veruleiki sem hvetur okkur til að ganga alla leið. Það má orða þetta öðruvísi:

Að losa um tunguhaft trúarinnar þýðir ekki að við tölum upp frá því bara um Jesú eða Guð. Að við endum allar setningar á tilvísun til Guðs. Heldur að við tölum um og leitumst við að vinna í þágu hins góða og fagra og mikilvæga. Í þágu þess markmiðs sem Guð hefur fyrir heiminn. Berjumst gegn ranglæti og misrétti. Berjumst til að mynda fyrir mannréttindum, heimsfriði, fátækt, fordómum, jafnfrétti.

Þið sjáið kannski hvað ég er að fara hér.

Og þá má spyrja: Eru svör af þessu tagi ekki bara ágæt? Eru þau kannski til marks um að það hafi tekist ágætlega til því fólk er tilbúið að fórna sér fyrir náungann og fyrir það góða, en ekki endilega trúarbrögðin sem slík. Því það eru ekki trúarbrögðin sem slík sem skipta máli heldur Guð og það að vinna að og í þágu markmiða Guðs í og með heiminum.

Er ég þá að segja að kirkjan skipti engu máli?

Nei, því fer fjarri.

Kirkjan skiptir höfuðmáli því hún er samfélag kristinna manna, eins og segir í stefnumótun Þjóðkirkjunnar: „Þjóðkirkjan er lifandi og kröftug hreyfing fólks sem á samleið í trúnni á Guð sem Jesús Kristur birtir og boðar."

En kirkjan er ekki markmið í sjálfri sér. Og það er ekki hlutverk eða hlutskipti kirkjunnar að upphefja sjálfa sig eða jafnvel að ota sér fram að heldur að halda fram Jesú Kristi, krossfestum og upprisnum, frelsara mannanna, sem er nálægur, hér og nú, í heilögum anda. Og í þessum sama heilaga anda nálgast hann okkur, hreyfir við okkur, snertir okkur, og umbreytir okkur.

Og um það fjallar guðspjall þessa dags. Hvernig Kristur kallar og opnar skilningarvitin – gefur okkur, eins og manninum í frásögn dagsins, augu og eyru náðarinnar sem að sjá og heyra. Og hvernig hann losar um þetta tunguhaft trúarinnar þannig að við getum orðað hlutina eins og þeir eru og erum tilbúin til góðra verka. Erum tilbúin að fórna okkur fyrir það sem raunverulega skiptir máli í samtímanum: Eins og náungann og Guðs góðu sköpun.

Guð leiði okkur áfram, í því og til þess.