Myndirnar af Jesú.

Myndirnar af Jesú.

Myndin sem hann vill að við förum með heim í dag í hjarta okkar er myndin af honum krossfestum og upprisum þar sem hann segir við okkur: Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Og hann bætir við: Sjá ég er með ykkur alla daga.. Á myndinni minni erum við Jesús alltaf saman á ferð. Vonandi er því eins farið hjá þér.

Sem drengur safnaði ég myndum. Það voru myndir sem ég fékk í sunnudagaskólanum sem ég sótti af trúfesti í átta ár. Hvern sunnudag fengum við mynd og þeim var síðan safnað í sérstakar bækur eða albúm til að geyma myndirnar í. Þetta voru Biblíumyndir, meðal annars af Jesú við alls kyns tækifæri. Þar á meðal var fæðing hans í Betlehem, Jesús sem drengur heima í Nasaret, Jesús að kalla lærisveinana, Jesús að vinna hin ýmsu kraftaverk, Jesús að kenna fjallræðuna eða segja dæmisögur. Einnig voru myndir af Jesú á krossinum, honum einum eða með ræningjunum. Þá man ég eftir myndum af því þegar Jesús var tekinn niður af krossinum og lagður í gröf. Síðan voru myndir af opinni gröf og af Jesú upprisnum og mynd sem var af guðspjalli dagsins – þar sem Jesús sendir lærisveina sína út í heiminn og segir: Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum. Þetta voru margar mismunandi myndir, myndir sem saman mynduðu eina góða heildarmynd af frelsaranum Jesú Kristi.

Myndin af krossinum

Margar af myndunum mínum tengdust krossfestingu Jesú, enda gera guðspjöllin mikið úr þeim atburði, þar er ýtarlega sagt frá öllu. Biblían talar um krossdauða Jesú á ýmsan hátt, meðal annars með orði sem mikið hefur verið í umræðunni hér á landi undanfarin ár, sem er skuldavandi. Reyndar ekki þann skuldavanda heimilanna sem margir bíða lausnar á, heldur skuldavanda okkar gagnvart Guði. Það eru skuldirnar sem við minnumst á þegar við biðjum Faðir vor. Páll postuli talar um krossdauða Jesú sem aðgerð Guðs gegn skuldavanda okkar. Skuldabréf okkar var nelgt á krossin, skuldin afmáð, brot og brestir fyrirgefin vegna dauða Jesú. Líklegast er það skýringin á því af hverju myndirnar af Jesú á krossinum voru og eru mér enn dýrmætar. Afbrot okkar, brestir og skeytingarleysi okkar um Guð og það sem hans er kallar Jesús skuld, skuld sektar. Jesús glímdi við þann skuldavanda. Páll postuli skrifaði: Hann tók burt skuldabréfið sem þjakaði okkur með ákvæðum sínum. Og við megum biðja og segja: Fyrirgef oss vorar skulir.

Myndin af Jesú upprisnum

Aðrar myndir sem ég átti voru af Jesú upprisnum. Hann hafði sigrað dauðann sem var í raun óhugsandi, en enginn var, og enginn er, sem Jesús. Upprisumyndirnar af Jesú voru meðal annars af honum í garðinum hjá gröfinni, fyrir luktum dyrum í Jerúsalem og á leiðinni til Emmaus. Guðspjall dagsins í dag geymir eina þessara mynda: Jesús og lærisveinarnir á fjallinu í Galíleu. Þarna á fjallinu sendi hann lærisveinana af stað: Farið og gerið fólk að lærisveinum. Fagnaðarerindið er ekki aðeins fyrir ykkur sem hafið verið með mér. Það er fyrir alla menn, og allir geta núna trúað á mig, verið með mér og í mér fyrir verkan heilags anda. Fagnaðarerindið þurfti – og þarf að fá að hljóma. Það er hlutverkið sem Jesús gaf lærisveinum sínum.

Skilaboð Jesú voru stutt og skýr, en þó ekkert einföld. Ekkert var um yfirstjórn, nefndir, skipulag eða kirkjubyggingar – ekkert um allt mögulegt. Drífið ykkur bara af stað! Enginn undirbúningur heldur? Jú, reyndar, þeir höfðu verið með Jesú, nánast dag og nótt, í þrjú ár. Kölluð til að fylgja og fara

Frá þeim degi hefur þetta verið verkefni kirkjunnar, að gera fólk að lærisveinum, lærlingum Jesú – og verðr þar til Jesús kemur aftur. Og til að geta gert aðra að lærlingum þarf maður að hafa verið, og að vera sjálfur, lærlingur í læri hjá Jesú. Það þýðir að ganga með honum, lifa með honum, treysta honum, tala við hann, hlusta á hann og keppa eftir því að halda allt það sem hann hefur boðið okkur. Á þeim forsendum erum við kölluð til að fara með honum til allra þjóða og þjóðabrota með fagnaðarerindið; að segja þeim söguna um Jesú, að gefa þeim mynd af honum.

Fagnaðarerindið, sagan um Jesú, er kraftur Guðs – vegna þess að það bjargar fólki úr ógöngum sínum, það er kraftur Guðs til að frelsa – að reisa við þau sem brotin eru. Það er kraftur Guðs til að fyrirgefa í heimi sem er fljótari að hata en elska. Það bregður upp myndinni af hinum lifandi, nálæga, raunverulega Jesú Kristi sem hefur sigrað dauðann. Hann vill vera frelsari, vinur, hann er Drottinn, bróðir, lífgjafi okkar og læknir.

Að vera lærisveinn Jesú er meira en eitt „já“ einhvern tíman á lífsleiðinni. Það er meira en að samsinna því að sagan um Jesú sé sönn. Það snýst um daglegt samfélag, daglega iðrun, daglega játningu: „Ég er þinn, Jesús. Ég er þín, Jesús.“ Við lifum með Jesú því að við þurfum á honum að halda, fyrirgefningu hans og miskunn, frá degi til dags. Sem kristniboði í Pókothéraði í Keníu kynntist ég mörgum sem höfðu upplifað þennan kraft fagnaðarindisins og eignast nýtt líf með Jesú. Því fylgdi ný von, ný gleði, ný sjálfsmynd og björt framtíð þó svo útlitið væri dökkt.

Við getum líka skoðað aðstæður okkar, horft til dæmis á vanda þjóðkirkjunnar og misst móðinn. Kirkjan er oft gagnrýnd, minnkandi fjárframlög hamla starfi hennar og þannig má ýmislegt tína til en er ekki aðalvandi kirkjunnar. Vandi hennar er frekar sá að kristið fólk lætur trúna skipta sig æ minna máli. Við höfum jafnvel gefið í skyn að þetta sé ekki svo mikilvægt, að trúin sé einkamál, hún hafi lítill sem takmörkuð áhrif á okkur. Við verðum jafnvel feimin þegar trúmál ber á góma. Við drögum gjarnan úr orðum Jesú, gerum þau þægilegri en þau eru, því þau eru langt því frá að vera öll þægileg.

Kristniboðsstarfið

Þannig hefur það heldur ekki alltaf verið. Í aldanna rás hafa margir lagt af stað í fylgd með Jesú. Ekki til að gera alla að lærisveinum, en til að sinna ákveðnum hópi, ákveðnu landi, ákveðinni þjóð eða þjóðarbroti. Íslenskir vinir kristniboðsins hafa verið að í rúma öld. Kristniboðssambandið hefur tekið þátt í stórmerkileg útbreiðslustarfi og ávöxturinn er víða, ekki síst í Kína, Eþíópíu og Keníu. Við Íslendingar höfum fengið að taka þátt í kraftaverkinu – að kirkja Krists hefur breiðst út um heiminn. Með því að skoða aðeins Ísland og Evrópu getum við látið hugfallast. En á heimsvísu er myndin skýr: Þeim fer fjölgandi ár frá ári sem teljast til kristinnar trúar og kjósa að taka trú sína alvarlega, þ.e. vera virkir kristnir instaklingar. Þess sjást reyndar merki líka í Evrópu.

Á sama tíma erum við minnt á margvíslegar ofsóknir á hendur kristnu fólki. 200 milljónir kristinna manna búa við þrengingar vegna trúar sinnar. Við erum minnt á að biðja fyrir þeim sem sæta óréttlæti, sitja í fangelsi og fjölskyldum þeirra sem misst hafa ættingja í ofsóknum vegna þess að þeir hafa játað trú sína á Jesú Krist.

Hið arabíska vor sem margir bundu vonir við hefur víða breyst í vetrarhörkur fyrir kirkjur og kristið fólk í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku þó svo vissulega sé mikill munur frá einu landi til annars. Kirkjur hafa verið brenndar og eyðilagðar, kristið fólk myrt eða því hótað illilega. Forystufólk kirknanna á þessu svæði hafa lagt áherslu á það að kirkjur samanstandi ekki af kirkjubyggingum heldur fólki sem saman myndar líkama Jesú Krists á jörð, fólki sem trúir á hann og styrkist í trú sinni andspænis aðsteðjandi erfiðleikum. Það er von þess í andstreyminu.

Fjölmiðlar og fagnaðarerindið

Í ár viljum við hjá Kristniboðssambandinu minna á samstarfsaðila okkar í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, sjónvarpsstöðina Sat 7, sem er sameiginlegur vettvangur margra kirkna, aldagamalla og ungra, á þessu svæði. Dagskráin er að mestu unnin heima fyrir og sniðin fyrir ríkjandi menningu. Sent er út á arabísku, tyrknesku og farsi. Ein rásin er barnarás sem sendir út kristilegt efni allan sólarhringinn. Samkvæmt mælingum eru áhorfendur um 15 milljónir manns, þar af um 9 milljónir börn.

Sat 7 er rödd vonar og kærleika, uppörvunar og hvatningar í heimi þar sem börn alast upp við öryggisleysi og ótta um framtíðina. Sat 7 minnir þau á hve heitt Guð elskar þau, hversu dýrmæt þau eru í hans augum. Þeim býðst friður sem er æðri öllum skilningi og gleði Drottins.

Sat 7 gefur mörgum konum tækifæri til uppfræðslu sem býðst þeim annars ekki enda margar því miður ólæsar. Umfram allt er sjónunum beint að Jesú Kristi. Kristilegar sápuóperur, viðtalsþættir, spurningaþættir og margvísleg dagskrá vitnar um metnað og fagmennsku þeirra sem vinna við dagskrárgerð og útsendingu Sat 7. Markmiðið er að miðla myndinni af hinum krossfesta og upprisna Jesú.

Kveðjan frá Jesú

Hvernig er mynd þín eða myndirnar þínar af Jesú? Hvernig mynd kom upp í huga þér við að heyra guðspjall dagsins? Hvernig er svipurinn á Jesú, hvernig er líkams-tjáningin hans? Er hann góðlegur, strangur, kærleiksríkur, ákveðinn, ýtinn, frekur, biðjandi, blessandi, grettinn, grátandi eða brosandi? Hvernig hefði þér og okkur öllum liðið í fóstsporum lærisveinanna? Hefðum við veitt honum lotningu? Hvað hefðum við hugsað með þessi skilaboð sem lærisveinarnir fengu?

Guðspjall dagsins er kveðja Jesú til okkar og stefnumörkun fyrir framtíðina. Við erum send út til samtíðar okkar, til íslensks samfélags og alls heimsins til að gera fólk að lærisveinum. Það er tilgangur og markmið kirkjunnar. Áætlun Jesú hófst með litlum hópi og leit út eins og vonlaust dæmi. En það var það ekki og er það ekki heldur í dag. Heilögum anda var úthellt, hann gaf kjark, kraft og kærleika sem til þurfti – og gerir enn. Tækifærin til starfa eru mörg. Vitnisburðurinn um Jesú Krist þarf að heyrast, sem víðast. Allt of margir þekkja ekkert til Jesú, eiga enga mynd af honum, hvorki raunverulega né í hjarta sér og huga.

Myndin sem hann vill að við förum með heim í dag í hjarta okkar er myndin af honum krossfestum og upprisum þar sem hann segir við okkur: Farið og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Og hann bætir við: Sjá ég er með ykkur alla daga.. Á myndinni minni erum við Jesús alltaf saman á ferð. Vonandi er því eins farið hjá þér.