Bangsi í glugga

Bangsi í glugga

Hvernig getum við lært af börnunum? Með hvaða hætti er gott fyrir okkur, sem eldri erum, að auðmýkja okkur og verða eins og börn?
fullname - andlitsmynd Þorgeir Arason
21. apríl 2020

Þegar samkomubannið tók gildi og flest hefðbundin starfsemi þurfti illu heilli að raskast, gerðist líka ýmislegt ánægjulegt. Eitt af því var tvímælalaust, að bangsar tóku að birtast hér og þar í gluggum, hér á Egilsstöðum eins og á fleiri þéttbýlisstöðum um landið. Húsráðendur stilltu upp böngsunum til að börnin í bænum eða hverfinu gætu farið í skemmtilegan leik: að ganga um nærumhverfi sitt og leita að böngsum. Þannig var komið spennandi tilefni fyrir útivist og samverustund foreldra og barna. Svo var hægt að leika sér með þetta á ýmsan hátt: að telja bangsana, leita að stærstu böngsunum eða leita að mjúkdýrum í  ólíkum litum. Sjálfum fannst mér gaman að ganga um nærliggjandi götur með börnunum mínum og sjá hvað Egilsstaðabúar voru fljótir að taka við sér í að koma fyrir böngsum í gluggunum sínum.

Í þessu tilfelli var vissulega bæði einfalt og ókeypis að taka þátt, enda leynist eflaust bangsi á meirihluta heimila. Skjót viðbrögð fólksins minntu mig samt á, að þegar á reynir viljum við sem betur fer gjarnan setja börnin í forgang, og allt sem að þeim snýr.

Lærisveinar Jesú Krists voru eitt sinn í keppnisskapi og spurðu hann: Hver er mestur í himnaríki? Jesús kom þeim eflaust á óvart þegar hann svaraði spurningu þeirra með því að kalla til sín lítið barn og segja: „Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér“ (Matt. 18.4-5). Með þessum orðum, eins og reyndar víðar í guðspjöllunum, lyftir Jesús barninu sérstaklega að ljósi. Hann vekur athygli á aðgæslu við börnin og gerir þau á vissan hátt að fyrirmyndum fyrir trúaða.

Hvernig getum við lært af börnunum? Með hvaða hætti er gott fyrir okkur, sem eldri erum, að auðmýkja okkur og verða eins og börn?  

Fyrir það fyrsta eru lítil börn yfirleitt einlæg og segja hug sinn án þess að hafa sérstakar áhyggjur af skoðunum annarra. Við munum sennilega flest eftir ævintýri H.C. Andersen um Nýju fötin keisarans. Þar þurfti  jú barn til að benda á að keisarinn var ekki í neinum fötum. Aðrar sögupersónur höfðu ýmist spilað með eða látið blekkjast af loddaraklæðskerunum!

Í annan stað er leikurinn eitt eðlilegasta tjáskiptaform barnanna. Mörg okkar gleymum því með árunum hvað það er mikilvægt að kunna að gleyma sér í leik. Þessa dagana sakna margir þess vissulega að geta ekki hitt fjölskyldu og vini. Aðrir hafa hins vegar meiri tíma með heimilisfólkinu sínu. Ýmiss konar leikir eru frábær leið til að eiga uppbyggileg samskipti við okkar nánustu. Kannski munum við kunna betur að meta leiki með fólkinu okkar þegar takmarkanir á samkomum og samveru verða að baki.

Þriðja atriðið sem við gætum nefnt er forvitni barnsins um umhverfi sitt. Ef þið hafið prófað að fara í gönguferð úti í náttúrunni með börnum vitið þið að það er eins gott að gefa sér nægan tíma, ekki bara af því að gangan þreyti stutta fætur, heldur ekki síður af því að það er svo margt í umhverfinu sem þarf að skoða!

Í fjórða lagi er það svo að hjá flestum börnum er stutt í brosið og gleðina. Þau kunna þá list að gleðjast og hlakka til ánægjulegra viðburða og eru yfirleitt mun hláturmildari en fullorðnir. Að vísu á þessi punktur sér líka skuggahlið, því að aðstæður barna eru misjafnar og auðvitað getur verið dýpra á brosinu hjá börnum sem búa við lakan aðbúnað. Barnslega gleðin er því líka áminning um að samfélagið okkar eigi að standa á sérstakan hátt vörð um hagsmuni barna.

Síðast en alls ekki síst er barnið fyrirmynd í boðskap Jesú vegna þess að það kann að trúa og treysta Guði. Þegar börn læra að biðja og fá að kynnast Jesú í gegnum frásagnir og boðskap Biblíunnar, er þeim gefin stórkostleg gjöf. Stundum eiga börn auðveldara með að þiggja þá gjöf en við, þau fullorðnu, með alla okkar fyrirvara og tortryggni.

Í Jóhannesarguðspjalli (1.12) segir um Jesú: „Öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans.“ Jesús kom í heiminn til að við gætum öll fengið að vera börn Guðs. Og rétt eins og börn þarfnast foreldra sinna, þá þurfum við öll á þeim kærleika Guðs að halda, sem birtist í Jesú Kristi.

Bangsarnir í gluggunum gleðja börnin og minna á samstöðuna í samfélaginu á krefjandi tíma. Aðstæður líðandi stundar vekja mörgum vissulega áhyggjur, depurð eða einmanaleika. Í bæn til Guðs megum við koma fram fyrir okkar himneska föður eins og börn. Í trúnni megum við treysta því að þrátt fyrir allt sem á dynur hvílum við örugg hjá honum, líkt og lítið barn sem grúfir sig í traustum faðmi móður eða föður. Guð blessi þig og styrki í þeirri trú.

Þorgeir Arason, sóknarprestur Egilsstaðaprestakalls