Auðmýktin. Þegar við heyrum orðið kemur ýmislegt upp í hugann. Auðmýkt er stundum þröngvað upp á fólk. Fangar ganga með álút höfuð undir eftirliti varða, fólk þorir ekki að standa upprétt eða sýna hvað í því býr. Þetta getum við kallað auðmýkt. Ýmsir hópar hafa í gegnum tíðina þurft að beygja höfuð sitt með þessum hætti, stéttir, kynþættir, konur og nú síðast samkynhneigðir – og við fögnum því þegar þeim tekst að varpa af sér okinu og geta horft uppréttir framan í náungann, stol yfir því að vera það sem þau eru.
Hefðarsæti
En svo er það hin hliðin – auðmýkt sem sprettur ekki af vanmætti og ótta, heldur innri styrk og sönnu hugrekki. Það er hæfileikinn að játa vanþekkingu sína, sem leiðir til þess að fólk þorir að spyrja og leitar svara. Það er eiginleikinn að stíga til hliðar og leyfa öðrum að blómstra. Það er sannarlega afstaðan að vera hluti af einhverju sem er stærra en við sjálf og horfa til hags heildarinnar fremur en þröngra eigin hagsmuna.
Í textum dagsins er talað um auðmýkt og upphefð. Þar tekur Kristur dæmi af því þegar fólk velur sér sæti við borðið eftir því hversu há tign þess er. Sumir ofmeta sjálfa sig og velja sér stað næst gestgjafanum. Þegar þeir þurfa svo að færa sig nær enda borðsins finna þeir þessa auðmýkjandi tilfinningu þess sem þarf að játa sig sigraðan, á einhvern hátt. Þeir sem á hinn bóginn gæta sín og setjast fjær geta fengið óvænta upphefð þegar þeim er boðið að færa sig í rétta átt.
Auðmýkt hefur vissulega mikla breidd en greinarmunurinn er skýr. Annars vegar þegar hún sprettur af veikleika og hins vegar þegar auðmýktin er þegar vel er að gáð, skýlaust merki um innri styrk og öryggi.
Auðmýktin okkar
Lýsing Krists á skömminni sem kann að fylgja því þegar menn ofmeta eigin stöðu er sígild. Við könnumst við hana hérna á Íslandi. Við hreyktum okkur upp í slíkar hæðir hér á sínum tíma svo það veldur mörgum kinnroða nú. Jafnvægiskraftar efnahagslífsins tóku á endanum völdin þegar skuldabyrðin var komin út fyrir öll mörk. Sömu lögmál virðast gilda í tilfinningalífi mannsins, þar sem ofris í sjálfsmati leiðir til átakanlegrar hnignunar, svo hroki breytist ört í kinnroða.
Það er sú auðmýkt sem við höfum nauðug þurft að gangast undir á síðustu tveimur áru m. Ófarirnar eru slíkar að talnaglöggir menn halda því fram að tjónið sem fylgdi í kjölfar þess þegar skýjaborgirnar hrundu hafi nánast verið einstakt í sögunni. Jafnvel hinir sigruðu Þjóðverjar að lokinni síðari heimstyrjöld töpuðu ekki eins miklum verðmætum þótt þar væru borgir rústir einar og himinháar skaðabætur þurfti að greiða. Nei, okkar tjón nam víst sexfaldri þjóðarframleiðslu sem mun vera eitt höfðatöluheimsmetið enn.
Fall og hrun
Nú krefst það auðvitað nokkurrar dirfsku að tala um hrunið, svo mikið hefur það verið á milli tannanna á Íslendingum. Eins og gjarnan er, verður umræðan síst skýrari og meira upplýsandi eftir því sem henni vindur fram, því er frekar öfugt farið. Og smám saman myndast eins og sigg á hlustum okkar sem verða eins og hendur erfiðismanns – minna og minna næmar fyrir því álagi sem á þeim hvílir. En tilefnið er ærið. Afmælið er á næsta leyti. Nýr þáttur uppgjörsins er framundan. Og hér í kirkjunni lásu kirkjuþjónar meðal annars þennan texta:
Dramb er falli næst, hroki veit á hrun.
Einhverjir myndu segja að nóg sé sagt. Ekki þurfi frekar að velta sér upp úr öllum þeim dæmum sem tína má til í þessumm efnum, hvort sem það voru afmælisveislur, gullát, einkaþotur eða önnur sóun sem lét okkur í fyrstu blöskra en smám saman komst það upp í vana að heyra tröllasögur af tröllslegu bruðli.
En það sem auðvitað situr eftir, er það að djúpt í þjóðarsálinni skyldi slá hrokafullt hjarta yfir árangri okkar manna. Margir glöddust yfir því að jafnvel gamla nýlenduveldið værið óðum að enda í höndunum okkar. Veikleiki Íslendinga var allt í einu orðinn að styrkleika. En það var tálsýn ein. Rótleysið og hömluleysið virtust aðeins í glýjunni vera nytsamleg verkfæri í baráttunni við varfærna granna sem byggðu á aldalangri reynslu í þessum efnum. Vísitölur stigu upp í 9000 stig og flestir fengu sinn skerf af kökunni þar til allt fór eins og það fór og jafnvægislögmálið sagði til sín. Þjóðfélag okkar varð fyrir meiri fjárhagstjóni en land sem hafði borið algeran ósigur í skelfilegum ófriði er teygði anga sína út um gervallan heiminn.
Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs?
Við lærum þó lítið með því að velta okkur upp úr þessum hremmingum. Nei, nær er að spyrja að því hvaða lögmál hafa verið þar að verki. Hvers vegna flytur Drottinn okkur þennan boðskap þar sem jafnvægið kemur svo skýrt fram – ofdramb leiðir til lækkunar, auðmýkt leiðir til upphefðar: „Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“
Upprétt og auðmjúk
Jú, hér orðar hann hugarþel hins kristna manns. Þetta er okkur svo dýrmæt reynsla nú þegar við byggjum upp líf og samfélag á nýjum grunni. Ekki verður vegferð sú auðveld en víst má vera að við hugsum okkur tvisvar um næst þegar við troðum okkur í hefðarsætið með óraunhæfar hugmyndir um okkur sjálf og getu okkar. Nú þarf að sækja traustið annað og leita að traustum grunni til þess að standa á þegar á okkur standa öll él.
Ekkert mun þar reynast betur en boðskapur Jesú Krists til okkar um þá upphefð sem okkar býr ef við erum tilbúin að treysta þeim boðskap sem hann flytur okkur. Boðskapurinn á rætur að rekja til þeirra lögmála sem frá sjálfum skaparanum koma. Þar lifnar ekkert né hverfur af því sem skapað er, hvorki efni né orka, – það fær aðeins á sig nýja mynd í nýju umhverfi.
Kristur sýndi okkur í hverju sú sanna upphefð felst. Hann lýsir hinum auðmjúku en uppréttu leiðtogum hvað eftir annað í frásögnum sínum. Já, þar er að finna margar sögur af fólki sem hafði yfir að búa þeim eiginleikum að geta fært umhverfi sitt í betra horf og rétta við það sem brákað var eða brotið. Ekki virðast þetta alltaf í fyrstu vera stórkostlegar hetjudáðir en þegar betur er að gáð sést hversu miklu fólk fékk áorkað með þjónustu sinni.
Fjölda fólks hungraði úti í eyðimörkinni og þá kom lítill drengur með nestið sitt og afhenti Jesú. Sú athöfn gat af sér mikið kraftaverk og fjöldinn fékk saðningu. Er drengurinn ekki dæmi um hinn auðmjúka leiðtoga? Kanverska konan sem átti veikt barn lét ekki af bænum sínum til Jesú fyrr en hann gaf henni stund og læknaði barnið. Miskunnsami Samverjinn sem stöðvaði för sína eftir veginum, beygði sig niður að hinum slasaða manni og kom honum í öruggar hendur.
Allt eru þetta stórkostlegir einstaklingar sem gengu fram í nafni kærleikans, með þá einu sýn að bæta umhverfi sitt og hag náungans.
Hver eru skilaboðin?
Og nú mitt í því ferli þar sem við leitum sökudólga og spyrjum hvern eigi að draga fyrir dóm ættum við að líta í eigin barm og spyrja okkur: „Hvað er Guð að segja við okkur mitt í þessari neyð?“ Hvaða skilaboð eru það sem hann sendir okkur? Hvert er þetta jafnvægislögmál sem hér er að verki?
Alveg örugglega það að stunda hina uppréttu auðmýkt, að þjóna náunganum fremur en að láta þjóna sér. Þetta er falleg sýn á hlutverk okkar og tilgang.
Auðmýktin. Þetta orð er lykillinn að velferð okkar og farsælum samskiptum við Guð og menn. Hún rís upp úr trausti hins kristna manns á að í honum búi sannur leiðtogi sem er reiðubúinn að vinna málstaðnum lið með því að þjóna náunganum. Þetta er hin sanna reisn þess sem lítur á sjálfan sig sem verkfæri Guðs til þess að bæta heiminn og greiða veg kærleikans í þessu lífi. Og sér í náunganum þann vettvang þar sem umbótastarfið á að fara fram.