Með hvaða rökum?

Með hvaða rökum?

Trúin er notuð til að réttlæta aðgreininguna og um leið verða til landamæri hefða, siða og venja sem erfitt er að vinna gegn því allt þetta hvílir á guðslögum. Það sem Guð hefur einu sinni fyrirskipað getur manneskjan ekki tekið til baka, eða hvað?

Flutt 25. febrúar 2018 í Hjallakirkju

Hefur þú einhvern tímann velt trúnni þinni fyrir þér? Skoðað inn á við og fundið hvað það er sem drífur þig áfram í lífinu. Hvað það er sem gefur þér og veru þinni gildi og um leið skoðað hvernig þú kemur fram við annað fólk í kringum þig út frá lífsskoðun þinni eða trú.

Trú er margflókið fyrirbæri, persónubundin hverju sinni og erfitt er að meta og dæma trú annarra út frá einhverjum stöðlum eða jafnvel út frá eigin trú og lífsskoðun. Slíkt er aldrei til gagns og drepur niður þarft samtal sem getur átt sér stað um trú og trúmál sem aftur er nauðsynlegt til upplýsingar og skilnings á því hver við erum og hvaðan við komum.

Það er enginn vafi á því og það þarfnast engra mótmæla við því að trúin hefur verið notuð um ómunatíð til að réttlæta voðaverk á hverjum tíma. Hún hefur verið notuð til að aðgreina fólk, hópa og jafnvel þjóðir. Hún hefur verið notuð til að skilgreina hverjir hafa sterkustu stöðuna hverju sinni, með tilkall frá Guði og þegar þú hefur tilkall frá Guði er ekkert sem getur haggað þeirri kröfu að þú eigir ákveðinn rétt sem aðrir eiga ekki.

Trúin er notuð til að réttlæta aðgreininguna og um leið verða til landamæri hefða, siða og venja sem erfitt er að vinna gegn því allt þetta hvílir á guðslögum. Það sem Guð hefur einu sinni fyrirskipað getur manneskjan ekki tekið til baka, eða hvað?

Biblían er stórt og mikið rit, full af andstæðum og þversögnum, fegurð, mennsku, ljótleika og grimmd. Það er afskaplega auðvelt að lesa biblíuna og finna fordómum sínum stað, sé lesið með það að markmiði að fá staðfestingu á því að heimurinn sé skiptur upp og hólfaður niður eftir því hvaðan þú kemur eða hvernig þú ert.

Ég trúi því að fordómarnir komi á undan biblíurökunum. Andúð á fólki og aðstæðum þess eða veru er ekki frá Guði komin heldur frá ákvörðunum sem teknar eru innra með fólki að aðrir séu ekki í lagi og um leið sé eitthvað í fari þess eða uppruna sem okkur beri að varast og hemja.

Þessi ótti gagnvart því sem við þekkjum ekki, verður svo til þess að við sköpum samfélag sem þrífst á þessum ótta og veldur því að enginn blómstrar nema kannski þeir örfáu sem hafa kennivaldið hverju sinni og ákveða fyrir heildina hverjir eru samþykktir og hverjir ekki. Og til þess að setja aukna þyngd á málflutning sinn, er komið með trúarrökin til að fólk þori ekki að mótmæla eða hafa sjálfstæða skoðun, því það sem Guð hefur sagt er alltaf satt og rétt, þó að mennsk túlkun fylli bakraddirnar og leiði umræðuna á hverjum tíma.

Trú fólks er ótrúlega máttugt afl og þegar við erum alin upp í guðsótta þá hefur sá ótti svo sterk ítök í lífi okkar og í umhverfinu öllu. Að fara gegn boði Guðs hlýtur að merkja að eitthvað komi fyrir mig, að Guð hafni mér, að paradísarvistin að loknu þessu lífi sé húfi.

Sem dæmi má taka:

Ef Guð hefur sagt að konur eigi að hafa lægri stöðu en karlar og eigi sök á upprunasyndinni í gegnum Evu – þá förum við ekki gegn því boði eða hvað?

Ef konur eiga að þegja á safnaðarsamkomum og hylja höfuð sitt og mennsku – þá förum við ekki gegn því boði og samþykkjum þar af leiðandi að konur hafi ekki rödd eða hvað?

Ef skrifað er að þrældómur sé eðlilegur og skv. stigveldisreglum leyfilegur, þá förum við ekki gegn því boði, eða hvað?

Ef skrifað er að börn séu undir vald foreldra sinna sett og ákvörðunum þeirra, jafnvel þegar mannréttindi og líkamsréttur þeirra er í húfi þá förum við ekki gegn því boði því trúarrökin eru æðri mannréttindum þeirra sem minna mega sín, eða hvað?

Ef skrifað er að samkynhneigðir og þeirra ást sé ekki Guði þóknanleg, þá fer ég ekki gegn því því boði og þess vegna lít ég niður á ást þeirra því staðreyndin er sú að ég finn staðfestingu á samkynhneigðarótta mínum með guðsrökunum úr Biblíunni.

Kanverska konan í sögu dagsins. Hún er kona, hún er útlendingur og hún er óhrein. Viðbrögð Jesú við konunni í þessum texta ögra okkur því við erum vön því að hann taki fallega á móti öllum strax. Kannski er hann í þessum texta að kann viðbrögð vina sinna, sjá hvernig þeir bregðast við þessari konu og ákalli hennar um miskunn. Þeir falla þá algerlega á prófinu, því fyrstu viðbrögð þeirra er að vilja losna við hana sem fyrst. Hún er óþægileg, vera hennar í kringum þá ögrar þröngsýnni hefð. Aðgreiningunni milli hins hreina og hins óhreina, okkur og hinum, réttlætinu og ranglætinu, yfirburðanna og hins undirokaða.

Spurningin er þessi: Nær miskunn Guðs bara rétt út yfir garðinn þinn eða er hún fyrir alla, alls staðar, á öllum tímum.

Kanverska konan sýnir fullkomið varnarleysi í ákalli sínum eftir hjálp, hún er að auki ekki að biðja um aðstoð sér til handa heldur fyrir dóttur sína. Hún gefst ekki upp þó hún sé kveðin niður og henni sýnd hunsun, höfnun og móðgun. Heldur þráast hún við af því að hún veit í hjartanu sínu að hún á rétt, sama rétt og aðrir, vera hennar er jafn mikilvæg vera annarra og staða hennar á ekki að skilgreinast af hreinleika og óhreinleika heldur af því einu að hún er elskað guðsbarn, óháð því hver hún er eða hvaðan hún kemur.

Ákall sem Jesú tekur undir í lokin undir því hann veit að það sem skiptir máli er það sem kemur frá hjartanu og konan sýnir hreint hjarta og vilja og löngun til að taka sér stöðu meðal þeirra sem trúa á góðan Guð og verða þannig hluti af veruleika sem er einn og óskiptur og rúmar alla óháð fyrirframgefnum stöðlum og áralöngum hefðum sem manneskjan hefur búið sér til með vísan í skikkan skaparans, til að þurfa ekki að takast á við sína eigin fordóma, sínn eigin breyskleika og heimsmynd sem fóstrar úreltar hugmyndir og venjur sem gera ekkert annað en að skapa sundrungu og ótta.

Trú á aldrei að verða forsenda mannréttindabrota, hún á aldrei að verða undirstaða fordóma, hún á aldrei að verða orsakavaldur að hroðaverkum þeim sem framin eru í heiminum í dag. Það eru manneskjur af holdi og blóði sem taka þessar ákvarðanir og finna þeim svo stað í trúnni til að réttlæta eigin illsku og kröfu um yfirráð á hverjum tíma.

Okkur ber að vernda hið smæsta og minnsta í þessum heimi, þau sem hafa ekki rödd og geta ekki borið hönd yfir höfuð sér. Það er krafa Guðs til okkar.

Og það er hjartað okkar sem skilur á milli hreinleikans og óhreinleikans. Þessi frásögn af kanversku konunni undirbýr okkur undir boð Jesú í lokakafla guðspjallsins þegar hann býður okkur í skírnarskipunni að fara út og gera allar þjóðir að lærisveinum. Þar sjáum við Guð að verki, Guð sem er alltaf að birtast á nýjum svæðum, í nýjum aðstæðum, þvert á landamæri.

Það er Guð sem mætir þeim sem eru utangarðs og býður þeim ekki bara mola af borði ríka mannsins, heldur sæti við borðið, jafnfætis öllum hinum sem eru þar nú þegar. Guð sem ávarpar sameiginlega mennsku okkar allra og skyldleika í þeim skilningi að við erum öll hans.

Hann krefur okkur um að líta á þau sem eru okkur ókunnug sem dýrmæta einstaklinga sem deila okkar mennsku og þegar við náum þeim skilningi hættum við að vera ókunnug, heldur öll hluti af sömu fjölskyldu.

Það gefur okkur um leið kjark til að lesa með augum trúarinnar alla þá texta biblíunnar sem vinna gegn fólki, mannréttindum og mannhelgi og ákveða innra með okkur að við viðurkennum að þessir textar séu til ásamt aldagömlum venjum og siðum sem vinna gegn mennsku fólks, en við ætlum ekki að viðhalda þeim. Við ætlum að vernda hvert annað og finna nýjar leiðir til að tala saman og iðka samtal þannig að við fáum öll blómstrað.

Við ætlum að vernda hið smáa í lífinu gegn ofbeldi, því með því erum við að vinna gagn í guðsríkinu og með Guði sem segir okkur að elska náungann eins og okkur sjálf. Þar er kærleikurinn mestur og hann á að vera túlkunarramminn okkar á biblíuna og þau rök sem við notum þegar við vísum í Guð og hans skipan í heiminum.

Það um leið gefur okkur kjark til að endurskoða hefðir sem eru úreltar án ótta við það að við séum ekki guði þóknanleg. Guð elur ekki á ótta, hann vill að við séum frjáls og það er aðeins í frelsi sem við getum elskað Guð af hreinu hjarta. Því þar eru engin annarleg rök að baki.

Í lok sögunnar í guðspjalli dagsins er kanverska konan ekki lengur skilgreind kanversk, heldur ávarpar Jesú hana einfaldlega sem konu og mælir þessi orð: “Kona mikil er trú þín”. Þarna á sér stað lækning á erfiðum aðstæðum og hann leysir þær upp á sinn einstaka hátt.

Jesús læknar okkur líka í lok þessarar sögu. Læknar okkur frá þeirri kvöð og þvingun sem við teljum að sé Guði þóknanleg, sem felst í að viðhalda gömlum staðalmyndum og hefðum, sem koma í veg fyrir að við umföðmum sameiginlega mennsku okkar. Verkefni okkar er að byrja strax í dag, að játa sameiginlega mennsku, sameiginlegan tilgang og veruleika sem er einn og óskiptur. Yfir því vaki góður Guð alltaf.

Amen.