Þegar völdin taka völdin

Þegar völdin taka völdin

Að mínu mati er þessi sýn svo dýrmæt að kirkjan ætti að hafa hana að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Þessi orð ættu að standa yfir hverjum kirkjudyrum, vera á bréfsefni safnaðanna og á öllum þeim stöðum þar sem menn koma að stjórn og skipulagi kirkjunnar

Tómarúmið er vanmetið fyrirbæri – ef fyrirbæri skyldi kalla. Flestum þykir það nöturleg tilhugsun að hafa tómlegt í kringum sig, hvað þá að að slíkt ástand sé innra með manni. Gjarnan fara dagarnir í það að öðlast einhverja fyllingu. Verkefnin verða að koma hvert á fætur öðru, stundirnar þurfa að vera vel bókaðar og sumir finna jafnvel fyrir snert af samviskubiti ef eyður er að finna í dagatalinu. Er nokkuð skemmtilegra en að segja í óspurðum fréttum frá annríki sínu og fjölbreyttum uppátækjum?

Kirkjan full af steypu?

Þegar deilur stóðu um kirkjubyggingu í Mosfellsdalnum á sínum tíma, á einn gárunginn að hafa haft það að orði að víst væri það tilvalið að byggja þar kirkju, en hún þyrfti ekki endilega að vera hol að innan! Sá var víst ekki mjög kirkjurækinn og hefur ef til vill séð sparnað í innréttingum ef byggingin væri svo laus við allt holrúm og tómarúm svo að þar fyllti steypan upp í hvern rúmmetra. Sem betur fer var þó ótti manna við tómið ekki slíkur að þeir færu þá leið og mér vitanlega er engin sú bygging til sem ætluð er til einhverra nota sem ekki er hol að innan. Sandkastalar eru það vissulega en þeir hafa jú lítið hagnýtt gildi.

Tómarúmið er nefnilega vanmetið fyrirbæri. Ef ekki væri fyrir tómið hefði efnið varla mikinn tilgang. Kirkjubekkirnir eru einmitt hannaðir með það í huga að þar sé pláss fyrir fólk til að sitja. Hvað er pláss annað en tómarúm? Og þið sem komuð á bíl hingað í kirkjuna óskið þess varla að það springi á bílnum því þá hverfur það rými sem allur þungi bílsins hvílir á. Það rými er vissulega fullt af lofti en dekkin hafa þá náttúru að þenjast út svo þar skapast pláss fyrir þetta fislétta loft – sem þó fer létt með það að lyfta heilum bíl.

Fastan og tómið

Af hverju þessar hugleiðingar um tómarúmið nú á björtum sunnudegi þegar við bíðum í ofvæni eftir því að vor taki við af vetri?

Jú, því nú er fastan gengin í garð og fastan er tími tómarúmsins í kirkjuárinu. Fastan, eins og nafnið gefur til kynna, felur það í sér að sumt í lífi okkar á ekki að vera þéttskipað og fullt, heldur þarf að bjóða upp á rými, tóm. Fastan er eins og dekkin undir bílunum okkar eða bekkirnir sem við sitjum á – hún gerir ráð fyrir því að þar þurfi að vera eitthvert pláss, svo allt komist nú fyrir á sínum stað. Í okkur býr hins vegar þessi þrá að leita í sífellu eftir einhverju því sem kann að fylla upp í það sem við teljum okkur skorta – hvort sem það er fæða, klæði, afþreying, erill eða önnur uppátæki.

„Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur“ segir í pistlinum nú í upphafi föstunnar. En vansældin felst hins vegar í því að sjá ekki fegurðina í tómarúminu, skilja ekki tilgang þess og ótvírætt notagildi. Sá sem ekki hefur öðlast þann skilning er að sönnu illa staddur og líf hans er endalaus eltingaleikur við það að fylla upp í það sem má svo gjarnan vera tómt.

Að baki þessari hugsun býr reyndar gríðarmikil þekking sem sótt er í smiðju skaparans og er meitluð af reynslu kynslóðanna. Hún skiptir svo miklu máli að ef við kunnum ekki að tileinka okkur hana þá er næsta víst að við förum á mis við mikil lífsgæði og raunar steypum við lífi okkar í mikla hættu. Þetta er einmitt orðað svona í ritningunni: „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.“

Á hverju byggist hún, þessi girnd? Jú, hún snýst einmitt um það hömluleysi þegar menn kunna ekki að nema staðar. Það er eins og löngunin þurfi að fá útrás svo hún víkur ekki fyrir neinu.  Líf þess sem ekki getur stýrt hvötum sínum er eins og kirkjubekkir sem eru svo rækilega hátimbraðir að þar er ekkert pláss fyrir gestina eða kirkja þar sem steypuvélarnar unnu af slíku kappi að þar er ekkert holrúm. Vissulega kann slík bygging að líta reisulega út hið ytra en hversu gagnslaus er hún ekki sem helgidómur og samkomuhús? Með öðrum orðum – girndin rænir okkur tilgangnum.

Valdagirnd

Þetta sjáum við í raun hvert sem við lítum. Hvergi birtist þetta eins vel og í því þegar fólk öðlast það sem það hefur stefnt að – nefnilega völd. Hversu oft hafa ekki háleitustu hugsuðir og metnaðarfyllstu leiðtogar hrapað af stalli sínum einmitt vegna þess að þeir kunnu sér ekki hóf? Völdin þurfa svo sem ekki að vera merkileg. Þau kunna að felast í því að gegna forystu í einhverjum hópi er starfar að þörfum verkum. Ef völdin taka völdin þá verður tilgangurinn ekki annar en sá að þjóna duttlungum þeirra sem völdin hafa. Uppbyggingin fer úr böndunum. Forystan verður eins og kirkjan sem karlinn sá fyrir sér – full af steypu og með öllu gagnslaus.

Það er engin tilviljun að guðspjallið á fyrsta sunnudegi í föstu fjallar um leiðtoga því hvergi verður hrösunin og fallið jafn skýrt og áberandi og í fari þeirra. Ekki þarf annað en að skima yfir sögubækur, heimsfréttir eða jafnvel horfa á sitt nánasta umhverfi til þess að sjá afleiðingar þess þegar þau mörk eru rofin og menn virða ekki takmörk sín. Lærisveinarnir hans hafa fallið í sömu gryfju. Í stað þess að nýta það tækifæri sem þeim er gefið fara þeir að metast um það hver þeirra sé mestur. Augljóslega er þar eitthvað að fara úr böndunum.

Sannir leiðtogar

Jesús tekur klassískt dæmi af því þegar konungar drottna yfir fólki og láta það kynnast valdi sínu. Valdhafarnir eru jafnvel kallaðir velgjörðarmenn þótt eina hvöt þeirra sé sú að öðlast meiri völd og láta þá sem neðar standa lúta fyrir því valdi. Skilaboð Krists til okkar eru þessi. „En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.“

Hversu mikilvægur er ekki þessi boðskapur? Að mínu mati er þessi sýn svo dýrmæt að kirkjan ætti að hafa hana að leiðarljósi í öllum sínum störfum. Þessi orð ættu að standa yfir hverjum kirkjudyrum, vera á bréfsefni safnaðanna og á öllum þeim stöðum þar sem menn koma að stjórn og skipulagi kirkjunnar: „Sá mesti yðar á meðal á að vera sem hann væri yngstur og foringinn sem þjónn.“

Þetta eru sannarlega ekki innantóm orð. Þau geyma hinn sanna tilgang. Leiðtoginn lætur stjórnast af hugsjón sem er hærri en svo að hann láti eigingirnd sína og aðrar girndir þvælast fyrir sér á þeirri leið sem hann hefur lagt upp í. Fyrir honum er það mikilvægast að samfélagið sem hann leiðir áfram fái þroskast og dafnað og vaxi að visku og náð. Til þess að geta unnið að því marki þarf hann einmitt að taka sér allt það til fyrirmyndar sem að sönnu skilar einhverjum tilgangi. Hann þarf að geta skapað pláss. Hann þarf að geta vikið til hliðar. Hann má ekki verða eins og kirkjan sem enginn kemst inn í eða dekk sem liggur klesst upp við jörðina og getur því ekki lengur borið uppi farartækið.

Kristur líkir sér þess vegna við þjón – og við vitum hvernig góðir þjónar starfa. Þeir vilja að sjálfsögðu hjálpa þeim sem með þeim starfa og efla þá til dáða. Góður leiðtogi má vissulega hafa góða nærveru – en hann þarf ekki síður að hafa góða fjarveru. Því í fjarveru hans getur hann náð því sem hann stefnir að, sem er vöxtur og þroski þeirra sem með honum starfa.

Núna er fastan byrjuð í kirkjunni. Sumstaðar neitar fólk sér m ákveðnar fæðutegundir á föstunni og er í sjálfu sér ekkert nema gott um það að segja. Þá verður skorturinn – tómarúmið – til þess að skapa eftirvæntingu fyrir því sem framundan er þegar föstunni lýkur og páskarnir ganga í garð. En fastan geymir dýpri merkingu og skilaboð til okkar allra. Þau eru á þá leið að hófsemin er lykillinn að farsældinni. Aldrei megum við glata sýninni á þann tilgang sem með lífi okkar er. Við eigum öll að vera þjónandi leiðtogar í þeim anda sem Kristur starfaði. Við eigum ekki að lifa og starfa, firrt tilgangi okkar og köllun – svo við verðum eins og innmúaraðar byggingar sem enginn kemst inn í.