Nafnlausar konur

Nafnlausar konur

"Og enn erum við að deila um veru kvenna innan kirkunnar um allan heim. Enn finnst okkur röddin þeirra óþægileg og ögrandi. Enn erum við að smætta veru þeirra niður í kynið þeirra og tilfinningar."
fullname - andlitsmynd Sunna Dóra Möller
02. apríl 2023
Flokkar

Hún gerði það sem í hennar valdi stóð!!

 

Þegar ég var að læra Guðfræði í Háskólanum þá hreifst ég á nánast á hverjum degi af öllu því sem ég fékk að læra og upplifa. Námið var heillandi og krefjandi í senn og ég var lánsöm að hafa kennara sem ögruðu hugsunarhætti og höfðu kjark til að kynna okkur fyrir nýjum straumum og stefnum í þessum fræðum.


Ég hreifst af öllu því sem ögraði ríkjandi hugsunarhætti, öllu því sem kenndi mér að hugsa upp á nýtt allt sem ég hafði lært og tileinkað mér í gegnum lífið, allar fyrirframgefnar hugmyndir og mína eigin guðsmynd.


Ég heillaðist mest af sögu kvenna innan Biblíunnar og sögu þeirra í gegnum kirkjusöguna, ég elskaði að uppgötva að konurnar voru svo sannarlega þarna og það að sjá þær öðlast líf í gegnum kvennaguðfræðina og alla guðfræðinálgun sem snýr að jaðarhópum gaf mér nýjan kraft og gerði mér sem konu og sem verðandi presti auðveldara að nálgast Guð, Guð varð persónulegri og nálægari fyrir vikið. Fyrir það verð ég endalaust þakklát.

 

Það sem mér hefur alltaf þótt erfitt í starfi mínu sem prestur þegar ég skoða túlkunarramma guðfræðinnar og nálgun kirkjunnar í gegnum söguna er það hvað það hefur verið auðvelt að yfirgefa kjarnann, gleyma í raun frumhutverkinu okkar og skrifa yfir það sem hentar ekki þeim sem hafa völdin og forréttindin á hverjum tíma.

 

Ég man hvað ég var uppnumin þegar ég lærði um Jesúhefðina í Nýjatestamentisfræðum en þar naut ég þess að fá að læra af Jóni Ma. heitnum Ásgeirssyni og sá í raun hvað sú hefð gerir miklar kröfur til okkar allra sem kristins fólks.


Og hver er krafan? Hún er að þú sért manneskja, að þú sért tilbúin til að gefa allt eftir, ganga veg krossins, fórna hluta af sjálfri þér til að leita þess týnda, gefa hinum hungruðu að borða, klæða þau klæðalausu og elska náungann eins og sjálfa þig.


Hljómar í fyrstu afar einfalt en eins og allt of mörg dæmi sanna að um leið og þú ert komin í þína forréttindastöðu eða færð að höndla völd í hvaða formi sem þau eru, þá er þetta fljótt að gleymast.


Þú ert ekki lengi að varpa sjálfum þér og skoðunum þínum upp í himinn og gera Guð að þér og þínar skoðanir og túlkanir að hans skoðunum og túlkunum.


Og nú má ekki misskilja mig, við erum öll sek um þetta á einhvern hátt og það er vegna þess að orð Biblíunnar er lifandi bókstafur, við lesum öll okkar sögu inn í textana, við leitum öll að því sem er í samræmi við okkur sjálf, það er eðlilegt, vegna þess að trú hvers og eins er persónuleg reynsla og öll höfum við okkar hugmyndir um það hver Guð er og hvaða áhrif við viljum að Guð hafi á umhverfið okkar og okkur sjálf.

 

Að auki höfum við öll okkar hugmyndir um það hvernig kirkjan á að vera, hvernig hún að starfa, hvernig fólk er best til fallið að þjóna söfnuðnum, hvaða tónlist er best til fallin að hafa í helgihaldinu, hvort við prestar eigum að tóna eða ekki, á að spila á orgel eða píano og eigum við að hafa klassískan kór, gospelkór eða bara forsöng.

 

Á predikunin okkar að vera löng eða stutt, eigum við að gefa afslátt af henni því mörgum finnst hún svo endalaust leiðinleg að best er að halla höfði og dotta á meðan presturinn talar af veikum mætti og reynir að koma einhverju áleiðis til safnaðarins og hvernig getum við verið viss um að það sem við segjum tali til allra, hugsanlega mógðast einhver við eitthvað sem sagt er, jafnvel reiðist því presturinn er með annan túlkunarramma á guðdóminn og guðspjallið en hlustandinn út í kirkjuskipi.

 

Má presturinn að auki vera persónulegur, deila einhverju af sjálfum sér og eigin reynslu eða á þetta bara að vera ópersónulegt hjal, þrumandi ræða yfir fólki um syndir, dauða og djöful, þurr ritskýring eða getur presturinn gefið þannig af sjálfum sér, deilt eigin upplifunum, lífsreynslu og trúarglímu, með þá von í brjósti að það skili sér inn á hjartað á þeim sem hlustar, að einhver samsami sig reynslu og glímu og finni þannig skjól og tengingu sem hann þarf og auðveldar honum hugsanlega að nálgast Guð í sínu lífi.


Kirkjan er lifandi stofnun, byggð á lifandi bókstaf og reynslu og það er eðlilegt að upplifa að við viljum öll hafa hana á ákveðinn hátt sem samræmist okkar hugmyndum um hvernig hún á að vera.

 

Lengi vel fengum við konur ekki þjóna og ekki er lengra síðan en árið 1974 að fyrsta íslenska konan fékk að klæðast hempunni og fylgja sinni köllun, að þjóna öðru fólki. Á mörgun stöðum í heiminum er það þannig að við konur fáum enn ekki klæðast þessu mikilvæga hlutverki, taka á okkur þjónustu við Guð og náungann, fylgja okkar köllun og okkar trúarsannfæringu.


Að því leitinu til njótum við forréttinda hér á landi að þjónustan okkar er ekki bundin kyni, kynþætti eða kynhneigð og fyrir það er ég þakklát að vera hluti að hugrakkri kirkju sem heimilar okkur öllum aðgengi að prestsembættinu óháð því hver við erum eða hvaðan við komum.

 

Mjög margar konur hafa lagt til þjónustu við Guð og kirkjuna sína í gegum mannkynsöguna og margar þeirra eru nafnlausar, þær unnu verk sín í hljóði, fengu ekki að njóta þess að vera sýnilegar, röddin þeirra var þögguð, vera þeirra ekki skilgreind inn í mengið sem þjónustan var.


Margar konur fórnuði sér, sýndu óeigingjarna viðleitni við að láta ekki sitt eftir liggja, skilja eftir einhver spor en vera þeirra var ekki samþykkt, Guð valdi karlmanninn til þjónustu var sagt, hin óslitna vígsluröð frá Pétri postula var frátekin fyrir karlmanninn, konan var frátekin til þjónustu fyrr hann. Því ef Guð er karl er karlinn Guð eins og kvennaguðfræðingurinn Mary Daly orðaði svo vel fyrir nokkrum áratugum síðan.

 

Ég stend því hér í forréttindastöðu, hvít, vel menntuð kona, í fullum skrúða með heimild til að sinna minni þjónustu og fylgja minni köllun. Og í slíkri forréttindastöðu er nauðsynlegt að minnast þeirra sem voru ekki svo heppnar. Sem fengu aldrei þetta tækifæri, voru nafnlausar í þjónustunni eins og konan sem nálgast Jesú með alabastursbuðkinn og smyr fætur Jesú og samfélagið reynir að hrekja hana í burtu, hún er fyrir, hún er óþægileg. En Jesús stöðvar þá og segir að það sem hún gerir, geri hún fyrir hann og hennar verði alltaf minnst.


En höfum við raunverulega minnst hennar, þessarar nafnlausu konu, hennar óeigingjörnu þjónustu og það verk sem hún hafði hugrekki  til að vinna fyrir Jesú.

 

Nei, við skrifuðum yfir þessa sögu, og allar aðrar sögur af konum, settum hana smekklega undir vald karlmannsins og fundum henni tilheyrandi bás í karlveldinu, þar sem hún skildi vera hljóð og þekkja sinn stað og taka því þegjandi og með þakklátum hug því sem að henni var rétt.

 

Konan varð skv. skilgreiningu Tómasar frá Akvínó vanskapaður karl, galli í sköpuninni, það sem þó réttlæti veru hennar var það að hún gat fætt í heiminn karlmenn. Æxlunarfæri hennar urðu hennar uppreist æru, þar gat hún hvílt og Guð forði henni frá því að eignast stúlku, Heimurinn hefur ekki rými fyrir fleiri vanskapaða karla en rétt því sem nægði til að fæða karlmenn í heiminn.


Og enn erum við að deila um veru kvenna innan kirkunnar um allan heim. Enn finnst okkur röddin þeirra óþægileg og ögrandi. Enn erum við að smætta veru þeirra niður í kynið þeirra og tilfinningar.


Enn erum við að ásaka þær um lygar ef þær taka of mikið pláss og standa með sjálfri sér. Enn þjást ótal margar nafnlausar konur í þögn, af ótta við að stíga fram og tala og segja frá sinni reynslu, því sannleikurinn ögrar, hann ógnar því sem alltaf hefur verið og Guð forði okkur frá því að breyta til og sýna hugrekki.


Það hafa allt of margir enn þann dag í dag hagsmuni af óbreyttu ástandi. Og hvað gerist, jú konur flýja aftur í skjól, yfirgefa skaðlegar aðstæður eða kjósa að vera áfram því það er alltaf þessi veika von í brjósti að eitthvað breytist, að fólk þori loksins að stíga inn í sannleikann, þori að verða frjálst og uppræta þetta kerfisbundna kynbundna ofbeldi sem er svo rótgróið inn í menninguna okkar að við erum oft hætt að taka eftir því eða erum orðin svo dofin að við nennum heiðarlega ekki að taka slaginn.


Þá er þetta vinsæla notað, ég vil ekki taka afstöðu, það er betra að standa bara á hliðarlínunni og vera þögull áhorfandi á meðan ofbeldið fær að grassera og annað fólk þjáist. Afskiptaleysið verður samt alltaf verra en hatrið. Því þar sem hatrið er þá veit maður alla vega hvar maður hefur fólk, í afskiptaleysinu ríkir sjóveikisástand og allir verða óöruggir og hræddir.

 

Nú hefst dymbilvikan, þessir dagar þar sem við minnumst krossgöngu Jesú. Krossgangan er ekki umvafin pallíettum, glimmeri og blúndum, hún kom til af því að Jesús hafði hugrekki til að standa með fólki, með manneskjum, með öllum þeim sem höfðu ekki rödd.

 

Hann ögraði og hann tjáði sig og framkvæmdi verk sem brutu gegn öllum ríkjandi normum samfélagsins og allir urðu hræddir sem höfðu hagsmuna að gæta að hafa hlutina nákvæmlega eins og þeir höfðu alltaf verið, að vernda óbreytt ástand og valdið yfir fólkinu.


En það stoppaði Jesú ekki, hann lét ekki taka frá sér röddina, hann hvarf ekki hræddur í felur af því að hann elskaði fólk og það kostaði hann lífið. Fórnin var algjör. En sú fórn gaf okkur líf og rödd. Hún gaf okkur veru í fullri gnægð og hún gaf okkur frelsi til að tala gegn ofbeldi, útskúfun og smánun hvar sem hana er að finna.


Engin manneskja á að smætta sig fyrir aðra, engin manneskja á að þegja svo öðrum líði betur, engin manneskja á að samþykkja þöggun þegar hún verður vitni að óheilbrigðum, skaðlegum aðstæðum þar sem ofbeldi ríkir. Ef staðan er þannig, töpum við öll sem samfélag í heild.


Hvernig væri þessa bænadaga að í stað þess að fókusa eingöngu á krossinn og föstudaginn langa og allt myrkrið, að við horfum frekar í átt að páskadegi, tökum í dag þátt í gleðinni sem ríkti þegar Jesús reið inn í Jerúslem, þegar konungurinn kemur til þín.


Hver eru skilaboðin hans: Jú gerðu allt sem í þínu valdi stendur og þá verður þín minnst, öll þau verk sem þú vinnur, vinnur þú fyrir mig og þín verður minnst. Settu til hliðar alla þína hagsmuni og alla þínar fyrirframgefnu hugmyndir um það hvernig allt á að vera og sýndu hugrekki, þá verður þín minnst.

 

Við skulum minnast allra þeirra nafnlausu kvenna sem hafa gengið veginn á undan okkur, án þess að hafa rödd og án þess að fá að lifa því lífi sem þær hefðu svo viljað hafa tækifæri til.

 

Við skulum minnast allra þeirra sem hafa orðið fyrir áreiti og ofbeldi og borið sín sár í þögn því kerfisbundin karllæg viðmið tóku ekki mark á reynslu þeirra og lífssögum.


Og allt sem við gerum, er við horfum hugrökk í átt að páskasólinni, sem vekur allt og umvefur allt og lífgar allt við, gerum við í minningu þeirra, í minningu hennar, því gott verk gjörði hún.

Amen .