Biblíusögur eru lífgefandi

Biblíusögur eru lífgefandi

Biblíusögur eru besta námsefnið sem við höfum í höndum til að kenna lífsleikni og efla mannvirðingu. Og þetta segi ég blákalt vegna þess að hvort sem fólk á trú eður ei stendur Biblían og þá sér í lagi guðspjöllin, óvéfengjanlega fyrir sínu sem grunnur að samfélagssáttmála þar sem mannleg velferð í andlegum og veraldlegum efnum er sett ofar öllu.

Hver einasta manneskja skiptir máli. Stundum hefur hvarflað að mér að stíga upp í prédikunarstólinn og segja bara þessa einu setningu, já til þess að undirstrika mikilvægi hennar, ég hugsa að Guð yrði bara býsna ánægður með þá prédikun enda hefur maður tilhneigingu til þess að kæfa mikilvægasta boðskapinn í margvíslegum vangaveltum um lífið og tilveruna, en af því að það er svo dæmalaust vandræðalegt að brjóta viðmið þá hef ég ekki ennþá öðlast hugrekki til þess að stíga með eina setningu í stólinn. En s.s. hver einasta manneskja skiptir máli og af hverju þarf ég að nefna það, eins augljóst og það virðist? Jú vegna þess að Jesús er alltaf að segja okkur þetta með einum eða öðrum hætti en við tökum ekki við því. Hefurður tekið eftir því hvað okkur er tamt að tala um manneskjur sem tölur eða stærðarmengi? Í raun er alltaf verið að fjalla um fólk í einhverjum massahugtökum, við tölum um markhópa, áhættuhópa og lýðheilsu sem eru góð og gagnleg hugtök og við fjöllum um prósentur þegar við þurfum að greina örlítið nákvæmar frá því hversu margir innan markhóps eða áhættuhóps eru svona eða hinsegin. Við virðumst eiga auðveldara með að fjalla um manneskjur sem massa og þá sérstaklega þegar verið er að tala um erfiða hluti, okkur finnst t.d. betra að fjalla um fórnarlömb ofbeldis í prósentum en í persónum, við höfum alltaf fjallað um fátækt í einhverju stærðarmengi og þannig náttúrulega vitað að á Íslandi er til fátækt fólk en þegar einhver stígur fram og greinir frá persónulegri upplifun sinni af þessum erfiðu hlutum verður okkur brugðið um leið og við fyllumst mannlegri forvitni vegna þess að þrátt fyrir að ofbeldi, fátækt, geðsjúkdómar eða alkóhólismi séu til staðar í einhverri mynd í öllum fjölskyldum þá finnst okkur alltaf jafn sláandi að sjá vandann persónugerðann. Og það er ekki bara að okkur finnist það sláandi, við skynjum líka að það er mikilvægt og gott, sem það er, vegna þess að eitt það mikilvægasta í þessu lífi er vitneskja manneskjunnar um að hún sé ekki ein. Um þetta snýst m.a. annars trúin, að fylla manneskjuna vissu um að hún verði aldrei ein, hvorki í lífi né dauða. Það er líka þekkt meðferðarleið í geðheilbrigðiskerfinu að ég tali nú ekki um í AA samtökunum að fólk hitti aðra sem glíma við sömu líðan og deili reynslu. Einnig eru til ýmsir hópar þar sem krabbameinssjúkt fólk eða fólk með aðra erfiða sjúkdóma hittist og gefur hvert öðru styrk með nærveru sinni og samlíðan. Í ljósi þessarar almennu vitneskju er svo merkilegt að við skulum einhvern veginn alltaf eiga auðveldara með að tala um áföll og erfiðleika í prósentum en persónum. Og það er raunar svo öfugsnúið, vegna þess að um leið og við förum að tala um hluti eins og ofbeldi, alkóhólisma, sjúkdóma og fleiri sammannleg fyrirbæri sem fjarlægan veruleika þá erum við að vinna sjálfum okkur mein, við skerðum möguleika okkar á að vinna með eigin áföll og sorgir. Hins vegar förum við alveg í hina áttina þegar kemur að frama, frægð og völdum, þá vill oft eiga sér stað ákveðin persónudýrkun og jafnvel hnýsni um hagi viðkomandi, hnýsni sem er kannski knúin áfram af lönguninni til þess að eiga hlutdeild í svona lífi. Við verðum býsna upp með okkur ef einhver frægur verður vinur okkar á facebook, sumir stunda það meira að segja að safna frægum vinum á facebook, það hefur ef til vill glimrandi áhrif á sjálfsmynd viðkomandi , jafnvel þótt hann þekki hina frægu ekki neitt. Í sjálfu sér er ekkert rangt við þá hegðun en hún er umhugsunarverð í ljósi þeirrar staðreyndar að frægð, frami og völd er ekki sammannleg reynsla heldur frávik frá því lífi sem blasir við okkur dag hvern og við kjósum frekar að tala um í stærðarmengjum. Í fljótu bragði geta orð Jesú í guðspjallinu, þar sem hann segir við læknaða manninn, “syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra,” hljómað sem helber ásökun, en í ljósi þess að Jesús Kristur er sá sem kemur auga á aðstæður mannsins og bregst við þeim þannig að maðurinn nær heilsu, þá hefur Kristur fullan rétt á því að aðvara manninn. Rétt eins og hórseku konuna sem mennirnir ætluðu að grýta en við hana segir Jesús “ég sakfelli þig ekki, syndga ekki framar.” Það er aldrei hægt að væna Jesú um ásökun á hendur okkur vegna þess að hann er sá eini sem mun alltaf bregðast við aðstæðum okkar. Við þekkjum auðvitað ekkert fortíð nafnlausa mannsins sem guðspjall dagsins greinir frá. Það er staðreynd að erfiðleikar okkar eru á tíðum áunnir en það þýðir samt ekki að við eigum þá skilið, það þýðir einfaldlega það að vandamál heimsins eru oft ekki tilviljunum háð og við getum alltaf stefnt að því að bæta okkur sem manneskjur. Það er t.d. engin tilviljun að ég skuli vera með 800 þúsund króna yfirdrátt í botni, það kallast ekki tilviljun, heldur ábyrgðarleysi í fjármálum af því að ég hef prýðileg laun en nákvæmlega ekkert verðskyn og svo skortir mig nægjusemi, það er ekkert hægt að orða það öðruvísi . Munurinn hins vegar á viðbrögðum okkar og Jesú er sá að við leyfum okkur gjarnan að ásaka eða áminna án þess að eiga nokkra innistæðu fyrir því. Það er helst í samskiptum við börnin okkar sem við höfum leyfi til þess vegna þess að þau eru þær manneskjur sem við elskum skilyrðislaust og reynumst þeim í samræmi við það, þær manneskjur sem við sjáum helst með augum Jesú. Ef að Jesús hefði ekki sagt þessa setningu við manninn í guðspjallinu þá væri þessi saga ekki ósvipuð mörgum ævintýrum þar sem ofurhetjur koma við sögu og allt fer vel að lokum. En guðspjallið er ekki ævintýri heldur fúlasta alvara af því að Jesús er bara alls enginn reddari, nei hann er vegurinn sannleikurinn og lífið og einmitt þess vegna dýpkar hann samskiptin við manninn þannig að þau snúast ekki bara um skilyrðislausan kærleika og virðingu heldur líka um heiðarleika og hvatningu til að takast á við eigið líf sem ábyrg manneskja. Í guðspjallinu segir jafnframt “þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.” Tókstu eftir því að það er ekki látið nægja að segja, “þarna var maður sem hafði lengi verið sjúkur” nei hann hafði verið sjúkur í nákvæmlega þrjátíu og átta ár, það er ótrúlega langur tími. Sökum sjúkleikans eða einangrunarinnar varð blessaður maðurinn aldrei fyrstur til að komast ofan í laugina eftir að engill Drottins hafði hrært vatnið. Við getum alveg dregið þær ályktanir að þeir sem hafi náð að stíga ofan í laugina sér til lækninga hafi verið þeir sem áttu bakland í vinum og fjölskyldu. Allir sem fóru ofan í laugina á þessum mikilvæga tímapunkti losnuðu úr viðjum lömunar og sjúkleika en möguleikarnir á því að öðlast þetta nýja líf sem laugin bauð upp á, réðust af félagslegri stöðu fólksins. Þetta er gömul saga og líka skelfilega ný. Þarna var saman komið fólk sem átti þá sameiginlegu ósk að eignast heilsu, en þeir sem upplifðu síðan að eignast frelsi hins læknaða líkama gátu samt ekki komið auga á þennan langveika mann og brugðist við aðstæðum hans. Maðurinn var í seilingarfjarlægð frá vatninu og kannski skvettist á hann í hvert sinn sem einhver lét sig gossa ofan í laugina, en aðeins Guð einn sá örvæntingu hans. Já þetta er gömul saga og ný. Það eru margir í okkar litla þjóðfélagið sem hafa upplifað að fá á sig dropa velmegunargusunnar, einstaklingar, já persónur sem hafa staðið í seilingarfjarlægð frá brunni hins sanngjarna lífs án þess að samfélagið finndi sig knúið til að bregðast við. Peningapottur íslenska ríkisins hefur alls ekki verið ætlaður til velferðarmála, allir þeir sem hafa einhverra hluta vegna, helst úr farsældarlestinni, fá ekki að nálgast þennan pott. Hann hefur hingað til verið ætlaður öðrum, þeim sem hafa a.m.k einhver völd og áhrif. Og það er stærsti smánarbletturinn á okkar þjóð, það er nefnilega ekki Icesave sem er stærsti smánarbletturinn, ekki Kárahnjúkavirkjun þótt hún skori vissulega hátt, ekki myntkörfulánin, heldur velferðarmálin. Og svona hefur þetta verið í skammarlega langan tíma. Til þess að þetta breytist, af því að þetta er ekki náttúrulögmál og getur þess vegna breyst, þurfa heimilin og allar þær stofnanir og hreyfingar sem koma að uppeldi og velferð barna og unglinga að leggja grunn að siðferðilegri hugsun barnanna. Já við þurfum að efla siðferðilega hugsun komandi kynslóða vegna þess að það er það eina sem getur unnið á þessum stóra smánarbletti þjóðfélagsins. Við verðum að leggja áherslu á að börnin okkar verði siðferðilega læs á mannlegaraðstæður og umhverfi þannig að forgangsröðun þeirra í framtíðinni verði á allan hátt mannvænlegri og að þeim verði tamt að sjá og tala um manneskjur í öllum aðstæðum en ekki bara um áhættu og markhópa . Nú höfum við líka fengið skýra staðfestingu á að viðskiptahættir okkar eru ekki líklegir til árangurs og þess vegna eigum við að eyða orku í að byggja upp samfélag á siðferðiskletti sem haggast ekki þó að sjórinn brotni af og til á okkur. Í kvöld fögnum við fermingarfjölskyldum vetrarins en á þriðjudaginn hefst fermingarfræðslan sem er án efa einhver dýrmætasti og mikilvægasti vettvangur kirkjunnar. Í fermingarfræðslunni fær kirkjan einmitt stórkostlegt tækifæri til að ræða um alvöru gæði, siðferðileg gæði sem eru grundvölluð á biblíusögum, af því að biblíusögur eru besta námsefnið sem við höfum í höndum til að kenna lífsleikni og efla mannvirðingu. Og þetta segi ég blákalt vegna þess að hvort sem fólk á trú eður ei stendur Biblían og þá sér í lagi guðspjöllin, óvéfengjanlega fyrir sínu sem grunnur að samfélagssáttmála þar sem mannleg velferð í andlegum og veraldlegum efnum er sett ofar öllu. Og það er Jesús sem kennir þetta best og þess vegna segjum við sögurnar hans í fermingarfræðslunni af því að við prestarnir höfum auðvitað bara takmarkað fram að færa úr okkar eigin ranni og þess vegna segjum við frá honum og því sem hann sagði vegna þess að við erum sannfærð um að hinn kristni boðskapur sé sá áttaviti sem börnin geti alltaf dregið fram í þoku framtíðarinnar. Biblíusögurnar sem sumir tengja helst við sunnudagaskólann eru lífgefandi í svo margvíslegum skilningi og þær eru uppspretta eftirsóknarverðra lífsgæða. Þær eru laug sem líknar og þess vegna þurfum við líka sem kirkja, kristin mannlífshreyfing að vera vakandi fyrir þeim sem standa í seilingarfjarlægð frá orðinu en hafa hvorki sjálfsmynd né þrek til að stíga inn fyrir þröskuld kirkjunnar. Við þurfum að vera vakandi fyrir þeim einstaklingum svo að kirkjan endi ekki á því að verða ósnertanleg og einangruð með háán þröskuld eins og velferðarkerfið okkar. Þegar öllu er á botnin hvolft snýst þetta um að eignast augu Guðs sem sjá hverja manneskju sem markmið svo að enginn þurfi að standa í seilingarfjarlægð frá laug lífsins. Guð gefi okkur þessi augu í fermingarstarfi vetrarins. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.