Biðraðir

Biðraðir

En þessi lífsreyndi hugsuður, Predikarinn, hefur augljóslega séð þetta allt. Hann hefur heyrt siguróp hinna fremstu, séð glampann í augum hinna vinsælu, skynjað hvernig þau geisla af gleði sem tróna yfir öðru fólki. Og um leið hefur hann lært það hversu fallvöld gæfan er. Hann veit að ekki er allt gull sem glóir í þessum efnum. Farældin er að hans mati fólgin í öðrum þáttum:

Ég er lítið gefinn fyrir biðraðir. Já, sennilega eru fleiri sama sinnis.


Fyrstir verða síðastir

 

Þegar ég horfi á halarófuna sem silast eftir Hringbrautinni þá er ég oftast á leið í gagnstæða átt, enda búsettur í öðrum enda höfuðborgarsvæðisins en meirihluti íbúa þess. Það getur ekki verið eftirsóknarvert að byrja og enda hvern vinnudag á þessu drolli en vonandi vega önnur lífsgæði það upp.

 

Þegar ég er sjálfur staddur einhvers staðar í margmenni, bíð eftir að komast að sölulúgu, hlaðborði eða einhverju slíku – þá greinilega sést það á mér hversu lítið ég er gefinn fyrir biðraðir. Og ef gárungar kannast við mig og vita hvað ég hef fyrir stafni – þá deila þeir að mér þessari speki kankvísir á svipinn: „Hinir fyrstu verða síðastir.“

 

Það er jú eitthvað öfugsnúið við að halda því fram að þau sem er öftust í röðinni séu þrátt fyrir allt, fremst. Það hljómar eins og mesta vitleysa. Til hvers að standa í röðinni ef ekki til að mjakast áfram og ná að endingu í fremstu röð?


Predikað um hégóma

 

Textar dagsins tilheyra hefð í Biblíunni (og reyndar miklu víðar) sem kallast speki. Þeim flokki tilheyrir Predikarinn svo nefndi. Heitið á því riti hefur svo sem ekki elst mjög vel. Enginn vill predika er það nokkuð? Þetta heyrum við oft. Listamenn vinna verk með stórbrotinn boðskap – en taka það um leið fram að þeir séu ekki að predika. Stjórnmálin eru sama marki brennd. Jú, því predikun í því sambandi er eins og einhver innræting, skilur ekki eftir neitt svigrúm fyrir viðtakandann að túlka og setja erindið í samhengi. Það ég held reyndar að sé á misskilningi byggt.

 

Predikunarfælni samtímans fellur reyndar ágætlega að þessum upphafslínum sem hér voru lesnar:

 

Aumasti hégómi, segir prédikarinn,
aumasti hégómi, allt er hégómi.
Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann streitist við undir sólinni?

 

Já, þetta erfiði sem hann talar um – er það ekki viðleitnin að troða okkur fram fyrir aðra í röðinni löngu? Hún byrjar snemma. Í hópíþróttum er börnum raðað í lið eftir getu og eiga að vinna sig framar í röðina. Landsmenn fyllast ótta þegar könnun sýnir að skólarnir okkar eru að dragast aftur úr – já orðalagið sjálft minnir á biðröð. Til er lögmál kennt við einhvern Parkinson sem segir að við náum frama í starfi alveg þangað til við erum komin í stöðu sem er ofvaxin getu okkar og færni. Samkvæmt því ættum við að fara varlega í framapoti okkar!

 

En þessi lífsreyndi hugsuður, Predikarinn, hefur augljóslega séð þetta allt. Hann hefur heyrt siguróp hinna fremstu, séð glampann í augum hinna vinsælu, skynjað hvernig þau geisla af gleði sem tróna yfir öðru fólki. Og um leið hefur hann lært það hversu fallvöld gæfan er. Hann veit að ekki er allt gull sem glóir í þessum efnum. Farældin er að hans mati fólgin í öðrum þáttum:

 

Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.

 

Æðruleysi predikarans er eins og andóf við þessari viðleitni. Vegna þess, jú að hún á sér skuggahliðar, dimmar skuggahliðar. Hin hliðin á myndinni eru þau sem hafa orðið undir og þar hrópar óréttlætið á okkur. Það sjáum við svo vel á okkar dögum þegar berast fregnir af ofsagróða þeirra sem maka krókinn á þeim ófriði sem geysar nú víða um heim. Það eru ekki eingöngu framleiðendur vopna heldur líka fyrirtækin sem versla með hráefnið sem rýkur upp í verði í kjölfar átakanna. Já, bak við þann ofsagróða eru óskaplegar þjáningar saklausra og enn meira ójafnvægi í þjáðum heimi.

 

Þessi yfirlýsing, að allt sé hégómi er andsvar við þeirri afstöðu að tilveran hljóti að vera rökrétt: „Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti og þar sem réttlætið átti að vera þar var ranglæti“ Það eykur aðeins á kvöl hinna þjáðu ef harmur þeirra er réttlættur með vísan til einhverra mögulegra fólskuverka sem þau kunna að hafa unnið.


Lífsgæði

 

Og það er meira sem býr þar að baki.

 

Viðamesta rannsókn sem hefur verið gerð á lífsgæðum, stóð yfir í heilan mannsaldur eða áttatíu ár. Grannt var fylgst með hópi fólks frá unga aldri og fram að ævikvöldinu. Verkefnið var unnið á vegum Harvard háskólans og í allan þennan tíma söfnuðu vísindamenn gögnum um líðan, hamingju og heilsufar þeirra sem lentu í úrtakinu. Markmiðið var að komast að því hvað það er sem veitir fólki mesta gæfu og lífslengd, já hvað bætir árum við lífið og lífi við árin? gætu þau hafa spurt í þeim anda. Eða: í hvaða biðröð ættum við að koma okkur fyrir og reyna að nálgst markið?

 

Það var víst ekki frægðin og ekki heldur framinn sem reið þar baggamuninn, ekki fúlgur fjár eða mikil völd. Lífsgæðin samkvæmt þessari viðamestu rannsókn á sinni sviði fólust í því að tengjast öðru fólki. Vinátta og samskipti skipta mestu máli þegar kemur að því að verja okkur gegn áreiti, auka vellíðan okkar og heilsu. Þeir sýndu fram á það hversu lengur þau lifa sem temja sér að umgangast annað fólk.

 

Einsemdin er okkur greinilega ekki holl. Við þurfum að geta hitt annað fólk, skipst á skoðunum, átt samtal og með því stórbætum við líðan okkar og já, líf. En hér má vitna í Pál Óskar sem söng: „Það er munur á að vera einn og vera einmana“. Í þessum efnum skiptir ekki sköpum hvort við eigum marga vini eða fáa, erum út á við eða njótum þess líka að eiga stund með okkur sjálfum. Við þurfum alltaf að eiga einhvern að. Fólkið í kringum okkur er að endingu mikilvægasti þátturinn í lífi okkar.


Jesús og lífsgæðin

 

Þeir hefðu svo sem getað lesið viðbrögð Jesú þegar hann var spurður um mikilvægustu valkostina sem við tökum í lífinu. Hann ræðir þá í raun í þessum ögrandi orðum sem við heyrðum hér áðan við þá sem höfðu yfirgefið allt og fylgt honum.

 

Svör hans má orða á þennan hátt: „Elskið Guð og elskið náungann.“ Hér ber vitaskuld að sama brunni. Enda sagði Jesús ekki að köllun okkar fælist í því að hafa aðra undir, olnboga okkur áfram í tilverunni og sanka að okkur takmörkuðum gæðum með öllum mögulegum ráðum. Nei, sá hópur úrtaksins sem hafði valið þá kosti reyndist hafa þurft að greiða hátt verð fyrir þá ákvörðun.

 

Ástin til Guðs felst í bæninni þar sem við játum takmörk okkar andspænis því sem við fáum ekki breytt. Við biðjum Guð um að gera okkur að vettvangi fyrir hið góða starf sem þarf að vinna til blessunar og friðar. Það er í raun kjarni allra samskipta – við viðurkennum að við þurfum á öðrum að halda.


Er allt hégómi?

 

Inni í þetta samhengi standa orð Jesú sem svo oft hefur verið vitnað til í mín eyru. Þegar hann segir að þau sem standa aftast, verði fyrst, snýr hann því einmitt á hvolf sem okkur er svo eðlilægt að elstast við. Þegar við tengjumst fólki þurfum við einmitt að temja okkur aðra háttu en þegar við lítum á lífið sem samkeppni við aðra. Samfélag við aðra kallar á auðmýkt, skilning og stundum umburðarlyndi, gjafmildi og vakandi áhuga fyrir því sem fólkið okkar hefur fram að færa. Já, þar sem við gegnum forystu ætti það að vera leiðarljós okkar að setja hag fylgjendanna framar okkar eigin hagsmunum.

 

„Betri er hnefafylli af ró en báðar lúkur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“

 

„Hinir fyrstu verða síðasti og hinir síðustu fyrstir“

 

Já, er allt hégómi? Nei, auðvitað ekki. Hér er hinn algengi ýkjustíll Biblíunnar á fleygiferð. Sumt er það vissulega og ef við helgum takmarkaða ævidaga okkar í að eltast við slíkt þá hefur það afleiðingar. Boðskapurinn er þvert á móti sá að við ættum að hlúa að þeim verðmætum sem standa hjarta okkar næst. Biðraðirnar eru margvíslegar. Og aftasta staðan í halarófunni getur jafnvel verið sú eftirsóknarverðasta.