Flutt 18. febrúar 2018 í Neskirkju
Fólk segir sögur og margt bendir til að við mennirnir séum ein um það að geta skapað slíkar furður upp úr reynslu okkar og ímyndunum sem frásagnirnar eru.
Sögur
Líffræðingar sem kanna hegðun dýra sjá merki um samskipti og „tungmál“ sem þau nýta til að miðla hvert til annars skilaboðum með hljóðum, lykt, hreyfingum eða öðrum hætti. Með því geta þau varað við hættum, haldið skipulagi innan hjarðar og bent á hvar fæðu sé að finna. Það er samt annað en að segja sögu - taka einhverja þætti í lífi okkar og eðli og setja þá í ramma sögulegrar framvindu.
Þannig má lýsa veruleika og hugmyndum, rétt eins og mynd sé dregin upp á striga. Sumar eru reyndar þess eðlis að þeim verður fremur líkt við ramma, með ef til vill einhverjum útlínum sem eru þó ekki fleiri og nákvæmari en svo að sagan skilur eftir mikið pláss fyrir áheyrandann til að fylla í.
Þegar í upphafi Biblíunnar, lesum við um Adam og Evu. Það er í sjálfu sér stutt frásögn, aðeins 25 vers og ætti að vera öllum kunn. Þó er hún í öllum einfaldleik sínum eins og kveikja að frekari rýni og túlkun sem fléttast í ýmsar áttir og stundum óvæntar. Fyrir kristnum mönnum er þetta lýsing á paradísarmissi, syndafalli - hugvekja um hið ákjósanlega ástand, aldingarð, sem eitt sinn var, en svo var maðurinn gerður brottrækur og gekkst undir líf þjáninga og erfiðis. Alla tíð síðan er líf mannsins þraut og pína en vitundin um hinn fullkomna heim blundar einhvers staðar í hugskotinu.
Gyðingar lesa hana sem fremur sem þroskasögu, þar sem maðurinn tekur að skilgreina heiminn, gefur dýrunum nöfn, lærir á skil góðs og ills og öðlast vitund á takmörkum sínum og dauða. Aldingarðurinn sjálfur er í raun hálfgerð þoka í þeirri túlkun, en það tekur að rofa til þegar orðin myndast. Orðið kölluðu grískir þýðendur gamla testamentisins, logos - sem við getum allt eins kallað skipan og það, sem skapar reglur úr óreiðu.
Svo hafa ótal fræðimenn rýnt og túlkað þessa sögu, og hver skilur hana út frá sínu sjónarhorni. Er þetta sagan af því þegar maðurinn tók að stunda landbúnað? Já þegar hann fór út úr skóginum þar sem hann lifði á landsins gæðum og líklega útheimti stritið á akrinum miklu fleiri vinnustundir en í hinu „náttúrulega ástandi“.
Fíkjulaufin hylja nekt þeirra og fíkjur hafa vafalítið verið þessi forboðni ávöxtur - alls ekki epli sem voru óþekkt á því svæði sem sagan varð til! Líkur eru á að fíkjutré hafi verið það fyrsta sem maðurinn tók að rækta sér til gagns. Samtal Evu við höggorminn, segir til dæmis Yuval Noah Harari í metsölubók síðasta árs, á sér hliðstæður í því hvernig þjóðflokkar sem lifa á veiðum og söfnun tala við náttúruleg fyrirbæri í umhverfi sínu en þetta er eitt af sárafáum dæmum um slíkar samræður í Biblíunni.
Eða er þetta lýsing á uppvexti - hvernig barnið sem hafði notið þess að ganga um nakið, finnur á einhverju skeiði þroskans fyrir blygðun og spéhræðslu? Hvað segir þetta okkur um föðurímyndina sem frummennin óhlýðnast og burðast með þá sekt á bakinu alla tíð síðan?
Og höggormurinn sjálfur - er hann allur þar sem hann er séður? nei líklega ekki! Hann er ákveðin tilvísun sem birtist okkur víða í jákvæðum skilningi, til dæmis á meðalaglösum þar sem hann hringar sig utan um eirstafinn og er þar tákn um lækningu og heilsu. Hann bítur í halann á sér og myndar hring á fornu táknmáli sem vísar í eilífðina. Hann tekur hamskiptum og það er eins og ný lífvera birtist undir hinni gömlu húð. Með því minnti hann á endurnýjun og jafnvel endurfæðingu. Þannig verður þessi óvænta aðalpersóna til þess að skapa enn fleiri hliðar á kunnri sögu.
Nektin
Já, fólk segir sögur og fólk er sjaldan nakið á almannafæri. Það er enn einn af stólpunum í sögunni og þar er orðið nekt eða arom, á hebresku. Það kemur fyrir í upphafi sögunnar - þau voru nakin og blygðuðust sín ekki. Það birtist í hápunkti hennar - þau bitu í eplið og sáu þau voru nakin. Loks kemur það fyrir í endann þegar Guð lætur þeim eftir klæði til að hylja líkama sinn. Þetta er lýsing á því hvernig hinar uppréttu mannverur skynja hversu viðkvæm þau eru og varnarlaus. Frændur okkar og frænkur úr dýraríkinu, ganga um lotin og hærð. Það gefur þeim góða náttúrulega vörn. Í okkar tilviki er viðkvæmasti hluti líkamans berskjaldaður fyrir allri ógn. Hugtakið arom er líka flóknara, merkir eiginlega gegnsætt og auðsæranlegt. Til að flækja málin enn frekar þá er sama orð notað yfir kænsku höggormsins. En það er efni í aðra predikun.
Í lokin er Adam þó niðurbeygður og lotinn. Hann hylur nekt sína og hann felur sig fyrir Guði - sem ber upp þessa spurningu sem gæti verið ávarp til allra manna á öllum tímum: „Adam hvar ertu?“
Já, þessi litla goðsögn - sem sumir hafa herfilega mistúlkað sem einhvers konar tilraun til að lýsa á fræðilegan og línulegan hátt, eðli mannsins og upphafi - skilur mikið eftir fyrir okkur sem rýnum í hana og spáum. Og í textum dagsins er hún sett í samband við guðspjallið, þennan atburð þar sem Jesús er staddur í eyðimörkinni, á slóðum sem minna um margt á útlegðina sem þau Adam og Eva voru dæmd í. Þar mæta Jesú, freistingar, eins og í fyrri sögunni. Í táknheimi guðfræðinnar er Jesús stundum kallaður „hinn nýi Adam“ sá sem stígur fram á sjónarsviðið í hjálpræðissögunni fyrir syndafall hins fyrsta manns.
Crux
Þessi frásögn í upphafi lönguföstu vísar fram til krossins sem atburðir þessa tímabils, hverfast allir um. Nú á fyrsta sunnudegi föstunnar að messu lokinni, opnum við sýningu Kees Vissers, Crux, „kross“, hér á Torginu. Hún samanstendur af fjórtán verkum sem birta okkur krossa frá ýmsu sjónarhorni. Talan fjórtán vísar til krossferlisins, þess þegar pílagrímar fara á milli einstakra stöðva sem tengjast ferð Jesú með krossinn upp á Hauskúpuhæðir. Hvert þessara verka er unnið upp úr myndum frá meistara endurreisnarinnar en Visser hefur þurrkað allt út af myndunum nema krossinn sem þar ber fyrir.
Þar sést hann frá ýmsu sjónarhorni, stundum líkist hann ör, stundum eins og ex, á sumum er hann strik. Þar sem allt annað er fjarlægt af verkinu verður krossinn ekki ósvipaður burðargrind í verkinu. Hann hefur áhrif á uppbygginguna.
Í glæsilegri sýningarskrá lýsir franski listfræðingurinn, Christophe Domino, því hvernig Visser nýtir verkin, ekki til að fella dóma hvort heldur það er gert í einlægni eða kaldhæðni, heldur til að varpa spurningum til áhorfandans.
Fyrir leikmanni sem ekki er innvígður í hugtak myndlistarinnar verður ekki framhjá því litið hversu sláandi munur er á verkum Vissers og frummyndunum, þar sem færni listamannsins var ekki síst tæknileg. Hann gat líkt eftir hinum ytri heimi, með svipuðum hætti og myndavélar gera í dag.
Myndirnar eru fullar af smáatriðum, þær eru sigurtákn menningar sem hafði uppgötvað hin klassísku fræði þar sem mannslíkaminn er upphafinn, unnið er með fjarlægðir og hlutföll og reiknilistin nýttist óspart til stuðnings verkinu.
Hið ofureinfalda snið verka Vissers, er allt annað en það sem skóp gömlu meisturunum orðspor sitt. Þar mætir okkur hið algera tóm þar sem áður var ýtarleg myndgerð. Verk hans verða eins og goðsagnirnar sem við lesum og við finnum það í framhaldi hversu vekjandi og skapandi þær eru. Krossinn hefur líka það eðli að hann spyr spurninga.
Hann spyr um heiminn, grimmd hans og þrautir. Krossinn, spyr um eðli tilverunnar og minnir okkur á hversu viðkvæm hún er. Þar birtist Kristur sjálfur í miðjunni þar sem öll þjáningin á sér stað. Þar birtist hinn nýi Adam okkur í sínu algera bjargarleysi, uppréttur og nakinn. Spurning Guðs í aldingarðinum hljómar í bakgrunni krossins: „Adam hvar ertu?“ og svarið sem er þó ekki annað en önnur spurning sem er full örvæntingar og sársauka: „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“
Uppréttur og nakinn
Allt snýst þetta um mennskuna í hinum kristna skilningi. Að vera uppréttur, þar sem viðkvæmasti hluti líkamans er óvarinn. Hvar sjáum við það betur en á krossinum?
Sagan af Adam og Evu og sagan af krossinum eru hvor tveggju í hjarta vestrænnar menningar. Já, mér finnast verk Vissers líka kalla inn í það samhengi. Því þetta er öþreytt menning - dauðuppgefin á sögu sinni, hefur fyrir löngu skynjað og skilið hvað framfarnirnar svokölluðu búa yfir dökkum skuggahliðum, hefur heyrt ótal sögur af hetjum og fyrirmyndum sem voru svo drottnand ofbeldisfautar. Vestræn menning er úrvinda. Svo þegar falsguðirnir birtast, fallega fólkið, þeir sem hjúpa sig réttum klæðum, fela nekt sína og draga upp einhverjar glansmyndir af sjálfum sér, þá eiga þeir greiðan aðgang að lýðnum.
Kannske eru það spurningarnar sem þessir óræðu verk Vissers bera upp við okkur? Krossarnir standa eins og rammar og innihaldið er naumhyggjan í sinni skýrustu mynd. Og eins og sögurnar í Biblíunni loka þeir engum dyrum, heldur þvert á móti efna til samtals við hvern þann sem gefur þeim gaum.