Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Guðspjallið hljómar svona til að byrja með eins og saga úr leikskólanum. ,,Þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur.” Þetta voru lærisveinar Jesú sem sín á milli fóru að metast um hver þeirra væri mestur. Þegar við hins vegar lítum djúpt í okkur sjálf þá komumst við nú fljótt að því að það er svo sannarlega ekki bara á leikskólanum og hjá börnum sem verið er að metast. Munurinn er að leikskólabörnin fara ekkert leynt með það þegar þau eru að metast: ,,Pabbi minn er miklu sterkari en pabbi þinn!” ,,Mamma mín er góðari en þín!” ,,Míns á flottara dót en þú!” Við fullorðna fólkið förum leyndara með það þegar við erum að metast, komum því hljóðlega á framfæri hversu mikils metin við ættum að vera. Sjáiði bara Facebook, ég er hrædd um að flest okkar setjum þar ekkert inn nema það sem við viljum metast um, hversu dugleg við erum við hitt eða þetta. ,,Guðbjörg fór í ræktina í morgun og tók allt húsið í gegn, svo eldaði æðislegi eiginmaður hennar mat handa frábæru fjölskyldunni sinni.” Svo bíðum við spennt eftir því að fá hrósið og ,,lækið” á hversu dugleg við vorum. Lítum aftur til guðspjallsins og reynum að sjá fyrir okkur umgjörð þess, þetta er síðasta kvöldmáltíðin. Kveðjumáltíð Jesú, hann veit hvað er í vændum og undirbýr fólkið sitt undir það sem koma skal. Þau sem hafa fylgt honum eftir vita einnig að hann mun deyja, að hann er að kveðja. Hvað mun þá taka við, hvernig mun boðskapur hans komast áfram til skila og það sem kannski mestur skiptir, hver tekur við stjórinni af honum, hver á að verða leiðtoginn þegar Jesú er farinn? Þeir eru farnir að pískra sín á milli hver það gæti verið og þeir geta ekki hamið sig, eru farnir að metast um það hver þeirra sé talinn mestur. Það hefur verið talað um það og spurt að því hvar konurnar hafi verið á þessum tíma. Það er öruggt að það var hópur kvenna sem fylgdi Jesú á ferðum hans, það eru sögur af þeim í guðspjöllunum og Jesú notar oft líkingamál sem talar til kvenna. Hér eru þær ekki nefndar á nafn skyldu þær ekki hafa verið viðstaddir við hina síðustu kvöldmáltíð? Jú, það er ótrúlegt annað en að þær hafi verið þarna líka þær voru bara ekki skrifaðar inn í sögusviðið. Hlutverkaskipting milli karla og kvenna var skýr á þessu tíma, það voru konurnar sem stýrð heima fyrir, sáu um húshaldið. En það voru karlarnir sem réðu og það voru einungis þeir sem komu að trúarlega þættinum. Það voru bara strákarnir sem voru uppfræddir í lögmálinu og það voru þeir sem áttu að taka við stjórninni og leiðtogahlutverkinu í samkunduhúsunum og musterinu. Á þessum stöðum sem voru trúarlegar miðstöðvar áttu konur og börn sinn stað, í samkunduhúsunum voru þau uppi á svölum í musterinu máttu þær ekki fara eins innarlega í musterið og karlarnar, því innar sem komið var í musterið því nær var viðkomandi helgidóminum og þangað komu aldrei konur. Staður konunnar var skýr og hennar var að þjóna innan heimilsins, þjóna gestum þegar þeir komu og þjóna heimilisfólki til borðs. Ég velti fyrir mér hvort þessi skipting hafi verið jafn skýr innan þess hóps sem fylgdi Jesú. Líklega var það að einhverju leyti svoleiðis og þá voru það konurnar sem þetta kvöld höfðu undirbúið máltíðina og komið að því að þjóna þeim sem þar voru. Alveg örugglega höfðu þær lagt sig alla fram um matseldina og þjónustuna því það var Jesú sem þær voru að þjóna og það var hann sem hafði litið á þær allt öðruvísi en nokkur annar hafði gert, af virðingu og sem jafningja. Ímyndið ykkur hversu sterkt þetta hefur verið fyrir þær. Jesús stingur ofan í þessa gæja sem voru svo vissir um að það væri þeirra að taka við af Jesú. Hann segir að það eigi ekki að vera hjá þeim eins venjan og hefðin sé, ,,Heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.” Hann sjálfur sem var sonur Guðs, foringi þeirra og leiðtogi hafði þjónað þeim þó hann væri þeirra fremstur. Hann hafði þetta kvöld brotið brauðið og gefið þeim, blessað vínið og gefið þeim. Konurnar höfðu svo oft áður þjónað og verið í neðri virðingarstiganum. Ekki endilega fengið neinar sérstakar þakkir og alltaf vitað að hvað sem þær gerðu og hversu oft sem þær þjónuðu þá kæmust þær ekkert nær guðdóminum fyrir vikið. Nú sagði hann að þær hefðu alveg jafn mikið fram að færa og sá sem þjónað er. Hann hafði þjónað þeim og það voru þær sem höfðu staðið með Jesú í freistingum hans og það voru einnig konurnar sem myndu fá ríkið í hendur og þær mættu eta og drekka við hans hans borð í hans ríki, sitja í hásætum og dæma 12 ættkvíslir Ísraels. Einmitt við þetta borð þar sem nándin var svo mikil verður myndin svo skýr og Jesús bendir á að sá verði mestur sem þjóni öðrum. Það er lykillinn að virðingunni og himnaríki. Hugsið ykkur bara hversu kröftug mótmæli þetta voru gegn feðraveldinu og hversu mikil hvatning þetta var fyrir þær konur sem stöðugt voru undir hæl feðraveldisins. Jesú færði þeim vonina um að geta brotist gegn þessu og það væri ekki síður þeirra að eignast hlutdeild í því sem þær höfðu áður ekki aðgang að. Okkur finnst þetta kannski ekki svo róttækt í dag, við erum vön því að þjónusta hvert annað og hjálpast að, sama af hvaða stétt eða kyni við erum. Í síðustu viku var alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Kannski finnst einhverjum það orðið úrelt að eltast við jöfn réttindi kynjanna og telja að þessum fulla rétt sé náð. En það er bara samt ekki þannig. Launamunur kynjanna er ennþá staðreynd, þar sem konur fá lægri laun fyrir sömu vinnu og karlmenn. Það er svo margt enn sem vert er að berjast fyrir og ef okkur finnst við hafa náð fullum árangri þá megum við nýta krafta okkur til að virkja aðrar konur í heiminum sem enn er staddar á þeim punkti sem konurnar á tímum Jesú stóðu í. Svo ótrúlega víða er konum ennþá haldið niðri af feðraveldinu og líf þeirra lítils metið og alls ekki til jafns við karlana. Það eru sömuleiðis aðrir minnihlutahópar sem berjast í skjóli réttindabaráttu kvenna og nýta sér krafta hennar, svo það er alltaf rúm fyrir góðan málstað sem vantar röddu jafnréttis. Boðskapur og fagnaðarerindi Jesú snérist um að gera hið ómögulega mögulegt. Að afmá öll skilrúm, brjóta niður veggi og gera okkur jöfn. Kalla fram til forystu þau sem halloka eru því það eru ekki síður þau sem hafa eitthvað svo gott fram að færa. Það er á jafnréttisgrundvelli sem við störfum heil og erum ekki sífellt að hugsa hvort við séum ekki örugglega talin meira virði en aðrir í kringum okkur. Því hver þarf að vera mestur þegar við erum öll jöfn og Guð elskar okkur öll jafnt. Hann skapaði okkur í sinni mynd, konu og karl. Við eigum að bera þá mynd áfram í okkar lífi, þjóna hvert öðru jafnt og af virðingu. Einn daginn er okkur þjónað en hinn þjónum við öðrum. Það er þannig sem Jesú vildi hafa það. Það er þannig sem við eigum að lifa. Það er þannig sem við berum mynd Guðs í heiminum. Það er þannig sem við eigum að ala börn okkar upp og kenna þeim og uppfræða um að öll séum við elskuð jafnt. Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen