Saga af ástarsambandi

Saga af ástarsambandi

Og Jónatan – jú, hann átti samkvæmt öllum reglum að taka við af föður sínum, erfa ríkið eins og venjan var á þeim tíma. Ást hans á Davíð var á hinn bóginn slík að hann vildi gera allt sem hann gat til þess að hlífa honum við ævareiðum og voldugum föður sínum.

Ég er búinn að vera prestur skuggalega lengi. Næsta vor er kominn aldarfjórðungur. Það þýðir að ég er farinn að fá ósk frá fólki sem ég skírði á sínum tíma, um að skíra börnin sín. Og fermingarbörnin í lok tíunda áratugarins eru virðulegt miðaldra fólk í dag.

 

Hjúskaparmál samkynhneigðra

 

Við þessu er auðvitað ekkert að gera og þaðan af síður að amast, þótt ég noti lýsingarorðið ,,skuggalegt“ hérna í upphafi. Það er ekki bara að fólk sem ég hef umgengst hafi sjálft þroskast og dafnað – heimurinn er gerbreyttur.

 

Þessi aldarfjórðungur hefur verið framfaraskeið. Á þeim tíma hafa hlutir komið fram á sjónarsviðið sem eru núna í sjónmáli okkar nánast hverja vökustund. Á æskulýðsfundum í gamla daga sungum við um Guð sem hafði „the whole world in his hands“. Í dag er hvert og eitt okkar með alheiminn í lófanum, alla þekkingu sem hægt er að komast í.

 

Árlega hittast prestar á prestastefnu og mín fyrsta vorið 97, fór fram á Akureyri. voru líflegar og opnar umræður um það sem menn kölluðu þá hjónaband samkynhneigðra. Þá var ég á þrítugsaldri og hlustaði á skylmingar og skeggræður af ákveðinni lotningu. Þarna virtust nýir tímar vera í vændum.

 

Margir sáu fram á að þjóðkirkjan gæti nú stigið risastórt skref í að viðurkenna réttindi þjóðfélagshóps sem átti sannarlega undir högg að sækja. Hún ætti að hafa frumkvæði í þessum efnum og myndi þá ekki fylgja straumum með semingi og tregðu – heldur vera á undan tíðarandanum með kristinn mannskilning að leiðarljósi.

 

Því fór þó fjarri að einhugur ríkti og margir spáðu hinum verstu hörmungum ef kirkjan tæki forystu í þessu máli.

 

Tálmar á hjúskap samkynhneigðra stuðluðu enn frekar að því að slíkir einstaklingar færu í felur með kynhneigð sína.

 

Saga af ástarsambandi

 

Nú kunna eitthver ykkar sem hlýðið á þessi orð að spyrja hvaða erindi slíkt geti átt þegar lagt er út af þeim textum sem hér voru lesnir.

 

Það er aðallega tvennt sem kallar á tengsl þarna á milli, tvenns konar brýr sem mig langar að reisa og kanna hvort þær haldi.

 

Þessi þrjú þúsund ára gamli texti sem við hlýddum hér á – lýsir kærleiksböndum tveggja ungra manna. Davíð hinn verðandi konungur og Jónatan konungssonurinn ræða þar sín á milli hvernig koma megi í veg fyrir að sá fyrrnefndi verði fyrir barðinu á reiði Sáls – konungsins og föður Jónatans.

 

Við þekkjum vonandi öll söguna af Davíð og Golíat og atburðirnir gerast í framhaldinu. Slíkar voru vinsældir hjarðsveinsins sigursæla í kjölfar þeirrar rimmu að Sál fór að verða uggandi um eigin stöðu. Fólkið hrópaði nafn Davíðs af meiri ást og krafti en nafn Sáls.

 

Og Jónatan – jú, hann átti samkvæmt öllum reglum að taka við af föður sínum, erfa ríkið eins og venjan var á þeim tíma. Ást hans á Davíð var á hinn bóginn slík að hann vildi gera allt sem hann gat til þess að hlífa honum við ævareiðum og voldugum föður sínum. Það kemur fram í aðdragandanum að þessum textabút að Jónatann unni Davíð hugástum og þegar Sál réðist að Davíð þá kom Jónatann honum til varnar og tók hann á sig höggið.

 

Dulmál

 

Það er líka viðeigandi í ljósi umræðunnar að örin Jónatan talar um er í raun dulmál og er notuð til þess að senda skilaboð til Davíðs þar sem hann liggur í felum. Það er jú nokkuð í anda þess sem undirokaðir hópar hafa mátt búa við í gegnum tíðina. Þeir hafa þurft að leita óbeinna leiða til að tjá sig. Tilfinningar og eðli hafa þeir ekki getað tjáð og sýnt með eðlilegum hætti. Við lesum um það hversu höfmulegar afleiðingar slíkt hefur haft fyrir sálarlíf fólks.

 

Já, forni textinn talar inn í þessar aðstæður og niðurlag hans hefur verið lesið við hjónavígslu samkynhneigðra. Þar kyssast vinirnir og gráta það að þurfa að fara leynt með tengsl sín og ástvináttu. Þar er því önnur tengingin komin.

 

Kjarna kastað

 

Hin eru orð Krists um steininn sem byggingarmennirnir köstuðu burt – en er nú orðinn að hyrningarsteini. Það eru einmitt mikilvægustu steinarnir í byggingunni, sú sem hún stendur og fellur með. Þessi orð tala til okkar á margvíslegan hátt. Jú, sannarlega vísar Kristur til þess hlustskiptis sem hann mátti sjálfur þola. Og ef við hugleiðum baráttumál hans og starf þá sjáum við að hugur hans var jafnan hjá þeim sem voru jaðarsettir – þeim sem kastað var út í horn eða inn í skáp vegna stöðu sinnar og stéttar.

 

Við getum raunverulega lesið guðspjöllin með þetta í huga hvernig Jesús ögraði gildum og hefðum og sýndi með því hvernig Guð horfir á okkur dauðlega menn. Guð sér dýpra inn í sál okkar en augu okkar nema. Þar er ekki spurt um kyn, kynþátt, kynhneigð – hver manneskja er dýrmæt í augum Drottins.

 

Tíðarandi

 

Það var einmitt tónninn hjá þeim sem töluðu fyrir hjúskap samkynheigðra hér fyrir aldarfjórðungi þegar þau mál voru rædd á prestastefnu. Því miður kafnaði sú umræða í kjölfarið. Það var ekki fyrr en tíu árum síðar sem við, nokkrir prestar og guðfræðingar, kölluðum eftir því að kirkjan legði til að ein hjúskaparlög giltu um gagnkynhneigða og samkynhneigða. Við vísuðum þar til fordæmis Krists sem einmitt fordæmdi engan heldur mætti hverri manneskju þar sem hún var stödd.

 

Og nú sjáum við hvað tíðarandinn hefur breyst. Mér finnast orð Jesú um hyrningarsteininn eiga við um svo margt sem við verðum vitni að og kynnumst á þessum tímum. Það sem eitt sinn þykir vera fjarstæða og jafnvel hneyksli getur öðlast viðurkenningu. „Allir vildu Lilju kveðið hafa“ er gjarnan sagt og er þá vísað til þess hvernig jafnvel hið forsmáða verður skyndilega eftirsóknarvert.

 

Hómófóbía

 

Ég man eftir því í byrjun 10. áratugarins þegar við fengum fulltrúa frá Samtökunum 78 í heimsókn til okkar í guðfræðideildina. Þá horfðu þau fram til komandi tíma og sögðu að senn yrði hómófóbía talin fólki til lasts, en á þeim tíma var umræða um samkynhneigð komin skammt á veg. Og sú varð líka raunin. Nú þykir okkur furðu sæta hversu langan tíma það tók að hnika þessum málum í rétta átt. Enginn myndi líka þora að tjá sig með þeim hætti sem sumir kollega minna gerðu 97 og svo tíu árum seinna.

 

Þetta ferli birtist okkur víða. Þessir steinar sem við köstuðum frá okkur reynast um síðir vera sjálfar undirstöðurnar. Og sú átti að verða raunin í tilviki þess þegar við viðurkenndum tilfinningar samkynhneigðra systkina okkar, sáum þau fyrir það sem þau eru, litum ástir þeirra fyrir það sem þær eru. Þetta gerðu skrásetjararnir fornu þegar þeir lýstu kenndum Davíðs og Jónatans. Þeir hugleiddu það hvernig sá síðarnefndi fórnaði sér fyrir ástvin sinn, taldi umhyggjuna fyrir honum mikilvægari sjálfu konungdæminu.

 

Á að virða skoðanir?

 

Skoðanir eru hvikul fyrirbæri. Stundum tölum við eins og þær séu eitthvað sem við eigum að virða – en margt bendir til þess að þær séu ekki virðingar verðar. Þvert á móti, eigum við að ögra þeim og láta á þær reyna. Það er annað að virða rétt fólks til skoðana og að gefa sjálfum hugmyndunum einhverja friðhelgi.

 

Kristur ögraði skoðunum og allar götur síðan hafa fylgjendur hans gagnrýnt ríkjandi kerfi og hugmyndir. Siðbót er sístæð innan kristinnar kirkju. Á þessum aldarfjórðungi sem ég hef þjónað innan kirkjunnar hafa stórar og smáar breytingar orðið. Sú umræða sem ég varð vitni að á fyrstu prestastefnu minni myndi ekki eiga sér stað á okkar dögum. Þar myndu engir rísa upp til andmæla innan kirkjunnar því hún hefur á þessu sviði gengið í gegnum löngu tímabæra siðbót.

 

Við getum skoðað hana í enn stærra ljósi á enn lengra tímaskeiði. Þá skynjum við hvernig hugmyndirnar breytast og nálgunin verður önnur. Og við getum virt fyrir okkur undirstöðurnar sem samfélag okkar hvílir á og spurt hvort þær hafi einhvern tíma þótt einskis virði. Þannig var það með starf Jesú. Hann hafðist við meðal jaðarsettra og fyrir tilstilli hans erum við í sífellu hvött til að endurskoða og endurmeta það hvernig við hugsum og breytum.


Textar: https://kirkjan.is/kirkjan/kirkjuarid/kirkjuarid-nanar/?itemid=a6046406-1a2f-11eb-9122-005056bcebcd