Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann. Jóh 5.1-15
Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn, ... og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Ds. 103:2-3
Náð og friður Guðs sé með ykkur öllum. Amen.
Velgjörðir Guðs
Þetta upphafsvers úr lexíu dagsins er lofgjörðarvers, notað á hátíðisdögum á sínum tíma. Það er ákall einstaklingsins, eintal sálar við sjálfa sig og skapara sinn. Og það rennur fram af munni og hjarta, eins og tær lind opinberunar og ítrekunar á því, hver Guð er og hvað felst í því að vera barnið hans. Eins og segir síðar í sálminum:
"Eins og faðir sýnir miskunn börnum sínum, eins hefur Drottinn sýnt miskunn þeim er óttast hann.” (13. v.). “...réttlæti hans nær til barnabarnanna...þeirra er muna sáttmála hans.” (v. 17,18)."
Guð er náðarríkur og miskunnsamur og hann veit hvers manneskjan þarfnast. Því að hann þekkir eðli vort, minnist þess að vér erum mold." (v.14,15). En miskunn hans varir frá eilífð til eilífðar” (v. 17) - kynslóð eftir kynslóð, öld eftir öld. “Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss” (v.12) Sem börn Guðs erum við frjáls, hrein, heil, fullkomin sköpun Guðs, án tillits til þess hvernig andlegu og líkamlegu ástandi okkar er varið.
Lífsvoði
Þegar ágjöf lífsins verður yfirþyrmandi, þegar sálarkvölin reyrir hjarta og maga saman í rúllupylsu, þá er eins og heimsendir sé handan við hornið og hugmyndin að uppgjöf verður sannast sagna áþreifanleg. Fyrir smávöxnum dreng, sem sækir bolta inn í garð skapstyggu konunnar er það líklega svona, - og ég les úr bókinni hans Guðmundar Andra, Mín káta angist:
“Ég hentist af stað og heyrði glugga opnaðan og síðan hvella rödd: Heyrðu þarna, hvað ertu að gera ormurinn þinn! Ég skal koma og taka þig! Ég skal tala við hann pabba þinn! – Hún var brjáluð. Ég hljóp og hljóp, engin skelfing er slík sem hjá níu ára dreng sem er ekki mjög hugaður, ég þeyttist yfir fjólubláu blómin, henti boltanum yfir, náði taki á oddhvössum staurnum, hóf mig upp, hún gargaði. Þegar ég var kominn upp á girðinguna skrikaði mér fótur og ég skall í stéttina, ég meiddi mig. Ég leit upp og sá boltann rúlla hægt niður götuna og undir bíl þar sem hann staðnæmdist við dekk. Hann var afar einn eins og ég. Það var enginn til að taka á móti okkur. Strákarnir voru allir farnir eitthvað til að sleikja gospillur eða leika sér í stillönsunum. Þeir höfðu engan áhuga á hetjudáð minni. Þeir höfðu bara sent mig af því ég var minnstur. Þeim fannst brjálaða konan í gula húsinu ekki einu sinni neitt ógnvekjandi. Ég var svikinn. - Ég leit upp og sá að Indi var sestur hjá mér. Indi var nefnilega vinur minn.” (bls. 77 - Mín káta angist. Rvk 1990).
Indi þessi var samt að holdinu til ólögulegur og yfirbragðið óaðlaðandi, en hjartað var hreint og frjálst. Hann reyndist vera vinur. Er það ekki einmitt á svona örlagastundum að okkur er svo mikilvægt að eiga vin. Vin sem er reiðubúin að setjast hjá okkur á vígvöllin miðjan og huga að sárum okkar, taka utan um okkur.
Fjötrar Maðurinn hjá Betesda lauginni hafði verið á þessum vígvelli í í 38 ár. Baráttan lýsti sér í því að verða fyrstur í laug lækningarinnar og komast undan fjötrum sjúkdómsins. En hversu sárlega kvaldist hann í meinum sínum, þegar hann sífellt varð undir. Hann taldi alla velgengni sína háða því að mega ofan í laugina komast. Þegar hann síðan er spurður beint: “Viltu verða heill?” (sbr. Jóh. 5:6), þá svarar hann þann veg að allt sé honum mótlægt og hann eigi engan möguleika. Sem sagt niðurstaða hans er: Enginn hjálpar mér og sjálfur er ég til einskis nýtur!
Ég tel mig hafa reynslu fyrir því að slík niðurstaða sé algeng hjá þeim, sem eiga bágt, eru veikir eða þjáðir af öðrum ástæðum. Það er erfitt að stríða við alvarleg veikindi eða fötlun - eða vanmátt einhvers konar, eins og virðist vera í þessu tilviki. Og það er sannarlega andstyggilegt að vera svo aumur, að geta ekki bjargað sér með það, sem almennt virðist vera svo sjálfsagt. Þá er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að allt sé mótdrægt, enginn skilji, enginn hafi tíma, enginn nenni að hlusta, enginn vilji leggja til hjálparhönd – “Ég hef engan til að láta mig í laugina...” (Jóh. 5:7).
Er Guð á móti mér? Já, eðlilegt að svo sé spurt. Sagan frá Betesda er athyglisverð í því samhengi. Jesús gengur beint að þessum veika manni. Þegar hann ber sig illa yfir spurningu Jesú um það, hvort hann vilji verða heill, segir hann. “Statt upp, tak rekkju þína og gakk.” Hann hefði eins getað sagt: Heyrðu, eigum við ekki að drífa okkur í veiðitúr? Það er að segja Jesús sagði nokkuð, sem var í algerri andstæðu við það, sem var manninum mögulegt. Innihald setningarinnar er algerlega án allra skilyrða, eða spurninga, eða efasemda, tortryggni eða andstöðu, eða vantrúar á því hvað væri hægt. Spurningin beinist ekki að veika (lama) manninum einum. Hann brást að vísu snöfurlega við og gegndi umyrðalaust – og það gekk eftir. Hann fékk því áorkað, sem hann hafði ekki getað áður. Þannig svaraði hann tilmælum Jesú fyrir sitt leyti, án þess að hika, fordæma eða víkjast undan. Hann vissi svo sem ekkert hvað yrði næst, hvort hann héldi mætti sínum, hvort hann gæti gert það sem hann hafði aldrei getað áður, hvort hann lifði yfirhöfuð til morguns. En hann brást við orði Jesú á stundinni, - og hann tók rekkju sína og gekk. Hvað eigum við þá að segja við þá sem ekki geta risið upp úr rekkju sinni? Þeir eru margir, karlar og konur, hér heima á Íslandi og víða um heim.
Ágeng spurning. Þessi spurning Jesú nær miklu lengra en svo að hún nemi staðar á laugarbakkanum. Hún varðar mun fleiri, en þennan sjúka mann. Hún snertir allt umhverfi hans, fólkið í kring um hann, þá aðra sem voru við laugina og horfðu í hana löngunaraugum, viðhorfið í samfélaginu gagnvart slíkum veikindum, afstöðu einstaklings gagnvart öðrum, persónulega velvild, hugsanir nákominna, ef þeir voru þá til á annað borð, pólítískan þankagang, ábyrgð stjórnenda. Spurningin er beinskeytt og hún varðar þá alla, sem finna til veikleika, smæðar eða vanheilinda: Viltu verða heill?
Það er auðvitað hægt að berja hausnum við steininn og segja: “Heyrðu mig lagsi, það er ekkert að mér!” - Það dugar þó skammt. - Ég hef engan hitt um daga mína, sem eitthvað amar ekki að, - í einhverjum skilningi, á einhverjum tíma. Ég verð þó í sama augnabliki að viðurkenna að ég ruglaðist í ríminu, þegar fótalaus maður, svaraði eitt sinn spurningu minni: “Hvernig hefur þú það í dag?” Hann var illa sykursjúkur og ákvörðun hafði verið tekin um að nauðsynlegt væri að taka báða fætur hans. Hvílíkur dómur! En hann sagði: “Ég hef ekki haft það svona gott í mörg ár. Nú er ég laus við þessa þungu fætur kvala og erfiðis og ég fer allra minna ferða á mínum hjólastól. Þökk sé góðum læknum og góðu heilbrigðiskerfi. Svei mér þá. Mig rak í rogastans, enda skildi ég ekki manninn á þessari stundu og skynjaði ekki hjálpræðið, sem hann átti í hjarta sér og vonina, sem hafði opnað honum alveg nýja sýn á líf og tilveru sína. Hann er reyndar dáinn núna, en hann lifði vel, þau ár sem hann fékk. - - Viltu verða heill? ! Auðvitað vil ég verða heill, - en ég er kannski ekki nógu trúaður.
Trú og vinátta. Veik trú leiðir ekki til veikinda. Veikur maður er ekki veikur af því að trú hans er veik. Veikindi eru þess háttar fyrirbæri jarðnesks lífs, sem kallar okkur öll til athafna, viðbragða, samhjálpar, menntunar, stuðnings, afreka, og gerir þá kröfu, að kalla okkur að ystu mörkum mannlegrar getu til að framkvæma það, sem við sjálf teljum óhugsandi. Þegar Indi settist hjá hræddum vini sínum, gerði hann sér ekki grein fyrir því, hve mikill máttur bjó í athöfn hans. Vinátta hans var hrein og algjör. Hann megnaði að breyta vonlausu ástandi í nýja afstöðu og nýja möguleika. Sönn vinátta er alltumlykjandi eins og kærleikur er í eðli sínu og hún megnar framar öðru að sætta hin ómstríðu öfl og að gera það viðráðanlegt, sem virðist vonlaust. Niðurstaða Páls postula var þessi: “Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér.” Gal. 2:20.
Heilindi trúarinnar Ef Jesús spyrði okkur sem þjóð í dag: “Viltu verða heil?“ sjáum við á svipstundu, að það megnum við ekki, nema í sameiginlegu átaki. Í því andartaki verður hver og einn að horfast í augu við sjálfan sig og spyrja: ‘Er eitthvað að mér, þarf ég að gegna kalli, standa upp og framkvæma það sem mér finnst ómögulegt’? ‘Góði Guð, hjálpa þú mér, vertu mér syndugum líknasamur. Opna þú augu mín fyrir hjálpræði þínu, lát allt sem í mér er lofa þig og þakka þér.’ Við getum hugsað svona, sagt þetta allt, beðið á þennan hátt. En bænin er samt ekki verslunarvara. Við verslum ekki með bænina, frekar en auðlindir landsins. Lækningin er ekki sú að selja sig á vald einhvers. Ég geri þetta og þú gerir þitt. Trúin er ekki skiptimynt. Bænin hvílir ekki á gengi líðandi stundar, eða dagskráningu. Bænin er beiðni um hjálp, leiðsögn, styrk, aukna trú, von, betra líf, eilíft líf. Svarið við henni er gjöf, svar Guðs, skaparans, gjafara allra góðra hluta. Hann kemur til mín og þín og spyr sinnar látlausu spurningar, sem er spurning allra tíma og allra staðhátta, þar sem hjálpar er þörf: Hvað get ég gert fyrir þig? Og þá spyrjum við á móti: “Þarfnast ég þín?”
Við skulum taka orðin öldnu með okkur og gera þau að okkar orðum:
Lofa þú Drottin sála mín .... og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Amen.