Þorp elur barn

Þorp elur barn

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.” Svona hljóðar máltæki sem sagt er vera frá Afríku – þeirri stóru heimsálfu – og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna Hillary Clinton gerði að sínu þegar hún reyndi að innleiða nýja hugsun í tengslum við málefni barna í heimalandi sínu. VáVest hefur að sama skapi kynnt þessa speki er fulltrúar samtakanna hafa rætt við foreldra unglinga í grunnskólum bæjarins við upphaf skólastarfs á haustin.

Jesús sagði við þá: Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans. Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru. Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp. Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra. Jóh. 4. 34-8.

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.” Svona hljóðar máltæki sem sagt er vera frá Afríku – þeirri stóru heimsálfu – og fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna Hillary Clinton gerði að sínu þegar hún reyndi að innleiða nýja hugsun í tengslum við málefni barna í heimalandi sínu. VáVest hefur að sama skapi kynnt þessa speki er fulltrúar samtakanna hafa rætt við foreldra unglinga í grunnskólum bæjarins við upphaf skólastarfs á haustin.

Rómantísk mynd

Afrískt máltæki: Í anda sér maður fyrir sér þyrpingu af strákofum. Þorpsbúar vinna sumir á akrinum, sumir úti á sléttunum á veiðum, aðrir safna rótum og ávöxtum í skógarjaðrinum. Yngstu börnin eru eftir í þorpinu að leik undir eftirliti hinna öldruðu. Þau sem stálpuð eru orðin elta þá fullorðnu og læra af störfum þeirra.

Á kvöldin kemur fólkið saman við eldinn og snæðir veiðibráðina og annan afrakstur dagsins. Þá flytja þeir sem eldri eru sagnaarfinn yfir til yngri kynslóða. Menningunni er viðhaldið. Siðareglum er miðlað. Verðmætamatið skilar sér. Samkenndin er ósvikin því allt þorpið kemur að uppeldi barnanna.

Hananú, er maður orðinn of rómantískur hérna? Ég veit það ekki. En ég þykist vita að slíkt sjálfsþurftarsamfélag sem hér er lýst er æði langt frá þeim því erilsama Íslandi 21. aldar sem við þekkjum. Þetta líkist ekki því umhverfi þar sem enginn er maður með mönnum nema að hann sé stöðugt að hasla sér völl á nýjum slóðum. Fyrirtækin hafa sprengt af sér þennan litla markað og rása út í leit að nýjum tækifærum. Sjálf viljum við ekki heldur missa af neinu. Lífið er of stutt, tækifærin eru svo mörg. Háhraðanetin eru allt í kringum okkur og við viljum svo gjarnan að þau umvefji líf okkar með öllum þeim endalausu möguleikum sem þeim fylgja.

Heimsþorp og þorparar

Getur gömul speki ættuð úr frumstæðum þjóðfélögum átt erindi til okkar? Hvar eru þorpin á okkar dögum? Er það ekki bara heimsþorpið margnefnda – þessi iðandi vettvangur viðskipta og afþreyingar sem virðir engin náttúruleg landamæri, fjarlægðir eða andstæður í menningu og tungumálum? Ég minnist þess ekki að hafa heyrt talað um að börn séu að leik á gangstéttunum í því plássi. Í heimsþorpinu eru börnin fyrst og fremst neytendur.

Eða hvað um þær hörmungarfréttir sem okkur bárust á dögunum af fjölskyldunni í Hafnarfirðinum þar sem ofbeldið hafði viðgengist árum saman án þess að nokkurn tímann hefði verið gripið í taumana? Þar var ekkert slíkt þorp sem batt endi á harmleikinn.

Eru ekki innantómt að tala um samskipti og samfélag manna á okkar tímum sem fjöldinn allur upplifir einmanaleika sem aldrei fyrr mitt í allri mannmergðinni?

Sama hugsun

Ástæða þess að ég rifja upp þessa tilvitnun, sem flest ykkar hafið vafalaust heyrt, er sú að í textum dagsins er komið inn á þætti sem koma inn á sömu hugsun. Bróðupartur messugesta er að sama skapi foreldrar fermingarbarna sem senn stíga stórt skref inn í tölu fullorðinna. Þau skref eru reyndar fleiri – og eins og nokkrir úr fermingarbarnahópnum hafa bent mér á – finnst þeim það æði ósanngjarnt að þetta skuli ekki koma allt á sama tíma: fermingin, sjálfræðisaldurinn og bílprófið!

Hér forðum var óþroskuðum börnum komið í fullorðinna tölu við ferminguna og áttu þau þá að geta unnið þau störf sem fullorðnir sinntu. Þá var ekkert til sem hér unglingsár. Nú er þó blessunarlega hægt að undirbúa börnin í nokkrum skrefum fyrir fullorðinsárin. Ekkert ætti að liggja á því að ná því æviskeiði sem varir síðan allt til æviloka.

Í textunum sem lesnir voru hér fyrr í messunni segir frá þeirri hugmynd að margir vinni saman að settu marki: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.“

Þorpið: söfnuður Krists

Í þessum orðum Páls postula er augljóslega talað um þá sem ala önn fyrir því þorpi sem honum var kærast og hér er saman komið í dag. Í þessu þorpi eiga menn að starfa saman að því að draga það besta fram í hverjum og einum. Kornabörn eru skírð inn í þetta þorp. Ungmennin vinna þar sitt heit. Stærstu stundir ævinnar fara fram í samhengi þess og loks er við kveðjum þennan heim er það í krafti þeirrar fullvissu að við eigum von og fyrirheit frá skapara okkar. Reglulega er þorpsbúum boðið til samfélags að borðinu, rétt eins og menn söfnuðust um varðeldinn í mynd minni af afríska þorpinu.

Þetta er söfnuður Krists. Hver einstaklingur í því þorpi er afar dýrmætur. Á það einkum við þá sem eru að stíga þar sín fyrstu skref. Allir þurfa sérstaklega að gæta að því að þeir njóti alls hins besta. Einn sáir, annar vökvar og sá þriðji uppsker. Þetta er samvinna. Og uppskeran er þá samfélagið, söfnuðurinn sem kemur saman og neytir máltíðar frammi fyrir altari Guðs.

Söfnuðurinn er Páli efstur í huga en um leið snýst málið um það hvernig hver og ein kristin manneskja þroskast að visku og náð. Hverri kristinni manneskju stendur til boða að safna ávexti til eilífs lífs í eigin hjarta ef hún leyfir fræinu sem Guð hefur sáð að vaxa og dafna.

Samverkamenn Krists

Þetta er samvinna því aðstæðurnar sem fræið hefur eru fjarri því undir hverjum og einum komnar. Aðbúnaðurinn getur verið afar ólíkur. Samfélagið, söfnuðurinn skiptir hér miklu máli. Við hljótum að leggja okkur fram um að skapa þær aðstæður að leggja börnunum okkar til það helsta sem við höfum fengið að arf úr kristinni trú.

Það að segja börnunum Biblíusögur skiptir máli. Það að venja komur sínar í Guðs hús – þar sem samfélag þetta mætist, syngur, lærir og ræktar trú sína – er að sama skapi mikilvægt vegarnesti. Sú siðfræði sem við höfum þegið úr orðum og verkum Krists er gríðarlega þýðingarmikil. Kannske hefur aldrei verið meiri þörf á því að miðla börnum kærleika og virðingu fyrir náunganum en einmitt á þeim tímum þar sem á okkur dynja kröfur um eiginhagsmuni og glórulaust framapot.

Kjarni málsins er sá að við kristnir menn erum samverkamenn Guðs. Það er okkar að tryggja það að boðskapurinn komist til skila. Við höfum til þess vettvanginn – kirkjuna. Foreldrar fermingarbarna hafa til þess tilefnið – veturinn þar sem barnið gengur til spurninga. Nýtið tækifærið, nýtið tilefnið, verið virk og hafið áhrif.

Að miðla því sem gott er

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn“ sögðu einhverjir ágætir menn einhvern tímann og einhvers staðar suður í Afríku. Og hugsuðu alveg örugglega um annars konar þorp en við búum í. Þá hefur ekki órað fyrir að til yrði eitthvað sem héti heimsþorp þar sem bæjarbragurinn væri með allt öðru sniði en þeir áttu á venjast. Fyrir þeim hefur það vísast verið fráleit hugsun að óásættanlegir atburðir ættu sér stað á heimilum án þess að endir yrði bundinn á harmleikinn. Einsemd mitt í öllum mannfjöldanum hefur að sjálfsagt verið fráleit mótsögn í þeirra huga og þarf engan að undra.

Þá er mikilvægara en aldrei fyrr að leggja eyrun við boðskap sem segir okkur að það sé samstarfsverkefni að koma börnum til manns; sem kallar hvern til ábyrgðar á heildinni og boðar að öllum beri að nýta hæfileika sína svo hver og einn fái dafnað. Það er ekki ónýtt að vera minntur á það að við erum samverkamenn Krists. Við eigum að beita gáfum okkar og góðum vilja öðrum til góða.

Hér á eftir söfnumst við saman við altarið og þiggjum brauðið og vínið. Fyrirmyndin er ekki flókin. Þarna kemur hópurinn saman að borðinu, rétt eins og fjölskyldan við kvöldverðarborðið eða bekkjarfélagar í mötuneytinu. Eða þorpsbúar sameinast og njóta ávaxta samvinnu og erfiðis. Hugmyndin er sú að við eigum eitthvað sameiginlegt, eitthvað gott, eitthvað dýrmætt, eitthvað sem okkur ber að rækta og miðla áfram til annarra.

Söfnuður Krists er ekki frábrugðinn þorpinu góða sem elur upp börn og kennir þeim að feta stíginn góða sem leiðir til eilífs lífs.

Sl. 91.1-4, Ikor 3.6-9 og Jóh. 4. 34-8.