Biskup endatímanna

Biskup endatímanna

Svo hvað í ósköpunum er biskup Íslands. Er þetta silkihúfa, er þetta forstjórastaða, er þetta andlegur leiðtogi þjóðar. Ég gæti dregið ágætis svar upp úr Biblíunni, biskup er hirðir hirðanna, fyrirmynd okkar sem tilheyrum kirkjunni, áttaviti og leiðtogi. Það er ekki svo slæmt. En er þetta upplifun okkar?
fullname - andlitsmynd Sindri Geir Óskarsson
31. desember 2023
Flokkar

Guðspjall Lúk 12.35-40

Verið vel tygjuð og látið ljós yðar loga og verið lík þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þau geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra.
Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun búa sig, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. Það skiljið þér að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“

-


Biskup endatímanna
Prédikun flutt við aftansöng í Glerárkirkju á Gamlársdag 2023


Ég held ég hafi fyrst kynnst heimsendaspámanni í bókinni um Tinna og Dularfullu stjörnuna. Ef ég man söguþráðinn rétt klæddi einn af stjarnvísindamönnunum sem uppgötvuðu stjörnuna sig í hvítan kyrtil og gekk um með skilti – heimsendir nálgast.

Þegar við hugsum um heimsendaspámenn, endatímaprédikara, þá er þetta kannski erkitýpan sem við sjáum fyrir okkur, léttgeggjaðir einstaklingar sem fullyrða að heimurinn eins og við þekkjum hann sé að líða undir lok. Bölsýni, eyðing og eymd - endatímarnir nálgast. Það er ekki boðskapur sem við viljum heyra, við erum með plön fyrir morgundaginn, plön fyrir framtíðina – endatímarnir þurfa að bíða aðeins.

Gamlársdagur er einn af þessum dögum sem mörg okkar nota til að líta yfir farinn veg og melta samhliða hátíðarmatnum hvaða skref við ætlum að taka í nýja átt komandi misseri. Þótt raunsæis fólkið haldi því fram að áramótaheit endist bara fyrstu þrjár vikur nýja ársins þá vil ég samt sem áður meina að þessi dagur sé betri en hversdagurinn til að ígrunda og vona, til að marka nýja stefnu, því þetta er upphafið að einhverju nýju, þetta eru tímamót, og þá er þess virði að velta upp spurningunni: „hvernig vil ég haga lífi mínu“.

Auðvitað mætir þessi spurning okkur dag hvern, og svarið við henni teygir sig inn í gildin okkar, heimsmyndina okkar, trúnna okkar, vonina okkar og óttann okkar.

Sum grípa svarið – ég lifi bara einu sinni – og réttlæta það að gera allt mögulegt og ómögulegt, skynsamlegt og óskynsamlegt. Út frá kristnu sjónarhorni er þetta galið, því vissulega lifum við ekki aðeins einu sinni, við eigum líf í eilífðinni og það er engin ástæða að drífa sig í átt að ljósinu með því að lifa undir myllumerkinu #YOLO.  You only live once. En kannski er það ekki svo vitlaust viðhorf, ef heimurinn er hvort eð er farast, ef heimsendaspámennirnir hafa rétt fyrir sér. Er þá ekki best að fá sem mest út úr tilvistinni fyrir okkur sjálf, græða á daginn og grilla á kvöldin?

Ég skal fullyrða að Jesú okkar tæki ekki undir það. Blíði Jesú, besti vinur barnanna, var nefnilega endatímaspámaður. Orðin úr guðspjalli kvöldsins undirstrika það, en samt virðast þau ekki vera hvatning til þess að við lifum kengbogin í ótta og kvíða yfir því að himnarnir séu að fara að hrynja. Nei, þvert á móti ítreka textar kvöldsins hvað það er mikilvægt að við lifum meðvituð um að hver einasti dagur skiptir máli. Því þessi dagur sem við höfum – hann er í raun og veru allt sem við höfum – hann er endatímarnir.

Við getum ekki breytt gærdeginum og það er ekki á okkar færi að segja til með afdrif morgundagsins. En þennan dag í dag höfum við, og það er okkar að nýta hann til góðra verka. „Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga…vakið“ segir Kristur í Guðspjalla textanum. Verið viðbúin, því við höfum ekkert í hendi nema þennan dag.

Það er ekki ákall um að YOLO-a okkur í gang, nei, ákall Krists um að nýta þennan dag er ekki hægt að snúa upp í einstaklingshyggju og sjálfhverfu. Öllu heldur er þetta boð til okkar, að við fáum þennan dag til að þjóna Guði og náunganum í kærleika. Við fáum þennan dag til að vera fánaberar friðar. Í okkar hversdagslegu tilveru fáum við upp í hendurnar tækifæri til að slá á létta strengi, draga úr spennu, dreifa von, þakka fyrir, segja fólki hvað það skiptir okkur miklu máli, gleðja, hrósa, hlæja, elska, leiðrétta misskilning, reisa við þau sem hrasa og anda að okkur kærleik og náð Guðdómsins.

Að lifa eins og það séu endatímar er ekki bölsýnisafstaða. Ekki fyrir okkur sem erum Kristin. Við vitum að þessi heimur er ekki allt sem er, við vitum að við okkur tekur faðmur Guðs í ljósinu. En við lifum hvern dag í þeirri vissu að það skiptir öllu máli hvernig við svörum spurningunni „hvernig vil ég haga lífi mínu“.

Mitt svar er ekkert alltaf til fyrirmyndar. Ég er auðvitað fullkomlega meðvitaður um að það koma slæmir dagar. Það koma dagar þar sem við bara, ja gætum drullað upp á bak á einhvern hátt. Tekið feilspor eða gert mistök. En hversu dýrmætt er þá að hvern morgun fáum við tækifæri til að taka nýja stefnu, nýtt upphaf, með möguleikanum á að bæta fyrir, gera heilt það sem er brotið, gróðursetja nýtt í stað þess sem var rifið upp. Iðrast og gera yfirbót svo ég noti kirkjulegt orðfæri.

Það koma dagar þar sem við erum kannski lítil eða meyr, þreytt, vanmáttug, í svartnætti eða sorg – þar, líka þar er Guð að vinna í okkur og við að vinna með Guði. Þá daga er það kannski verkefnið að sýna okkur mildi, taka á móti náð Guðs, minna okkur á að Guð elskar okkur eins og við erum og styður okkur í hverri glímu til upprisu. Látið ljós ykkar loga.

-

Ég gæti farið í margar átti hér – það er af nógu að taka um áramót þegar við horfum á samfélagið og heimsfréttirnar  – en þennan síðasta dag ársins ætla ég að segja nokkur orð um kirkjuna okkar. Þjóðkirkjuna sem er svo ótrúlega margt. Ekki bara stærsta fjöldahreyfing landsins, heldur menningarmiðstöð, staður fyrir bæn og kyrrð, stuðningsaðili í erfiðum aðstæðum, en fyrst og fremst er hún fólkið sem sækir hér samfélag, fólkið sem gefur af tíma sínum og orku, sem finnur hér að þau tilheyri – það er fallegasta hlið kirkjunnar.

Sá tími er liðinn að presturinn eða kirkjan sé andlegt yfirvald sem fólk þorir ekki að andmæla. Sem betur fer. Meira að segja afi leyfir sér að segja mér að það sé nú óttaleg þvæla ýmislegt sem prestar hafa haldið fram í gegnum árin – en hann, eins og svo margt fólk hér á landi, á sína trú. Trú sem er mótuð af bænum í æsku, mótuð af trausti til æðri máttarvalda sem gæta að okkur, mótuð af þeim spíritisma og andlegu rótum sem þjóðin á og hafa fylgt okkur, tjah, eflaust síðan í heiðni. Því það að vera í þjóðkirkjunni, það að vera trúuð, það að rækta trúna – það er ekki beinn og breiður vegur. Það er þroskaverkefni hvers og eins okkar í gegnum lífið. Og þar þarf það að vera hlutverk kirkjunnar að vera meðspilari. Að geta veitt þeim leiðsögn sem þiggja leiðsögn, að vera klettur þeirra grunngilda sem Kristur boðaði, en ekki að vera mælistika rétttrúnaðar.

Hlutverk kirkjunnar í samfélaginu er mér ofarlega í huga þessi áramót því eftir nokkrar vikur fer fram biskupskjör. Og áður en ég get velt upp spurningunni „hver verður biskup Íslands“ þarf ég að fá einhvern botn í það „hvað biskups Íslands er“. Þar nálgast ég þann hluta þjóðkirkjunnar sem við fáum ekki alltaf fallega mynd af. Stofnanahliðina sem við kynnumst fyrst og fremst í gegnum fjölmiðla þegar eitthvað fer úrskeiðis.

Þar staðsetjum við mörg biskupinn, sem hluta af stofnun.
Svo hvað í ósköpunum er biskup Íslands.

Er þetta silkihúfa, er þetta forstjórastaða, er þetta andlegur leiðtogi þjóðar.
Ég gæti dregið ágætis svar upp úr Biblíunni, biskup er hirðir hirðanna, fyrirmynd okkar sem tilheyrum kirkjunni, áttaviti og leiðtogi. Það er ekki svo slæmt. En er þetta upplifun okkar?
Hér ætla ég ekki að tala niður fyrrum biskupa og án þess að ætla að fara djúpt í kirkjupólitíkina segi ég bara að það er allt í hnút, og fullyrði að sökin er síst þeirrar góðu konu sem situr í embættinu og hefur sannað að enginn verður óbarinn biskup.
Staðreyndin er sú að nýr biskup mun hafa það í hendi sinni að móta rækilega þetta fyrirbæri sem embætti biskups Íslands er.
Svo frekar en að eiga svör við flækjum hér í kvöld þá ætla ég að eiga vonir.

Ég vona að sá biskup sem við fáum sé hvorki silkihúfa né forstjóri.
Ég vona að biskup sjái það sem hlutverk sitt að ganga í takti við þjóðina.
Ég vona að biskup standi traustum fótum í kristinni trúarhefð en beri virðingu fyrir fjölbreytileika samfélagsins.
Ég vona að biskup horfi á kirkjuna sem ferðafélaga fólks á andlegri vegferð frekar en bílstjóra þess.
Ég vona að biskup sé meðvitaður um forréttindi kirkjunnar og gangi ávallt fram í auðmýkt.
Síðast en ekki síst vona ég að biskup sé vakandi, láti ljós sitt loga og leggi sig fram um að sýna með góðu fordæmi þann veg sem Kristur boðar.

Þannig vona ég að biskupinn sé biskup endatímanna frekar en biskup framtíðarinnar.
Þjóðkirkjan sem stofnun hefur nefnilega reynt ýmislegt til að vera í takti við tímana sem hefur klúðrast stórkostlega, lagt upp í vegferðir sem höfðu óskýr markmið önnur en YOLO og skiluðu aðeins útgjöldum, slagorðum, sýndarmennsku. Það er ódýrt, það er ónýtt, það er fake.

Ég vil ekki biskup sem rembist eins og rjúpan við staurinn við að vera biskup framtíðarinnar. Ég vil biskup endatímanna. Biskup sem er í núinu, sem þorir að ganga í gegnum hvern dag samkvæm sjálfri sér, samkvæm því að kirkjan sé kirkja.

Kirkjan er samfélag fólks sem leggur sig fram um að styðja hvort annað til lífs í von og kærleik. Samfélag ófullkomins fólks sem reynir ekki að vera neitt annað en það er – þarf ekki að sýnast eða þykjast því við vitum að við erum elskuð af Guði eins og við erum og komum hér saman til að efla okkur í friði, þakklæti og kærleik – í gegnum bæn og samfélag, gegnum safnaðarstarf, söng, fræðslu og hópastarf. Við erum kirkja.

Verum það sem við erum, verum það sem við erum góð í – en gerum það á réttum og heilbrigðum forsendum sem samferðafólk, ekki sem trúarlegt yfirvald eða boðvald, ekki í sýndarmennsku því fólk finnur það og forðast það. Sláumst í för með fólki, verum kirkja með breiðan faðm og grjótharða fótfestu í réttlætis-, náðar-,  friðar- og kærleiksboðskap Krists.
Því ef við höfum ekki trú á okkur sem kirkju, af hverju ætti þjóðin að hafa trú á okkur?

Amen.