Það er gott að Jesú var freistað

Það er gott að Jesú var freistað

Sagan af freistingu Jesú er góð saga. Hún sýnir okkur mannlegan Jesú, færan um að vera freistað og færan um að syndga. Hún sýnir okkur líka staðfastan Jesú, sem leyfir ekki góðum hugmyndum í núinu að eyðileggja betri plön fyrir lífið.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Sagan af freistingu Jesú er góð saga. Hún sýnir okkur mannlegan Jesú, færan um að vera freistað og færan um að syndga. Hún sýnir okkur líka staðfastan Jesú, sem leyfir ekki góðum hugmyndum í núinu að eyðileggja betri plön fyrir lífið. Sagan er góð fyrir okkur nú í upphafi föstu. Miðvikudaginn síðasta, á öskudaginn, hófst páskafastan og kristnir menn um allan heim líta nú inn á við og hugsa sinn gang. Kaþólikkar sleppa kjöti, prestar á Íslandi sleppa nammi og aðrir sleppa sjónvarpi eða facebook. Hvatirnar eru ýmsar. Upphaflega er fastan undirbúningur sálarinnar fyrir páskaundrið. Tími til að iðrast og aga holdið. Nú fasta margir til að grennast eða hugleiða hversu gott við höfum það miðað við aðra jarðarbúa. En hvers vegna fastaði Jesús? Í gyðingdómi á tímum Jesú var fasta undirbúningur fyrir þjónustu. Menn föstuðu til að helga sig Guði, til að biðja Guð um svör, visku og tilsögn. Jesús var leiddur út í óbyggðina til þess að djöfullinn gæti freistað hans. Hvað þýðir það? Skoðum aðeins hver tilgangur Jesú var yfirhöfuð. Áður en Jesú var skírður prédikaði Jóhannes skírari iðrun. Hann lifði meinlætalífi, fastaði jafnan og borðaði engisprettur og villihunang. Prédikun Jóhannesar var þessi: ,,Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd“. Svo kemur Jesús til að láta skírast og eftir það er hann drifinn út í óbyggðina. Þegar hann kemur út úr óbyggðinni, eftir að hafa sigrast á freistingunni, þá tekur Jesús að prédika þessi kunnuglegu orð: ,,Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd“. Þessi stysta prédikun Biblíunnar er sístæð. Stöðugt kallar hún okkur til fylgdar við eitthvað stærra en okkur og segir okkur að eitthvað stærra en við er á leiðinni til okkar. Þetta eitthvað er himnaríki. Himnaríki er leiðrétting Guðs á því sem hefur verið eyðilagt með vilja mannsins, eiginhagsmunum og sjálfselsku. Himnaríki er það sem Ísraelsmenn vonuðu á frá fyrstu tíð, að Guð myndi sjálfur leiðrétta allt ranglæti og koma og búa með þeim. Alveg frá því að Adam og Eva voru rekin úr sakleysi aldingarðsins, hefur Guð viljað færa manninum hið sanna sakleysi sem nærvera hans fæðir af sér. Og eftir því biðu Ísraelsmenn í gegnum aldirnar, að Guð myndi koma, rétta hlut þeirra og búa með þeim. Að þannig mætti himinn og jörð tengjast. Að Guð myndi sjá fyrir þeim. Að þeir mættu ekki freistast til að gera það sem er rangt, heldur gera það sem er gott, fagurt og fullkomið. Guð sendi Jesú til að færa mönnum ávöxt af lífsins tré. Hann sendi Jesú til að bjóða okkur að gróðursetja okkur í góðan jarðveg, til að bjóða okkur að hætta að hugsa um okkur og hugsa um Guð og náungann í staðinn. Jesús kom til að við mættum kynnast Lífinu með stórum staf. Jesús kom til að sýna okkur leiðina til Guðs, að hann væri vegurinn til Guðs. Og áður en Jesús hóf að tala opinberlega, að lækna, fyrirgefa og færa fram himnaríkið, þá fór hann út í óbyggðina til að fasta, til að gleypa allan hroka sem segir ég get þetta sjálfur. Þar var hans freistað að gleyma tilgangi sínum og hrifsa til sín hluti, völd og mátt. En Jesús stóðst freistinguna. Þótt við trúum því að Jesús sé Drottinn og frelsari okkar, þá segir hann sjálfur að hann þurfi á Guði Föður að halda til að gera allt. Ef Jesús þurfti á Guði að halda, hversu fremur þurfum við að játa þörf okkar á Guði? Fegurð Jesú liggur í því að hann er með okkur, hann vissi mikið um sjálfan sig og tilgang sinn, hann gefst ekki upp á okkur. Jesús sér aumur á veikleika okkar því hans var freistað á allan hátt eins og okkar. Þetta segir Hebreabréfið 4 og jafnframt segir: ,,Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi“. Þetta þarf sérhver maður og kona að vita, að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir neitt heldur höfum við þann sem að skilur okkur. Öll höfum við syndgað margvíslega en allar syndir okkar eru hreinsaðar í burtu og eftir stöndum við hrein, falleg og elskuð. Guð stendur með opinn faðminn og býður okkur að koma til sín. Jesús segir: ,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Og við sem kristin erum fylgjum orðum Krists er við elskum Guð og elskum náungann eins og sjálf okkur. Og við fylgjum honum þegar við biðjum þess að orð Faðir vorsins verði að veruleika í lífi okkar. Gæti það kannski verið að Jesús hafi hugsað upp Faðir vorið í óbyggðinni er hann fastaði og bað og var freistað? Að hann hafi ákallað Guð sem Föður, að hans vilji mætti verða að veruleika, að himinn og jörð mætti mætast, að Guð sæi honum fyrir fæðu, að hann mætti ekki halda neinu gegn nokkrum manni og að Guð mætti vernda hann frá öllu illu. Þess biðjum við nú í upphafi lönguföstu, er við fókusum á ný á það sem rétt er, að þú Guð Faðir mættir ekki leiða okkur í freistni, taktu burt allt sem getur blindað okkur, varpaðu ljósi á sannleika þinn, að við mættum ekki trúa lyginni þegar heimurinn segir þetta snýst allt um sjálfan þig. Mættum við lærum að lifa með náunga okkar. Með þér Guð, þá verður freistingin, ​að hugsa um okkar eigin hag, svo lítil, hún verður svo smávægileg, í rauninni fyndin, samanborið við þá gleði sem við upplifum í sönnu samfélagi manna við þig. Haltu okkur í ljósi þínu, því við þurfum stöðuglega á hvatningu að halda, að vera minnt á gleymsku okkar, að vera minnt á gæsku þína, frelsa oss frá illu, taktu í burtu allt það illa sem við höfum samþykkt að færa inn í heiminn með hegðun okkar og hugsunum, komdu með gæsku þína, elsku þína, réttlæti þitt og frelsa okkur undan þeirri ánauð sem vondar gjörðir okkar hafa sett okkur í, að þitt réttlæti megi koma og verða að veruleika í lífi okkar. Við föstum ekki til að grennast heldur til að opna augu okkur fyrir því verki sem þú Guð ert að vinna í hjörtum okkar, í náunga okkar og allt um kring. Guði séu þakkir sem gefur okkur sigurinn fyrir Drottin okkar Jesú Krist.