Eftir skamma stund

Eftir skamma stund

Aðventan er tími vonarinnar. Við vonum að senn komi sá sem gerir alla hluti nýja og brjóti á bak allt ofbeldi, alla kúgun og afmái dauðann.

Predikunartexti: Spádómsbók Jesaja 35:1-10

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég var unglingur lést amma mín eftir stutt veikindi. Hún var 65 ára gömul. Nóttina sem hún dó sátum við fjölskyldan á aðstandendaherbergi Landspítalans og grétum. Á örfáum dögum hafði líf okkar allra breyst til hins verra. Í aðstandenda- herberginu byrjuðum við að segja sögur af ömmu, ein þeirra kom okkur til að hlæja. Það var skrýtið að hlæja, en það hefur aldrei verið eins gott að hlæja og þá. Við vorum á vonlausum stað, sorgmædd og fyllt söknuði, en í smá stund hlógum við og gleymdum okkur og sorgum okkar. Hláturinn varði stutt og þegar hláturinn hljóðnaði snéru tárin og söknuðurinn aftur. En á þessu augnabliki breyttist allt, því það rann upp fyrir okkur að þó nú væri erfitt og við stödd á vondum stað þá myndi okkur ekki alltaf líða svona. Hláturinn var sem vonarglæta mitt í vonlausum aðstæðum.

Joey Ramone, var söngvari hljómsveitarinnar „Ramones“. Hann lést árið 2001 aðeins 50 ára gamall. Á dánarbeði sínu bað Joey um að hlusta á lag hljómsveitarinnar U2, „In a little while.“ Lagið er ástarlag sem Bónó söngvari hljómsveitarinnar samdi. Þegar Bónó frétti að Joey Ramone hafði hlustað á þetta lag á dánarstundu sinni sagði hann lagið ekki lengur vera ástarlag heldur sálmur um von.

In a little while. Surely you'll be back. In a little while I'll be there In a little while this hurt will hurt no more, I'll be home, love.

Í lauslegri þýðingu minni er viðlagið svona:

Eftir skamma stund, snýrðu aftur. Eftir skamma stund verð ég kominn. Eftir skamma stund finn ég ekki meira til. Eftir skamma stund verð ég kominn heim

Í vonlausum aðstæðum varð þetta lag U2 Joey Ramone og fjölskyldu hans vonarglæta.

Og þannig er aðventan, hún er vonarglæta, hún er tími vonarinnar. Biblíutextarnir úr Gamla testamentinu sem við lesum á aðventunni eru vonarglætur. Í dag lásum við þennan texta úr Spádómsbók Jesaja:

Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist, öræfin fagni og blómstri. Eins og dverglilja skal hún blómgast, gleðjast, gleðjast og fagna. Vegsemd Líbanons veitist henni, skart Karmels og Sarons. Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors. Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: „Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur, endurgjald frá Guði, hann kemur sjálfur og bjargar yður.“ Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar. Já, vatnslindir spretta upp í eyði-mörkinni og lækir í auðninni. […] Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur og koma fagnandi til Síonar, eilíf gleði fer fyrir þeim, fögnuður og gleði fylgja þeim en sorg og mæða flýja.(Jesaja 35.1 – 6, 10)

Kirkjan hefur alltaf skilið þennan biblíutexta og aðra sams konar sem loforð frá Guði, loforð sem hefur verið uppfyllt með fæðingu Jesú. Fæðing Jesú er viðburður sem enn í dag 2000 árum síðar öllu breytir öllu. Því á hinni fyrstu jólanótt gerðist Guð maður og sýndi með óyggjandi hætti hve heitt hann elskar okkur og jafnframt minnir okkur á að það er von mitt í vonlausum aðstæðum.

Á tímum spámannsins Jesaja var Ísrael í vonlausum aðstæðum. Ísrael var útvalin þjóð Guðs og átti í alveg einstöku sambandi við hann. En eitthvað hafði farið úrskeiðis hjá Ísrael og þjóðin var lögð í rúst af erlendum stórveldum. Hún átti sér vart viðreisnarvon og svo illa stödd var Ísraelsþjóð að útfararkvæði var ort um hana:

Fallin er mærin Ísrael, Hún rís aldrei aftur, flöt liggur hún á sínu eigin landi, enginn reisir hana.

En mitt í þessum vonlausu aðstæðum orti spámaðurinn Jesaja annað kvæði sem ég vísaði til hér að ofan. Vonarkvæði Jesaja hefur líklega komið mjög á óvart, eins og hlátur okkar á aðstandendaherberginu, en verið vonarglæta á tíma þegar myrkur, sorg og dauði vofði yfir. Í vonlausum aðstæðum var Ísraelsþjóð boðuð von.

Í dag er 2. sunnudagur í aðventu og á aðventu göngum við með Ísrael, Guðs útvöldu, en mistæku og misskildu þjóð. Hún hafði verið grátt leikinn og örlög hennar voru grimm. En mitt í vonleysinu flutti Jesaja vonarorð:

…þið munuð gleðjast og fagna...

Eflaust hefur fólkinu reynst erfitt að trúa þessum orðum og eflaust reynist okkur það líka.

Vonar boðskapurinn sem Jesaja flutti fólkinu er sami boðskapur og okkur er fluttur á hverri aðventu, við lesum sömu textana og Ísrael las og byggði von sína á. Á aðventu göngum við með þeim, lesum og biðjum með þeim og bíðum frelsara, við bíðum Jesú og alls þess sem hann færir inn í líf okkar.

Boðskapur aðventunnar er vonarglæta, eins og dagsljósið, sem á þessum árstíma lifir aðeins skamma stund, en lýsir upp myrkur skammdegisins. Það minnir okkur á að eftir skamma stund kemur vorið og sumarið.

Boðskapur aðventunnar færir okkur von mitt í vonleysi eins og lag hljómsveitarinnar U2 færði Joey Ramone og fjölskyldu hans von á dauðastundinni.

Boðskapur aðventunnar er eins og hlátur okkar á aðstandendaherberginu, sem stóð aðeins yfir í skamma stund en gaf okkur von um að söknuðurinn og sársaukinn yrði ekki alltaf svona sár.

Aðventan er tími vonarinnar. Við vonum að senn komi sá sem gerir alla hluti nýja og brjóti á bak allt ofbeldi, alla kúgun og afmái dauðann. Við vonum að eftir skamma stund verði myrkrið ljós, sorgin að gleði og dauðinn ekki framar til. Á aðventu biður kirkjan ásamt öllum heilögum aðventubænina: „Kom þú Drottinn Jesús, kom þú skjótt.“

Dýrð sé Guð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir, alda amen.

Hér má hlusta á U2 flytja lagið In a little while: https://www.youtube.com/watch?v=wtVAJEAWnlU