Svikasaga

Svikasaga

Jesús borðaði oft með fólki, alls konar fólki. Guðspjöllin eru full af máltíðum. Og þau eru full af fólki sem hefur brotið af sér á ýmsa vegu. Brotlegt fólk. Brotið brauð. Brotinn líkami.

Við segjum oft að kirkjan hafi fæðst á hvítasunnu þegar heilagur andi kom yfir lærisveinahópinn. En það má líka segja að kirkjan hafi vaxið fram frá máltíð Drottins. Jesús stofnar heilaga kvöldmáltíð sem byggð er á páskamáltíð Gyðinga sem hann var alinn upp við. Við þá máltíð eru samankomnir tólf lærisveinar, fulltrúar ættanna tólf sem Gamla testamentið greinir frá. Tala þeirra vísar því aftur til gamla sáttmálans og merkir Ísraelsþjóðina í heild sinni. En segja má að þeir séu líka fulltrúar okkar sem á eftir komum og er nærtækast að vísa í Opinberunarbók Jóhannesar, 12. kafla, þar sem kirkjunni er líkt við konu sem hafði á höfði sér kórónu af tólf stjörnum.

Við höfum því hér við máltíðina fólk Guðs í heild sinni á táknrænan hátt, bæði fyrritíðar fólk og seinnitíðar fólk, þau sem tilheyrðu lýð Guðs Ísrael og þau sem tilheyra lýð Guðs kirkjunni. Þannig mætist tími og rúm þvert á tíma og rúm, eilífð himnanna tímanleik jarðar. Og þannig er það við hverja kvöldmáltíð þegar kirkja Krists kemur saman í nærveru frelsara síns til að nærast af honum.

Nú er það svo að lærisveinarnir tólf, menn af holdi og blóði en á sama tíma táknmyndir þess sem var og þess sem verður, voru breyskir menn. Hver og einn þeirra liggur undir grun: „Sannlega segi ég ykkur: Einn af ykkur mun svíkja mig.“
Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: „Er það ég, Drottinn?“

„Er það ég, Drottinn?“ Saga Gamla testamentisins er saga svika, allt frá fyrstu tíð. Saga kirkjunnar er saga svika, allt til þessa dags, enda syngjum við á morgun með Davíð Stefánssyni:

Þú veist, er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.

Sömu viðurkenningu á mannlegu eðli er að finna í altarisgöngusálmi sr. Sigurbjarnar:

Og allt það, sem spillti vor uppreisn gegn þér, viltu bæta,
því dauðinn í oss þínu upprisulífi skal mæta.

Og vér, sem þig svikum, í lofsöng og fögnuði færumst
frá dauða til lífs, er vér þiggjum og neytum og nærumst.


Jesús borðaði oft með fólki, alls konar fólki. Guðspjöllin eru full af máltíðum. Og þau eru full af fólki sem hefur brotið af sér á ýmsa vegu. Brotlegt fólk. Brotið brauð. Brotinn líkami. Þannig er saga mannkyns og þannig er saga kirkjunnar. Við megum og verðum að horfast í augu við það. En einmitt vegna þess að kirkjan er brotinn líkami þörfnumst við þess svo sárlega að þiggja líkama Krists og blóð, endurreisnarkraftinn sem hefur okkur upp yfir allt þetta brotna og gerir okkur heil. Við hættum ekki að vera brotlegar manneskjur, brothættar manneskjur. Veruleiki okkar er svo undur viðkvæmur. En einmitt í þessum brotleika öllum, með því að viðurkenna hann, horfast í augu við hann, játa brot okkar, verðum við heil. Líkami Jesú með sárum sínum, alls fimm eins og rósirnar sem við leggjum á altarið á eftir þegar við höfum tæmt það, líkami Jesú með sárum í gegn um lófa, sárum í gegn um ristar, síðusárinu, líkami Jesú sem er sár og særður og brotinn okkar vegna, líkami Jesú gerir okkur heil.

Brauðið, ósýrt brauð gyðinglegra páska táknar frelsun undan þrældómi, undan ánauð, nýtt líf frjálsrar manneskju og minnir á veisluborð himnanna. Bikarinn inniheldur blóð sáttmálans eins og Mattheus guðspjallamaður orðar það og endurómar þar 2. Mósebók 24. kafla og líka blóðið sem verndaði Ísrael þegar síðasta plágan gekk yfir. Blóð Jesú minnir líka á blóð Abels sem hrópar til Guðs af jörðinni (1Mós 4), Abels sem bróðirinn Kain myrti. Blóð Jesú er sáttmálsblóðið sem bindur endi á ofbeldi og blóðsúthellingar, blóð sáttmálans á milli Guðs og manns, sáttmálans sem þegar hefur verið innsiglaður en við bíðum og vonum og væntum að verði sýnilegur í sigri friðar og lífs yfir ofbeldi og dauða, blóðið til fyrirgefningar syndanna og endurreisnar mennskunnar sem uppreisn og svik hafa svívirt.

Fram til þess dags horfum við, þess dags er við fáum að drekka af ávexti vínviðar fyrirgefningarinnar með Jesú í ríki föður hans og föður okkar. Á meðan biðjum við heilagan anda Guðs að veita okkur kraft sinn til að lifa þann veruleika líka núna, veruleika Guðs sem veitir fyrirgefingu og líf inn í allt þetta veika og brotna.