Til hamingju með þennan hátíðisdag kæri Benedikt og allt þitt fólk. Fermingardagurinn er kominn í sögubækur þínar og fjölskyldunnar. Hann er ólíkur öðrum dögum, tímamót á ævi sem að langmestu leyti er enn í hulinni framtíð nýrra tíma og áskorana. Dagur þessi er einn áfangi á því skeiði, áfangi sem þú hefur undirbúið á vegum Íslenska safnaðarins í Svíþjóð ásamt tugum annarra íslenskra ungmenna sem dvelja þar eystra.
Söguleg stund
Einhvers staðar las ég að bróðurpartur þeirra barna sem nú stunda nám í grunnskólum komi til með að sinna störfum sem enginn þekkir í dag. Breytingar hafa ekki verið meiri í langri sögu mannsins. Aldrei áður hefur annar eins fjöldi fólks byggt jörðina, ekki hefur annað eins magn upplýsinga streymt á milli manna, önnur eins þekking hefur víst aldrei myndast jafn ört og nú og samtal á sér stað á milli heimshorna þar sem einstaklingar af ýmsu sauðahúsi skiptast á skoðunum og hugmyndum. Þegar við fyllumst ugg fyrir komandi tímum, er gott að hugleiða að þarna inn á milli eru vafalítið margar snilldarlausnir að því hvernig við bætt kjör fólks og gert þennan heim okkar betri.
Já, við erum viðstödd sögulega stund. Þessi andartök sem hann Benedikt stóð hér fyrir framan altarið eru líkleg til að varðveitast í minningunni áratugum síðar. Sú er auðvitað alls ekki raunin með flestar þær stundir í lífi okkar sem hverfa og gleymast fyrr en síðar. Hvað skyldum við til dæmis hafa verið að gera, segja, hugsa kl. 11:20 þann 21. febrúar í fyrra? Einhver með hugmynd um það?
Elsku stelpur!
Og fyrst við erum að velta fyrir okkur sögulegum viðburðum fer vel á því að þessi merkisdagur er vitaskuld konudagurinn. Sagan hnippir alltaf í okkur og þessi dagur tengist þeirri gömlu siðvenju að helga fyrsta dag góumánaðar hins forna tímatals, konum. Karlarnir eiga fyrsta dag hins napra þorra en nú hækkar sól á lofti og þess er ekki langt að bíða þar til gróska jarðar fer að láta á sér kræla. Konudagurinn heilsar þeim tímamótum og hér í kirkjunni vill svo til að guðspjall konudags fjallar um samtal Jesú við kanverska konu sem leitaði stuðnings hans og ásjár.
Frásögn þessi byrjar ekki gæfulega. Þetta er ekki sú mynd sem við höfum gert okkur af Kristi. Hann svarar konunni ekki í fyrstu og svo talar hann hranalega til hennar. Við skynjum að á milli hins merka rabbína, sem Jesús vissulega var, og hinnar útlendu konu er stórt og mikið gap sem ekki varð auðveldlega brúað. En það er einmitt þetta ferli sem síðan birtist okkur í hinni stuttu frásögn. „Drottinn minn, miskunna þú mér“ hrópaði hún til hans. Bæn konunnar fékk ekki áheyrn í fyrstu. „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af kyni Ísraels“ segir hann. Konan var jú af annarri þjóð.
Þarna birtist okkur eins og í leiftri, barátta undirokaðra kvenna á öllum tímum. Krafan að fá að láta rödd sína heyrast hefur ekki fengið ríkan hljómgrunn í gegnum tíðina, það er öðru nær. Og enn í dag heyrum við sams konar ákall þar sem við erum minnt á það hversu langt er í land með að konur sitji við sama borð og karlar. Nærtækt er að rifja upp framlag sigurvegaranna á Skrekk nú í haust, hópnum ,,Elsku stelpur” úr Hagaskóla. Nokkrar þeirra syngja í Stúlknakór Neskirkju og erum við auðvitað afskaplega stolt af þeim. Ljóðið sem þær fluttu og túlkuðu, kallast á merkilegan hátt á við orð kanversku konunnar í guðspjallinu:
Stelpur krefjast athygli ekki reyna að hunsa okkur. Stelpur krefjast tækifæra ekki reyna að hindra okkur Stelpur krefjast virðingar ekki reyna að stoppa okkur. Stelpur krefjumst jafnréttis látum ekkert stoppa okkur!
Hugsið ykkur hvað sumt gerist hratt í sögunni en á öðrum sviðum er eins og sumt haggist og ákveðnir þættir standi í stað. Þrátt fyrir allar þær breytingar sem hafa átt sér stað í heiminum og verða sífellt örari og meiri er mat þessara stúlkna á stöðu sinni í samtíma okkar að þær þurfi að hafa mikið fyrir því að rödd þeirra fái að hljóma. Enn er það hlutskipti þessa helmings mannkyns að þurfa að standa á torgum og hrópa aftur og enn sömu kröfurnar.
Myrkið djúpa
Kanverska konan mætti í fyrstu ekki þeim Kristi sem birtir okkur kærleika Guðs, sá sem hlustar, líknar og styður. Nei, þarna mætti hún hinni huldu ásjónu Guðs sem svaraði ekki með þeim hætti sem við myndum óska. Er það ekki myrkrið djúpa sem mætir okkur í tilgangslausri þjáningu, misrétti og ranglæti þessa heims? Hversu sárt er það að þurfa að endurtaka ákallið, ekki nokkur skipti heldur í gegnum kynslóðir allt fram til okkar daga. Og um leið verður hún að fyrirmynd fyrir alla þá sem eru undirokaðir og eiga undir högg að sækja, hvort heldur það er fyrir kynferði og uppruna, eins og raunin varð með kanversku konuna, eða af öðrum sökum.
Trú og réttindabarátta er ekki áreynslulaus kyrrseta þar sem allt rennur fram fyrir augu okkar eins og á færibandi. Þar er lífið ekki málað í rósrauðum litum og myrkrið þurrkað út eins og í einni andrá. Hvort tveggja er mikil glíma eins og greint er frá í textum dagsins. Hún felur í sér átök og knýr okkur til þess að horfa í eigin barm og taka ákvarðanir sem oft eru órafjarri þeirri hegðun sem þægilegust er og öruggust. Þögnin og tómlætið verða oft ekki minni óvinir en andúð og opinn fjandskapur.
Senn náði bæn kanversku konunnar eyrum frelsarans sem gaf henni gaum og birti henni þá mynd af hinum kærleiksríka Guði sem Biblían boðar. Það fylgir heldur ekki sögunni í svo stuttu textabroti að í næsta kafla guðspjallsins, eru það fulltrúar valdastéttarinnar sem verða á vegi Jesú og þar kveður við annan tón. Þar birtist okkur sú gagnrýni sem hannn bar fram í garð þeirra sem fóru með völdin í samfélaginu. Þar mætti hann hroka þeirra og óbilgirni, rétt eins og svo margir aðrir hafa mátt reyna í gegnum tíðina og samskiptin voru öll á annan veg, en við hina útlendu konu.
Að hafa köllun
Guðspjallið birtir okkur hlutskipti kynsystra kanversku konunnar í gegnum söguna. Enn er langt í land með að jafnrétti sé náð þrátt fyrir ótrúlegar breytingar á svo mörgum öðrum sviðum. Bæn hennar ,,Drottinn miskunna þú oss” endurómum við í hverri guðsþjónustu sem sungin er í kristinni kirkju. Þar minnumst við alls þess í heiminum sem þarf að endurbæta og laga. Við horfumst í augu við að margir standa höllum fæti og tala fyrir daufum eyrum. Og hugleiðum þá að leiðtogi okkar kristinna manna tók sér stöðu með hinum undirokuðu en var óvæginn í gagnrýni sinni gagnvart þeim sem með valdið fóru.
Sá sem játar Jesú Krist sem leiðtoga sinn, eins og Benedikt gerði hér á sinni sögulegu stundu hér áðan, tekur undir þau sjónarmið. Þau eru fjarri því að vera auðveld og hættulaus enda sýnir saga mannsins að öll barátta fyrir réttlæti og réttindum er langvinn glíma sem krefst mikils. Og hvað sem allri tækni viðkemur verður það að endingu sá prófsteinn á trú okkar og mannkosti hvernig við mætum þeim náunga okkar sem þarf á okkur að halda. Megi sú köllun fylgja þér í gegnum lífið ágæti Benedikt og okkur öllum sem þiggjum leiðsögn Krists.