Múrar og brýr

Múrar og brýr

Þegar við hugleiðum málið nánar sjáum við að ótal margt í lífi okkar og sögu má skoða í ljósi þessara tveggja andstæðna, hindrana og þess sem greiðir förina.

Textar: Slm 103.1-6; Gal 2.20 og Jóh 5.1-15

Nú eru síðustu forvöð að skoða myndlistarsýninguna sem hér hangir frammi í safnaðarheimilinu. Fimmtán listamenn drógu upp sína túlkun af frásögninni af því þegar fólkið færði börnin til Jesú og hann snerti þau og blessaði – þrátt fyrir ákúrur lærisveinanna. Eins og við ræddum um þegar hópurinn kom í kirkjuna í vor eru margar víddir á þessu guðspjalli og kemur það líka berlega fram í verkum listamannanna. Í sumum verkunum má sjá þar sem mætist hlýr og umfaðmandi kærleikur Krists sem vill brúa bilið á milli manns og Guðs og svo kaldur og tortrygginn hugur lærisveina hans sem reisir múra þar á milli. Já, guðspjallið greinir frá því að Kristi sárni þessi afstaða og í framhaldinu tekur hann börnin til sín.

Listamennirnir finna hver sína hlið á sögunni og hún er misgreinileg. Stundum eru skilaboðin skýr og stundum þarf að horfa lengi og hugsa áður en merkingin blasir við.

Biblían sem málverk

Biblían minnir stundum á málverk – eða jafnvel fjölbreytt litaspjald sem listamaðurinn heldur á í höndum sínum. Lífið okkar er flöturinn sem hann málar á. Litirnir eru skilboðin sem ritningin færir okkur. Hann getur dýft penslinum ofan í ólíka liti og dregið margskonar línur á strigann. Þannig er því jú háttað með hina heilögu texta. Stundum blasir merking þeirra við. Stundum sjáum við ekki í fyrstu hvert erindið er. Við horfum á útlínur verkanna og myndmálið skiljum við ekki fyrr en eftir íhugun og jafnvel nokkrar atlögur að listaverkinu.

Textarnir eru margir hverjir margslungnir. Því miður verða þeir stundum tilefni þess að dregnar eru upp ófagrar myndir – myndir sem skapa sundrungu, tortryggni og hatur – þegar boðskapurinn er þvert á móti sá að sameina og græða menn undir merki hins kærleiksríka Guðs. Þá verða hinir dýrmætu textar tilefni til þess að fólk reisir veggi milli sín og annarra í stað þess að skapa þá sameinginu sem Kristur vill koma til leiðar með starfi sínu og orðum.

Vatnið

Þannig er því jú háttað með guðspjallið sem hér var lesið. Og það eru engar ýkjur, textann hafa kristnir menn lesið og túlkað með afar ólíkum hætti í gegnum tíðina. Hann tengist í mínum huga guðspjallinu sem listamennirnir túlkuðu í verkum sínum. Þarna er jú sjálft vatnið með allri sinni dýpt, en líka hreinsandi krafti að ógleymdu sjálfu lífinu sem gæti ekki þrifist án þessa undursamlega efnasambands. Já, og vatnið hefur oft yfir sér dularfullan og ævintýralegan blæ.

Fersk er minningin frá sjálfum Vatnaskógi þar sem prestar kirkjunnar voru með góðum hópi fermingarbarna nú í liðinni viku. Þótt þar sé ótal margt í boði sem vekur skemmtun og kallar fram áhuga fór ekki á milli mála hvar helsta aðdráttaraflið var. Það var vatnið sem skógurinn dregur heiti sitt af. Ekkert var eins lokkandi og vatnið. Fyrsta spurnignin var einmitt á þá leið hvort þau mættu fara út á vatnið – eða jafnvel út í vatnið. Þeirri fyrir gátum við blessunarlega svarað játandi en hinni síðari neitandi! Það er eins og í okkur leynist djúp taug sem togar okkur að vatninu þar sem ævintýrin bíða en auðvitað líka hætturnar. Það var eins gott að farið var með gát þegar orkumiklir unglingarnir okkar reru á kanóum út á Eyrarvatn.

Þjóðtrúin geymir líka frásagnir af ýmsum verum sem hafast við í vatni. Nægir að nefna nykurinn sem í íslenskum þjóðsögum átti að hafast við í stöðuvötnum og ganga svo upp á yfirborðið. Sá sem freistaðist til þess að setjast á bak nykrinum var óðara drifinn niður í undirdjúpin þaðan sem engrar undankomu var auðið. Ekki þarf að brjóta heilann lengi um þær hugrenningar sem eru kveikjan að slíkum sögum. Manneskjan er numin í burtu frá þeim heimi sem hún þekkir og skilur og niður í annan heim sem er myrkur og framandi, en um leið lokkandi. Engan skyldi undra þótt sálfræðingar lesi úr skilaboð úr slíkum sögum um það þegar manneskjan sekkur niður í myrkur sálarinnar og þarf mikið átak til þess að skila henni þangað upp aftur.

Skilyrt náð

Já, vatnið hefur ýmsar hliðar. Sú sem guðspjallið greinir frá er við fyrstu sýn græðandi en engill Drottins átti að gára vatnið sem merki um að nú væri það þrungið læknandi krafti. Samt er einhver fyrirvari settur þar á og í raun eru þessi þrungnu áhrif gagnslaus fyrir hinn veika mann sem sat við vatnið og hafði verið veikur í tæpa fjóra áratugi án þess að eiga þess kost að komast þar ofan í. Hann naut ekki kraftanna því aðeins þeir sem snöggir voru og höfðu nægan mátt gátu nýtt sér þá sökum þeirra ströngu skilyrða sem áttu að vera fyrir því að lækningin fengist.

Sagan minnir á sinn hátt á frásögnina af Jesú og börnunum. Það er þessi veggur sem reistur er á milli náðarinnar og mannsins – á milli Krists og barnanna. Í því guðspjalli eru það lærisveinarnir sem reisa þann múr – hér eru það skilyrðin sem sett eru. Múrar og brýr – þetta tvennt er bakgrunnur guðspjallsins sem við hlýddum hér á. Fyrst birtist það í því að maðurinn fær ekki lækninguna því hún var svo ströngum skilyrðum háð. Og svo eftir að hann hefur fengið bót meina sinna birtast veggirnir að nýju þar sem sjálft hjálpræðið skiptir ekki lengur máli heldur brotið á strangri helgidagalöggjöfinni. Kristur vann þetta góðverk á hvíldardegi og slíkt var forboðið í hinu gamla Ísrael.

Hvíldardagurinn

Og spurningin sem Kristur ber upp áður en hann vinnur lækningarverkið minnir okkur á það að stærstu og erfuðust tálmarnir búa í hjörtum okkar sjálfra. „Viltu verða heill?“ spyr hann manninn og beinir athyglinni frá öllum hinum ytra umbúnaði – takmörkuðum lækningarmætti vatnsins, reglunum um hvíldardaginn og öllu því sem kann að afvegaleiða og láta okkur missa sjónar á hjálpræðinu. Nei, til þess að frelsunin geti átt sér stað þarf að ryðja í burtu því sem brynjar hjartað og sálina. Maðurinn þarf að opna hjarta sitt fyrir Guði og horfast í augu við þá staðreynd að ekkert á vera þar á milli – aðeins sönn trú, einlæg von og brennandi kærleikur.

Þegar við hugleiðum málið nánar sjáum við að ótal margt í lífi okkar og sögu má skoða í ljósi þessara tveggja andstæðna, hindrana og þess sem greiðir förina. Það er lykilatriði í hjálpræði mannsins að geta staðið frammi fyrir Guði sínum án þess að þar þurfi að koma til flókið regluverk og stofnanir sem ráða öllu í þeim efnum. Ekkert á í raun að standa á milli okkar og Guðs.

Siðbreytingin snerist um það að brjóta niður þann múr sem páfakirkjan hafði reist þar á milli. Undirrót hennar var það vald sem kirkjan hafði tekið sér yfir hjálpræði mannsins. Hún verslaði jafnvel með það til þess að standa straum af dýrum rekstri og glæsihöllum. Hversu fjarri var slíkt boðskap Biblíunnar? Siðbótin hefði vart orðið að veruleika ef ekki hefðu verið Biblíur í þeim anda sem hér eru – prentaðar og aðgengilegar fyrir þá sem kunnu að lesa. Prentun Biblíunnar var í raun brúin sem þurfti til þess að opna manninum sýn a vilja Guðs. Siðbreytingin var eðlileg afleiðing af því að fólk gat nálgast og lesið sjálft hinn helga boðskap og fengið þar skilaboðin um erindi Guðs við manninn – beint og milliliðalaust.

Múrar og brýr

Múrar og brýr – þessar andstæður mæta okkur víða í lífinu. Á Íslandi eftir hrun tökum við mörgu því með fyrirvara sem sagt er. Svo margt hefur reynst öðruvísi en það leit út fyrir að vera að utan um orðin sem frá valdamiklum mönnum koma höfum við reist háar girðingar vantrúar og efa. Þetta er eðlilegt en við skynjum það hins vegar á hverjum degi hversu erfitt þetta er og hamlandi. Á meðan þeir múrar standa gengur seint og illa að ræða málin. Víst mun taka langan tíma að brjóta niður þá veggi og þarf mikið að koma til þess arna.

Hér í kirkjunni þekkjum við það vel hvernig gamlir siðir og ýmis konar hefðir sem misst hafa tengingu við samtímann þjóna ekki lengur tilgangi sínum. Það verður að faratálma fyrir manninn að koma inn í kirkjuna sína og eiga þar samfélag með Guði sínum. Þarna verðum við að taka okkur á.

Tilgangur Krists miðar að því að eyða slíkum veggjum sem standa á milli okkar og hjálpræðisins. Það gerir hann þegar hann tekur börnin til sín og blessar þau. Hann gerir það þegar hann horfist í augu við veika manninn og spyr hann þessari knýjandi spurningu: „Viltu verða heill?“. Já, því hann skynjar hugsanir sem búa innra með okkur og kenndirnar í hjartanu. Þar sameinast vilji okkar og vilji Guðs og þegar við opnum hjörtu okkar fyrir Guði finnum við um leið hvernig tálmarnir víkja. Við skynjum innri styrk sem gerir okkur kleift að sigrast á ótrúlegum raunum. Við skynjum frelsi undan alls kyns marklausu regluverki, vegna þess að sjálf eigum við eitthvað dýrmætt í hjarta okkar sem aldrei verður frá okkur tekið.

Viltu verða heill?

Í lífi okkar mætast margar andstæður og það er eitt af verkefnum okkar að vinna með þær og stundum að velja þar á milli. Guðspjallið sem við hlýddum hér á talar til okkar í orðum Krists sem hann bar upp við veika manninn áður en hann vann á honum kraftaverkið stóra: „Viltu verða heill?“. Þessa spurningu skulum við spyrja okkur, ekki síst þegar við skynjum það hvernig við sökkvum sjálf ofan í þau dýpi sem draga úr okkur trúna, vonina og kærleikann. Við ættum að gera þessa spurningu að prófsteini á ákvarðanir okkar í lífinu svo við getum tekist á við það í öllum sínum tilbrigðum. Með því móti færum við bjarta og hlýja tóna inn í líf okkar sjálfra og þeirra sem í kringum okkur eru.