Illgresi hatursins

Illgresi hatursins

Raunveruleikinn sem lýst er í þýskum fjölmiðlum þessa dagana er hins vegar sá að í fyrsta sinn síðan á tímum Þriðja ríkisins í Þýskalandi þora gyðingar ekki að fara út úr húsi eða þá að þeir þora ekki heim til sín vegna þess að nágrannarnir vita að þeir eru gyðingar.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 29. október 2023, 21. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Lexía: Slm 91.1-4; pistill: 1Kor 3.6-9; guðspjall: Jóh 4.34-38.

Einn sáir og annar upp sker.“ Orðtakið sem Jesús fer með í guðspjallinu getur átt við rök að styðjast í svo margvíslegu samhengi. Arfur er t.d. ekkert annað en uppskera sem maður hefur ekki sjálfur sáð til. En um leið er það e-ð sem manni er falið og vonast er til að verði erfingjanum útsæði sem hann eða hún getur sáð og ávaxtað til þess að eftirfarandi kynslóð fái uppskorið og svo koll af kolli. Það á einnig við um kristna arfleifð.

Í ljósi þess að siðbótardagurinn er nú á þriðjudag eru þessir textar vitanlega viðeigandi því að tilvist hinnar lúthersk-evangelísku kirkju er ekki okkur að þakka heldur leiðtogum siðbótarinnar á fyrri hluta 16. aldar og öllum sporgöngumönnum þeirra en þó kannski fyrst og fremst almúgafólkinu sem lifði sitt trúarlíf í daglegri baráttu við ógnir náttúru og manna, formæðrum okkar og forfeðrum, öfum og ömmum, mæðrum og feðrum. Mikil er því sú ábyrgð sem hvílir á herðum okkar allra sem tilheyrum kirkjunni að varðveita og ávaxta þá uppskeru sem við höfum fengið í arf og er ætlað að sá í akur upprennandi kynslóða.

En því miður hafa kristin samfélög og kristin kirkja ekki alltaf sáð til góðrar og heilnæmrar uppskeru. Kristnir höfðingjar hafa í aldanna rás sótt hver að öðrum með bæn á vör og kross í broddi fylkingar og hafa þannig viljað leita fulltingis Drottins almáttugs í hjaðningavígum sínum. Svipuð orð og sálmaskáldið í lexíu dagsins notar um Guð sem hæli og háborg, skjöld og vígi, sá ég grafin í hlaup myndarlegrar fallbyssu úr bronsi frá árinu 1590 í Hersafninu  í París í liðinni viku, hvar grafhvelfingu sjálfs Napóleons er að finna. Fallbyssuna lét steypa Kládíus nokkur, hertogi af Guise og ábóti Cluny-klaustursins í París á tíma trúarbragðastyrjaldanna í Evrópu. Á henni stendur á latínu: „Þú ert verndari minn og vígi“, augljóslega undir áhrifum frá sálmum G.t. Ekki er ljóst hvort orðin ávarpa fallbyssuna eða Guð. En ef ábótinn hefur þannig viljað tryggja guðlega hjálp við fallbyssuskotin þá er frá sjónarhóli Krists sjálfs ekki annað hægt en að lýsa slíkar hugmyndir meiriháttar misskilning á vilja og virkni Guðs. Guð hefur – trúi ég – engan áhuga á því að vera samverkandi manninum í viðleitni hans til drápa og tortímingar.

Okkur er hins vegar ætlað að vera samverkamenn Guðs í því verkefni að láta frið og réttlæti ná fram að ganga  en jafnvel hans ötulustu og mætustu samverkamenn geta reynst hinn versti Þrándur í götu.

Þannig sagði og skrifaði siðbótarfrömuðurinn sjálfur, sem við kennum kirkju okkar við, ýmislegt sem þjónar engu nema hinu illa í þessum heimi. Það má t.d. með sanni ætla að hann hafi skemmt skrattanum með skrifum sínum „um gyðingana og lygar þeirra“. Lúther skrifar ritið 1543, 26 árum eftir að hann gaf út greinarnar sínar 95 gegn villukenningum páfagarðs. Hann hafði reyndar til að byrja með verið allvelviljaður gyðingum, einmitt vegna andstöðu þeirra við kaþólsku kirkjuna, en sá velvilji byggðist einnig á von hans – og raunar kröfu – um að þeir myndu snúast til kristinnar trúar, þ.e.a.s. hinnar hreinu trúar sem hann sjálfur boðaði. Þegar sú von raungerðist ekki snerist hann af fullri heift gegn gyðingum. Skrif hans í áðurnefndu riti eru svo andstyggileg og hatursfull að það myndi vanhelga þessa kirkju að vitna orðrétt í þau en í þessu riti sínu mælir Lúther með því að öll samkunduhús og heimili gyðinga verði brennd til grunna og þeir fái í mesta lagi húsaskjól í hlöðum og útihúsum „eins og sígaunar“, rabbínum þeirra verði bannað að kenna, þeir skuli sæta nauðungarvinnu enda séu þeir ekkert annað en þjófar og ræningjar, þeir skuli ekki njóta verndar á þjóðvegum landsins, sem þýðir að það megi án sakar ráðast á þá, en helst skuli reka þá úr landinu, m.ö.o. að þýsk lönd skuli hreinsuð af gyðingum. Í og með og saman við eru síðan þessar ráðleggingar rökstuddar bæði með vísan í fjandskap gyðinga við Krist sem og þeirra auvirðilega, nánast ómannlega eðli. Allt hljómar þetta kunnuglega í eyrum þeirra sem hafa lágmarksþekkingu á áróðri Nasista í Þýskalandi sem byggðist fyrst og fremst á botnlausu gyðingahatri..

Í meðvirkni með Lúther er gjarnan hlaupið upp til handa og fóta og bent á honum til varnar að hann hafi bara verið barn síns tíma og skrif hans endurspegli einfaldlega gyðingahatrið sem var grasserandi í þýskri menningu samtíma hans og hafði verið um alla Evrópu síðan snemma á miðöldum. Þetta er sannarlega rétt. Undanfarin ár hefur okkur orðið tíðrætt um samsæriskenningar og falsfréttir en kenning gyðingahatursins um að gyðingar séu rót allra vandamála í heiminum má með sanni segja að sé móðir allra samsæriskenninga. Lúther var þannig ekki upphafsmaður gyðingahaturs en það fríar hann ekki ábyrgð á skrifum hans, sér í lagi í ljósi þess áhrifavalds sem hann hafði og hefur enn. Einn af virtari Nýjatestamentisfræðingum samtímans, Stanley Porter, heldur því t.d. fram í bók sinni um samband kristinna og gyðinga í aldanna rás að Adolf Hitler hafi átt sér þrjár stórar hetjur: Martein Lúther, Friðrik mikla Prússakonung og Richard Wagner. Allir hafi þeir verið gyðingahatarar (e. anti-semites). Sjálfsagt eru ekki allir sammála þessu mati Porters á þremenningunum og vilja benda á sögulegar aðstæður eða tíðarandann þeim til varnar.

En þó svo að við séum lútheranar í þjóðkirkjunni ber okkur engin skylda til þess að verja misgjörðir Lúthers. Og það er engin mótsögn fólgin í því að meta að verðleikum guðfræðilega hugsun hans og þau mögnuðu áhrif sem barátta hans við páfavaldið hafði á menningu og sögu Evrópu en fordæma á sama tíma hatursorðræðu hans í garð gyðinga svo dæmi sé tekið. 

Og þó að það sé nauðsynlegt og skylt í sagnfræðilegri skoðun á liðnum tíma að reyna eftir megni að skilja heimsmynd og hugarheim viðfangsefnisins á þess eigin forsendum þá verður ekki hjá því komist að leggja mat á skrif manns eins og Lúthers  á forsendum nútímans og í ljósi þess sem hefur gerst í millitíðinni VEGNA ÞESS að Lúther hefur sérstaka upphafna stöðu sem kennivald í lútherskum kirkjum og samfélögum. Þess vegna er ófullnægjandi að vísa til tíðarandans honum til varnar. Það verður að fordæma hatursorðræðu Lúthers  um gyðinga og það hafa lútherskar kirkjur og Lútherska heimssambandið gert fyrir margt löngu, svo það sé áréttað.

Þetta dæmi sýnir okkur vel að það er ekki allt gagnlegt sem fyrirrennarar okkar á trúarakrinum hafa sáð og við skyldum varast að uppskera það allt og safna í hlöður kirkjunnar eða menningarinnar almennt. Við þurfum sem sé að beita siðviti okkar og dómgreind á virkan hátt. Það á ekki síður við þegar kemur að eldfimum málum í samtímanum; þar mega heitar tilfinningar ekki bera dómgreind og siðvit ofurliði.  Þar er ég sérstaklega að vísa í hatrið sem gyðingar um allan heim standa nú frammi fyrir vegna hernaðaraðgerða Ísraelshers gegn Hamas í kjölfar nauðgana, pyntinga, limlestinga og morða samtakanna á 1400 ísraelskum borgurum á öllum aldri og töku 200 gísla 7. október. Það ætti að vera hægt bæði að fordæma ógnarverk Hamas sem og að fordæma árásir Ísraelshers á Gasa vegna dauða almennra borgara og þeirrar mannúðarkrísu sem þær valda. Það er skylda okkar við mennskuna og mannúðina að fordæma hatur og fordóma – hvort sem er Ísraela á Palestínumönnum eða Palestínumanna á Ísraelum. Því að hatur er eins og illgresi sem hefur fyrirvaralaust lagt undir sig blómabeðið ef maður uggir ekki að sér.

Því miður hafa átökin í Ísrael og Palestínu leitt af sér gyðingahatur sem skotið hefur upp kollinum reglulega undanfarna áratugi á Vesturlöndum meðal þeirra sem styðja sjálfsagða kröfu Palestínumanna til sjálfstæðrar tilveru í eigin ríki. En aldrei sem nú. sem  Þýskir fjölmiðlar hafa undanfarnar vikur tjáð miklar áhyggjur af því að orðræðan á samfélagsmiðlum og á samkomum til stuðnings Palestínu þar í landi geri engan greinarmun á þeirri atburðarás sem hófst 7. október og átakasögu Ísraela og Palestínumanna sl. 75 ár. Hún geri engan greinarmun á Hamas og löglegum stjórnvöldum Palestínumanna á Vesturbakkanum, engan greinarmun á hryðjuverkasamtökum og frelsishreyfingu. Hún geri engan greinarmun á Ísraelum og gyðingum almennt eða ísraelska ríkinu og borgurum landsins.  En á hinn bóginn má segja að margir þeir sem leggja ofuráherslu á rétt Ísraels til sjálfsvarnar geri engan greinarmun á hryðjuverkasamtökunum Hamas og saklausum íbúum Gasa-svæðisins og hunsi þjáningar hinna síðarnefndu gagnvart hernaðaraðgerðum Ísraelshers sem eru oftar en ekki í fullkomnu ósamræmi við hernaðarlega nauðsyn.

Raunveruleikinn sem lýst er í þýskum fjölmiðlum þessa dagana er hins vegar sá að í fyrsta sinn síðan á tímum Þriðja ríkisins í Þýskalandi þora gyðingar ekki að fara út úr húsi eða þá að þeir þora ekki heim til sín vegna þess að nágrannarnir vita að þeir eru gyðingar. Bensínsprengjum er kastað að samkunduhúsum. Síðan 7. október hefur lögreglan í Berlín skráð hátt í 900 hatursglæpi gegn gyðingum. En það versta – svo ég vitni í fréttatímaritið Spiegel – er ekki hatur arabískra innflytjenda á gyðingum heldur þögn Þjóðverja almennt gagnvart voðaverkunum 7. október sem og ógninni sem gyðingar í Þýskalandi upplifa; SKÖMM ÞÝSKALANDS er það kallað í ritstjórnarpistli Spiegel í gær.

Það þarf ekki að koma á óvart að átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafi alið af sér botnlaust hatur á báða bóga. Það er hins vegar ógnvænlegt að sjá hvernig það hatur breiðist nú út í vestrænum samfélögum í formi gyðingahaturs og ofsókna sem við hefðum vonað að myndu aldrei aftur eiga sér stað eftir að Nasistar myrtu sex milljónir gyðinga. Margir Þjóðverjar sjá það þess vegna skiljanlega sem heilaga skyldu Þýska ríkisins og þýsku þjóðarinnar að vernda líf gyðinga og tryggja öryggi ísraelska ríkisins og ísraelsku þjóðarinnar og það er yfirlýst stefna þýskra stjórnvalda að öryggi Ísraels sé hluti af grundvallarhagsmunum þýska ríkisins.

Í ljósi gyðingahaturs og hvers konar kynþáttahyggju í kristnum samfélögum í aldanna rás – svo ekki sé talað um skömm Lúthers – ættu allir kristnir menn að líta á það sem heilaga skyldu sína að rísa upp gegn hvers konar hatursorðræðu hvort sem hún beinist gegn gyðingum, aröbum, blökkumönnum eða hverjum öðrum sem vera kann.

Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.