Ég átti um daginn samtal við fólk sem gengur gjarnan um stíga og götur með poka og prik í hendi og plokkar eins og það er kallað.
Fjölbeiting
Að þeirra sögn er þörfin mest í kringum hraðbrautirnar, þessar straumhörðu ár samtímans sem við hættum okkur sjaldnast nálægt enda er hávaðinn ærandi og ekki hættulaust að ganga þar um. En ég fékk að heyra af því að þar liggja matarumbúðir á víð og dreif.
Það fékk mig aðeins til að hugsa.
Við lifum jú tíma sem við getum kennt við fjölbeitingu – til aðgreiningar frá einbeitingu. Fólk gerir sjaldnast bara eitt í einu, nei það nýtir hverja vökustund í alls kyns verkefni. Framboðið er svo mikið af upplýsingum og skemmtiefni. Þökk sé fjölbeitingunni getum við setið hvert í sínu horni með diskinn eða matabakkann í kjöltunni um leið og við horfum á þáttinn okkar eða skiptumst á skoðunum við fjarlæga viðmælendur.
Því fer vel á því þegar ekið er á milli borgarhluta að nýta tímann til að rífa í sig einhverja næringu og samkvæmt þessum áreiðanlegu heimildum þykir mörgum það eðlilegt að henda umbúðunum út um gluggann.
Að borða saman
Stundum er sagt að hvert tímaskeið geymi sinn skerf af gæðum og sitthvað líka af því sem mætti bæta. Ég syng reyndar ekki sjálfur í þeim kór sem hrópar að allt sé á fallanda fæti. Til þess hef ég of mikinn áhuga á mannkynssögunni þar sem lesa má um herfilegar hugmyndir og ódæðisverk sem unnin hafa verið í nafni þeirra. En það er til lítils að amast yfir háttarlagi liðinna kynslóða. Gjöfulla er að horfa á samtíma okkar og spyrja hvað við getum gert betur og lagað það sem aflaga fer.
Þessi athöfn hérna í kirkjunni er ákveðið mótvægi við asann sem annars tröllríður öllu. Hérna sitjum við til borðs og njótum þess að borða saman. Það er ekki lítils virði enda framkvæmum við svipaðan gjörning í hverri messu. Sá er reyndar einfaldari í sniðum, kvöldmáltíð kallast það engu að síður þegar við borðum lítinn brauðmola sem við höfum dýft í vínið. Þessi litla athöfn hefur reyndar sögulega séð haft gríðarlega mikil áhrif í öllum sínum einfaldleika.
Ekki bara körpuðu guðfræðingar um merkingu hennar og gildi. Það að fá að taka þátt í þessari máltíð skipti sköpum um stöðu fólks í samfélaginu – við þekkjum þetta sennilega úr daglegu tali: ,,að vera sett út af sakramentinu". Það var til áréttingar þess hversu mikilvæg máltíðin var að fólk þurfti að hafa sæst heilum sáttum áður en það gekk saman til altaris.
Þegar við útskýrum þetta fyrir fermingarbörnunum þá bendum við þeim á það hvernig þau sjálf bera sig að í matartímum. Hjá hverjum setjast þau í hádeginu? Hvernig líður þeim sem sitja ein á borði í matsalnum? Hvað þýðir það að bjóða þeim að setjast með sér og snæða? Það að bjóða einhverjum að setjast með sér til borðs er mikilvæg yfirlýsing. Fátt gefur skýrar til kynna að við viljum opna fyrir frekari samskipti og jafnvel vináttu en það að borða saman.
Þá er það ekki tilviljun að við neytum bæði brauðs og víns við altarisgöngur. Þetta eru ekki hráefni sem við tínum af trjám eða togum upp úr moldinni. Nei, það útheimtir mikla þekkingu og verkaskiptingu að geta bakað brauð og lagað vín. Brauðið finnum við meira að segja í ýmsum orðum: „Lávarður” merkir til að mynda Hleif-vörður, sá sem gætir brauðhleifsins. ,,Kumpánar", eru þau sem snæða saman brauð. „Kum“ er þá af latneska orðinu „com“ – og merkir saman og „pánar“ stendur fyrir panis, eða brauð.
Fyrsta félagsfræðiritgerðin sem við sennilega lásum fjallar um brauðbakstur. Litla gula hænan var eina siðmenntaða veran á bænum og það undirstrikar óþekktur höfundur sögunnar með því að hún fattaði, að til að geta borðað ilmandi heitt brauðið þurfti langan aðdraganda. Venjulegar hænur hefðu plokkað hveitikornið upp af jörðinni en þessi hafði rænu á að sá því í jörð og framkvæma svo öll þessi flóknu verk sem brauðgerðin krafðist. Og gerlarnir sem breyta þrúgusafa köllum við á nágrannatungum, kúltúr. Já, við þýðum það með orðinu „menning“.
Máltíðin á að vera heilög stund, í þeirri merkingu að við tökum hana frá. Við ættum að einbeita okkur að því að verja tímanum saman við borðið, vera alvöru kumpánar, hver sem annars tengsl okkar eru. Það er eitthvað nöturlegt við þá tilhugsun að fjöldi fólks æði eftir hraðbrautinni með einhvern skyndibita og að hluti þess fólks hendi umbúðunum svo út um gluggann. Hversu kúlturlaus er hægt að vera? Getum við ekki sagt að yfirvegun litlu hænunnar sé einmitt andstæða þessa?
Og nú á skírdaskvöldi minnumst við þessa kvölds þegar Jesús snæddi með lærisveinum sínum, helgaði brauðið og vínið og sagði þeim að mynda ný vinatengsl sem væru innrömmuð með þessum einstaka hætti, að setjast saman að borðinu.