„Skynsamleg“ trú
Biðjum saman í Jesú nafni:
Vertu Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn svo allri synd ég hafni.
Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Megi Guð blessa okkur og varðveita okkur á þessari stundu í heilagri kirkju sinni.
Ritningarlestrar dagsins bjóða sannarlega upp á margar og ólíkar prédikanir, enda er af mörgu að taka og ófáar spurningar sem textarnir vekja og þarft væri að velta fyrir sér og ræða.
Mig langar að byrja á því að minna á guðspjallstexta síðasta sunnudags. Þeir sem heyrðu eða lásu hann muna að þar vorum við vöruð við falsspámönnum, þeim sem kjafta niður trú og trúað fólk og reyna að sannfæra það um að heill þess liggi utan Guðs og fyrirheita hans. Það er meira en nóg af þeim í samfélögum nútímans. Hinn guðlausi boðskapur þeirra grundvallast ekki síst á þeirri staðhæfingu – og sannfæringu – að guðstrú sé í eðli sínu órökræn og því hljóti sérhver maður að hafna tilvist Guðs, ellegar kasta skynsemi sinni fyrir róða.
Ég þekki einn ágætan guðleysingja. Sá er lærður maður, vel hugsandi, og lítur fyrst og fremst á sig sem rationalista, þ.e. sem skynsemishyggjumann, og því sé hann guðleysingi. Ég spurði hann eitt sinn af hverju svo væri og svaraði hann því til að hann gæti ekki fallist á meyfæðingu Krists. Ekki færði hann sérstök rök fyrir skoðun sinni.
En nú lít ég á sjálfan mig sem skynsaman mann þrátt fyrir mína mörgu ágalla. Ég lít ekki svo á að trú mín geri mig sjálfkrafa að órökrænum manni. Ég býst við að trúað fólk taki almennt undir það hvað sig sjálft varðar.
Það hefur heldur aldrei verið kristin sjálfsskilningur að trú hljóti að vera blind í eðli sínu. Hún er miklu fremur eins og sólin sem skín og varpar björtum geislum sínum á allt annað, upplýsir það og gerir það sýnilegt – og skiljanlegt. Það átti Ágústínus kirkjufaðir ekki síst við þegar hann sagði: „Skilningur er laun trúarinnar. Reyndu því ekki að skilja til þess að geta trúað, heldur trúðu til þess að skilja.“ Undir þetta tók Anselm erkibiskup í Kantaraborg, annar kristinn miðaldaheimspekingur. Að hans mati kom trúin fyrst og þar á eftir tilraunin til þess að færa rök fyrir sannleiksgildi þess sem trúin beindist að.
Í lexíu dagsins kemur augljóslega fram sú skoðun að trú og skynsemi eigi samleið: „Ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim eins og silfri og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá mun þér lærast að óttast Drottin og veitast þekking á Guði.“
Hér er ekki aðeins sagt að trú og skynsemi geta átt samleið heldur að skynsamleg hugsun getur að einhverju leyti verið farvegur trúarinnar.
Umræðan um trú og skynsemi, um eðli þeirra og sambandið þeirra á milli, á sér langa sögu og verður ekki tíunduð hér. En eins og aðrir hef ég velt því fyrir mér hvort hægt sé að tala um skynsamlega trú. Og ég vil segja að svo sé – upp að vissu marki, en alls ekki lítilsverðu samt.
Nú segja guðleysingjar margir hverjir að trú og skynsemi séu og hljóti að vera andstæður. Í nútímanum heyrir maður oft talað um trú og vísindi sem andstæður og er sú umræða af sama meiði, þar sem reynt er stilla trú og rökrænni hugsun upp sem andstæðum.
Hins vegar er uppgangur vísinda einmitt til marks um þá skynsemishyggju sem ætíð hefur fylgt kristinni trú og auðgað hana. Kristin trú hefur ævinlega verið trú í leit að skilningi. Það var ekki sjálfsagður hlutur að vísindi sem slík skyldu koma fram á sjónarsviðið á 16. og 17. öld. Það þurfti alveg sérstakan og frjóan jarðveg til að þau gætu skotið rótum og vaxið og dafnað. Og hvar var þann jarðveg að finna? Ekki í Afríku, Asíu eða í Austurlöndum, heldur í hinum vestræna og kristna menningarheimi Evrópu. Það var m.ö.o. hinn kristni heimur sem leiddi vísindalega hugsun fram á sjónarsviðið. Og það var vegna hins einstaka framlags kristinnar trúar til vestrænnar menningar.
Ástæðuna er að finna í kristinni sköpunartrú. Kristin trú lítur ekki á veruleikann, hinn efnislega eða náttúrulega heim, sem guðlegan í eðli sínu, heldur sem afleiðingu annars veruleika sem er utan og ofan við hinn efnislega og náttúrulega heim; þ.e.a.s. sem afleiðingu Guðs, sem ákvað að leiða alheiminn fram og búa honum ákveðna skipan og markmið. Alheimurinn er því rökrænn í eðli sínu og innan hans getur fólk sótt skilning sinn á því sem fyrir augu ber, með því að virða hinn sýnilega veruleika fyrir sér og brjóta til mergjar eðli hluta og fyrirbæra innan hans. Á þeim vettvangi á kristið fólk sannarlega samleið með öllu öðru vitibornu fólki.
Við verðum því að hafa í huga að vísindaleg nálgun til hluta og fyrirbæra gæti ekki hafa þróast með manninum án vissra staðhæfinga sem ekki er unnt að sanna með vísindalegum hætti; m.a. að alheimurinn sé bundin vissum lögmálum, að hann beri vitni um tiltekna reglu og skipulag, og að manninum sé í senn unnt og leyfilegt að beita skynjun sinni og röklegri hugsun til þess að koma auga á þá reglu og skipulag. Allar þessar staðhæfingar eru fólgnar í hinni kristnu heimsskoðun frá upphafi. Það er því rangt að ætla að kristin trú og skynsamleg og vísindaleg hugsun feli í sér andstæður.
Að trú og skynsemi, trú og vísindi, séu andstæður, er fyrst og fremst falskur áróður sem hefur það að markmiði að kasta rýrð á trú og gera trúarbrögð tortryggileg, og til að plægja jarðveginn fyrir kalda og innantóma efnishyggju.
Til marks um þá skynsemishyggju sem fólgin er í kristinni trú má taka sem dæmi hugleiðingar kristinna manna um guðdóminn. Á bak við þær er margra alda gömul hefð þar sem áðurnefndir Ágústínus og Anselm koma verulega við sögu, ásamt Tómasi frá Akvínó, svo fáeinir af sviði sögunnar séu nefndir.
Í kringum árið 60 skrifaði Páll postuli í bréfi sínu til Rómverja:
„Það sem vitað verður um Guð blasir við [mönnunum]. Guð hefur birt þeim það. Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins. Því eru mennirnir án afsökunar.“
Frá upphafi hafa kristnir hugsuðir og heimspekingar velt því fyrir sér hvort alheimurinn sé eilífur. Þeir þurftu hins vegar ekki stjörnukíki til að hafna þeim möguleika. Þeir hugsuðu sem trúaðir menn. Væri alheimurinn eilífur þá ætti hann sér ekki upphaf og þar með væri skapari úr myndinni. Nú hafa vísindin sýnt fram á það með sínum hætti að alheimurinn á sér upphaf. Kristnir heimspekingar hugsuðu hins vegar eitthvað í þá veru að í eilífum alheimi hefur liðið óendanlega langur tími þangað til allt gerist. En ef óendanlega langur tími þarf að líða uns eitthvað gerist þá getur ekkert gerst – ef þú þarft að telja óendanlega lengi uns þú kemur að tiltekinni tölu þá muntu aldrei telja upp í þá tölu. En nú er eitthvað sífellt að gerast. Við sitjum hér saman í kirkjunni í kvöld. Vera ykkar hér á sér marvíslegan undanfara – þið hefðuð ekki þurft að vera hér. Og allt sem einu sinni gerist og verður á sér orsök, því ekkert getur ekki leitt til einhvers. Eitthvað hefur því alltaf verið til, því ef það var einhvern tíma svo að ekkert var til, hvers vegna er þá eitthvað núna? Eitthvað hefur því alltaf verið til. Og ef ekki alheimurinn sjálfur, hinn efnislegi veruleiki, þá er það eitthvað sem er utan og ofan við hinn efnislega og náttúrulega veruleika; eitthvað ó-efnislegt, yfir-náttúrulegt og eilíft, sem allt sækir uppruna sinn til.
Það er Guð.
Nú mætti segja miklu meira um þetta. En að þessu sögðu ber að minnast þess samt vandlega og auðmjúklega að Guð er engin hugarleikfimi eða reikningsdæmi. Það er vissulega hægt að gera skynsamlega grein fyrir guðstrú, á fleiri en eina vegu, en trú er samt sem áður ekki fólgin í eða bundin af skynsemi mannsins út af fyrir sig. Trúin vísar til veruleika sem er utan og ofan við það sem maðurinn nær til í krafti skynsemi sinnar einnar. En burtséð frá því eru trú og skynsemi alls ekki andstæður, heldur fyrst og fremst trú og vantrú, eða hjátrú.
Hjátrú, eða skurðgoðadýrkun réttara sagt, birtist auðvitað með margvíslegu móti hjá manninum, en fyrst og fremst í því þegar maðurinn gerir efnið og vitið að sáluhjálparatriði og miðar allt út frá því; þegar við leggjum traust okkar á eigin verk og hyggju, en ekki á Guð í Jesú Kristi – við því vorum við vöruð í ritningarlestrum síðastliðins sunnudags (sbr. Rm 8.12–17).
Í pistli dagsins standa þessi orð: „Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn.“
Þegar við veltum því fyrir okkur af hverju eitthvað er fremur en ekkert – því það þyrfti ekki að vera svo – þá áttum við okkur á því að alheimurinn sjálfur er stærsta og mesta kraftaverkið, þessi veruleiki sem við búum við og erum sjálf hluti af. Og þegar spurt er hvort kraftaverk eiga sér stað þá má sannarlega svara: „Hvað gerist annað?“ Kraftur Guðs, vit hans og persónulegur vilji, er á bak við allt og í öllu. Hvað er ekki á færi almáttugs skapara himsins og jarðar? Ekkert. Og allra síst meyfæðing, svo minnst sé aftur á hana. Guð getur sannarlega kosið að opinbera sjálfan sig með margvíslegum hætti þjóni það markmiðum hans, m.a. með því að koma fram sem lifandi maður okkar á meðal.
Og það gerði hann í Jesú Kristi.
Í Jesú Kristi er Guð að leita þín og bjóða þér til samfélags við sig, til þess að auðga líf þitt hér og nú og um alla tíma. Í honum er lífið fólgið því frá honum er það komið, allt hið sýnilega og hið ósýnilega, þú og ég. Í honum er tilgangur þess fólginn, stefna þess og markmið. Utan hans er ekki tilgang að finna í lífinu enda lifum við þá til þess eins að deyja í innantómum og deyjandi alheimi, án raunverulegs markmiðs, án raunverulegrar vonar um örlög handan þessa lífs. Allt sem býr innra með okkur hafnar slíkri tómhyggju. Hið margkveðna á einnig við í þessu samhengi: Til þess að vita hver við erum og hvert leið okkar liggur þá þurfum við að vita hvaðan við komum. Í Guði er líf og það líf er ljós mannanna, ljósið sem upplýsir allt og gerir allt bjart og fallegt, fyllir það sannleika og tilgangi.
Hafir þú einhvern tíma upphafið sjálfan þig, hyggindi þín, vit þitt og mikilfengleika, á kostnað trúarinnar, á kostnað Jesú Krists, – vitanlega höfum við öll gert þá með einum hætti eða öðrum – hafir þú einhvern tíma lastmælt honum, ofsótt hann og smánað, en lofað það sem að þér snýr, leitað þíns eigin og dýrkað það, þá máttu samt vita að þér verður miskunnað, sökum þess að þú trúðir ekki og vissir ekki hvað þú gerðir. Viljir þú þiggja hana þá mun náð Drottins verða stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem þér veitist í Kristi Jesú; viljir þú aðeins rýma til í huga þínum og hjarta og leyfa Guði að tala til þín og hafa áhrif á líf þitt.
Að trúa er að leggja traust sitt á hann í einu og öllu. Það er ekki aðeins nauðsynleg trú heldur líka skynsamleg trú í alla staði.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, einum, eilífum, ódauðlegum og ósýnilegum Guði, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Ritningarlestrar:
Lexía: Okv 2.1-6
Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína og hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim eins og silfri og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá mun þér lærast að óttast Drottin og veitast þekking á Guði. Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.
Pistill: 1Tím 1.12-17
Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú.
Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.
Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.
Guðspjall: Lúk 16.1-9
Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.
Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.
Og húsbóndinn hrósaði svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.
Og ég segi ykkur: Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.