Davíð og Golíat

Davíð og Golíat

Mildi í samskiptum okkar hvert við annað. Mildi, þegar við lítum til náungans, metum, dæmum, hugsum og orðum. Mildin sprettur til dæmis fram þar sem við leggjum okkur fram um að setja okkur í annarra spor.

Biðjum:

 

Góði Guð.

Vort traust er allt á einum þér,

vor ástarfaðir mildi.

Þín náð og miskunn eilíf er,

það alla hugga skyldi.

 

Vort traust er allt á einum þér

því allt þú gott oss veitir.

Þín náð og miskunn eilíf er,

þú öllu´í sigur breytir. (Sálmur 457:1 og 7). Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Trúmennska

 

Textar dagsins fjalla um trúmennsku. Í textunum er trúmennskunni lyft í hæðir, sem dygð sem nauðsynlegt sé að iðka og standa vörð um.

 

Enn í dag er það svo þegar brúðhjón ganga að altari Drottins á sínum brúðkaupsdegi, þá er þetta seinni spurningin sem brúðhjónin fá og svara játandi, hún hljóðar svo:

 

Vilt þú með Guðs hjálp reynast henni/honum trúr, elska hana og virða, í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur ykkur að höndum bera?

 

Trúmennska, ást og virðing.

 

Þetta eru jú grundvallarstoðir í samfélaginu. Grunnstoðir fjölskyldulífs, uppeldis og samfélags, enn í dag, í það minnsta samkvæmt okkar kristna skilningi.

 

Textar dagsins draga þetta fram á skýran máta:

 

Vertu trúr allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu – segir postulinn.

Og Jesús segir í texta dagsins úr Jóhannesarguðspjalli: Sá sem varðveitir orð mitt skal aldrei að eilífu deyja.

 

Þar er fjallað um trúmennskuna við Jesú, þ.e.a.s. að taka mark á orðum hans, frásögum og lærdómum.

 

Kirkjan okkar er kirkja útleggingar

 

Á sama tíma og textar Biblíunnar grundvalla starf kirkjunnar og þjónustu, þá er það útleggingin á textunum sem er aðalatriðið, þ.e.a.s. það er okkar allra að túlka textana og heimfæra þá upp á okkar samtíma. Ræða það hvaða viska það er sem þarna leynist og gæti nýst okkur í dag? Hvað getum við lært af textunum? Hvað miðla lestrar dagsins okkur í dag?

 

Kirkjan okkar, þjóðkirkjan, evangelísk lúthersk kirkja, sem á rætur sínar í keltneskri kristni og menningu, byggir ekki á bókstafshyggju. Þ.e.a.s. á sama tíma og við höldum vitanlega á lofti mikilvægum textum og frásögum Biblíunnar, þá gerum við það samhliða því að við reynum að skilja þá, heimfæra og túlka í samræmi við þekkingu okkar, gagnrýna hugsun, skynsemi og rannsóknir nútímans.

 

Tækin sem við fáum í hendur til að iðka þessa íþrótt er fyrst og fremst bænin. Að nálgast textana í bæn. Auk bænarinnar er það lærdómur á vettvangi háskólans sem nýtist, til dæmis í hinum fornu tungumálum, grísku og hebresku, það eru fræði félagsvísinda, sálfræði og uppeldisfræði, samtímasaga Biblíunnar, saga hebrea, trúfræði, siðfræði, ritskýring og fleira og fleira, sem þar er kennd, sem eru okkur sem verkfæri, gera okkur betur kleift að nálgast þessa fornu texta og skilja þá betur.

 

Þessar frásögur eiga allar sitt samhengi, eru skrifaðar á ólíkum tímum, en trúmennskan, er eitt af því sem sameinar þessar frásögur allar. Þær fjalla um trúmennsku og traust.

 

Rit Biblíunnar voru skrifuð á 1500 ára tímabili, í þremur heimsálfum, af yfir 40 höfundum. Ritið er í eðli sínu mikið undur. Það er mikið undur að hægt sé að finna rauðan þráð í gegnum svo fjölbreytt ritasafn. Einn af þessum rauðu þráðum er hugtakið trúmennska. Trúmennska Guðs við mennina og heiminn. Trúmennska okkar við Guð og hvert annað.

 

Golíat

 

Frásagan úr Gamla testamentinu, úr Fyrri Samúelsbók, er býsna svæsin. Hún segir frá stríði, bardaga smaladrengsins Davíðs, sem varð reyndar síðar konungur í Ísrael, og Davíðssálmar eru kenndir við, eins og Drottinn er minn hirðir, og hermannsins, tröllsins, stríðsmaskínunnar Golíats.

 

Í aðdragandanum velja fylkingarnar tvær bardagamann til að útkljá deiluefnið. Því þarna var deila í gangi, stríð. Sigurvegarinn í einvígi hinna útvöldu, yrði sigurvegari bardagans. Þetta er þekkt fyrirbæri úr frásögum hins forna heims. Það má segja að með slíkri aðferð sé mannfall lágmarkað og blóðsúthellingar takmarkaðar. Fylkingarnar sættast á að útkljá deiluna á þennan máta, þ.e.a.s. deiluaðilarnir sættast á að velja sinn fulltrúan hvor sem heyja einvígi. Verði niðurstaða einvígisins skýr, er það niðurstaða deilunnar.

 

Þess ber að geta að svo virðist sem þessir ættbálkar, þessir þjóðflokkar, þessar þjóðir séu enn í stríði, Ísraelsmenn og Palestínumenn. Þetta er deila sem aldirnar hafa ekki náð að sætta að fullu.

 

Það er svo merkilegt með frásögur Biblíunnar að þær geta í senn verið svæsnar af innihaldi, en um leið er hægt að miðla þeim á svo einfaldan og barnalegan máta. Það er eins og þeim sé ætlað að ná eyrum fólks á öllum aldri. Það er líkt og engin hindrun skuli vera varðandi aldur, greind, þekkingu eða hvað annað. Frásögurnar eru margar hverjar mjög aðgengilegar og myndrænar.

 

Við þekkjum flest þessa frásögu af Davíð og Golíat, sem einhvers konars sunnudagaskólasögu, þar sem barnasöngurinn Davíð var lítill drengur, er gjarnan sunginn.

 

Við heyrðum áðan að sagan, eins og hún kemur fyrir í Biblíunni sjálfri, í það minnsta ef hún væri útfærð sem bíómynd, ætti kannski bara að vera bönnuð innan 16. Stríð, manndráp og stríðsmaðurinn liggur í valnum.

 

Trúartraust og vopnleysi

 

Kjarninn í frásögunni er sá að Davíð gekk fram fyrir hinn þjálfaða stríðsmann Fílisteanna, vopnlaus. Fílisteinn var hins vegar með sverð og allan stríðsútbúnað sem prýða mátti öflugustu hermenn. Davíð var hins vegar þarna smaladrengur með staf.

 

Frásagan er mjög myndræn, líkt og margar frásögur Biblíunnar. Maður sér þetta fyrir sér, hvar litli smaladrengurinn gengur fram fyrir stríðsmanninn, sem gerir grín að drengnum og hótar honum því að hann muni gefa dýrum merkurinnar og fuglum himinsins hræ hans að éta, þetta verði auðveldur leikur fyrir stríðsmanninn og sigur Fílisteanna því auðsóttur.

 

En boðskapur frásögunnar er sá að Davíð lét ekki hugfallast, hann treysti einhverju sér æðra, treysti því að mátturinn mikli, Guð, væri með honum, og gekk fram í því trúartrausti.

 

Vill Guð vera í stríði?

 

En er Guð okkar, svona stríðsguð?

 

Nei, það er merkilegt með þessa stríðsfrásögu að með þessari framgöngu lýkur átökunum, í bili. Þið þekkið hvernig svona átök eiga það á hættu að stigmagnast. Við þekkjum það án efa sjálf þegar við höfum lent í einhvers konar átökum eða rifrildi, að stundum man maður ekki lengur um hvað er rifist. Hvert var eiginlega upphafið? Um hvað fjallar þetta eiginlega?

 

Því átök eiga það til að stigmagnast.

 

Þarna er fyrsta skrefið jú það að lítill drengur er valinn til að ganga fram á vígvöllinn. Ekki nóg með að það sé lítill drengur, heldur er hann einnig vopnlaus. Vopnlaus í þeim skilningi að hann er ekki með nein stríðstól í höndum til að sækja fram til sigurs. Hann er með það „vopn“ sem hann notaði í sinni smalamennsku og nýttist vel til að verja sauðféð fyrir hundum og óargadýrum, staf og slöngu, sem hann gat sett steina í og kastað steinum. En þetta var ekki vopn í hinum hefðbundna stríðsskilningi.

 

Stríð og friður

 

Þessi frásaga fær mann til að hugsa og velta fyrir sér ýmsu sem snýr að réttlátu stríði og réttmætri sjálfsvörn. Það eru jú mjög aktúel viðfangsefni samfélagsins í dag, þar sem stríð er háð í nágrenni okkar, Úkraínu. Það er t.d. mjög „aktúelt“ deiluefni í Þýskalandi nú um stundir og varðar spurninguna um vopnasendingar til Úkraínu. Friðarsinnar hafa lagt áherslu á að ná friðarsamningum við Rússa, í stað þess að senda ennfrekari vopn til Úkraínu. Það er erfitt að sjá að slíkt muni ekki koma niður á saklausum borgurum Úkraínu, því yfirgangur Rússa virðist gengdarlaus. Það er ljóst í mínum huga að Vestræn ríki þurfa að styðja Úkraínu með tækjum og tólum. Stóra spurningin í mínum huga er hins vegar sú, hvernig komist verður hjá því að átökin stigmagnist. En það er auðvitað það sem alls ekki má gerast.

 

Mildi

 

Þar, eins og kannski í okkar nærsamfélagi, er það einhvers konar mildi, sem þarf að koma til, mildi í bland við festu. Það þarf fyrst og fremst mildi og auðmýkt, trúmennsku og hugrekki til að settla deilur og átök. Við þurfum með einhverju móti að rækta mildina í samfélaginu og í heiminum öllum.

 

Heimurinn er vettvangur samkeppni, sem er gott, eins langt og það nær. Samkeppni á hinum ýmsum mörkuðum heimsins. Samkeppni um einkunnir í skólum. Samkeppni um bestu lausnirnar í tæknimálum, þjónustu og samgöngum. Samkeppni íþróttanna, þar sem einn er sigurvegarinn. Samkeppni er sú leið sem vestræn ríki og samfélög hafa valið að nota til að finna bestu lausnirnar á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.

 

Allt er það gott og blessað og gagnlegt víða og kannski allsstaðar.

 

Mennskan, hins vegar, kallar á ákveðna mildi, að við ræktum mildina í eigin garð og annarra.

 

Mildi í samskiptum okkar hvert við annað. Mildi, þegar við lítum til náungans, metum, dæmum, hugsum og orðum. Mildin sprettur til dæmis fram þar sem við leggjum okkur fram um að setja okkur í annarra spor. Leggjum okkur fram um að skilja hvert annað. Og ekki nóg með það heldur einnig hjálpa hvert öðru. Og ekki nóg með það heldur einnig elska hvert annað. Og ekki bara okkar nánunstu eða þá sem standa okkur nærri, eða eru eins og við. Heldur einmitt elska þau einnig sem við jafnvel myndum flokka sem óvini okkar.

 

Það er krafa kristninnar. Elskan til Guðs og náungans. Því á grundvelli hennar spretta fram blóm í akri lífsins sem veita liti og ilm sem hvergi annarsstaðar er að finna. Mildi, kærleika, vináttu, sátt, fyrirgefningu, hugrekki, fórnfýsi, upprisu og frið.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen. 


Textar:

1.Sam. 17:40-50

Opinberunarbókin 2:8-11

Jh. 8:42-51


Prédikun flutt í guðsþjónustu í Bústaðakirkju sunndaginn 12. mars 2023 kl. 13