Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Hvers heimtar Guð af okkur?
Gáfuð ljóska, Superman og prestur sátu saman á bekk þegar 5000 krónur fuku framhjá og staðnæmdust við bekkinn, hver þeirra haldið þið að hafi náð 5000 krónunum? Jú, presturinn af því hin tvö eru ekki til. Sumar sögur eru sagðir eingöngu til þess að vekja hlátur eins og þessi og notaðir til þess persónur sem við þekkjum í okkar hversdagsheimi. Í guðspjallinu er sögð dæmisaga sem er sögð sem brandari heldur ætlað að hafa dýpri merkingu, þar koma einnig fyrir mismunandi persónur, það er húsbóndi, ráðsmaður eða þjónn og hjú. Dæmisöguna sagði Jesú til að útskýra samband Guðs við manneskjurnar og vildi segja þeim sem á hlýddu eitthvað um Guð og notaði til þess persónur eða myndir úr daglegu lífi sem öll þau sem hlustuðu á hann þekktu. Hvað var það sem Jesú vildi segja fólkinu sem hlustaði á hann um Guð og hvað er það sem við getum látið þessa dæmisögu segja okkur um Guð? Guð sem skapari hlýtur að vera húsbóndinn, sá sem stjórnar og stýrir og við manneskjurnar erum ráðsmenn, þjónar og hjú. Með ráðsmönnum er alls ekki endilega átt við þau sem hafa raunverulegt yfirvald, heldur erum við öll ráðsmenn og þá ekki hvað síst okkar eigin eða þeirra sem okkur ber að gæta að, börnunum eða þeim sem standa höllum fæti. Við erum sömuleiðis hjúin sem stundum erum undir aðra komin og þurfum að treysta á að um okkur sé hugsað. Fyrst Guð er húsbóndinn hvers heimtar hann þá af þjónum sínum, hvers heimtar Guð af okkur? Hafa hjúin einhverju hlutverki að gegna? Í fyrstu er eins og hjúin skipti ekki miklu máli, það er ekkert sem þau eiga að gera eða er skipað að gera ekki. En visslega skipta þau máli því það sem ráðsmaðurinn á að gera eða ekki gera lýtur að framkomu við hjúin. Hann á að gefa þeim skammtinn á réttum tíma og ekki að berja þau. Síðan er tekið fram að hann eigi ekki eta, drekka og verða ölvaður. Hann á að hlýða húsbóndanum og gera vilja hans og hann á að vita hver vilji húsbóndans er og aldrei að slaka á. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð. Þetta eru niðurlagsorð guðspjallsins. Getur verið að þetta séu einhvers konar fjárlög, að þau sem hafa hærri tekjur, greiði hærri skatta, þau sem taka hátt lán borgi hærri vexti? Eða er þetta skattastefna Guðs? Ef svo er hvaða tekjur fáum við frá Guði og hvernig skatta eigum við að borga af þeim? Hvað er það sem Guð lánar okkur og hvernig eru þeir vextir sem við eigum að greiða? Einn af mínum uppáhalds íslensku tónlistarmönnum er Svavar Knútur og ég var á tónleikum með honum um daginn þar sem hann talaði um það hversu þakklátur hann væri fyrir að fá að vinna með tónlist og fá að spila tónlist fyrir fólk, fá að lifa og starfa við það sem veitir honum um leið ómetanlega gleði. Honum fyndist eins og hann væri að svindla á einhverjum að líða svona vel og það hlyti að koma að því að hann þyrfti einhvers staðar að borga fyrir hamingjuna eða greiða af henni skatta. Mér finnst þetta umhugsunarefni. Getum við eða þurfum við á eihvern hátt að greiða af því sem gott er eða þegar vel gengur og þá er ég að sjálfsögðu ekki að tala um peninga. Hvers heimtar Drottinn af okkur? Í lexíu dagsins segir Amos spámaður: ,,Leitið hins góða en ekki hins illa, þá munið þið lifa og Drottinn Guð verður með okkur” Og í pistlinum segir Páll postuli í bréfi til vinar síns og trúbróður Tímóteusar: ,,Ver algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína. Hvað ef þetta eru skattarnir og vextirnar sem okkur ber að greiða? Ég veit alveg að þetta er barnalega einfalt að auðvitað er heimurinn ekki svona einfaldur. Við vitum sömuleiðis að leiðin til hins góða er ekki auðrötuð, flest eigum við okkar sögur af því að okkur hafi á einhverjum tímapunkti mistekist við hið góða. Líklega fundum við sting innra með okkur og jafnvel skömmuðumst okkar þó enginn hafi séð það. Við vitum að setningin: ,,Og þau lifðu hamingjusöm til æviloka” er ekki alltaf sönn. Þrátt fyrir það ætlum við alltaf og viljum leita hins góða en ekki hins illa og ef við byrjum smátt og smátt getum við haldið í vonina að fleirum takist það og veröldin öll verði lituð af því góða fremur en hinu illa. Ef fyrsta frétt í útvarpi, sjónvarpi eða á forsíðum blaða væri alltaf góð væri auðvelda að horfast í augu við þær slæmu og trúa að við gætum bætt hlutina og heimurinn orðið betri. Ef það er alltaf fyrsta frétt að 20 hafi látið lífið og þar af fimm börn þá hægt og rólega síast það inn hjá okkur að líklega muni aldrei ríkja friður á jörð. En ef fyrsta fréttin væri af góðverki eða undursamlegri fæðingu lífs eða samstöðu þjóða þá fengjum við alltaf smátt og smátt þá trú að hvert gott augnablik, hvert líf, hvert bros, hver sólarupprás og sólarlag, hver einstök gleði hefði áhrif og skipti máli. Hvers heimtar Guð af ráðsmönnum sínum, þjónum og hjúum, okkur hér og nú dag frá degi. Að leita hins góða en ekki hins illa, að hugsa vel og vandlega um það sem okkur hefur verið gefið og trúað fyrir . Það breytir engu þó við séum úti í sveit, á litlu landi lengst norður í hafi, allt hefur áhrif. Við eigum góðan húsbónda eða húsmóðir sem treystir okkur fyrir heimili sínu, þessu stórkostlega heimili sem lífið er. Húsmóðirinn segir okkur að vera vakandi fyrir heimilinu, við eigum að elska hið góða og hlýða því sem hún hefur sett okkur fyrir að gera, því sem hún heimtar af okkur. Húsmóðirin vill að ekkert fari úrskeiðis og að þjónar hennar hugsi vel um heimilið, það er hennar krafa. Samt veit hún og að stundum fer eitthvað úrskeiðis sem hryggir hana jafn mikið og þjónana, við missum fótana, slysin henda og hið illa er þarna með okkur á þessu heimili. Það er ekki alltaf allt dans á rósum og heimilið á sína skugga. En við megum ekki láta þá ráðsmenn eða þjóna sem berja, éta og drekka óhóflega og sýkja heimilið. Við sem þjónar og hjú eigum að standa vörð um að hleypa þeim öflum ekki að, hvorki í kringum okkur né innra með okkur. Að við séum ráðsmenn lífsins gerir einnig það að verkum að við getum horft á það frá mörgum hliðum. Við Drífa vorum í góðum hópi fólks inni í Þórsmörk í vikunni á vegum Rotarýklúbbs Rangæinga. Þar ræddum við nokkur um lífið og dauðann og það að kveðja gott samferðafólk. Ein sagði frá aldraðri frænku sinni sem skyldi ekkert í því hversu mikið af fólki myndi deyja nú á dögum, þetta hefði sko alls ekki verið svona þegar hún var ung. Þá fannst mér gott sem önnur í hópnum hafði orð á að auðvitað er það okkar val að vilja eiga samfélag við fleira fólk og ef við viljum njóta þess að vera vinamörg þá verðum við um leið að sætta okkur við þá óhjákvæmilegu staðreynd að kveðja og missa þessa góðu vini og samferðafólk. Við getum forðast það að tengjast annarri manneskju kærleiksböndum og um leið aldrei misst en um leið förum við á mis við þá gleði sem þessar manneskjur veita okkur og felst í samfélagi við þær. Orðin að þeim sem mikið er gefið verður mikils krafist mætti skilja jákvætt. Því meira sem við höfumst að í lífinu á gleði- eða sorgarstundum því meira uppskerum við og sjáum heimili Guðs dýpri og fegurri augum og skuggarnir verða um leið ekki eins erfiðir að yfirstíga eða lifa við. Lífið er gjöf og lífið er heimili okkar hér á jörð og Guð setur okkur yfir það en gerir um leið kröfur til okkar. Húsmóðirin, húsbóndinn, Guð kemur með lífið í fang manneskjunnar eða náttúrunnar og horfir kærleiksríkum augum sínum á heimili sitt. Guð krefur jafnframt manneskjuna til þess að gæta heimilsins og setur henni ákveðnar reglur að fylgja eftir. Það er þjónanna að skoða hverjar þessar reglur eru og biðja um aðstoð annarra á heimilinu að fylgja þeim eftir og ekki síður biðja Guð að styrkja sig við vinnuna. Guð fer ekki frá heimili sínu, heldur er alltaf til staðar og lítur reglulega eftir því hvernig manneskjunum tekst til við ráðsmennskuhlutverk sitt. Hvernig gengur þér og hvernig gengur mér að sinna þessum skyldum? Hvernig gengur okkur að horfast í augu við okkur sjálf sem á heimilinu búum og aðra sem deila því með okkur og spyrja í hljóði og saman, hvernig stöndum við okkur? Við vitum að stundum horfir Guð brostnum augum á heimili sitt og hugsar, svona á þetta ekki að vera, þetta hefði ég ekki viljað að myndi gerast og við vitum að okkur eða öðrum hefur mistekist. En stundum horfir Guð með miklu stolti á heimili sitt eins og húsmóðir sem sofnar sátt af því að hún finnur að heimilið er einhvern veginn eins og það á að vera og heimilisfólkið hvílir sælt og rótt í rúmum sínum. Húsmóðirin, húsbóndinn, Guð krefst svo sannarlega mikils af þjónum sínum, ráðsmönnum og hjúum en Guð gefur á móti endalaust og ríkulega af kærleika sínum, umhyggju og gleði og það er okkar að nýta, njóta og fara vel með hlutverk okkar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen