Hvað getur þú gert fyrir mig, prestur?

Hvað getur þú gert fyrir mig, prestur?

Já, „hvað getur þú gert fyrir mig, prestur?“ Spurði ungi múslíminn í moskunni. Svarið sem hann hafði gefið var greinilega ekki nógu gott. „En hvernig átti ég að svara á annan hátt?“ spurði hann. Löngu síðar fann hann annað og betra tilsvar að honum fannst.

Í síðustu viku fékk ég að taka þátt í málþingi um kristni og íslam á Íslandi. Undirtitillin var: Sambúð, samskipti og sameiginleg framtíð.


Hvað getur þú gert fyrir mig?

 

Aðalfyrirlesarinn var Sten Skovsgaard fyrrum biskup í dönsku kirkjunni en hann var á sínum tíma prestur í Gellerup hverfinu í Árósum þar sem múslímar voru í miklum meirihluta íbúanna. Hann hefur verið leiðandi í samtali og samvinnu dönsku kirkjunnar með fulltrúum þessa trúarhóps.

 

Hann segir frá einum fyrsta fundi sínum með þeim, um miðjan tíunda áratuginn. Eftir nokkurt kurteisishjal stóð ungur maður upp og spurði: „Hvað getur þú gert fyrir mig, prestur?“ Skovsgaard svaraði á þessa leið: „Ég hef líklega bara ódýrt svar í þínum huga. Ég á aðeins náð sem ég get miðlað þér, en orðið náð er á latínu gratia, sem merkir gjöf.“ Þetta svar féll ekki í kramið hjá gestgjöfum hans og sjálfur var hann ósáttur það hvernig hann hafði brugðist við. Samskipti þessi sátu í honum og hann spurði sig hvort hann hefði ekki getað svarað með gagnlegri hætti.

 

Síðar skrifaði Skovsgaard bók með þessum titli: Hvað getur þú gert fyrir mig prestur?

 

Breytt samskipti


Við þekkjum umræðuna hérna heima og víðar í kjölfar þess hvernig samfélagsgerðin er að breytast. Víða er fólk uggandi og ýmsar sögur fara af stað. Á þessu málþingi töluðu hjónin Hilal Kücükakin og Muhammed Emin Kizilkaya um reynslu sína af því að búa á Íslandi. Þau hafa verið virk í slíku samtali hér á Íslandi. Við í Neskirkju höfum notið góðs af gestrisni þeirra en þau hafa boðið til ramadan veislu þegar múslímar setjast að borðum að lokinni föstu.

 

Þau skoða þessi samskipti sem danski biskupinn ræddi. Hjónin greindu frá því hversu algengt það hefur veirð að komið væri fram við þau eins og stórhættulegt fólk. Hilal er alin upp í Danmörku og var hún aðeins sex ára þegar árásin var gerð á tvíburaturnana. Hún lýsti því hvernig hún hafði frá barnsaldri setið undir óvægnum ásökunum um einhvers konar aðild að voðaverkum.


Hér á reiki er margur óhreinn andi

 

Og nú höfum við hlýtt á eina af þessum frásögnum í Biblíunni sem hljóma framandlega í eyrum nútímans en ber með sér illsku og eitthvað sem er óheilt og brotið. Illir andar koma víða við sögu í frásögnum Biblíunnar. Það þarf svo sem ekki að leita langt aftur í söguna til að sjá merki þess að fólk hafi trúað á slíka vættir.

 

Við þekkjum nú öll texta Gríms Thomsen, Á Sprengisandi, frá 19 öld. Þar greina skelfingu lostnir smalarnir hættur við hvert fótmál. Sólin er að setjast og rökkrið sækir á. Strax í fyrsta erindi segir: „Hér á reiki er margur óhreinn andinn“. Þar kveður við sama tón. Og er ekki bundið við liðnar aldir. Sagnameistarar okkar tíma flétta slík fyrirbæri inn í hrollvekjur sínar. Það virkar, enda er býr hann enn í okkur beygurinn við hið framandlega og dulræna.

 

Óhreinir andar spretta fram þar sem mannshugurinn greinir hættur og háska. Skuggamyndir í rökkri verða oft fyrir tilstuðlan ímyndunaraflsins að andlitum og líkömum. Þetta er okkur áskapað. Kynslóðirnar hafa haft varann á sér og hafa persónugert fleira en það sem er raunverulega háskalegt. Þótt líf okkar sé nú upplýst og uppljómað af ljósum og þekkingu erum við engu að síður enn með sömu móttöku í huga okkar þegar kemur að því að túlka og meta það sem augun greina.

 

Já, við vitum hvað það var sem angraði fólk hér forðum er það leit svo á að það væri haldið einhverju því sem kallað var illir andar. En ef við rýnum inn í huga okkar nútímamanna sjáum við að enn eimir af því sama og lét fólk sjá púka í hverju horni og andaverur í rökkrinu.

 

Óttinn við hið framandlega hefur enn áhrif á líf okkar og gjörðir. Það sjáum við í umræðu daganna, ásakanir gegn einstaklingum sem koma úr öðru umhverfi, líta ekki eins út. Við greinum það hversu fljótt fólk fellir dóma yfir náunganum í ýmsum samhengi. Og hinar öfgarnar birtast okkur líka þar sem við greinum óþol gagnvart eigin sérkennum og menningu, eins og allt það sem byggt hefur verið upp og mótað sé einskis virði.

 

Stundum finnst mér að erindi Biblíunnar við okkur sé meira og minna það að særa út úr okkur þá illsku sem fær okkur til að draga fólk í dilka eftir uppruna, útliti eða öðrum sérkennum nú eða að fyllast óþoli gagnvart því umhverfi sem við erum sjálf hluti af.


Samskipti trúarhópa

 

Þess vegna var það svo gefandi að hlýða á þau sem tóku til máls á þinginu í Vídalínskirkju. Og þar var þó ekki talað um að við ættum að varpa því frá okkur sem við höfum mótað og byggt upp í gegnum tíðina. Boðskapur kristninnar er eins og ljós inn í þetta umhverfi sem við búum í.

 

Danski biskupinn ræddi það einmitt hvernig sambúðin með öðrum trúarhópum hefur eflt kristna trú, í stað þess að veikja hana. Já, gamalgróinn siður hefur verið jafn sjálfsagður fyrir fólki eins og sjórinn er fiskunum. Þegar andstæð sjónarmið mæta okkur, ólíkar hugmyndir og hefðir, þá fer fólk að spyrja hvað það er sem gefur kristnum samfélögum sérstöðu sína.

 

Og hann vitnaði í heimspekinginn Karl Popper sem talaði um þá þverstæðu að umburðarlyndi án takmarkana leiddi af sér umburðarleysi. Í marglitu samfélagi þýðir þetta að við þurfum að hlúa að minnihlutahópum enda er afstaðan til jaðarhópa lykilatriði í kristinni trú. En þeir eiga ekki að drottna yfir meirihlutanum. Það er ekki auðvelt að búa saman með ólíkar hugmyndir en af því getur leitt margt gott.

 

Já, „hvað getur þú gert fyrir mig, prestur?“ Spurði ungi múslíminn í moskunni. Svarið sem hann hafði gefið var greinilega ekki nógu gott. „En hvernig átti ég að svara á annan hátt?“ spurði hann. Löngu síðar fann hann annað og betra tilsvar að honum fannst.

 

Það var á þessa leið: „Mér þykir leitt að valda þér vonbrigðum því ég held ég hafi ekkert að bjóða þér. Mér sýnist þú sáttur í þinni sannfæringu og að þú búir að ríkidæmi í þeim efnum. Þú ert barmafullur af íslam. Fagnaðarerindið er aftur á móti fyrir hin fátæku, þau sem hungrar og þyrstir, það er fyrir hin tómhentu. Það á erindi til þeirra sem telja sig ekki geta af eigin rammleik geta framkvæmt vilja Guðs. Það er fyrir syndara. Jesús lifði og dó fyrir það fólk sem svo er ástatt um. Mér sýnist á öllu að þú lítir ekki á þig þeim augum. En ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þú hafir að eigin mati ekki gert nóg í tengslum þínum við Guð og náungann, eða ef þú ert í efa um kærleika Guðs til þín og óttast dóminn, þá lofaðu mér því að snúa aftur til mín því ég hef svolítið handa þér. Fram að því geturðu verið sáttur í þinni trú.“


Fólk á ferð

 

Það er nefnilega þetta sem er kjarninn í okkar trúarhefð. Við erum fólk á ferðalagi, stundum uggandi eins og smalarnir í ljóði Gríms Thomsen sem heyra raddir í myrkrinu. Já, Biblían krefst þess ekki að við séum gallalaus og í textum hennar koma fyrir óvættir sem hugur okkar mótar þegar hann reynir að túlka það sem erfitt er að skilja. Og á það sameiginlegt með ýmsum vanda að sú ógn býr innra með okkur, getur sest að í huga okkar og skapað andúð gangvart öðrum hópum nú eða þá okkur sjálfum.

 

Við ættum þvert á móti að ganga inn í samtalið við þau sem eru að fóta sig á nýjum slóðum, þar finna þau fyrir fordómum og neikvæðni. En eins og öll góð samskipti, þá byggja þau á því að fólk gefi og þiggi en byggi um leið á því sem það telur gott og trúir á.