Rómans og rof

Rómans og rof

Í dag getum við tekið ákvörðun um að ganga með Jesú á föstunni, skoða líf okkar í ljósi hans, láta ekki tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur en halda fast í hönd Jesú sem styður okkur og styrkir til allra góðra verka. Munum að kærleikur Guðs bregst okkur ekki. Hann byggir ekki á tilfinningum. Og þó andstæðingur ástarinnar, óvinurinn sem vill klofning og rof í mannlegum tengslum, reyni að fella okkur, jafnvel með því að taka sér orð Guðs í munn, látum við ekki undan.

Í dag er Valentínusardagurinn, dagur elskenda. Margar frásagnir af mannlegri ást að finna í í Biblíunni. Sumar eru ófagrar. Við munum til dæmis eftir Samson og Dalílu í sextánda kafla Dómarabókarinnar, saga sem er mörkuð af svikum hennar sem ást Samsonar beindist að. Svik koma líka við sögu ástar Davíðs konungs á Batsebu, lesum við í annarri Samúelsbók, 11. kafla. Fólk missir lífið þegar ástarvíman brenglar dómgreindina, þegar hjartað ber hugsunina ofurliði.

Í dag heyrum við af fyrsta parinu sem sögur Biblíunnar fara af, langur lestur um ást og langanir og svik í 1Mós 3. Eva og Adam lifðu fyrir augnablikið, alsæl í sínu sakleysi, líf og mold sameinuð í Paradís. En þar voru þau ekki lengi. Græðgin hélt innreið sína í líki höggorms og í kjölfarið sú freisting að skorast undan ábyrgð: „Konan [...], hún gaf mér,“ segir Adam. „Höggormurinn tældi mig,“ segir Eva. „Hún gerði það.“ „Það er ekki mér að kenna. Það er honum að kenna.“ „Ekki benda´ á mig, segir varðstjórinn“ í ádeilutexta Bubba. Við erum gjörn á að benda á aðra, reynum að fría okkur ábyrgð í lengstu lög, stytta okkur leið. Börnin gera þetta en við fullorðna fólkið líka. Viðurkennum það bara. Þetta kemur niður á tengslum okkar, oft við þau sem síst skyldi.

Klofningur Klofningnum mikla sem varð á milli austur og vestur kirkjunnar árið 1054 e. Kr. má líkja við aðskilnað elskenda. Rof varð á hinni kristnu fjölskyldu, stærra og meira en áður hafði orðið, og var orsökin að hluta guðfræðilegur ágreiningur en ekki síður vegna mannlegra og pólitískra þátta. Síðastliðinn föstudag varð sögulegur viðburður í flugstöð José Martí í Havana á Kúbu. Þar hittust á þriggja tíma fundi höfuð vesturkirkjunnar, páfinn í Róm, Franz I, og höfuð hluta austurkirkjunnar, patríarkinn af Moskvu og öllu Rússlandi, Kirill. Í desember 2014 mættust þeir Franz páfi og ekúmeníski patríarkinn Bartholomeus I í Istanbul og treystu þar með böndin sem myndast hafa þeirra á milli, ekki síst þegar sá síðastnefndi sótti fyrstu messu Franz sem páfa. Það hefur patríarkinn í Konstantínópel, sem litið er á sem fremstann meðal jafningja í orþódoxum kirkjum, ekki gert frá klofningnum miklar árið 1054.

En sem sagt, á föstudaginn var undirrituðu þeir Kirill og Franz sameiginlegt skjal í 30 liðum. Þetta er merkilegt plagg og komið er víða við, eins og til dæmis aðstæður kristins fólks í Mið-Austurlöndum, stöðu kristinnar kirkju í Úkraínu og framtíð mannlífs og menningar. Skref í rétta átt, myndu margir segja.

Enginn rómantískur blær yfir Valentínusi Allnokkru áður en til klofningsins mikla kom fyrir bráðum þúsund árum lýsti páfinn Gelasíus I því yfir að heilags Valentínusar af Róm skyldi vera minnst á líflátsdegi trúarhetjunnar 14. febrúar ár hvert. Þessi yfirlýsing var gefin fyrir rúmum sextánhundruð árum, árið 496 e. Kr. rúmum tvöhundruð árum eftir líflátið. Eflaust hefur dagsins verið minnst í rómversk-kaþólskum sið á Íslandi en það er ekki fyrr en á síðustu áratugum sem Valentínus snýr öflugur aftur hingað til lands, nú með rómantískum formerkjum og slatta af sölumennsku. Þess má geta að árið 1969 var Valentínus tekinn út af skrá rómversk-kaþólsku kirkjunnar yfir dýrlinga sem skyldugt er að minnast vegna þess hve lítið er vitað um hann og margir heilagir menn hafa borið þetta nafn sem merkir verðugur, sterkur, máttugur og ein heilög kona, Valentína sem minnst er ásamt heilagri Theu 25. júlí ár hvert en þær voru teknar af lífi saman árið 308 e. Kr.

Samkvæmt helgisögnum vísar nafn dagsins í einhvern þriggja einstaklinga sem allir hétu Valentínus en allir munu þeir hafa dáið fyrir trú sína á þriðju öld eftir Kristsburð (sjá pistil eftir Sigurð Ægisson á http://tru.is/pistlar/2008/02/heilagur-valentinus/). Þekkt er sagan af prestinum Valentínusi sem þjónaði í Róm á dögum Kládíusar II keisara, sem kallaður var hinn grimmi. Keisarinn bannaði ungum karlmönnum að kvænast til að hjónaband og fjölskyldulíf skyldi ekki draga úr þjónustulund þeirra við það hernaðarbrölt sem þá ríkti. Í trássi við lög keisarans vígði Valentínus ungt fólk í hjónaband með leynd og var í kjölfarið fangelsaður og síðan líflátinn 14. febrúar, sennilega árið 270 eða þar um bil. Meðan presturinn beið aftökunnar vitjaði ung stúlka, dóttir fangavarðarins, hans. Sögn er til um að hann hafi læknað stúlkuna af blindu. Henni mun Valentínus hafa sent stutt vinarbréf sem hann undirritaði með orðunum „Þinn Valentínus.“ Er þar komin fyrirmynd Valentínusarkortanna.

Ofbeldislaus mótmæli gegn ofríki Blaðamaðurinn Klara Egilson bendir á í pistli á http://hun.moi.is/dagur-astarinnar-hver-er-thessi-valentinus/ frá 2015 að með því að framkvæma „fjölmargar ólöglegar hjónavígslur í trássi við skipanir Kládíusar keisara“ hafi Valentínus risið upp gegn kúgun auðvaldsins og brotið á bak aftur „harðræði og heraga með kærleikann að vopni“. Þannig má túlka Valentínusardaginn sem dag friðar og ofbeldislausra mótmæla gegn ofríki og takmörkun á persónufrelsi borgaranna, fyrir utan rómantísku tilvísunarinnar sem borið hefur mest á undanfarna áratugi og mun koma frá breska fjórtándu aldar skáldinu Geoffrey Chaucer.

Lítið er sem sagt vitað með vissu um manninn að baki sögninni um heilagan Valentínus. Sennilegast var hreinlega um að ræða prest sem þjónaði sínum kristna söfnuði í trássi við keisaradýrkun síns tíma og leynilegar hjónavígslur sem kostuðu hann lífið gætu vel passað inn í þá mynd. Bréfið til dóttur fangavarðarins hefur líklega verið vináttuvottur og óþarfi að lesa of mikið í hina hlýlegu kveðju „tuus Valentinus.“ Hitt er annað, að gott er að halda upp á daginn með elskunni sinni til að minnka hættuna á rofi og tengslamissi sem er allt of algeng í dag. Við þurfum að hlú að samböndum okkar, rækta fjölskyldulífið og varast allt sem því ógnar. Hjarta og hugur Klara Egilson minnir á að tákn Valentínusardagsins, hjartað, sé „tákn sálarinnar og holdgervingur allra mannlegra tilfinninga.“ Í guðspjalli dagins heyrum við hvernig djöfullinn, ákærandinn, diabolos á grísku, reynir að finna höggstað á Jesú þar sem hann stendur frammi fyrir prófrauninni miklu, allslaus hreinlega í fjörutíu daga eyðimerkurdvöl. Djöfullinn höfðar til mannlegu hliðar Jesú, til tilfinninga hans, til hjartans: „Ef þú ert sonur Guðs þá bjóð þú að steinar þessir verði að brauðum; nýttu þér guðlegt eðli þitt til að bjarga sjálfum þér,“ ekki ósvipað og fólkið sem gerði hróp að Jesú á krossinum: „Bjarga nú sjálfum þér ef þú ert sonur Guðs og stíg niður af krossinum!“ Matt 27.40 og áfram.

Bjargaðu sjálfri þér. Það gerði Dalíla sem sveik Samson til dauða. Það gerði sjálfur Davíð konungur sem kom því svo fyrir að Úría eiginmaður Batsebu féll í bardaga. Bjargaðu sjálfum þér. Hver er sjálfum sér næstur. Það er freisting okkar allra að láta undan stundarlöngun, hvort sem það er með því að stytta sér leið á einhvern hátt, skorast undan ábyrgð eða annað. Jesús lét ekki undan svengd líkamans heldur vísaði í andlegan veruleika, brauðið sem fram gengur af Guðs munni, Matt 4.4.

Og áfram heldur djöfullinn og hamrar á tilfinningar Jesú með því að vitna í einn dásamlegasta bænasálm Gyðinga og síðar kristins fólks: „Hann mun fela þig englum sínum og þeir munu bera þig á höndum sér að þú steytir ekki fót þinn við steini,“ Sálm 91.11-12. Auðvitað treysti Jesú þeim veruleika sem að baki þessu fyrirheiti býr. En hann lét rödd ákærandans ekki lokka sig til að monta sig og misnota vernd Guðs og vísaði freistingunni á bug.

Í þriðja sinn reynir djöfullinn að fella Jesú með því að sýna honum alla heimsins dýrð. Og enn notar Jesús orð Guðs til að verjast freistaranum og nefnir hann nú sínu rétta nafni, Satan sem er hebreska og þýðir óvinur, fjandmaður. Tilfinningarök, andleg rök Djöfullinn, Satan, notar tilfinningarök í viðleitni sinni við að fella Jesú og höfðar til líkamlegra og veraldlegra hvata: Matur, aðdáun, ríkidæmi. Hann nýtir sér meira að segja bænabókina, Davíðssálma, sem standa hjarta trúaðrar manneskju nærri. En Jesús svarar með andlegum rökum sem hann sækir í lögmálsbók hebresku Biblíunnar. Vörn hans er ekki byggð á tilfallandi tilfinningu heldur margprófaðri visku kynslóðanna sem virðir Guð ofar mannlegu áliti og líðan.

Sú er ábending föstunnar, sem gekk í garð á öskudaginn, til okkar að við látum ekki náð Guðs sem við höfum þegið verða til einskis, eins og Páll postuli segir því „nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðisdagur,“ 2Kor 6.1-2. Í dag getum við tekið ákvörðun um að ganga með Jesú á föstunni, skoða líf okkar í ljósi hans, láta ekki tilfinningarnar hlaupa með okkur í gönur en halda fast í hönd Jesú sem styður okkur og styrkir til allra góðra verka. Munum að kærleikur Guðs bregst okkur ekki. Hann byggir ekki á tilfinningum. Og þó andstæðingur ástarinnar, óvinurinn sem vill klofning og rof í mannlegum tengslum, reyni að fella okkur, jafnvel með því að taka sér orð Guðs í munn, látum við ekki undan. Orð bænasálmsins eru ekki bara tilfinningamál heldur djúpur andlegur veruleiki og jafn sönn og áður, að Guð mun fela okkur englum sínum sem munu bera okkur á höndum sér að við steytum ekki fót okkar við steini, Sálm 91.11-12.