"Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni."

"Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni."

Það getur verið margt mannanna bölið, en misalvarlegt þó. Vírus smitaði tölvuna mína ekki alls fyrir löngu,- barst með tölvupósti til mín og sjálfsagt einnig til margra annarra víða um heim. Skaðinn varð þó ekki mikill sem betur fer, en þó sundraði vírusinn gögnum og eyddi einhverju út af harða diskinum,- og áberandi var hvernig hann réðist bara á tiltekin gögn en lét önnur eiga sig. Slíkir vágestir eiga sér ákveðið upphaf en eru á örskotsstundu búnir að dreifa sér um hinn tölvuvædda heim, svo sérfræðingar þurfa stöðugt að vinna að því að endurnýja og betrumbæta varnaforritin, svo þau fái ráðið við sífellt nýjar tegundir tölvuvírusa.

Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur? Jesús svaraði: Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.

Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam. Sílóam þýðir sendur. Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi. Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu? Sumir sögðu: Sá er maðurinn, en aðrir sögðu: Nei, en líkur er hann honum. Sjálfur sagði hann: Ég er sá.

Þá sögðu þeir við hann: Hvernig opnuðust augu þín? Hann svaraði: Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér. (Jóh 9.1-11)

Það getur verið margt mannanna bölið, en misalvarlegt þó. Vírus smitaði tölvuna mína ekki alls fyrir löngu,- barst með tölvupósti til mín og sjálfsagt einnig til margra annarra víða um heim. Skaðinn varð þó ekki mikill sem betur fer, en þó sundraði vírusinn gögnum og eyddi einhverju út af harða diskinum,- og áberandi var hvernig hann réðist bara á tiltekin gögn en lét önnur eiga sig. Slíkir vágestir eiga sér ákveðið upphaf en eru á örskotsstundu búnir að dreifa sér um hinn tölvuvædda heim, svo sérfræðingar þurfa stöðugt að vinna að því að endurnýja og betrumbæta varnaforritin, svo þau fái ráðið við sífellt nýjar tegundir tölvuvírusa.

Um svipað leyti og þetta gerðist, hafði ég spurnir af fjölskyldu sem lent hafði í miklum erfiðleikum. Hún var í raun að leysast upp, sundrast og eyðast, vegna afleiðinga meins í þjóðfélaginu, sem vinnur fyrst og fremst á þeim sem eiga undir högg að sækja á einhverjum sviðum eins og var í þessu tilviki.

Hjá umræddri fjölskyldu hafði hamingjan áður fyllt heimilið, eða þar til erfið veikindi gerðu vart við sig hjá heimilisföðurnum sem leiddu til varanlegrar örorku. En nú gistir þar grátur, börnin fella tár í koddann sinn á kvöldin,- nema unglingurinn sem grætur í hjarta sínu en gengur með harðan svip hratt niður ógæfubrautina og inn í blekkingarheim eitursins.

Tölvurnar eru tæki, vissulega nytsamleg hjálpartæki fólks í daglegum störfum nútímans, en samt sem áður bara tæki; en ég get ekki varist þeirri hugsun að auðveldara sé að verjast svokölluðum tölvuvírusum en þeim vírusum sem herja á mannlegt samfélag. Það getur oft verið erfitt að skilgreina, einangra og fjarlægja tölvuvírusa en svo virðist sem meiri, skipulagðri og markvissari vinna sé lögð í að leita orsaka þeirra svo koma megi í veg fyrir eyðileggingu á tækjum og tölvugögnum, en þegar unnið er gegn þeim vírusum sem hreiðra um sig í samfélagslíkamanum og hafa enn skelfilegri afleiðingar fyrir lífið sjálft.

Hvað veldur slíkum meinum í samfélaginu? Hverjar eru orsakir þeirra? Því er ekki auðvelt að svara. Er það ef til vill syndin í heiminum? Á tímum Jesú Krists var það viðtekin skoðun að sjúkdómar og önnur ógæfa sem yfir fólk dundi ætti sér rætur í syndinni. Lærisveinarnir spurðu meistara sinn er þeir hittu mann sem verið hafði blindur frá fæðingu: „....hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur.” Svar Jesú er skýrt og tekur af allan vafa: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.”

Já, „heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum” sagði Jesús, og þau orð eru sannarlega verð umhugsunar, ekki síður í dag en þá er Kristur svaraði lærisveinum sínum og reyndi þannig að beina þeim frá þeirri skoðun að ógæfa, sjúkdómar og önnur áföll væru hegning fyrir syndugt líferni. Hann lagði hins vegar áherslu á að verk Guðs yrðu einmitt í slíkum jarðvegi gerð opinber. Til þess var jú ljósið komið í heiminn, að lýsa upp myrkrið; og þegar allt sem þreifst í skjóli þess kom í ljós urðu um leið verk Guðs opinber, sem birtust í miskunnsemi og kærleika.

Svo er enn í dag og ekki veitir af. Vírusar eru stöðugt að taka sér bólfestu í þjóðarlíkamanum, svo ég líti nú fyrst og fremst til þess samfélags sem við lifum og hrærumst í hér á landi,- vírusar sem valda miklum usla, sundra og eyða. Og í því samhengi eru mér efst í huga þau mein sem helst ráðast á grunneiningu samfélagsins,- fjölskylduna og bitna gjarnan á þeim sem síst skyldi og ekkert hafa til þess unnið,- börnunum.

Erfitt getur þó reynst að skilgreina slíka vírusa, en afleiðingarnar eru oftast augljósar ef augun eru opnuð og í allt of mörgum tilvikum skelfilegar,- og jafnframt óásættanlegar. Ég held að stærsta meinið sem við glímum við á Íslandi í dag sé hin gríðarlega misskipting sem orðin er í samfélaginu á veraldlegum gæðum. Af umfjöllun fjölmiðla að dæma um peningaheiminn, virðist gífurlegt fjármagn vera til og nefnt í slíkum upphæðum að almenningur grípur ekki á því og á sama tíma eru allt of margir einstaklingar og fjölskyldur sem berjast í bökkum hvern einasta dag vikunnar, alla mánuði ársins, þar til sú stund kemur að sumir kikna undan ofurálaginu og gefast upp,- geta einfaldlega ekki meira, eins og fjölskyldan sem ég nefndi hér áðan.

Mér finnst hart að þurfa að upplifa í mínu starfi þá neyð sem eingöngu er sprottin af þeirri meinsemd þjóðfélagsins sem skapað hefur þetta misvægi, hvort sem þar má kenna um óraunverulegum fjármálaheimi, skattakerfi, launastefnu eða skilningsleysi ráðamanna gagnvart þeim sem minna mega sín. Ég ætla í raun ekki að dæma um það, enda ekki mitt að leita sökudólga, ásaka né dæma.

Heldur vil ég fyrst og fremst nefna þessi mein, sem svo marga svíður undan og sem bitna oftast á þeim sem síst skyldi, börnunum, sem við berum vissulega ábyrgð á sem kristið og kærleiksríkt samfélag. Vegna slíkra meina verða verk Guðs opinber, segir Kristur,- og með hvaða hætti? Spyrjum við.

Og hann svarar og segir: „Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.” Hér er Kristur að tala um þau verk sem ekki eingöngu honum er falið að vinna, heldur einnig lærisveinum hans á öllum tímum,- og þar með okkur sem játum trú á hann. Jesús er ljós heimsins og hann fól eftirfylgjendum sínum að endurvarpa því ljósi áfram til meðbræðra og –systra, eins og skilja má í orðum fjallræðunnar er hann segir við áheyrendur sína: „Þér eruð ljós heimsins.”

Þegar Jesús gaf blinda manninum sjón í bókstaflegum skilningi, opnaði hann um leið innri augu hans. Hann opnaði honum nýja andlega sýn, svo hann fengi séð ljós Frelsarans sem síðan fórnaði sér á krossi fyrir hann og alla menn allra tíma og friðþægði fyrir syndir þeirra. Hann opnaði honum nýja trúarsýn, svo hann héldi af stað ásamt öðrum sjáendum til þess að vinna verk Guðs meðan dagur væri.

Og þar erum við vissulega komin að kjarna þessa máls og áttum okkur betur á því með hvaða hætti verk Guðs verða opinber í jarðvegi syndar, neyðar, misréttis og þjáningar. Því okkur ber einnig að vinna verk Guðs, hverja stund á meðan tækifæri gefst til, því þegar nóttin kemur, þ.e. dauðinn, vinnum við ekki meira hér. Nú er okkar tækifæri.

„Allt það gott sem ég megna að gjöra, alla þá vinsemd sem ég get sýnt öðrum, verð ég að láta í té núna, því aldrei fer ég aftur þessa leið.” (Henry Drummond) sagði maður nokkur og það er víst ábyggilega rétt að tækifæri okkar er núna, á líðandi stundu, en svo verður það um seinan.

Við þurfum að nýta tækifærið vel, ekki til þess að leita þeirra sökudólga sem sendu vírusana af stað, ekki til þess að ásaka og dæma, heldur til þess að ganga fram af kærleika, samkennd og umhyggju fyrir velferð annarra; og til þess að breiða kærleiksljósið út, því þanng má einnig best uppræta tilurð eyðandi vírusa í þjóðarlíkamanum. Kærleikurinn er besta vírusvarnaforrit sem völ er á samfélaginu og vonandi taka það æ fleiri í notkun í daglegu lífi.

Jesús Kristur er fyrirmynd okkar og leiðtogi; og við ættum að fylgja leiðbeiningum hans í hvívetna af auðmýkt og trú, eins og blindi maðurinn sem af trúnaðartrausti fylgdi leiðbeiningum hans um augnþvottinn til þess að fá sjónina,- svo að verk Guðs mættu verða opinber á honum og í hans gjörðum.

„Eitt tré getur orðið að einni milljón eldspýtna. Ein eldspýta getur eyðilegt eina milljón trjáa.” (ók.) Svo segir gamalt máltæki. Það þarf ekki að senda nema einn tölvuvírus af stað til þess að eyðileggja milljónir tölva um allan heim; og það þarf ekki nema einn vírus að búa um sig í þjóðarlíkamanum til þess að eyðileggja líf margra einstaklinga.

En á sama hátt þarf ekki nema eld frá einni eldspýtu til að tendra ljós á milljón kertum, einn geisla frá ljósi heimsins, Jesú Kristi, til þess að tendra trúarljós í hjarta milljóna manna, sem síðan leggja sig fram um að vinna verk Guðs meðan dagur er. Það þarf að grípa tækifærið núna og þó það sé ekki nema til þess að vinna eitt kærleiksríkt verk, þá getur það verið nóg til þess að draga úr sárum áhrifum hvers meins sem búið hefur um sig í samfélaginu. Það getur orðið til þess að þerra milljón tregatár.

Ef slík kærleiksrík hugsun fengi almennt að ráða gjörðum fólks í daglegu lífi og ekki síst þeirra er ráða málum er varða heill og lífshamingju fjöldans, þá er ég viss um að margt myndi breytast til hins betra, því kærleikurinn lokar á sérdrægni sem svo mjög er einkennandi í samfélaginu, en eflir samkennd og umhyggju fyrir velferð annarra. Ef hver einstaklingur tæki þá ákvörðun er sól rís að morgni að ganga í hin kærleiksríku spor Frelsarans, sem sigraði synd og dauða í upprisu sinni, og gera þannig verk Guðs opinber í lífi sínu honum til dýrðar og samborgurum til blessunar, þá myndi meinunum fækka.

Kristur talar til þín hlustandi góður er hann segir: „Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins.” „Þér eruð ljós heimsins.......... Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna, að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himnum.” Jafnvel þó að gráturinn gisti oss stundum að kvöldi, megi algóður Guð gefa að við fáum vaknað við gleðisöng að morgni.

Flutt í útvarpsmessu á 19. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 17/10/2004. Lestrar: Sl. 30.1-6; Fil. 4.8-13; Jóh. 9.1-11