Berð þú ábyrgð á sjálfum þér?

Berð þú ábyrgð á sjálfum þér?

Þú ert ráðsmaður eða ráðskona yfir því lífi, sem Guð hefur gefið þér, þeim tækifærum, völdum og áhrifum sem þér eru færð í lífinu. Þú ert ekki strengjabrúða í höndum húsbónda þíns á himnum. Þú hefur val um það, hvernig þú hagar lífi þínu. En orðum þínum og verkum fylgir ábyrgð.

Náð og friður Guðs sé með okkur öllum í Jesú nafni. Amen.

I.

Berð þú ábyrgð á sjálfri þér, eða sjálfum þér?

Ef þú ert fullorðin/n, vona ég að svar þitt sé afdráttarlaust: Já, ég ber ábyrgð á sjálfum mér, ég ber ábyrgð á því sem ég geri og segi og þeim afleiðingum sem það getur haft, og ég reyni að haga verkum mínum og orðum í samræmi við þá ábyrgð.

Og ef þú ert barn, býst ég við og vona að þú getir svarað spurningu minni svona: Ekki ennþá, en ég er að læra það, smátt og smátt, ár frá ári, eftir því sem ég þroskast og eldist tek ég meiri og meiri ábyrgð á sjálfum mér og foreldrar mínir hjálpa mér að læra það.

Við heyrðum lesna eina af minna þekktum dæmisögum Jesú, sem fjallar einmitt um það að bera ábyrgð á eigin verkum.

Jesús tekur dæmi af ríkum manni sem á stórt heimili með mörgu þjónustufólki. Maðurinn fer í burtu um hríð og gerir einn af þjónunum sínum að ráðsmanni heimilisins á meðan. Hann gefur honum völd yfir hinu þjónustufólkinu.

Ráðsmaðurinn hefur nú val um það, hvernig hann hagar sér í hinni nýfengnu valdastöðu meðan húsbóndinn er að heiman. Hann getur staðið sig vel í störfum sínum og komið vel fram við þjóna og þernur heimilisins.

Og hann hefur líka tækifæri til að misnota vald sitt, jafnvel drekka sig fullan á kostnað húsbóndans og lúskra á hinum þjónunum!

En sá dagur kemur að ríki maðurinn snýr aftur og ráðsmaðurinn þarf að taka ábyrgð á verkum sínum og sæta afleiðingum þeirra.

II.

Þú ert ráðsmaðurinn og þú berð ábyrgð.

Það vill Jesús segja okkur, mér og þér, með þessari sögu:

Þú ert ráðsmaður eða ráðskona yfir því lífi, sem Guð hefur gefið þér, þeim tækifærum, völdum og áhrifum sem þér eru færð í lífinu.

Þú ert ekki strengjabrúða í höndum húsbónda þíns á himnum. Þú hefur val um það, hvernig þú hagar lífi þínu.

En orðum þínum og verkum fylgir ábyrgð.

Þú hefur leiðsögnina fyrir lífið í Guðs orði, til dæmis í þessum orðum spámannsins Amosar: „Leitið hins góða en ekki hins illa... Hatið hið illa og elskið hið góða, eflið réttinn í borgarhliðinu.“

Þú berð ábyrgð gagnvart Guði, gagnvart samferðafólki þínu í lífinu, og gagnvart sjálfum þér.

Það er mikið rætt þessi misserin um að hinn eða þessi þurfi að „axla ábyrgð.“ Yfirleitt er með því átt við, að einhver sem situr í vel launaðri ábyrgðarstöðu stofnunar eða fyrirtækis hafi gert mistök í starfi, sem bitnað hafi á öðrum, og eigi fyrir vikið að láta af störfum.

Ég geri ekki lítið úr slíku ákalli til ábyrgðar. Þvert á móti er ég því oftast nær sammála – og það gildir bæði um andlegar og veraldlegar stofnanir samfélagsins. Og Jesús minnir okkur beinlínis á það í guðspjallinu, að „hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn.“

En áminningin um ráðsmanninn og ábyrgðina er miklu víðtækari en svo, að hún nái aðeins til fárra útvaldra. Ég verð að viðurkenna, að hið nýja foreldrahlutverk hefur vakið mig til umhugsunar um þá ábyrgð, sem ég ber gagnvart barninu mínu og framtíð þess. Kannski er veigamesta ábyrgðarhlutverk lífsins einmitt það, að annast hina ungu og vera þeim ungu góð fyrirmynd í lífinu. Til þess að svo megi verða, þurfum við að líta í eigin barm og skoða, hvort okkur skorti ábyrgðartilfinningu á einhverjum sviðum. – Mig langar til að taka hér nokkur dæmi.

III.

Ég er í hópi þeirra þúsunda Íslendinga sem skrá sig inn á Facebook og skoða bloggsíður nánast daglega. Við þekkjum það flest að á vefnum, eins og í útvarpi og sjónvarpi, fara gjarnan fram ákafar umræður um málefni líðandi stundar. En það verður æ algengara að í hita leiksins gleymist að orðum fylgir ábyrgð og nafngreindir einstaklingir eru uppnefndir og jafnvel kallaðir öllum illum nöfnum, stundum í skjóli nafnleyndar. Eða ætti því ekki annars að fylgja ábyrgð, að kalla mann á opinberum vettvangi hálfvita, fífl eða glæpamann?

Og svo berum við líka ábyrgð gagnvart samfélaginu okkar, hvert gagnvart öðru. Við Íslendingar erum svo lánsamir að búa í þjóðfélagi þar sem þegnarnir njóta réttinda, til dæmis í formi heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og félagslegrar aðstoðar. Við höfum byggt upp velferðarkerfi í anda kærleiksboðskapar Jesú Krists, sem á að styðja sérstaklega þá sem eiga undir högg að sækja.

Um leið berum við þá ábyrgð að leggja okkar af mörkum í sameiginlegu sjóðina, sem ríki og sveitarfélög halda utan um. Vegir, skólar og sjúkrahús verða nefnilega ekki til af sjálfu sér, og lögreglumenn og læknar geta ekki sinnt störfum sínum í sjálfboðavinnu. Skylda okkar, sem viljum nýta okkur þessa þjónustu, er því að greiða tilskilin opinber gjöld af okkar tekjum. Við höfum sjálfsagt ólíkar skoðanir á fyrirkomulagi skattkerfisins eða hversu háir skattarnir eigi að vera. En það er engin afsökun fyrir því að svíkja undan skatti, eða að aðstoða aðra við skattsvik, til dæmis með nótulausum viðskiptum.

Loks má ekki gleyma því, að við berum líka ábyrgð gagnvart umhverfinu öllu, sköpun Guðs. Í því felst til að mynda að við getum ekki leyft okkur að henda rusli út um bílgluggann á ferð um landið, eða að aka heimilisúrganginum út í náttúruna til að sleppa við að greiða losunargjöldin. Við getum ekki velt ábyrgðinni á sköpunarverkinu og afleiðingum gjörða okkar á börnin okkar, komandi kynslóðir.

IV.

Berð þú ábyrgð á sjálfri þér – eða sjálfum þér?

Við viljum öll búa við frelsi. En frelsi án ábyrgðar er marklaust. Það er ekkert frelsi! Hver gæti til dæmis notið þess frelsis að keyra bíl og hafa ökuréttindi, ef því fylgdi engin ábyrgð í umferðinni?

Boðskapurinn um Jesú Krist er fyrst og fremst frelsisboðskapur. Jesús er kletturinn, sem við megum byggja líf okkar á og leita til í bæði gleði og raunum. Og því fylgir frelsi að þurfa ekki að bera byrðar lífsins einn. Því fylgir frelsi að eiga í Jesú þann vin, sem yfirgefur mann aldrei.

Við berum ábyrgð, en við þurfum ekki að vera fullkomnir ráðsmenn. Og þegar við gerum mistök, megum við einnig finna það frelsi að geta lagt þau í hendur Drottins og beðið mjúku mildings höndina hans um fyrirgefningu og handleiðslu á vegferð lífsins.

Dýrð sé því Guði, föður syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.