Um bót og betrun siðar og texta

Um bót og betrun siðar og texta

Og við berum ábyrgð, líkt og Lúther, á samfélagi okkar kristinna manna, útbreiðslu trúarinnar, berum þá ábyrgð að vera samverkamenn Guðs við sáningu og uppskeru guðsríkisins.

Prédikun í Laugarneskirkju og Hátúni á Siðbótardaginn 28. október 2007

34. Jesús sagði við þá: “Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. 35. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. 36. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. 37. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. 38. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þið njótið erfiðis þeirra” (Jóh 4.34-38).
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi (Róm 1.7). Amen.

Þessi kveðja – og eins sú sem kemur í lok flestra prédikana þjóðkirkjupresta: Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum (2Kor 13.13) – er tekin úr bréfum Páls. Þær eru dæmi um óbreytt orðfæri í nýrri þýðingu Biblíunnar, enda var sú lína lögð að halda gömlu fleirtölunni – vér/oss, þér/yður - í ljóðrænum textum og textum sem eru notaðar í helgihaldinu. Ræður Jesú og engla hafa einnig þessa fleirtölu ásamt sálmum og bænum. Sú fleirtala sem við eigum að venjast í daglegu máli – við/okkur, þið/ykkur – er aftur á móti notuð í sögutextum, beinni frásögn, lagatextum og prósa. Við sjáum þetta í pistli dagsins þar sem síðasta setningin hljóðar svo í 1981-útgáfunni: Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús. Í nýju þýðingunni er þetta svona: Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið (1Kor 3.9).

Í orðum Jesú í guðspjalli dagsins (Jóh 4.34-38) er nýja fleirtalan – sem áður var tvítala, þ.e.a.s. notuð þegar rætt var við eða um tvær persónur – líka notuð. Hér er ekki um eiginlega ræðu Jesú að ræða, eins og Fjallræðuna eða Slétturæðuna, heldur samtal hans við lærisveinana og þess vegna er ekki talin þörf á hinu gamla, hátíðlega orðfæri. Fleiri breytingar í nýju þýðingunni

Annað sem er breytt í nýju þýðingunni er að langar og flóknar setningar eru leystar upp í fleiri setningar. Innskotssetningastíllinn er erfiðari aflestrar og því er það til mikilla bóta að fá fleiri aðalsetningar. Þá hefur líka verið bent á að orðunum bróðir og bræður hefur víðast hvar í Nýja testamentinu verið skipt út fyrir systkin, bræður og systur, trúsystkin eða söfnuður, þar sem augljóst má vera að bæði kynin hafa verið meðal áheyrenda. Bræður stendur þá neðanmáls. Til að koma enn frekar til móts við það sem nefnt hefur verið mál beggja kynja (á ensku inclusive language) er fleirtalan líka víða notuð í hvorugkyni þar sem í gríska texta Nýja testamentisins er að finna karlkyn. Ágætt dæmi um þetta allt er í fyrra Korintubréfi (1.10):

En ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga.

Takið eftir því að þarna er gömlu, hátíðlegu fleirtölunni haldið í orðasambandinu Drottinn vor Jesús Kristur, þó nýja fleirtalan (tvítalan gamla) sé að öðru leyti notuð. Langri setningu hefur verið skipt í tvær. Í stað bræðranna eru systkinin ávörpuð og notað hvorugkyn í stað karlkyns. Þetta gerir textann vissulega læsilegri, þó það komi að vísu dálítið undarlega fyrir sjónir, út frá sjónarmiði íslenskunnar, að blanda saman gamalli og nýrri fleirtölu. Rökin fyrir því eru vafalaust að halda hinu hátíðlega máli á föstum orðasamböndum helgihaldsins.

Textar dagsins hafa ekki tekið miklum stakkaskiptum, en það er gaman að bera saman þær breytingar sem orðið hafa. Í Davíðssálmi 91 er ekki lengur sagt “Sæll er sá...” heldur bara “Sá sem...” og er það leiðrétting til samræmis við frumtextann. Talað er um að dveljast í stað gista í skugga Hins almáttka. Í stað drepsóttar glötunarinnar er komin drepsótt eyðingarinnar og kemur það út á eitt frá mínum bæjardyrum séð. Loks er orðinu verja skipt út fyrir vígi, sem táknar það skjól sem við finnum í Guði.

Þegar hefur verið minnst á hvernig pistillinn (1Kor 3.6-9) hefur verið gerður auðlæsilegri. Sama á við um guðspjallið. Einhverjir munu sakna orðsins “hvítir” um akrana, en þeir eru í nýju þýðingunni “fullþroskaðir” sem á kannski betur við um hveitið sem er á ökrunum en akrana sjálfa. Svo er orðalagsbreyting í lokin, “en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra” segir í gömlu þýðingunni – “en þið njótið erfiðis þeirra” í nýju útgáfunni. Lúther: Að gera Orðið aðgengilegt

Sem kunnugt er var dr. Marteinn Lúther fyrstur til að þýða Biblíuna í heild sinni. Það gerði hann í kjölfar andmæla sinna gegn því sem honum fannst vera röng stefna kirkjunnar sinnar. Upphaf þeirra andmæla er rakið til 31. október 1517 þegar Lúther negldi athugasemdir sínar í 95 greinum á hurð Hallarkirkjunnar í Wittenberg þar sem hann bjó lengst af. Hefð er fyrir því í okkar kirkju að halda hátíðlegan siðbótardaginn síðasta sunnudag í október.

Lúther þótti öllu máli skipta að fólkið hefði aðgang að orði Guðs á sínu eigin tungumáli og réðst því í þýðingu Nýja testamentisins fyrst og síðan Biblíunnar allrar. Hér uppi á Íslandi þýddi Oddur Gottskálksson Nýja testamentið á íslensku og kom það út átján árum eftir að Lúther lauk sinni þýðingu (1540). Oddur hafði hliðsjón af þýska textanum, en þýddi þó aðallega úr latneskum texta sem unninn var fyrri hluta 5. aldar eftir Krist (Vulgata Hierónýmusar).

Og nú hefur þetta sama Guðs orð verið þýtt í 6. skipti á íslensku með það að markmiði að gera boðskapinn aðgengilegri fleirum, allt í anda Lúthers. En Lúther gerði fleira en að þýða Biblíuna. Hann samdi líka sálma og sálmalög og sum hver fann hann í söng gestanna á krám og matsölustöðum. Fræðin minni og meiri samdi hann til að draga fram meginatriðin í kristninni trú og svo mætti lengi telja. Lúthersrósin – kenningin í hnotskurn

Aftan á sálmabókinni okkar er að finna myndræna framsetningu trúarinnar að hugmynd Lúthers. Þetta er rósin, innsigli Lúthers, tákn þeirrar guðfræðilegu hugsunar sem við sem lúthersk kirkja byggjum á. Rósin er ber hvíta lit englanna (sbr. Matt 28.3 og Jóh 20.12) og blöð hennar eru fimm, eins og sár lausnarans, og minnir á gleði trúarinnar, huggun og frið: “Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist” (Jóh 14.27).

Innan rósarinnar er einmitt hjarta. Í miðju hjartans er svartur kross sem merkir á trúna á hinn krossfesta Krist: “Hinn réttláti mun lifa fyrir trú” (Róm 1.17). Hjartað rauða minnir á skjöld trúarinnar, tákn heilagrar þrenningar. Það merkir líka líf okkar sem markast af lífgefandi nærveru hins krossfesta. “Með hjartanu er trúað til réttlætis...” (Róm 10.10). Grunnur rósarinnar er himinblár, sem er litur gleðinnar og hinnar himnesku dýrðar sem við eigum í vændum. Yst er gullinn hringur, tákn eilífðarinnar sem er dýrmætari öllu öðru.

Þessi hvíta fimmblaða rós ber nafni Kristsrós og blómstrar um jól (Helleborus er latneska nafnið). Þannig notaði Lúther hið kröftuga táknmál náttúrunnar til að gera boðskap Biblíunnar aðgengilegan hverju mannsins hjarta. Að vera samverkamenn Guðs

Við erum samverkamenn Guðs og berum mikla ábyrgð, við sem nefnum okkur kristin eftir nafni Jesú Krists frá Nasaret. Við berum fyrst ábyrgð gagnvart sjálfum okkur, að hjarta okkar sé heilt og lifandi í afstöðunni til Guðs. Hann hefur gróðursett krossinn sinn í hjarta okkar, fyrir orð og verk samferðafólksins og biður okkur um að skapa þeirri gróðursetningu jákvæð skilyrði til þroskar og vaxtar. Við skulum leggja okkur fram við að vera ávaxtarsamt akurlendi, opið hús fyrir kærleika Guðs. Við berum líka ábyrgð gagnvart börnunum okkar að það krossins orð verði áfram borið til þeirra og kynslóðanna á eftir þeim. Biðjum þess að þau mættu eiga þá reynslu sem skáldið lýsir í Sálmi 91, að sitja í skjóli Hins hæsta, dvelja í skugga hans, finna fjaðrir hans skýla sér og vængina veita sér hæli.

Og við berum ábyrgð, líkt og Lúther, á samfélagi okkar kristinna manna, útbreiðslu trúarinnar, berum þá ábyrgð að vera samverkamenn Guðs við sáningu og uppskeru guðsríkisins. Það gerum við með beinni boðun, eins og í því blómlega starfi sem hér fer fram í Laugarneskirkju alla daga vikunnar til allra aldurshópa. En líka og e.t.v. ekki síður með því að láta orð postulans vera virk í lífi okkar:

En ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga.