Heilbrigt, frjálst, hæft og sjálfstætt

Heilbrigt, frjálst, hæft og sjálfstætt

Hvar finnum við röddina í samfélagi okkar sem talar af persónulegri auðmýkt en er drifin áfram í leit að æðri verðmætum og gildum? Hvar er fólkið sem er tilbúið að taka slaginn, mæta mótlæti og sitja undir gagnrýni, jafnvel svívirðingum í nafni þess sem það trúir á og treystir að leiði af sér réttlátara samfélag?

Nú í vikunni hittist góður hópur fólks hér í Neskirkju og tók þátt í því sem við köllum Samtal á Kirkjutorgi. Þetta er óformlegur vettvangur þar sem flutt er stutt framsaga um lífsgildi, leiðtogasýn og stefnumál lífsins og svo spjallar fólk saman. Það er endurnærandi að droppa hér við á leið heim úr vinnu og halda svo heim í soðninguna að því loknu.

Hvaða áhrif? Að þessu sinni spurðum við hvernig við getum haft bætandi áhrif á umhverfi okkar og gert fólkið í kringum okkur heilbrigðara, hæfara, frjálsara og sjálfstæðara. Það er ekkert annað. Við vorum sammála um að þetta væri ákjósanlegt markmið um þau áhrif sem við viljum hafa og í raun mælikvarði á störf þeirra sem kalla sig leiðtoga. Með öðrum orðum, má í hverju tilviki spyrja, hvernig tekst leiðtoganum að skapa fleiri slíka leiðtoga í umhverfi sínu og á þjónustusvæði? Eflir hann sjálfstæði og frumkvæði fólks og hjálpar hann því sjálfu að vaxa áfram?

Hvaða leiðir eru svo að þessu marki? Þar fengum við margar sögur og eins og títt er, sýnist sitt hverjum um það hvort slík markmið einkenni samskipti fólks í íslensku samfélagi. Viljum við móta umhverfi okkar og samstarfsfólk með þeim hætti eða er eigingirnin andlag starfa okkar og verka?

Spámenn

Í guðspjallstexta þessa dags má segja að kveðið sé við svipaðan tón þótt það kunni ekki að blasa við í fyrstu. Þar hittum við fyrir fulltrúa fyrir stétt manna í Biblíunni, spámenn sem svo voru nefndir. Hlutverk þeirra að reyna eftir fremsta megni að halda fólkinu, alþýðu sem yfirstétt já og konungum á réttri braut. Það er engin spurning að þeir óttuðust um heilbrigði fólks í víðustu merkingu þess orðs og sannarlega höfðu þeir áhyggjur af frelsi þess og sjálfstæði. Ef hroki og græðgi stýrðu gjörðum þjóðarinnar var þess skammt að bíða að allt færi úrskeiðis.

Þekkt eru orð Jesaja spámanns þar sem hann áminnti þjóðina mitt í því góðæri sem þá ríkti og sagði henni að taka illskubreytnina burt frá augum Guðs. Svo sagði hann: ,,lærið gott að gjöra! Leitið þess, sem rétt er. Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður. Rekið réttar hins munaðarlausa. Verjið málefni ekkjunnar.” Hér var með öðrum orðum gengið út frá því að hinn æðsti tilgangur hvers manns búi í hag náunga hans og þá einkum þeirra sem standa höllum fæti og þurfa raunverulega á aðstoð okkar og stuðningi að halda.

Þessi er boðskapur Guðs sem ómar inn í hávaða sérhyggju á hverjum tíma og þessi orð eru sígild og eiga erindi til allra kynslóða. Togstreita eigingirni og örlætis, hroka og auðmýktar er sístæð í lífi mannsins.

Spámaðurinn Jóhannes Já, í guðspjalli þessa dags, sem er í upphafi sjálfrar föstunnar, rekumst við á þennan mann, Jóhannes skírara, sem var sérkennilegur fýr. Hann var íklæddur kyrtli úr úlfaldahári, át engisprettur og villihunang og var hinn ófrýnilegasti. Þá dvaldi hann utan við sjálft samfélagið. Fyrir þau sem voru af þessari menningu hafði Jóhannes fastmótaða stöðu. Fólk leitaði til hans, spurði hann ráða og vildi heyra álit hans á því hvernig það varði tíma sínum og lífi. Hann stóð jú föstum fótum í hinni spámannlegu hefð. Jóhanns var einn af þessum spámönnum sem talaði yfir fólkinu og hvatti það til að feta hinn góða stíg í lífinu.

Jóhannes hvatti áheyrendur sína til að vera nægjusama, iðrast og svo eins og nafnið gaf til kynna skírði hann þá sem vildu reisa líf sitt á grunni náungakærleika og einlægrar trúar á Guð. Þegar hann svo skírði fólk var það til marks um að nýtt skeið væri hafið í lífi þess. Á þennan táknræna hátt laugaði það hið gamla af sér og gekk á upphafsreit sem markaði endurnýjun í hugarfari og líferni.

Erindi Jóhannesar var á þessa leið: Sá sem á tvo kyrtla gefi þeim er engan á og eins geri sá er matföng hefur.“ „Heimtið ekki meira en fyrir ykkur er lagt.“ „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum.“

Náttúrlegt að gefa Sjálf náttúran endurómar þennan sama boðskap um nægjusemi og örlæti. Þarna stóð hann í ánni Jórdan sem er ólík flestum öðrum ám þar sem hún rennur ekki til sjávar. Hún rennur í tvö vötn sem við höfum öll heyrt talað um. Annað vatnið er Galíleuvatn. Þar sigldu lærisveinarnir á bátum og veiddu fisk og margar frásagnir af Jesú gerast einmitt þar. Vatnið var fullt af lífi og í kringum það voru frjósamir akrar. Já, allt var það frá ánni Jórdan. En áin rennur í annað vatn sem er harla ólíkt, já í raun alger andstæða hins lífríka Galíleuvatns. Hvaða vatn skyldi það vera? Það er Dauðahafið, svo brimsalt að þar þrífst varla nokkurt líf.

Af hverju í ósköpunum voru þessi vötn svo ólík ef þau áttu sömu uppsprettuna? Jú, annað þeirra miðlar vatninu aftur frá sér en hitt lokar það allt inni. Það þarf ekki meira til. Í Galíleuvatni ríkir hið náttúrulega lögmál hringrásarinnar. Dauðahafið er dautt vegna þess að úr því rennur ekkert vatn. Það bara safnast saman í hyldýpinu og söltin streyma í það. Það gefur ekkert af sér, svo við vísum í hinn sístæða boðskap spámannsins.

Spámaðurinn var ákveðin jafnvægisstöng í menningunni. Hann átti að gæta þess að lífsmáti fólksins einkenndist af þessari sömu hringrás sem er í raun forsenda alls lífs. Um leið þekkti Jóhannes þau takmörk sem voru á valdi hans. Þegar Kristur birtist þá sýndi Jóhannes í hverju þjónusta hans var fólgin. Hann var ekki sá sem átti að drottna. Í auðmýkt mætti hann meistanum. Hann starfaði ekki í þágu eigin upphefðar og frægðar heldur stefndi hann að æðri tilgangi, markmiði sem stóð handan alls þess tímanlega og hverfula sem stundum ræður hegðun fólks og forgangi.

Spámenn, einhver? Um leið hljótum við að spyrja, hvar spámenn er að finna á okkar dögum? Hverjir eru þar að verki sem uppfylla þau skilyrði sem Jóhannes og Jesaja gerðu? Hvar finnum við röddina í samfélagi okkar sem talar af persónulegri auðmýkt en er drifin áfram í leit að æðri verðmætum og gildum? Hvar er fólkið sem er tilbúið að taka slaginn, mæta mótlæti og sitja undir gagnrýni, jafnvel svívirðingum í nafni þess sem það trúir á og treystir að leiði af sér réttlátara samfélag?

Vissulega er engin vanþörf á. Og erindið ætti ekki einvörðungu að beinast að valdhöfum, heldur ætti það ekki síður að snúa að lífsmáta fólks og stefnu. Samfélag okkar er farið að minna æ meir á það umhverfi sem fór svo hressilega á hliðina fyrir aðeins tæpum áratug. Hvað viljum við gera til að koma í veg fyrir að þau ósköp endurtaki sig?

Allt það góða og allt það illa í veröldinni á sér upptök í hugsunum, viðhorfum og svo athöfnum fólks. Gildi okkar og framtíð ráðast af þeim hugmyndum sem fólkið hefur og miðlar svo áfram. Af hverju ætti að hlýða á þennan leiðtoga fremur en annan? Ein leið til að svara þeirri spurningu er að gefa því gaum hver áhrif hann hefur á samfélagið sem hann þjónar. Munu verk hans leiða af sér umhverfi sem er heilbrigt, frjálst, sjálfstætt? Á hann sér það markmið að auga gæði lífs og samfélags, eða snýst þetta allt um hann sjálfan? Alltof margir skella skollaeyrum við slíkum spurningum og á sama tíma glatar mannkyn dýrmætum tíma. Þetta er einmitt hlutverk spámannsins.

Já, hvar finnum við spámenn dagsins í dag, á tímum þar sem ofgnógtin blasir við hvert sem litið er en um leið hinn átakanlegi skortur og margur ber kvíða í brjósti fyrir komandi tímum? Hvar eru þau sem brýna fyrir okkur að leita heilbrigðis, réttlætis og að rétta við hlut þeirra sem standa höllum fæti?

Þau standa mitt á meðal okkar og þau búa innra með okkur. Rödd samvisku okkar þarf að fá að hljóma og boðskapur hennar er alltaf sá hinn sami, að við líkjumst fremur hinu örláta Galíleuvatni en forðumst að lenda í pytti eigingirni og sérgæsku svo mið minnum á hið dauða haf. Orð Guðs leiddi spámennina áfram og við getum leyft því að tala til okkar einnig.