Ef þú hlustar þá elskar þú lífið og allt mun fara vel

Ef þú hlustar þá elskar þú lífið og allt mun fara vel

Guðspjall: Mark. 12. 28-34 Lexia: 2 M. 20.1-17 Pistill: 1. Kor. 1.4-9

Við höfum hlýtt á guðspjall dagsins þar sem fræðimaður spyr Jesú hvert sé æðst allra boðorða. Þetta er stór spurning, stærst allra spurninga. Við spyrjum okkur stundum að því hvað skipti mestu máli í lífinu? Hvað eigum við að gera til þess að lifa heilbrigðu lífi? Hvað einkennir gott líf?

Það lítur út fyrir að fræðimaðurinn hafi ekki áttað sig alveg á því hvað Jesú var að fara því að eitt það fyrsta sem Jesús segir við hann er: Heyr, þ.e.a. s. hlustaðu: Opnaðu eyru þín. Með þessu eina orði sagði hann í raun það sem segja þurfti. Þetta eina orð fól í sér allt sem síðar fylgdi,- kærleikann í garð Guðs, í garð síns sjálfs og náungans.

Lítum aðeins í eigin garð hvað þetta varðar. Hver er dagleg reynsla okkar? Þykir okkur ekki líklegast að þeir elski okkur meira sem geri sér far um að hlusta á okkur? Þegar við eigum við erfiðleika að glíma þá förum við til læknisins, prestsins, sálfræðingsins, maka okkar, föður okkar og móður, systkina eða einhverra vina sem við teljum að séu reiðubúnir að hlusta. Vandamál okkar er mikið og kvíðinn mikill. En þetta fólk segist ekki hafa tíma, það hafi of mikið að gera, við höfum ekki efni á að borga það sem þeir setja upp fyrir viðtalið. Og jafnvel þótt þetta fólk hlusti þá sjáum vð augu þeirra flökta í aðrar áttir og þeir verða annars hugar. Þetta veldur því að okkur finnst að því þyki ekki vænt um okkur.

Hugsaðu um sjálfan þig þegar einhver kemur til þín sem þér líkar ekki við og talar við þig um allar áhyggjur sínar, ótta og veikindi. Munt þú þá hlusta með þeirri athygli sem þarf þegar þér þykir ekki vænt um hana, þegar þér þykir ekki vænt um hann? Hugsaðu um þá tíma þegar þú fannst eina manneskju sem þér fannst að gæfi sér tíma til þess að hlusta raunverulega á þig. Þá leið þér vel ekki satt? Er það ekki satt að öll höfum við einhvern tíman kvartað yfir því að enginn virðist hlusta á okkur þegar við þurftum raunverulega á því að halda?

Lærði maðurinn, fræðimaðurinn fór til Jesú og spurði: Hvað skiptir mestu máli í lífinu? Og Jesús sagði: Hlustaðu, hlustaðu á Guð, hlustaðu á náunga þinn, hlustaðu á uppsprettu lífsins. Hlustaðu á mannlegt líf. Það er ekkert boðorð æðra en þetta: Hlustaðu. Ef þú hlustar þá elskar þú lífið og allt mun fara vel.

Við þurfum ekki að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn til þess að vita að þetta er satt. Ef við hlustum raunverulega á Guð þá munum við ekki heyja stríð í Guðs nafni, þá elskum við Guð af öllu hjarta, sálu, huga og mætti og við munum elska náunga okkar eins og sjálfa okkur.

Að elska er að hlusta. Ef við settum sögnina að hlusta í stað orðsins að elska í tvíþætta kærleiksboðorðinu sem Jesús sagði fræðimanninum að væri æðst allra boðorða, þá myndi það hljóða þannig: “Og þú skalt hlusta á Drottin guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum og þú skalt hlusta á náunga þinn eins og sjálfan þig.

“Heyr Ísrael, Drottinn Guð vor, hann einn er Drottinn”, segir Jesús í guðspjallinu.

Okkur er sagt að elska Guð, Það þýðir m.a. að við erum svo úr garði gerð að við getum það og jafnframt að Guð er slíkur að okkur sé unnt að elska hann.Guð elskar manninn, - maðurinn á að elska Guð. Þetta er kjarnaatriði í kristinni trú.

Þetta reynist ýmsum ofviða að þeir telja en ósjaldan stafa erfiðleikarnir einkum af því að menn gera sér ranger hugmyndir um merkingu orðsins að elska og átta sig ekki á hvað fyrir vakir er Biblían býður okkur að elska Guð.Við álítum oftast að hér sé um að ræða hughrif einvörðungu, og þá áþekk þeim er ástfangið fólk ber í brjósti. En það er ekki þetta eitt sem Biblían á við með þessum orðum. Hér nær orðið elska yfir allt hið jákvæða í afstöðu ennar persónu til annarrar og er í miklu ríkari mæli mál viljans en tilfinninganna.

Orðalagið um elskuna af öllu hjarta leiðir hér ef til till á villigötur því að í máli okkar táknar hjartað aðsetur tilfinninganna eins og raunar mun vera í flestum vestrænum tungum. En svo var ekki í því máli er boðið upphaflega var sett fram á. Þar táknar hjartað yfirleitt allt innra líf mannsins,- allt það er gerir hann að manneskju en ekki steini eða tré. Allt þetta innra líf á að hneigjast til Guðs og vera opið fyrir anda hans er gefst um farveg orðsins.

Hvernig skyldi kristinn kærleikur birtast á vegi daganna? Þeirri spurningu svarar Páll postuli þannig m.a.: “Gætið þess að enginn gjaldi neinum illt með illu en keppið ávallt eftir hinu góða, - bæði hver við annan og við alla”.

Svo einfaldur er boðskapurinn um elskuna til náungans. Ef til vill er of mikið að tala um boðskap í þessu sambandi. Það getur tæpast talist neitt nýtt, óvænt eða fréttnæmt í þessu: Verið hver öðrum góðir, styðið hver annan, verið alúðlegir við alla. Þetta virðast nánast sjálfsagðir hlutir sem óþarft sé að fjölyrða um en að slíku víkur Biblían oft.

Virk góðvild, alúð og hjálpsemi eru gildir þættir kristindómsins eins og hann blasir við á blöðum Biblíunnar. Boðskapur kærleikans er sem sagt ekki flóknari eða erfiðari en þetta.Ef til vill ættum við þó öllu fremur að segja: Svo erfiður er hann. Gengur okkur ekki misjafnlega að framkvæma þetta í raunveruleikanum, svo einfalt og sjálfsagt sem það sýnist? Ég tel að ef við hyggjum undandráttarlaust að viðbrögðum okkar og veru frá degi til dags þá verði þetta ljóst að áminningin um góðleikann sé ekki út í bláinn.

Jesús segir í tvöfalda kærleiksboðorðinu: “Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig”.

Eitt sinn las ég frásögu af konu sem fæddist sem drengur en fór í kynskiptaaðgerð. Aðgerðin olli því að hún varð að segja skilið við foreldra sína og ættingja og fluttist úr landi. Þar gat hún ekki séð fyrir sjálfri sér nema með því að stunda vændi. Einhvers staðar þar sem hún var stödd á botni tilveru sinnar hitti hún aðra konu sem var prestur er hafði stofnað söfnuð fyrir hvern þann sem ekki var velkominn annars staðar, hina útbrunnu, samkynhneigðu, afbrotamennina, öll þau sem litin eru hornauga. Konan fann brátt að presturinn lagði sig alla fram um að hlusta á sig og spurði hana því í framhaldi: “Þessi Jesús þinn.. heldur þú að hann Jesús þinn geti viðurkennt mig”?

Presturinn sagði við hana:”Það er aðeins þegar við þorum að treysta því að við séum elskuð af Guði að við getum elskað hvert annað. Þá verður það hvorki krafa né byrði heldur sálfsagt mál. Við getum hreinlega ekki annað en elskað þegar við höfum mætt Guði sem segir aldrei:”Þú verður… “eða “ Þú skalt…”, heldur hvíslar hvert augnablik: “Þú nýtur viðurkenningar, nákvæmlega eins og þú ert!”

Svarið sem presturinn veitti breytti lífi hennar. Hún þorði að verða kristin. Hún skilur að Guð veit allt um hana og er því allt annað en óttaslegin þess vegna. Hún finnur að hún er leyst úr viðjum, einmitt vegna þess að Guð veit og hún getur farið að treysta því að hún njóti viðurkenningar Guðs, einmitt eins og hún er.

Æðsta og mikilvægasta boðorðið á sér upphaf í því sem Guð gerir í lífi okkar. Það er ekki við sem eigum að breyta sjálfum okkur og reyna að þvinga fram meiri kærleika heldur fáum við fyrst og fremst að þiggja kunnáttuna til að geta séð okkur sjálf, nákvæmlega eins og við erum og treysta því að við séum nógu góð í augum Guðs. Þaðan í frá verður sjónarhornið allt annað og boðið um að elska Guð og að elska náungann verður ekki krafa sem kemur að utan heldur sjálfsagður hluti þess drífandi kraftar sem býr innra með okkur, á meðan við erum borin uppi af þeim Guði sem hvíslar í eyru okkar: “Þú nýtur viðurkenningar, nákvæmlega eins og þú ert”.Þessi er vissulega afstaða Guðs til okkar og breytni okkar gagnvart náunganum ætti því að taka mið af henni.

Þegar ég las Morgunblaðið á föstudaginn var þá rakst ég á grein um geðheilbrigðismál sem ég las. Þá varð mér hugsað til þess umhyggjuleysis sem virðist einkenna afstöðu sjórnvalda í garð geðsjúkra. Þetta umhyggjuleysi virðist hafa aukist í kjölfar einkavæðingarstefnu stjórnvalda þar sem sem samvinnan á undir högg að sækja. Hver og einn virðist eiga að hugsa um sjálfan sig í ríkari mæli en áður jafnvel þótt um margvísleg veikindi sé að ræða og standa straum af auknum kostnaði þeim samfara. Geðsjúkir virðast ekki njóta viðurkenningar eins og þeir eru frá hendi stjjórnvalda um þessar mundir. Í greininni kom fram að á síðustu átta árum hefur geðdeildum með 110-120 rúmum verið lokað á Landsspítalanum án þess að nokkuð kæmi í staðinn til þess að mæta þjónustu- og umönnunarþörf mikið veikra langveikra sjúklinga.

Ég er nú þeirrar skoðunar að í þessum málaflokki ætti síst að skera niður fjármagn á hverjum tíma heldur búa þessu fólki sem best skilyrði til að lifa við sem besta umönnum, öryggi og frið. Öll röskun á högum þeirra veldur einungis því að þeir þurfa á aukinni læknishálp að halda. Sem betur fer hafa félagasamtök líkt og Kiwanishreyfingin stutt geðsjúka árum saman með sölu K lykilsins eins og við höfum orðið vör við undanfarið. En með sölu lykilsins styður hreyfingin Geðhjálp og barna og unglingageðdeild Landspítalans og sýnir þannig í verki að geðsjúkir njóta viðurkenningar eins og þeir eru.

Við skulum í sameiningu leggja okkur fram um að hlusta á þarfir geðsjúkra og annarra sem eiga um sárt að binda og mæta þörfum þeirra á hverjum tíma. Guð gefi okkur náð til þess. Amen.