Sálmabók

713. Skapari ljóss og lífs um heim

1 Skapari ljóss og lífs um heim
lýsir upp jörð og stjörnugeim,
himinsól björt og húmið milt
hverfur og kemur sem þú vilt.

2 Vinda og sjávar ljúfu ljóð,
ljómi mánans og aringlóð,
allt sem gleður og birtu ber
boðar þig og er gjöf frá þér.

3 Nótt sem dagur er náðargjöf,
nafnið þitt blessar dauða´og gröf,
upprisinn, sannur sonur þinn
sigraði beiskan dauða minn.

4 Láttu þitt orð og anda nú
upplýsa sál og skapa trú,
svo þeirra líf sem lúta þér
ljós þitt birti á jörðu hér.

5 Semdu með mönnum sátt og grið,
send þinni veröld náð og frið,
líknaðu sárri, sekri jörð,
sýknaðu þína barnahjörð.

6 Dýrð, vegsemd, eilíf þökk sé þér,
þríeini Guð, sem tignum vér
ásamt lýsandi ljóssins her
sem lífsins sigurmerki ber.

T Sigurbjörn Einarsson, 2008
L Auður Guðjohnsen 2022
EVERY STAR / Every Star Shall Sing a Carol
Tilvísun í annað lag 398

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is