Sálmabók

98. Þín trú er mikil

1 „Þín trú er mikil,“ mælti hann
sem meinin þyngstu bæta kann,
„því skal sú hjálpin hlotnast þér
sem hjartans ósk þín kærust er.“
Um aldir streymir náð æ ný
frá náðarorði dýru því
að hugga sálir hörmum í.

2 Hið sama jafnan orð hans er,
ef öflga trú í brjósti sér
og hjarta manns svo auðmjúkt að
sér enga læging heldur það
að tína minnstu mola þá
er miskunn hans það lætur fá
til blessunar hans borði frá.

3 Af brauði lífs í heimi hér
frá himni gnóttir öðlumst vér
er sjúkum létta sálum neyð
og syndir lækna' og bægja deyð.
Ef trúarhönd þeim tekur mót
vér tímans stöndumst öldurót
og beitt ei hræðumst banaspjót.

4 Vor góði Jesús óskar að
vér allir höndlað fáum það
sem allra gæða' er æðst og best
og allra heillir styður mest.
Hann býður sjálfan sig, það brauð
er sálna bætir hungursnauð.
Það lífsbrauð hjörtu lífgar dauð.

T Nikolaj F.S. Grundtvig 1853 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
Kvindelil, din Tro er stor
L Hohenfurth um 1450 – Horn 1544 – Sb. 1589
In natali Domini / Da Christus geboren var / Singen wir aus Herzensgrund
Sálmar með sama lagi 114 148 298 412 432b
Biblíutilvísun Matt. 15.21–28

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is