Skrifuðu síðastar

1. júlí 2021

Skrifuðu síðastar

Skrifuðu æviágrip sitt í vítubókina í gær. Frá vinstri: sr. Halla Rut, sr. Eva Björk og sr. Ása Laufey - mynd: hsh

Þær voru allar vígðar árið 2015. Ein var vígð af sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, önnur af sr. Kristjáni Val Ingólfssyni og sú þriðja af sr. Solveigu Láru Guðmundsdóttur.

Þetta eru þær sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir, prestur meðal innflytjenda, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, prestur í Fossvogsprestakalli og sr. Halla Rut Stefánsdóttir, prestur í Hofsós- og Hólaprestakalli.

Það var söguleg stund þegar þær þrjár komu í Katrínartún 4 í gær þeirra erinda að skrifa í vítubók presta en það hafði farist fyrir í önnum hversdagsins eins og gengur. Kirkjan.is fjallaði aðeins um vítuskrif fyrir skömmu. 

Í dag gengu í gildi ný þjóðkirkjulög og jafnframt féllu úr gildi ýmsar gamlar tilskipanir, erindisbréf og lög. Þar á meðal ákvæði um að prestum væri skylt að skrifa „ævisögu sína á latínu í þar til gerða bók“. Latínuskrifin duttu reyndar svo upp fyrir og menn rituðu æviágrip sitt á íslensku frá og með árinu 1880.

Þó er náttúrlega ekki loku fyrir það skotið að kirkjuþing samþykki eitthvað í svipuðum dúr ef þörf er talin knýjandi á því. Þá er víst að engum verður meinað að skrifa í vítubókina hafi vítuskrifin fallið milli stafs og hurðar.

En hvað um það. Þær sr. Ása Laufey, sr. Eva Björk og sr. Halla Rut, bundu því með sögulegum hætt endahnút á þennan gamla sið sem hefur að minnsta kosti tíðkast frá því að reglur um hann voru settar eða frá 1. júlí 1746 og féllu í dag úr gildi nákvæmlega 275 árum síðar.

Það sem gerði líka stundina enn skemmtilegri var að sr. Ása Laufey renndi yfir vítu afa síns sem var hinn kunni og áhrifamikli prestur sr. Árelíus Níelsson (1910-1992). Hann var á ferð í Reykjavík 8. júní 1940 til að skrifa vítu sína. Barnabarn hans, sr. Ása Laufey, kom 81 ári síðar til að skrifa sína vítu. Svona er lífið dásamlegt.

hsh


Sr. Ása Laufey les æviágrip (vítu) afa síns, sr. Árelíusar Níelssonar, 81 einu ári eftir að hún var skrifuð


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Frétt

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júl. 2021
...Reykholtskirkja og Reykholtshátíð 25 ára
Hóladómkirkja - glæsileg dagskrá Hólahátiðar helgina 14. -15. ágúst - mynd: hsh

Hólahátíð er engri lík

20. júl. 2021
14.-15. ágúst 2021
Steindur gluggi í Skálholtsdómkirkju eftir Gerði Helgadóttur (1928-1975) - mynd: hsh

Vegleg Skálholtshátíð

15. júl. 2021
...16. - 18. júlí